Sigga hafnað þrisvar - stórskandall í Idol

Maður er eiginlega alveg orðlaus eftir að horfa á mistökin gríðarlegu í Idol. Þvílíkur skandall. Meðferð stjórnenda þáttarins og dómnefndar á Sigga, frænda mínum frá Eskifirði, er alveg rosaleg. Fyrst er honum sagt að hann komist áfram úr kosningunni. Svo er það dregið til baka og annar tekur sætið vegna mistakanna þáttastjórnenda. Svo velur dómnefndin annan mann áfram og hafnar Sigga. Svo er tilkynnt um eitt aukasæti og stigahæsti tapari kvennaliðsins valin áfram og Sigga enn hafnað.

Þetta var einum of - til skammar fyrir einn sjónvarpsþátt. Er ekki lágmark að fara fram á fagmennsku í þáttastjórn og í dómnefndinni. Hún stóð sig engan veginn í kvöld. Valdi keppanda áfram sem var mun síðri en Siggi og fékk þar að auki mjög lélega dóma. Nú allt í einu vigtaði frammistaða kvöldsins ekkert heldur eitthvað allt annað. Þetta er nú meira klúðrið.

Menn verða að standa betur að málum eigi þessi þáttur að hafa snefil af trúverðugleika!


Kópavogur með Íslandsmetið í Útsvari

Vil óska Hafsteini, Víði og Kristjáni til hamingju með að sigra í Útsvari og tryggja þar með Kópavogi Íslandsmetið í Útsvari annað árið í röð. Hef fylgst með Útsvari af miklum áhuga í vetur. Þetta er ágætis spurningaþáttur, í og með svolítið dreifaralegur og skemmtilega hallærislegur í einfaldri umgjörð sinni.

Litasamsetningin í settinu og kynningarstiklunni, auk hins einfalda en smellna stefs er hallærisleg en flottur heildarpakki utan um pottþétt form á sjónvarpsefni sem allir fylgjast með, allavega með öðru auganu þó þeir vilji ekki viðurkenni það og stundum þeim báðum.

Alltaf er gaman að horfa á spurningaþætti og stemmningin var hin besta í þessum pakka. Þóra og Sigmar hafa staðið sig vel að halda utan um þáttinn. Liðin oftast nær verið mjög góð og fókusinn er hraður og góður.

Sumir hafa ekki tekið sig alvarlega, sem er mjög gott í og með. Enda á þetta að vera mest til gamans gert og baráttuhugurinn í keppninni á að vera að standa vörð um heiður sinnar heimabyggðar.

Sumir hafa gagnrýnt að keppnin sé að verða vettvangur fornra Gettu betur kappa. Má vera. Kannski er ágæt blanda að hafa þá inn á milli. En það er gott að hafa metnað í þessari keppni með öðru.

mbl.is Kópavogur vann Útsvarið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarleg könnun frá stuðningsmönnum GÞÞ

Kjörfundur er hafinn í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Þar er fjöldi góðs fólks í kjöri og ég vona að þar takist vel til að velja sigurstranglega lista. Mér finnst merkilegt að á fyrri kjördegi birti stuðningsmenn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar skoðanakönnun sem þeir hafa gert sjálfir án atbeina óháðra aðila til að sýna fram á styrkleika síns manns. Þetta er með furðulegri könnunum sem ég hef séð mjög lengi, enda er þar hvergi hægt að sýna fram á hver gerði viðkomandi könnun eða hvort hún sé trúverðug.

Þetta er eitthvað undarlegt trix, innlegg í umræðuna, sýnist mér. Miðað við vinnubrögðin í símhringingum og fleiru sem ég hef heyrt af síðustu daga finnst mér þetta ekki vegleg viðbót fyrir þá sem harðast ganga fram í skítkasti og óhróðri. Þetta eru vinnubrögð sem eru sorgleg í prófkjörsátökum pólitískra samherja, sem eru eins og leðjuslagur. Þetta eru vinnubrögð sem mér hugnast ekki.

Ég hvet flokksmenn í Reykjavík til að kjósa Illuga Gunnarsson í fyrsta sætið!

mbl.is Stuðningsmenn Guðlaugs segja hann hafa forystu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skelfilega léleg auglýsing hjá Símanum

Ný auglýsing Símans hefur vakið mikla athygli, fyrst og fremst fyrir það hvað hún er léleg. Fyrirtækið hefur þó grætt mikið umtal á því, eins og öðrum auglýsingum, en nær samhljóma álit flestra sem ég hef talað við er að hún fari meira í pirrurnar á þeim en Jesú-auglýsingarnar margfrægu með Jóni Gnarr. Fjöldi fólks hefur skráð sig í facebook-hóp gegn auglýsingunni, enda sé hún algjört bruðl og ekki í takt við stöðuna.

Nú bætist við að Neytendastofa vill stöðva birtingu auglýsingarinnar, enda sé hún á gráu svæði. Blasir reyndar við, enda dansað vægast sagt á línunni.

mbl.is Vilja stöðva auglýsingar Símans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magnús Þór reynir að fella Guðjón Arnar

Eftir mikinn ósigur í prófkjöri Frjálslynda flokksins í Norðvesturkjördæmi ákveður Magnús Þór Hafsteinsson að ráðast gegn formanninum Guðjóni Arnari Kristjánssyni, húsbónda sínum og yfirmanni. Magnús Þór er jú launaður aðstoðarmaður Guðjóns, á þingmannalaunum, og hefur setið í hans skjóli eftir að hafa fallið af þingi fyrir tveimur árum. Þetta mótframboð kemur í beinu framhaldi af því að Magnús Þór var niðurlægður í eigin kjördæmi, eftir að hafa tapað fyrir Sigurjóni Þórðarsyni en ekki lagt í leiðtogaframboð gegn Guðjóni Arnari.

Framboðið virðist því örvæntingarfull tilraun hans til að halda sér í forystu Frjálslynda flokksins og bjarga því sem bjargað verður. Hefði þetta átt að vera trúverðugt hjá Magnúsi Þór hefði hann átt að fara í leiðtogaframboð í Norðvesturkjördæmi. Hann studdi andstæðing sinn og yfirmann (fyndin blanda reyndar) en snýst gegn honum síðar meir. Ég man reyndar ekki þess dæmi að sérstakur aðstoðarmaður flokksformanns á Íslandi gefi kost á sér gegn yfirmanni sínum og læriföður á meðan viðkomandi er enn á launaskrá.

En Frjálslyndi flokkurinn minnir orðið frekar á dýragarð þar sem öll dýrin reyna að bjarga sjálfu sér. Flokkurinn er að verða nær fylgislaus í könnunum og virðist búinn að vera á flestum vígvöllum nema í Norðvesturkjördæmi. Þar er sjálfur formaðurinn í framboði. Hann kom flokknum á kortið í gamla Vestfjarðakjördæmi árið 1999 og dró með sér Sverri á þing. Alla tíð síðan hefur hann dregið vagninn, síðast í kosningunum 2007.

Hefði það gerst í einhverjum alvöru stjórnmálaflokki að aðstoðarmaður flokksformanns og einstaklingur sem hefur alltaf verið á mála hjá viðkomandi, ítrekað bjargað hjá honum, myndi það vekja athygli. En það gerir það varla þegar Frjálslyndir eru annars vegar.

mbl.is Magnús Þór stefnir á formanninn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styttist í prófkjör - góður framboðsfundur

Notaleg og góð stemmning var á fundi frambjóðenda í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi á Hótel KEA í kvöld . Mjög vel var mætt á fundinn, en bæta þurfti við stólum í fundarsalnum vegna fjöldans sem þar var saman kominn. Það var virkilega ánægjulegt að sjá þennan mikla og lifandi áhuga flokksmanna koma svo vel fram í þessari góðu fundarsókn, en það er varla furða að svo sé, enda er þetta prófkjör mikilvægt okkur öllum sjálfstæðismönnum hér og áríðandi að flokkurinn velji sterkan lista.

Fundurinn snerist að mestu um efnahagsmálin, mál málanna á þessari stundu fyrir landsmenn alla. Tryggvi Þór Herbertsson var að mínu mati stjarna fundarins, enda talað um hans sérsvið langmest og ég tel að staða hans hafi styrkst mjög í baráttunni síðustu dagana. Miðað við frammistöðuna á fundinum tel ég mikinn meðbyr með honum og skoðunum hans. Auk þess var gaman að hlusta á nýju frambjóðendurna; þau Jens Garðar, Kristínu Lindu, Björn, Önnu Guðnýju, Sigurlaugu, Gunnar Hnefil og Soffíu.

Miklar breytingar eru framundan í þessu prófkjöri. Aðeins tveir frambjóðendur úr síðasta prófkjöri haustið 2006 gefa kost á sér aftur, þingmennirnir Kristján Þór og Arnbjörg. Ólöf Nordal og Þorvaldur Ingvarsson hafa horfið af pólitíska sviðinu hér og haldið til annarra verkefna. Af listanum í kosningunum 2007 er aðeins einn annar frambjóðandi í prófkjörinu, bóndinn Kristín Linda. Því er mikil uppstokkun og verður fróðlegt að sjá hvernig fer.

Baráttan um annað sætið er mikill Austfjarðaslagur. Þar er fyrir Arnbjörg Sveinsdóttir en Soffía Lárusdóttir og Tryggvi Þór sækjast eftir því sæti. Tel ekki síður spennandi að sjá hver muni ná þriðja sætinu, baráttusætinu okkar í þessum kosningum. Það val mun skipta miklu máli.

Ég hvet alla flokksmenn til að mæta á kjörstað á laugardag og taka þátt - velja forystusveitina í vor og ný þingmannsefni.

Ný framboð ná engu flugi - fjórflokkur sterkur

Nýjasta skoðanakönnunin gefur til kynna að grasrótarframboðin, Borgarahreyfingin og L-listinn, ná engu flugi. Mér finnst mjög merkilegt hversu fjórflokkurinn hefur sterka stöðu eftir allt sem á undan er gengið í íslenskum stjórnmálum á síðustu mánuðum. Ákallið eftir breytingum virðist ekki ná út fyrir fjórflokkana. Spurt verður þó um það hversu miklar breytingar verða innan þessara fjögurra flokka. Ljóst er að ný forysta verður kjörin í Sjálfstæðisflokknum og bendir flest til þess að nýr formaður hans verði um fertugt.

Engar breytingar hafa orðið í prófkjörum Samfylkingarinnar. Þar hafa sitjandi ráðherrar bankahrunsins verið klappaðir upp, sumir með traustri kosningu þrátt fyrir að hafa sofið á vaktinni. VG hefur engu breytt nema að hafna Kolbrúnu Halldórsdóttur og umhverfisöfgum hennar í Reykjavík og velja Svandísi Svavarsdóttur og Lilju Mósesdóttur í örugg þingsæti. Frjálslyndir virðast heillum horfnir. Framsókn hefur endurnýjað sig nær alveg frá síðustu kosningum, ef Siv Friðleifsdóttir er ein undanskilin.

Þetta verða kosningar þar sem horft verður til breytinga og pólitískra þáttaskila. Ég vona það. Slík eiga skilaboðin að vera. Við eigum að velja nýtt fólk til forystu og stokka hressilega upp. Því vekur athygli að fjórflokkurinn dómínerar algjörlega en nýju framboðin ná ekki flugi. Væntanlega hefði lengri kosningabarátta hjálpað þeim eitthvað, en þetta er erfið barátta við tímann fyrir lítið skipulagða maskínu með litla peninga.

mbl.is Samfylkingin stærst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægur áfangi - slóðin rakin til Cayman

Samkomulag norrænu þjóðanna við Cayman-eyjar um upplýsingaskipti skiptir lykilmáli í því sem framundan er. Mikilvægt er að allar færslur verði raktar og farið í gegnum hvort og þá hversu mikið af óeðlilegum færslum hafi átt sér stað. Þjóðin mun ekki sætta við neitt minna en slóðin verði rakin og allar staðreyndir augljósar og aðgengilegar.

Auk rannsóknarvinnunnar er þetta þýðingarmikið verkefni, enda má ekki nokkur vafi leika á hversu mikið var flutt af peningum á milli og hversu víðtækt það var.

Alltaf heyrast sífellt meira krassandi kjaftasögur og upplýsingar um verklagið. Þetta verður að upplýsa algjörlega. Engar kjaftasögur eingöngu, takk.


mbl.is Samþykkt að veita upplýsingar um skattaskjól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjöldamorð í Þýskalandi - fyrirmyndin í Columbine

Enn einu sinni er framið fjöldamorð í skóla, að þessu sinni í Þýskalandi og fyrr í vikunni í Alabama í Bandaríkjunum. Málin er eins og flest hin fyrri. Dagfarsprúður nemandi á sér dökka hlið, missir stjórn á sér, hefnir sín á öllum sem hann þolir ekki og slátrar þeim. Í Alabama var fjöldamorðinginn t.d. með skrifaðan lista yfir þá sem hann ætlaði sér að drepa. Sá þýski drap eins flestar stelpur og hann gat, öllum sem hann sá.

Mér finnst þessi mál öll sýna mjög mikið hatur og innbyrgða reiði, sennilega á samfélaginu og öllu í kringum hann. Þetta minnir sérstaklega á fjöldamorðið í Columbine. Öll þekkjum við hin málin: Kauhajoki og Jokela í Finnlandi, Virginia Tech og Dunblane. Að flestu leyti voru þetta skotárásir þar sem vegið var að samfélaginu, óður byssumaður að tala gegn samfélaginu og gildum þess, auk þess að hefna sín á öðrum.

Samt er það svo ólýsanlega sorglegt að námsfólk með framtíðina fyrir sér sé tilbúið til að fórna lífinu og drepa aðra vegna slíks boðskapar. Margir hafa horft til byssueignar. Michael Moore gerði heila heimildarmynd þar sem hann tók fyrir þau mál, Bowling for Columbine, sem var inspíruð af Columbine-fjöldamorðunum sem Harris og Klebold stóðu að. Þetta eru oftast einfarar í skugga félagslífsins og lifðu sínu lífi.

Mjög margt í öllum þessum málum er rakið til áhrifa frá Columbine og Virginia Tech-málunum. Fjöldamorðingarnir Cho Seung-Hui í Virginia Tech og Auvinen í Jokela stúderuðu Harris og Klebold og töluðu báðir um þá sem píslarvætti. Columbine er orðið ógnvekjandi cult-fyrirbæri margra nemenda um víða veröld.

Þessi þýski harmleikur og hinir finnsku áður verða sífellt sterkari myndræn áminning um að klikkaður árásarmaður leynist ekki bara í bandarískum skólum. Hættan er til staðar allsstaðar.

mbl.is Byssumaðurinn: Eruð þið nú öll dáin?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Farsinn um formannsefnið og stuðningsmanninn

Jóhanna Sigurðardóttir
Fátt hefur orðið hlægilegra í seinni tíma stjórnmálasögu en spuninn um Jóhönnu Sigurðardóttur og formannsstólinn í Samfylkingunni. Þvílík persónudýrkun. Hámarki náði farsinn þegar efnt var til blysgöngu til að þrýsta á hana, enda varla hægt að ætlast til að hún geti tekið svona ákvörðun ein og óstudd. Einn mætti, sá sem efndi til "göngunnar" og svo voru nokkrir fjölmiðlamenn þar á stangli.

Þeir myndu eflaust mættir til að mynda og fanga augnablikið stórfenglega þegar gengið yrði heim til forsætisráðherrans og beðið eftir að hún kæmi út og veifaði í allar áttir sigri hrósandi og myndi svo koma "göngumönnum" algjörlega á "óvart" og tilkynna framboðið. Ekta spuni að hætti Samfylkingarinnar, hlægilegur og pínlega yfirskipulagður.

Aumingjahrollurinn var hinsvegar algjör. Enginn mætti. Ljósið slokknaði og stemmningin steindauð. Ljósmyndablosarnir fáir og myndavélarnar ekki lengi á lofti. Jóhanna gat þess í stað slappað bara af heima og hugleitt málin ein með sjálfri sér.

Þvílíkt mega-klúður. Svona fagmannlega standa menn að verki bara í Samfylkingunni.

mbl.is Enginn mætti í blysförina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskir "auðmenn" hrapa niður Forbes-listann

Eftir atburði síðustu mánaða kemur engum að óvörum að íslensku "auðmennirnir" séu að hverfa af Forbes-listanum yfir ríkustu menn heims eftir að útrásin margfræga lognaðist út af. Björgólfur Thor nær þó að halda velli á listanum, sem hefur fækkað um fjögur til fimm hundrað manns frá síðasta ári. Meðal þeirra er auðvitað Björgólfur Guðmundsson. Bill Gates er búinn að ná fyrsta sætinu af Warren Buffet, en hann hefur í áranna rás drottnað yfir Forbes-listanum og verið í sérflokki.

Þegar listinn var opinberaður fyrir tveimur árum voru Björgólfsfeðgarnir báðir á listanum; Björgólfur Thor í 249. sæti og faðirinn í því 799. Eignir Björgólfs Thors voru þá metnar á 3,5 milljarða dollara eða 235 milljarða króna, en Björgólfs eldri á 1,2 milljarða dollara, um 80 milljarða króna. Í fyrra var Björgólfur Thor í 307. sæti en faðirinn í því 1014. Eignir Björgólfs Thors voru þá metnar líka á 3,5 milljarða dollara, Björgólfs eldri á 1,1 milljarða dollara.

Björgólfur Thor varð fyrsti Íslendingurinn sem komst á lista Forbes yfir ríkustu einstaklinga heimsins. Veldi Björgólfsfeðga er eins og flestir vita upprunnið úr gosdrykkja- og bjórverksmiðjum í Rússlandi. Nú hefur margt farið á verri veg. Straumur og Landsbankinn eru komnir í hendur ríkisins, og sá fyrrnefndi eflaust búinn að vera algjörlega. Þáttaskilin eru algjör og fátt ljóst með Forbes-lista að ári.

En svona er nú heimurinn oft kaldhæðinn.

mbl.is Bill Gates aftur ríkastur - Björgólfur í 701. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigurjón sigrar Magnús Þór í Norðvestri

Ég vil óska Sigurjóni Þórðarsyni til hamingju með glæsilegan sigur í baráttunni um annað sætið í prófkjöri Frjálslynda flokksins í Norðvesturkjördæmi. Sigurjón sigrar þar varaformanninn Magnús Þór Hafsteinsson, sem var eitt sinn þingmaður Suðurkjördæmis en mistókst að ná kjöri í Reykjavík í kosningunum 2007. Þessi úrslit hljóta að veikja varaformanninn mjög í sessi.

Held að þetta sé fyrsta prófkjörið sem Frjálslyndi flokkurinn hefur haldið. Þar hefur hingað til verið raðað upp á lista og almennum flokksmönnum ekki gefið tækifæri til að kjósa á milli frambjóðenda. Þrátt fyrir að Frjálslyndi flokkurinn hafi oft verið betur á sig kominn en nú er við hæfi að hrósa þeim fyrir að hafa áttað sig á prófkjörsfyrirkomulaginu á tíu ára afmælinu.

Sigurjón yfirgaf Norðvesturkjördæmi í síðustu kosningum, þar sem hann var kjörinn á þing árið 2003. Hann leiddi listann hér í Norðausturkjördæmi en náði ekki kjöri. Sigurjón vann ötullega í þeirri baráttu og tókst að rífa flokkinn upp úr miklum öldudal með mikilli vinnu og gerði gott úr erfiðri aðstöðu.

Honum var lofað framkvæmdastjórastöðu flokksins í kjölfarið en svikinn um það þegar á hólminn kom. Forysta flokksins launaði honum öll verkin fyrir þennan flokk með þeim svikum. Þessi sigur hans vekur því mikla athygli og sýnir styrkleika hans innan flokksins.

mbl.is Sigurjón náði 2. sætinu hjá Frjálslyndum í NV-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baugur gjaldþrota - endanlegt fall útrásarinnar

Gjaldþrot Baugs markar mikil þáttaskil í íslensku viðskiptalífi. Þetta mikla fall er í raun hið endanlega skipbrot íslensku útrásarinnar. Í sögubókum framtíðarinnar mun útrásinni á undanförnum árum verða lýst sem mikilli loftbólu, sem var að mestu án innihalds og hrein svikamylla. Þessi leiðarlok markar því um leið endalok mikils sjónarspils.

Mikið var talað gegn þessum sjónhverfingum í bissness. Þeir sem gagnrýndu hana voru úthrópaðir í samfélaginu. Þeir höfðu allir rétt fyrir sér. Á þá átti að hlusta og taka meira mark á þeim. Þeir standa uppi sem boðberar sannleikans.

En hvað verður um bissness Baugsmanna hér á Íslandi? Á maður að trúa því að ekki verði gengið á Haga. Á viðskiptagjörningur Baugsfeðga varðandi Haga að verða endanleg niðurstaða. Varla getur það gengið upp.

mbl.is Ósk um gjaldþrotaskipti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virðing og réttlæti í reynd í VR - dræm kjörsókn

Úrslitin í formannskjörinu í VR markar þáttaskil. Fyrst og fremst um mikilvægi endurnýjunar - kallað er eftir nýjum tímum. Ég held að félagsmenn hafi viljað virkja lykilorð félagsins í reynd: Virðing og réttlæti. Eitt vekur þó athygli, umfram annað. Kjörsókn er mjög dræm. Aðeins fjórðungur félagsmanna fer á netið og tekur þátt í mjög auðveldri og aðgengilegri kosningu. Þetta hlýtur að vera gott dæmi um almennt áhugaleysi á kosningu og er svarti bletturinn á annars merkilegri útkomu.

En kannski er þetta bara svona. Þegar kosið er um heildarsamninga og leitað eftir rödd hins almenna félagsmanns taka mjög fáir þátt. Víða eru svo stjórnir slíkra verkalýðsfélaga ákveðnar í bakherbergjum og settir upp miklir múrar henni til varnar. Þetta er ekki bara í VR, heldur víða um land. Mjög sjaldgæft er að alvöru átök verði um forystuna og sótt að henni með því að krefjast kosningar, enda þarf mikið afl til að setja saman lista og formannsefni þarf að fara langa leið til að ná settu marki.

Gunnar Páll Pálsson gerði að sumu leyti margt gott, framan af sínum ferli. Hann markaði VR traust markmið og innleiddi margt jákvætt. Honum varð hinsvegar sjálfum stórlega á. Hann kom ekki hreint fram, baðst ekki afsökunar og sýndi alvöru iðrun þegar á reyndi. Hann fær líka þungan skell.

mbl.is Kaupþingsmálið vó þungt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kristinn formaður VR - Gunnari Páli hafnað

Ég fagna því hversu traustan sigur Kristinn Örn Jóhannesson vann í formannskjöri VR. Gunnari Páli Pálssyni, fráfarandi formanni, er hafnað alveg afdráttarlaust. Ég verð þó að viðurkenna að ég var farinn að halda að Gunnar Páll myndi græða á því að tveir sóttu að honum og vinna kosninguna vegna þess.

En þetta eru afgerandi úrslit, krafa um breytingar og horft verði fram á veginn í stað þeirrar sukkuðu sýnar sem einkenndi fortíðina, ákvarðanir fortíðar á vakt fráfarandi formanns. Fólki var nóg boðið af þeim vinnubrögðum.

Óska Kristni Erni til hamingju með glæsilegt kjör og óska honum góðs gengis í störfum sínum.

mbl.is Kristinn kosinn formaður VR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búið spil hjá Baugi - blekkingarleikur á endastöð

Augljóst er að blekkingarspilið hjá Baugi er búið - leikritið mikla og farsinn er á enda og tjaldið er fallið. Eftir stendur stórskuldug þjóð í rústunum sem þessir menn skilja eftir sig. Þetta eru bitur og erfið endalok fyrir viðskiptaveldi Jóns Ásgeirs. Þau koma þó varla nokkrum manni að óvörum. Varað hefur verið við þessum leiðarlokum í mjög langan tíma og þau ættu að vera fyrirsjáanleg. 

Á síðasta hring blekkingarhringekjunnar átti enn að reyna að ljúga þjóðina uppfulla af því að Davíð Oddsson væri stóri glæponinn í þessari svikamyllu og hann væri vondi kallinn sem væri að ganga frá dýrlingunum og englaveldinu Baugi.

Flestir sjá orðið hvað er satt og logið í þessu blekkingarspili. Tjaldið er fallið og auðjöfrarnir með. Enginn mun hugga þá í kjölfarið.

mbl.is Frekari greiðslustöðvun hafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Persónudýrkunin í Samfylkingunni

Ég hef beðið eftir því alla þessa viku að Jóhanna Sigurðardóttir komi fram klökk og með brostna röddu og segist taka við flokksformennsku í Samfylkingunni, vegna fjölda áskorana, og einróma stuðnings flokksmanna. Hún hafi alltaf gert allt fyrir jafnaðarstefnuna og skorist ekki undan áskorunum sem berist til hennar frá öllum flokksmönnum. Þetta er svo fyrirsjáanlegt, enda mun þetta enda svona. Ég vissi alltaf að dramatíkin myndi verða við för, enda eru bestu pr-sérfræðingar landsins og spunameistarar í þessum flokki. Þeir eiga eftir að spinna Jóhönnu upp.

Þrátt fyrir þetta sá ég hreinlega ekki fyrir að persónudýrkunin í Samfylkingunni myndi ná slíkum hæðum að gengin yrði blysför til Jóhönnu í kvöld. Þvílík over-dramatísatíon! Ég veit ekki hvað hefði gerst ef slíkt hefði verið gert innan Sjálfstæðisflokksins. Hugleiðið hvað Samfylkingarmenn hefðu sagt ef gengin hefði verið blysför til einstaklings í Sjálfstæðisflokknum ef hann hefði ekki strax gefið kost á sér. Alla jafna gildir að menn hafi áhuga og metnað á flokksformennsku og vilji taka hana að sér til að marka áhrif á flokkinn sinn í einhver ár, en verði ekki tímabundin lausn.

Í Samfylkingunni ganga menn blysför í stað þess að senda bara skeyti til hvatningar. Ætli menn syngi Fósturlandsins Freyja á leiðinni?

mbl.is Blysför til Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fljótaskrift á stjórnarskrá í kosningabaráttu

Mér finnst vinnubrögðin í stjórnarskrármálinu ekki til sóma. Ekki er eðlilegt að ætla að keyra stjórnarskrárbreytingar í gegnum þingið þegar kosningabarátta er hafin, ríkisstjórnin umboðslítil og ekki unnið vel að málum. Augljóst er að vinnulagið er flausturskennt og unnið í kappi við tímann. Aldrei hefur gefist vel að breyta stjórnarskrá án samstöðu þegar rúmur mánuður er til alþingiskosninga og með svona miklum hraða. Enda hafa stjórnarskrárbreytingar ekki farið í gegnum þingið án samkomulags allra flokka í hálfa öld.

Sérstaklega er afleitt að ætla að breyta kosningalögunum þegar kosningarnar eru handan við hornið. ÖSE hefur þegar gert athugasemdir við þetta verklag hér. Enda hefur aldrei gefist vel að breyta stjórnarskrá þegar leikurinn er hafinn. Talað hefur verið um hjá ÖSE að glapræði sé að gera slíkt árið fyrir kosningar, hvað þá örfáum dögum eða vikum fyrir kosningar. Þetta er algjört rugl. Ætla þingmenn virkilega að breyta kosningabaráttunni í hreinan skrípaleik.

Mikilvægt er að breyta stjórnarskrá. Slíkt verður þó að gera af þingmeirihluta með sterkt umboð og afdráttarlausan stuðning þjóðarinnar. Slík staða er ekki uppi núna þegar umboð þingsins er mjög veikt og það verður kosið á næstu vikum.

mbl.is Umræðu um stjórnarskrárfrumvarp frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórbruni í Síðumúla

Alltaf eru tíðindi um stórbruna sjokkerandi og enn verra þegar fólk er í hættu. Fyrstu fregnir af eldsvoðanum við Síðumúla 34 gáfu til kynna mun verri mynd en reyndist, enda alltaf við hæfi að óttast hið versta þegar eldsvoði er en vonast eftir hinu besta miðað við aðstæður. Mjög gott að geta fljótt og vel komist á netið og séð myndir og klippur af þessu og nánari fréttir, enda er sjón alltaf sögu ríkari.

mbl.is Eldur í Síðumúla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægt að leggja meira í rannsóknina

Ég held að enginn geti dregið í efa ummæli Evu Joly um að auka þarf verulega umfang rannsóknar á efnahagsbrotum í hruni fjármálakerfisins. Fleiri þarf til verksins og það þarf að hafa fókusinn einbeittan. Nýjustu fréttir, sérstaklega af lánabók Kaupþings um helgina, gefa til kynna hversu erfið og umfangsmikil þessi rannsókn verður. Vanda þarf til verka, fá erlenda sérfræðinga að verkinu með þeim íslensku sem þegar hafa tekið til starfa og auka umfangið. Ekki veitir af.

Fyrirlestur Evu Joly í dag gefur til kynna að hún telur að menn hafi misnotað aðstöðu sína umtalsvert og farið yfir strikið. Ástæða er til að ætla að það sé rétt. Efasemdir hafa aðeins aukist um málið eftir að meira hefur komið í ljós. Þetta virðist vera mikið fen spillingar og óráðsíu. Vanda þarf öll verk í þeirri rannsókn og tryggja að allt sé gert eins fagmannlega og best verður á kosið.

mbl.is Gagnrýnir fámenna rannsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband