VG í sókn - pólitískt áfall þriggja flokksformanna

Könnun í Reykjavík suður Ný skoðanakönnun á fylgi flokkanna í Reykjavík suður var birt í kvöld, 17 dögum fyrir þingkosningar, á kjördæmafundi Stöðvar 2 í Orkuveituhúsinu. Þar er VG í mikilli sókn og meira en tvöfaldar það. Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin tapa nokkru fylgi - Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur flokka í kjördæminu. Framsóknarflokkurinn nær enn ekki manni í kjördæminu en Frjálslyndir standa nærri kjörfylginu. Nýju framboðin ná ekki flugi.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með fjögur kjördæmakjörin þingsæti og Samfylkingin mælist með þrjú - halda sínum mönnum. VG bætir við sig kjördæmakjörnum manni. Frjálslyndi flokkurinn er með nær jafnmikið fylgi og Framsóknarflokkurinn sem missir kjördæmakjörinn mann. Skv. því eru inni; Geir H. Haarde, Björn Bjarnason, Illugi Gunnarsson og Ásta Möller (Sjálfstæðisflokki), Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir (Samfylkingu), Kolbrún Halldórsdóttir og Álfheiður Ingadóttir (VG). Mikil óvissa er yfir því hvaða flokkar hljóta jöfnunarsætin.

Sjálfstæðisflokkurinn: 32,6% (38,3%)
Samfylkingin 26,6% (33,3%)
VG: 23,2% (9,3%)
Framsóknarflokkurinn: 6,7% (11,3%)
Frjálslyndi flokkurinn: 6,2% (6,6%)
Íslandshreyfingin: 4,2%
Baráttusamtökin 0%

Stöð 2 var með góða umfjöllun á stöðu mála í þættinum í kvöld, sem ég gat ekki horft á í kvöld og var að enda við að sjá nú eftir miðnættið vegna anna. Þar voru góðar umræður og í raun var merkilegast að sjá hversu mjög VG er að bæta við sig og hve mikið fall Sjálfstæðisflokksins er í kjördæmi formanns flokksins, sem er ekki beint í samræmi við kannanir Gallups og er satt best að segja grafalvarleg tíðindi fyrir Sjálfstæðisflokkinn að mínu mati 17 dögum fyrir þingkosningar. Framsókn er ekki enn að mælast með Jónínu inni en hafa þó bætt sig miðað við Gallup-könnunina sem birtist um síðustu helgi.

Samfylkingin er enn nokkuð undir kjörfylginu sem hljóta að teljast mikil tíðindi fyrir flokk sem hefur verið í stjórnarandstöðu árum saman og með fyrrum borgarstjóra í Reykjavík í fararbroddi lista. Þetta er þó fyrsta könnunin um nokkuð skeið sem sýnir Ástu Ragnheiði kjördæmakjörna. Jón Magnússon stendur nærri þingsæti í þessari mælingu og gæti komist inn sem jöfnunarmaður fengju frjálslyndir yfir 5% landsfylgi. Íslandshreyfingin mælist lítil í kjördæmi formannsins, Ómars Ragnarssonar, sem mælist ekki inni. Það hlýtur að vera áfall fyrir þau, enda ekki beint sem að var stefnt við stofnun flokksins.

Þessi könnun er án nokkurs vafa mikið pólitískt áfall þriggja flokksformanna; Geirs, Ingibjargar Sólrúnar og Ómars. Færu kosningar með þessum hætti væri það mjög dapurlegt gengi þeirra og VG yrði í raun sigurvegarinn í kjördæminu - eini flokkurinn sem bætti einhverju að ráði við sig. Þessi könnun sýnir fylgistap fyrir Sjálfstæðisflokkinn á viðkvæmu svæði og það yrði ekki gott fyrir formann flokksins að fá svona vonda mælingu í kosningum. Ingibjörg Sólrún virðist eiga í mikilli varnarbaráttu í þessum kosningum, enda fór hún fram til formennsku flokksins til að efla hann. Ómar fær skell í svona mælingu, enda mikið lagt undir.

Áhugavert var að fylgjast með umræðunum. Heilt yfir voru þær áhugaverðar en ekki mikil tíðindi. Rætt var um flugvöllinn í Vatnsmýrinni en birt var könnun þarna þar sem fram kom að fleiri í kjördæminu vilji hann á sama stað en færa hann. Þetta er mjög sérstakt kjördæmi, það er helmingur eins sveitarfélags. Það kom til sögunnar til að trygga jafnari vægi atkvæða í borginni og er því auðvitað bara strik á blaði. Þetta er í raun ein heild á bakvið þessi tvö borgarkjördæmi og því ekki beint hægt að tala um staðtengda pólitík í öðru kjördæminu frekar en hinu. Hagsmunir þeirra fara svo sannarlega saman.

Það stefnir í spennandi kosningar. Mikil spenna er yfir málum í Reykjavík suður að því er virðist. Miklar sveiflur eru milli kannana og erfitt að trúa hvað er rétt og hvað er vafamál. Enda eru kannanir aðeins vísbendingar á langri og tvísýnni leið. Þessi könnun sýnir vel bylgju til VG og vonda stöðu Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Framsóknarflokks. Þarna eru þrír formenn í nokkrum vanda ef þessar tölur endurspegla þ.e.a.s. veruleikann.

Rúmur hálfur mánuður er til kosninga. Það stefnir í öfluga og beitta baráttu þar sem allt verður lagt í sölurnar. Held að þetta verði með beittustu kosningabaráttum til þessa og eflaust verða þessar tvær vikur mjög massífar, sérstaklega einmitt í Reykjavík, þar sem formennirnir þrír leggja mikið undir og mega ekki við miklum skakkaföllum er úrslitin verða greind.

Vond könnun fyrir Sjálfstæðisflokkinn

Geir H. Haarde Ég dreg enga dul á það að könnun Félagsvísindastofnunar í Reykjavík suður og birt var í kvöld er ekki góð fyrir Sjálfstæðisflokkinn í kjördæmi formanns flokksins. Mæling af þessu tagi mun ekki verða viðunandi útkoma. Reyndar er þetta mikið frávik frá t.d. könnunum Gallups í þessu kjördæmi.

Aðeins eru nokkrir dagar síðan að birtist könnun sem sýndi Sjálfstæðisflokkinn með yfir 40% fylgi þar og ekki langt frá kjördæmadegi Rásar 2 þar sem sama staða birtist með áberandi hætti. En það ber að sjálfsögðu að taka þessa könnun alvarlega. Þetta er mjög vond mæling og afgerandi merki þess að það er ekkert gefið fyrir Sjálfstæðisflokkinn í þessum kosningum.

Það verður að berjast fyrir hverju einasta atkvæði og vinna vel til að landa sigri aðfararnótt 13. maí. Það segir þessi könnun okkur sjálfstæðismönnum. Það verður að horfast í augu við vondar mælingar og það geri ég hiklaust. Þetta er umhugsunarverð mæling, en ég hef fulla trú á að félagar mínir í Reykjavík undir forystu forsætisráðherrans fari mun hærra en þetta.

Ég hef haft lítinn tíma til að skrifa í kvöld. Ég mun skrifa nánar um þessa könnun með sama hætti og aðrar kjördæmakannanir Félagsvísindastofnunar fyrir Stöð 2 fljótlega.

mbl.is VG bætir við sig í Reykjavík suður samkvæmt könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhannesi Geir sparkað úr Landsvirkjun

Jóhannes Geir Sigurgeirsson Það vekur mikla athygli að forysta Framsóknarflokksins hafi ákveðið að sparka Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni, fyrrum alþingismanni flokksins úr Norðurlandskjördæmi eystra hinu forna, af formannsstóli í Landsvirkjun. Jóhannes Geir hefur verið stjórnarformaður Landsvirkjunar í áratug, en hann tók við embættinu af Helgu Jónsdóttur, bæjarstjóra í Fjarðabyggð og fyrrum borgarritara, skömmu eftir að hann féll af þingi í kosningunum 1995.

Jóhannes Geir var þingmaður Framsóknarflokksins hér i NE kjörtímabilið 1991-1995, en hann skipaði þriðja sætið á lista flokksins, á eftir Valgerði Sverrisdóttur, í kosningunum 1987, 1991 og 1995 og náði aðeins kjöri í kosningunum 1991. Framsókn klofnaði í kosningunum 1987 vegna sérframboðs Stefáns Valgeirssonar en vann góðan sigur í kosningunum 1991 og hlaut þá þrjá menn undir forystu Guðmundar Bjarnasonar. Jóhannes Geir féll í kosningunum 1995 vegna fækkunar þingmanna í kjördæminu.

Það eru stórtíðindi að forysta Framsóknarflokksins slái af Jóhannes Geir. Hann var áhrifamaður hjá flokknum hér og var auk þingmennskunnar um árabil í stjórn KEA og stjórnarformaður KEA um langt skeið. Eftirmaður hans verður Páll Magnússon, bæjarritari í Kópavogi og fyrrum pólitískur aðstoðarmaður Valgerðar Sverrisdóttur í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu, sem er ennfremur fráfarandi varaþingmaður í Suðvesturkjördæmi. Það mun hafa komið til hvassra orðaskipta vegna þeirrar ákvörðunar að slá Jóhannes Geir af innan ráðherrahóps Framsóknarflokksins.

Mun þetta vera ákvörðun Jóns Sigurðssonar, formanns Framsóknarflokksins, sjálfs. Fróðlegt hvað Valgerður hafi sagt um þetta fall fyrrum samstarfsmanns síns í stjórnmálum, maður sem hún skipaði sjálf oftar en einu sinni til formennsku, verandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra í tæp sjö ár. Það er kaldhæðnislegt að heyra þessi tíðindi örskotsstundu eftir að birtist skoðanakönnun Gallups sem sýnir Framsóknarflokkinn í sögulegri fylgislægð hér í kjördæminu, sem hefur í áratugi verið lykilsvæði Framsóknarflokksins í stjórnmálum, eiginlega allt frá stofnun flokksins.

Það verður fróðlegt að sjá hvort og þá hvaða eftirmál þessi tíðindi hafa, sem eru vissulega mjög stór og afdráttarlaus fyrir Jóhannes Geir Sigurgeirsson, fyrrum bændahöfðingja hér nyrðra.

mbl.is Jóhannes Geir víkur úr stjórnarformennsku í Landsvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterk staða Sjálfstæðisflokksins - Framsókn hrynur

Kristján Þór Júlíusson Skv. kjördæmakönnun Gallups hér í Norðausturkjördæmi mælist Sjálfstæðisflokkurinn með þrjá kjördæmakjörna þingmenn og tæplega 10% meira fylgi en í kosningunum 2003. VG bætir ennfremur við sig miklu fylgi á meðan að Samfylking og Framsóknarflokkur missa fylgi. Framsókn hrynur reyndar bókstaflega og missir tvo kjördæmakjörna þingmenn. Íslandshreyfingin og Baráttusamtökin ná ekki flugi.

Sjálfstæðisflokkurinn: 31,3% - (23,5%)
VG: - 21,7% (14,1%)
Samfylkingin: 21,5% - (23,4%)
Framsóknarflokkurinn: 18% - (32,8%)
Frjálslyndir: 5,9% - (5,6%)
Íslandshreyfingin: 1,3%
Baráttusamtökin: 0,3%

Þingmenn skv. könnun

Kristján Þór Júlíusson (Sjálfstæðisflokki)
Arnbjörg Sveinsdóttir
Ólöf Nordal

Steingrímur J. Sigfússon (VG)
Þuríður Backman

Kristján L. Möller (Samfylkingu)
Einar Már Sigurðarson

Valgerður Sverrisdóttir (Framsóknarflokki)
Birkir Jón Jónsson

Fallinn af þingi
Sigurjón Þórðarson

Þetta er merkileg mæling vissulega. Þessi könnun er augljóslega gríðarlegt áfall fyrir Framsóknarflokkinn. Valgerður Sverrisdóttir er nú fyrsti þingmaður kjördæmisins og forystumaður langstærsta flokksins í kjördæminu. Fari þetta á einhvern viðlíka veg og þessi könnun greinir frá er sá sess fokinn út í veður og vind og hún orðin leiðtogi 20% mínus framboðs í kjördæminu. Höskuldur virðist ekki vera að takast að skila fylgi héðan frá Akureyri. Fylgið mælist aðeins 15% hér á Akureyri t.d. sem er sama fylgi og flokkurinn hlaut hér í afhroðinu mikla í fyrra. Sú staða er alveg óbreytt, það er mjög athyglisvert.

Þessi könnun er ekki góð fyrir VG. Það er öllum ljóst. Kannanir hafa sýnt Steingrím J. og hans fólk með allt upp í 35% fylgi hér en sá meðbyr er farinn og flokkurinn stendur á pari við Samfylkinguna. Þeir eru vissulega nokkuð yfir kjörfylginu en þetta er könnun sem sýnir enn og aftur að Björn Valur Gíslason er ekki að fara að hljóta kjördæmakjör. Enda var nokkur vörn yfir tali Steingríms J. í kjördæmaþætti áðan. Birst hafa eins og fyrr segir kannanir síðustu vikur sem hafa jafnvel sýnt fjóra vinstri græna á þingi í kjördæminu. Það eru greinilega algjörir órar og Björn Valur færist sífellt fjær möguleika á þingsæti.

Samfylkingin tapar fylgi, þrátt fyrir að vera með Akureyringa í þriðja og fjórða sæti, bloggvinkonurnar mínar góðu Láru og Möggu Stínu. Þar er tveir miðaldra þingmenn í efstu sætum. Það kemur því ekki að óvörum að þeir keyra á konunum héðan frá Akureyri. Staða flokksins hér á Akureyri virðist vera góð og hefur flokkurinn styrkt sig hér aftur á kostnað vinstri grænna, enda er meiri veruleiki yfir stöðu Láru en Dillu Skjóldal, sundþjálfara og varabæjarfulltrúa hér á Akureyri. Enda munu Samfylkingarmenn heyja baráttuna á tali um möguleika Láru, sem er mesta stjarnan þeirra í stöðunni.

Sjálfstæðisflokkurinn stendur mjög vel og er að bæta við sig mjög miklu fylgi. Það heyrðist á tali Kristjáns Þórs í kjördæmaþættinum áðan. Hann var þar syngjandi sæll og glaður. Hann getur ekki annað. Samkvæmt þessu eru hann, Abba, Ólöf og Valdi á réttri leið og að fá mikinn meðbyr. Kristján Þór er í þessari stöðu mjög öruggur sem fyrsti þingmaður kjördæmisins og möguleikar hans á ráðherrasæti fari Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn aukast til muna með svo afgerandi kjördæmasigri hér. Kristján Þór ætlar greinilega að taka þessa baráttu sem reyndur stjórnmálamaður og hann kemur sterkur til leiks í baráttuna.

Ef marka má þessa mælingu er mjög stutt í Þorvald Ingvarsson inn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Það er mjög góð staða. Það er ánægjulegt fyrir okkur hér að sjá sterka stöðu Sjálfstæðisflokksins á svæðinu og þetta eru góð skilaboð í baráttuna. Okkar fólk þarf nú að sækja þetta fylgi. Ef marka má stöðuna viðrar vel, stórsigur blasir við og það er öllum ljóst að rödd Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi á þingi og innan flokksforystunnar styrkist til muna með svona góðum sigri á heimaslóðum.

En þetta er vissulega athyglisverð mæling, sem gefur ágætis vísbendingar og pælingar í pólitísku umræðuna hér. Margir eru þó enn óákveðnir og þar ráðast örlög frambjóðendanna hér í baráttusætum. Það leikur lítill vafi á því að spennandi 17 dagar eru sannarlega framundan í kosningabaráttunni hér.

mbl.is Sjálfstæðisflokkur og VG bæta við sig í Norðausturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umdeild tillaga felld á prestastefnu á Húsavík

Frá prestastefnuUmdeild tillaga presta og guðfræðinga um að prestum verði heimilað að annast hjónavígslu samkynhneigðra var felld á prestastefnu á Húsavík í dag. 22 greiddi atkvæði með henni en 64 voru andvígir tillögunni. Niðurstaðan er því mjög afgerandi ákvörðun og því ljóst væntanlega að málamiðlun biskups verður ofan á er á hólminn kemur.

Mikil umræða hafði verið um það hvað myndi gerast á Húsavík. Pressa hefur verið greinileg eftir að réttindi samkynhneigðra jukust með lögum ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu að kirkjan gengi skrefið til fulls. Það er ljóst af þessu að sá vilji er ekki fyrir hendi innan þjóðkirkjunnar.

Það verður fróðlegt að heyra hvert framhald málsins verður. En það er greinilegt að vindar frjálsræðis í þessum efnum eru ekki afgerandi innan þjóðkirkjunnar.


mbl.is Tillaga um hjónavígslu samkynhneigðra felld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spreyjað á Valgerði Sverrisdóttur fyrir austan

Skilti framsóknarmanna Það er athyglisvert að spreyjað hafi verið fyrir austan yfir kosningaskilti af Valgerði Sverrisdóttur, utanríkisráðherra, og efstu framsóknarmenn á lista í Norðausturkjördæmi. Orðið "Damnation" mun hafa verið spreyjað þvert yfir skiltið og mun þetta ekki vera að gerast þarna í fyrsta skiptið.

Þetta er þekkt slagorð andstæðinga Kárahnjúkavirkjunar sem sést hefur í mótmælum. Það er athyglisvert að sjá þessi brögð í kosningabaráttunni fyrir austan og að skilti framsóknarmanna séu skemmd með svo áberandi hætti.

Það verður athyglisvert að sjá hvort að Framsókn fær meiri gusur á sig í kosningabaráttunni fyrir austan.

mbl.is Auglýsingaskilti Framsóknarflokksins á Egilsstöðum skemmd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Átök á prestastefnu - biskup vill málamiðlun

Frá prestastefnuÖllum er ljóst að prestastefna sem nú stendur á Húsavík gæti markað þáttaskil. Tillaga 40 presta og guðfræðinga um að gefa skuli samkynhneigða saman með sama hætti og gagnkynhneigða er mjög afgerandi orðuð. Samþykkt slíkrar tillögu myndi marka mikil þáttaskil. Það eru miklar fylkingamyndanir í þessu máli og þarna koma upp á yfirborðið klassískar fylkingar íhaldssamra og frjálslyndra presta þjóðkirkjunnar.

Nú hefur Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, mælst til þess að prestastefna samþykki álit kenninganefndar um að prestum verði heimilað að staðfesta samvist samkynhneigðra en ekki að gefa þá saman í hjónaband. Ræða biskups í morgun á prestastefnu bar allan blæ málamiðlunar, reyna að leysa málið með málamiðlun í stað þess að komi til afgerandi kosningar um valkostina og breytinga á stöðu mála. Þar er reynt að lægja þessar öldur og leysa hnútana í þessu máli, hörð átök fylkinganna.

Í áliti kenninganefndar sem lögð hefur verið fram til umræðu á prestastefnu og biskup vék að kemur fram að prestum verði heimilað að staðfesta samvist samkynhneigðra en ekki gefa samkynhneigða saman í hjónaband. Greinilegt er að forsenda kenninganefndar sé að hefðbundin skilgreining hjónabands sem sáttmáli karls og konu sé hlutur sem ekki verði raskað en að þjóðkirkjan viðurkenndi önnur sambúðarform og stöðu þeirra með þeim hætti án þess að gefa saman fólk beint.

Biskup benti jafnframt á að með þessari niðurstöðu skipaði þjóðkirkjan sér í flokk með þeim kirkjum sem lengst hafa gengið. Það verður fróðlegt að sjá hvort þessi málamiðlun á Húsavík verði niðurstaða prestastefnunnar eða hvort átök verði engu að síður um málið allt.


mbl.is Biskup segir skiljanlegt að verklag kirkjunnar þyki varfærið og fálmkennt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Unnið að ævisögu Ólafs Ragnars Grímssonar

Ólafur Ragnar GrímssonDrög munu nú hafa verið lögð að útgáfu ævisögu Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, sem eigi að koma út um jólin. Mun Guðjóni Friðrikssyni hafa verið falið verkefnið að halda utan um verkið. Það er varla við því að búast að ævisagan verði litlaus og lítt áberandi. Persónan sem er miðpunktur hennar hefur búið á forsetasetrinu að Bessastöðum nú í ellefu ár og hefur upplifað sorgir og gleði þar.

Ólafur Ragnar Grímsson hefur alltaf verið umdeildur maður. Honum tókst að kasta af sér grímu umdeilds stjórnmálamanns árið 1996 með athyglisverðum hætti og hljóta atkvæði fólks úr ólíkum áttum, meira að segja þeirra sem aldrei hefðu kosið hann í þingkosningum, eftir skrautlegan stjórnmálaferil í forystu Alþýðubandalagsins og sem óvinsæll fjármálaráðherra sem sýndur var í gervi Skattmanns í Áramótaskaupi ein áramótin er hann sat á ráðherrastóli. Honum tókst að byggja nýja ímynd, allt í einu varð pólitíski klækjarefurinn að reffilegum statesman sem lækkaði röddina og breytti sér úr vígreifu ljóni í ljúfasta lamb.

Stóra stjarna forsetakosninganna 1996 var þó ekki síður Guðrún Katrín Þorbergsdóttir, fyrri eiginkona Ólafs Ragnars, sem lék lykilrullu í sigrinum mikla. Þau voru saman í forsetaframboði og hún markaði sér annan sess en eiginkonur fyrri forsetaframbjóðanda og var þungamiðja í baráttunni, einkum þó sem formaður stuðningsmannafélags hans sem hélt utan um baráttuna. Guðrún Katrín sló í gegn og tók virkan þátt í baráttunni uns yfir lak. Hún var ekki síður hinn afgerandi sigurvegari júníkvöldið þegar að Ólafur Ragnar tók kjöri eftir að hafa tekist að vinna kosningarnar með glæsibrag.

Guðrún Katrín varð stór hluti forsetaembættisins við forsetaskiptin - hún hafði lykilstöðu og var ekki bara settleg eiginkona forseta, hún var ólík fyrri forsetafrúm þjóðarinnar. Hennar naut þó ekki lengi við. Hún greindist með hvítblæði rúmi ári eftir kjör Ólafs Ragnars og eftir erfiða meðferð við meininu virtist henni hafa tekist að yfirstíga veikindin. Bakslagið kom í júní 1998. Hún greindist aftur og hélt til Seattle þar sem hinsta vonin var til staðar á krabbameinsstofnun. Allt kom fyrir ekki. Guðrún Katrín lést í október 1998. Hún var íslensku þjóðinni harmdauði.

Þjóðarsorg var í landinu þessa októberdaga er komið var með líkkistu hennar heim í haustkaldri snjókomu og hún var kvödd. Andlát hennar var gríðarlegt áfall fyrir forsetann og hann gekk þá í gegnum sína erfiðustu daga á embættisferlinum. Það verður fróðlegt að lesa umfjöllun um þessa dimmu daga er forsetinn kvaddi eiginkonu sína í kastljósi fjölmiðlanna. En hann fann hamingjuna að nýju hjá Dorrit Moussaieff nokkru eftir lát Guðrúnar Katrínar og þau giftust við rólega athöfn að Bessastöðum á sextugsafmæli forsetans.

Pólitísk átök hafa orðið á forsetaferli Ólafs Ragnars. Allir muna eftir örlagadeginum mikla 2. júní 2004 þegar að hann synjaði fjölmiðlalögum staðfestingar og beitti málskotsréttinum margfræga, 26. grein stjórnarskrár, í beinni sjónvarpsútsendingu á dramatískum blaðamannafundi á Bessastöðum. Hinn dauði bókstafur laganna, eins og Ólafur Ragnar kallaði hann árið 1977, lifnaði við í örlagaríkri ákvörðun hans. Áralöng átök Davíðs Oddssonar og Ólafs Ragnars urðu umfjöllunarefni í fréttatímum og fræg gjá myndaðist milli aðila.

Ólafur Ragnar Grímsson hefur vissulega frá mörgu að segja. Árin ellefu á Bessastöðum hafa verið örlagaríkur tími á ævi hans og verið eftirminnilegur tími, einkum pólitískt, í sögu landsins. Eflaust mun frásögn af þeim verða áhugaverð í bókaskrifum. En bókin kemur á þeim tímapunkti að þriðja kjörtímabil Ólafs Ragnars Grímssonar rennur brátt sitt skeið. Ákvörðun um framhaldið er handan við hornið.

Er bókin uppgjör við litríkan forsetaferil að leiðarlokum eða er hún hinn dramatíski upphafspunktur þess að Ólafur Ragnar Grímsson feti í fótspor Ásgeirs Ásgeirssonar og Vigdísar Finnbogadóttur; horfi til fjórða kjörtímabilsins. Þegar að stórt er spurt verður víst æði oft fátt um svör. Það eru þó örlagaríkir tímar framundan fyrir húsbóndann á Bessastöðum hvort sem verður ofan á að lokum.


Mun þjóðkirkjan staðfesta rétt samkynhneigðra?

Prestaþing Þáttaskil gætu orðið hjá þjóðkirkjunni á prestastefnu á Húsavík, sem hófst í kvöld. Á morgun leggur hópur rúmlega 40 presta og guðfræðinga, þar af 6 héðan af þessu svæði, fram þá tillögu að prestum verði heimilað að annast hjónavígslu samkynhneigðra. Það er öllum ljóst að gríðarleg umskipti verða hljóti tillagan staðfestingu prestastefnunnar.

Augljósar fylkingamyndanir hafa verið innan þjóðkirkjunnar í þessum efnum og verið ljóst um nokkuð skeið að til tíðinda myndi draga fyrr eða síðar um þetta málefni. Þess hefur vel sést stað að áherslur eru breyttar t.d. hér í Akureyrarsókn en sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson, prestur hér í sókninni, hefur verið afgerandi talsmaður í þessa átt og verið áberandi í því að tala fyrir rétti samkynhneigðra í þessa átt.

Það verður fróðlegt að sjá hver niðurstaða prestastefnu verði. Það er ljóst í mínum huga að þjóðkirkjan tekur sína afstöðu sjálf og því verður fylgst mjög vel með því sem gerist á Húsavík í umræðu um þetta mál og í kosningu um þessa tillögu sem gengur skrefið til fulls. Réttur samkynhneigðra til að ganga í löglega sambúð er orðinn fullgildur að öllu öðru leyti en að þessu leyti að þjóðkirkjan veiti þeim leyfi til þessa.

Það vakti mikla athygli að landsfundur Sjálfstæðisflokksins ályktaði nýlega í þessa átt og fleiri stjórnmálaflokkar hafa tekið sömu afstöðu. En nú er stóra spurningin; hvað gerist á Húsavík. Það verður vel fylgst með hver niðurstaðan þar verður. Þangað beinist kastljósið núna og hver afstaða þjóðkirkjunnar til þessa máls verður er á hólminn kemur. En það er þó öllum altént ljóst að þung undiralda er í þá átt að gengið verði alla leið.

Það verða stórtíðindi verði sú niðurstaðan og því verða þáttaskilin mikil fari staðan á þessa vegu sem fram kemur í þessari fyrrnefndu tillögu.

mbl.is Prestastefna sett á Húsavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pétur Pétursson þulur látinn

Pétur Pétursson þulur Pétur Pétursson, þulur, er látinn. Ég held að það sé á engan hallað þegar að sagt er að engin rödd hafi orðið þekktari og notalegri í áratuga sögu Ríkisútvarpsins en rödd Péturs þuls. Hann hafði ljúfa og notalega útvarpsrödd sem öllum er fersk í minni sem muna þá tíð að hann var rödd íslenska útvarpsins, sem allt til ársins 1983 var jú bara gamla góða Gufan, Rás 1.

Pétur þulur var líka mikill málræktarmaður og hikaði ekki við að koma með fróðleiksmola og vel íhugaðar hugleiðingar um íslenskt mál þegar að honum fannst að því sótt með einhverjum hætti og hann var ekki síðri málfarsráðunautur hjá Ríkisútvarpinu en Árni Böðvarsson.

Mér er rödd Péturs þuls mjög eftirminnileg frá æskuárum mínum, en hann starfaði hjá RÚV eitthvað fram eftir níunda áratugnum hið minnsta. Hann hafði mjög þýða og hljómmikla rödd sem hljómaði vel í útvarpi.

Ég votta fjölskyldu Péturs þuls samúð mína.

mbl.is Pétur Pétursson þulur látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sláandi umfjöllun Íslands í dag veldur deilum

Það er óhætt að segja að umfjöllun Íslands í dag á Stöð 2 í gærkvöldi hafi vakið athygli. Þar voru sýndar sláandi myndir og sagt frá miklum og afgerandi annmörkum á aðstöðu fyrir erlent verkafólk hérlendis. Ekki aðeins voru myndirnar athyglisverðar heldur frásögn í viðtali með. Nú hafa verið gerðar athugasemdir við umfjöllunina og trúverðugleiki hennar dreginn í efa að þeim sem standa að því húsnæði sem til umræðu voru. Tala viðkomandi aðilar um þessa umfjöllun sem ærumeiðingar og rógburð.

Samkvæmt því sem kemur fram í yfirlýsingu ætlar fyrirtækið að kæra Steingrím Sævarr Ólafsson, ritstjóra Íslands í dag, Sölva Tryggvason, dagskrárgerðarmann í Íslandi í dag, og Jakob Skaptason, sem var viðmælandi í þættinum. Kemur fram af hálfu þessa fyrirtækis að myndir hafi verið gamlar og því hafi umfjöllunin öll verið á versta veg. Er erfitt að dæma þetta mál, en það verður auðvitað að fá alla hluti á borðið tengda því.

Það fyrsta sem mér fannst áberandi var aðbúnaður þessara manna og er ekki undrunarefni að einhverjar deilur séu í kjölfarið, enda var myndin sem dregin var upp í þættinum ófögur. En það verður fróðlegt að sjá hvað gerist. Ekki er við hæfi að dæma finnst mér með stöðu mála svona hvassa og talað um málaferli gegn þættinum.

Það verður athyglisvert að sjá hvernig þetta mál muni vinda upp á sig.

mbl.is „Alvarlegar athugasemdir við fréttaflutning Íslands í dag"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heitasti koss tíunda áratugarins?

Ellen DeGeneres Það er ekki fjarri lagi að kossinn margfrægi í þættinum Ellen þar sem leikkonan Ellen DeGeneres kyssti Lauru Dern sé einn heitasti koss tíunda áratugarins. Þar kom ekki aðeins karakter þáttarins út úr skápnum heldur líka leikkonan sjálf. Þetta móment var eitt umtalaðasta atvik í sögu bandarísks sjónvarp á tíunda áratugnum og metáhorf var á þáttinn og gott ef ekki bara heilt yfir þegar að þátturinn var sýndur, að mig minnir árið 1997.

Ellen DeGeneres varð fræg fyrir túlkun sína á Ellen í þessum samnefnda þætti. Þetta var einfaldlega þátturinn hennar og karakterinn var í grunninn byggður á leikkonunni sjálfri. Hún komst á kortið í bransanum og hefur verið heimsþekkt alla tíð síðan. Þátturinn var um nokkuð skeið einn sá vinsælasti í bandarísku sjónvarpi og er sennilega einn af sterkustu gamanþáttum vestanhafs á tíunda áratugnum. Hann sló í gegn hér heima þegar að hann var sýndur á Stöð 2.

Þátturinn "féll" árið eftir þennan margfræga koss. Þetta stóra móment varð upphaf endaloka þáttarins. Það brast einhver tenging í kjölfarið. Kannski var þetta einfaldlega of stór þáttaskil og kannski urðu karakterbreytingarnar á aðalsögupersónunni í þættinum einfaldlega of miklar fyrir bandaríska menningu. Það er erfitt um að segja. Þátturinn bar allavega ekki sitt barr eftir þennan fræga þátt, þó hann hafi orðið allra þátta vinsælastur í seríunni er hann var sýndur.

Það kemur því varla að óvörum fyrir Ellen sjálfa að Laura Dern hafi átt erfitt með að fá eitthvað að gera í bransanum eftir kossinn fræga, enda varð hann upphaf endalokanna fyrir hana með þáttinn sjálfan. Stóru skrefin eru oft erfiðust. Það sannaðist með þáttinn Ellen. En frægðarsól Ellenar sjálfrar virðist ekkert vera svosem að hníga. Hún kynnti m.a. Óskarinn í febrúar og hefur ekki beint verið á niðurleið þó hún hafi átt visst down-tímabil.

mbl.is Fékk ekki vinnu í ár eftir að hún kyssti Ellen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný og glæsileg heimasíða Sjálfstæðisflokksins

Þorgerður Katrín og Geir H. Haarde Nú hefur ný og glæsileg heimasíða Sjálfstæðisflokksins opnað á slóðinni xd.is. Þar er lesendum boðið að koma með spurningar sem Geir og Þorgerður Katrín svara svo í vefvarpi heimasíðunnar. Þar eru ítarlegar upplýsingar um frambjóðendur flokksins og kosningamál hans í aðdraganda þingkosninganna eftir tæpar þrjár vikur.

Ein stóra nýjungin er einmitt fyrrnefnt vefvarp þar sem eru ýmsar klippur; allt í senn frá nýlegum landsfundi Sjálfstæðisflokksins og kynningar á lykilmálum kosningabaráttunnar. Þetta er ferskur vefur með nýjar áherslur og er svo sannarlega tákn nýrra tíma hjá flokknum.

Það er víst óhætt að segja að enginn flokkur hérlendis bjóði upp á ferskari og gagnvirkari heimasíðu. Sjón er sögu ríkari, lesendur góðir!

Pólitísk vonbrigði Ingibjargar Sólrúnar

ISG og Össur Það fer ekki á milli mála að stjórnmálaferill Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur hefur verið hin mesta sorgarsaga allt frá því að hún sagði af sér embætti borgarstjóra er R-listinn logaði stafnanna á milli í desember 2002. Pólitísk vonbrigði Ingibjargar Sólrúnar einkennast nú af vondu gengi Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum og slakri útkomu hennar í vinsældarmælingum meðal kvenna.

Í ítarlegri leiðtogaumfjöllun á Stöð 2 í kvöld fóru Þóra Kristín Ásgeirsdóttir og Sigmundur Ernir Rúnarsson yfir stjórnmálaferil og ævi Ingibjargar Sólrúnar. Helst var þar sjónum beint auðvitað að þessu kjörtímabili og einkum þeim umskiptum á ferli Ingibjargar Sólrúnar hvernig hún breyttist úr sigursælri vonarstjörnu vinstrimanna úr þrennum borgarstjórnarkosningum í flokksformann sem á ekki sjö dagana sæla og reynir í tímahraki að bjarga sér frá grimmum pólitískum endalokum sem eru fyrirsjáanleg nái hún ekki að byggja flokkinn upp til vegs og virðingar.

Mesta athygli í þættinum vöktu ummæli Össurar Skarphéðinssonar. Aldrei fyrr hefur það verið staðfest með hve dramatískum hætti formannsslagurinn milli svilanna lék samskipti þeirra. Það blasti við öllum að hann hjó mjög nærri rótum vináttu þeirra og fjölskyldutengsla. Baráttan varð hörð og óvægin. Það munum við öll. Össur ber harm sinn greinilega í hljóði yfir að hafa ekki fengið að leiða flokk sinn lengur og hafa fengið sparkið svo fast á viðkvæman stað. Hann brosir enn í gegnum tárin eins og fegurðardrottningarnar en biturðin leynir sér svo sannarlega ekki.

Það verður gríðarlegt áfall fyrir Ingibjörgu Sólrúnu nái hún ekki markmiðum sínum, efla Samfylkinguna, bæta fylgi hennar og gera flokkinn að mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn. Allar skoðanakannanir í óratíma sýna mikið fylgistap frá kjörfylginu 2003 fyrir flokkinn í kosningunum eftir 19 daga. Mismikið er fylgistapið þó. Sumar kannanir sýna um eða jafnvel yfir 10% fall frá kosningunum 2003. Slík staða myndi veikja verulega stöðu Ingibjargar Sólrúnar. Það blasir við. Veikari staða flokks og fylgishrap veikir jú um leið stöðu leiðtogans. 

Þegar skipperinn er hættur að fiska þarf að skipta um í brúnni sagði Jón Baldvin um árið. Verður sú spurning ekki ofarlega á baugi innan Samfylkingarinnar eftir kosningar fiski skipperinn ekki? Fari Samfylkingin eins illa út úr kosningum og mælingar segja eru örlög formannsins giska ráðin.

Þá verður spurt; hver verður næsti formaður Samfylkingarinnar? Hver getur leitt þennan flokk til öndvegis? Það er óumflýjanlegt í pólitískum veruleika þess flokks sem tapar stórt með fornan vonarneista í brúnni.

12 ára afmæli ríkisstjórnarinnar

Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar 199512 ár eru í dag liðin frá því að ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hófst. Það var sunnudaginn 23. apríl 1995 sem ráðherraefni flokkanna komu saman á Bessastöðum á ríkisráðsfundi og tóku við embættum sínum. Stjórnin hafði verið mynduð eftir að upp úr stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, sem setið hafði að völdum í 4 ár, hafði slitnað með miklum hvelli.

Í alþingiskosningunum sem fram höfðu farið þann 8. apríl 1995 hafði Sjálfstæðisflokkur misst eitt þingsæti frá þingkosningunum 1991, hlotið 25 í stað 26 en Alþýðuflokkurinn misst þrjá þingmenn, farið úr 10 í 7. Meirihluti flokkanna var því naumur, aðeins 1 þingsæti. Flokkarnir höfðu 32 þingmenn en þáverandi stjórnarandstaða 31 þingsæti. Munaði Alþýðuflokknum mjög um tilkomu Þjóðvaka, sérframboðs Jóhönnu Sigurðardóttur, sem hafði farið úr ríkisstjórn og klofið sig frá flokknum eftir að hafa tapað fyrir Jóni Baldvin Hannibalssyni í harðvítugu formannskjöri. Segja má að klofningurinn hafi verið afdrifaríkur, enda misstu þau bæði öll pólitísk völd með honum.

Í kjölfar kosninganna 1995 tóku við stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks. Fljótt varð ljóst að grunnurinn var brostinn og meirihlutinn of naumur til að leggja í ferðalag til fjögurra ára með aðeins eins sætis meirihluta. Sjálfstæðisflokkurinn sleit því viðræðunum um páskahelgina 1995 og Davíð Oddsson sagði af sér fyrir hönd stjórnarinnar þriðjudaginn 18. apríl 1995. Við tóku stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hittust sömu helgi og handsöluðu samkomulag um stjórnarmyndunarviðræður eftir umleitanir annarra um að koma þeim saman.

Eftir nokkurra daga viðræður var samkomulag flokkanna um samstarf staðfest af æðstu stofnunum þeirra. Að því loknu voru ráðherrar flokkanna valdir og tóku þeir við embættum sínum á fyrrnefndum fundi að Bessastöðum á þessum apríldegi í vorsólinni á Álftanesi. Allir þekkja söguna sem fylgir í kjölfarið. Samstarfið stendur enn, sem er til marks um hversu farsællega það hefur starfað og leitt farsæl mál til lykta með mikla samstöðu og kraft að leiðarljósi. Í Íslandssögunni hefur ekkert stjórnarsamstarf staðið lengur, en nærri stendur þó viðreisnarstjórnin svokallaða, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, sem sat í tólf ár ennfremur, 1959-1971.

Upphaflega var fjöldi ráðherra í stjórninni 10. Að loknum þingkosningunum 1999 var ákveðið að fjölga ráðherrunum í 12 og hefur svo verið síðan. Á þessum áratug hafa 26 setið í stjórninni, 13 frá hvorum flokki. Enginn hefur setið í stjórninni allan tímann. Davíð Oddsson hætti í stjórnmálum haustið 2005 og Halldór Ásgrímsson sumarið 2006. Björn Bjarnason hefur lengst verið í stjórninni, en hann var menntamálaráðherra 1995-2002 en varð dómsmálaráðherra vorið 2003 og verið í stjórninni síðan. Aðeins Björn Bjarnason og Geir H. Haarde hafa setið í stjórninni frá fyrsta kjörtímabili hennar, 1995-1999.

Stjórnin hefur gengið í gegnum tvennar kosningar, árin 1999 og 2003, og hefur þingmeirihluti stjórnarinnar veikst í báðum kosningunum. Við stofnun hafði stjórnin 40 þingsæti af 63. Sjálfstæðisflokkur hafði 25 þingsæti en Framsóknarflokkurinn 15. Eftir þingkosningarnar 1999 tapaði stjórnin tveim þingsætum í heildina. Framsóknarflokkur missti þrjú þingsæti, hlaut 12 en Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig einum þingmanni og hlaut 26 í stað 25 áður. Í þingkosningunum 2003 veiktist þingmeirihlutinn nokkuð. Þá missti Sjálfstæðisflokkurinn 4 þingsæti, hlaut 22 í stað 26, en Framsóknarflokkurinn hélt sínum 12.

Davíð Oddsson hafði verið forsætisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks og var það áfram við upphaf samstarfs flokkanna vorið 1995. Hann sat á forsætisráðherrastóli allt til 15. september 2004. Sömdu flokkarnir um það við upphaf núverandi kjörtímabils að forsætisráðuneytið færðist þá formlega yfir til Halldórs en þess í stað myndi Sjálfstæðisflokkurinn hljóta 7 ráðherra af 12. Davíð varð utanríkisráðherra er Halldór varð forsætisráðherra. Er Halldór sagði af sér forsætinu í júní 2006 varð Geir H. Haarde, eftirmaður Davíðs sem formaður Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra í hans stað.

Ráðherrar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á þessum áratug eru eftirtaldir:

Sjálfstæðisflokkur
Davíð Oddsson (1991-2005)
Friðrik Sophusson (1991-1998)
Þorsteinn Pálsson (1991-1999)
Halldór Blöndal (1991-1999)
Björn Bjarnason (1995-2002 og frá 2003)
Geir H. Haarde (frá 1998)
Árni M. Mathiesen (frá 1999)
Sturla Böðvarsson (frá 1999)
Sólveig Pétursdóttir (1999-2003)
Tómas Ingi Olrich (2002-2003)
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (frá 2003)
Sigríður Anna Þórðardóttir (2004-2006)
Einar Kristinn Guðfinnsson (frá 2005)

Framsóknarflokkur
Halldór Ásgrímsson (1995-2006)
Páll Pétursson (1995-2003)
Ingibjörg Pálmadóttir (1995-2001)
Finnur Ingólfsson (1995-1999)
Guðmundur Bjarnason (1995-1999)
Guðni Ágústsson (frá 1999)
Valgerður Sverrisdóttir (frá 1999)
Siv Friðleifsdóttir (1999-2004 og frá 2006)
Jón Kristjánsson (2001-2006)
Árni Magnússon (2003-2006)
Jón Sigurðsson (frá 2006)
Jónína Bjartmarz (frá 2006)
Magnús Stefánsson (frá 2006)

Ríkisstjórn Geirs H. Haarde 2006Áratugur er ekki langur tími í sögu íslensku þjóðarinnar: segja má að sá tími sé eins og örskotsstund á langri vegferð. Hinsvegar leikur enginn vafi á því að það er sögulegt og mikil tíðindi að tveir flokkar hafi setið í forystu ríkisstjórnar landsins svo lengi sem raun ber vitni og unnið saman að forystu stjórnmála landsins.

Þegar saga ríkisstjórna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forystu Davíðs, Halldórs og Geirs verður gerð upp í sögubókum framtíðarinnar mun hennar eflaust verða minnst fyrir góðan árangur og nokkuð farsæla forystu. Margt hefur áunnist og breytingar á þjóðfélaginu verið miklar á þessum tíma.

Þingkosningar verða eftir 19 daga. Eitt stærsta spurningamerkið tengt þeim er hvort að Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki tekst fjórðu kosningarnar í röð að ná þingmeirihluta og því hvort að stjórnin heldur velli. Ef marka má nýjustu skoðanakannanir mun svo fara, en það er þó alveg ljóst að þetta eru mjög tvísýnar kosningar og fróðlegt að sjá hver staðan verður að morgni 13. maí.


"Ljóskan" í menntamálaráðuneytinu

JBH Það var með ólíkindum að heyra Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrum utanríkisráðherra, kalla Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, varaformann Sjálfstæðisflokksins, "ljóskuna" í menntamálaráðuneytinu í Silfri Egils í gær. Þessi karlremba í Jóni Baldvini er honum algjörlega til skammar.

Ætla valkyrjurnar, bloggvinkonur mínar, á Trúnó, ekki að skrifa grein um þessa karlrembu Jóns Baldvins?

Boris Jeltsín látinn

Boris Jeltsín Boris Jeltsín, fyrrum forseti Rússlands, er látinn, 76 ára að aldri. Jeltsín var aðalleikari í atburðarásinni eftirminnilegu í upphafi tíunda áratugarins er Sovétríkin liðu undir lok og kommúnistaveldin í Austur-Evrópu bognuðu stig af stigi eftir fall Berlínarmúrsins. Hann varð fyrsti lýðræðislega kjörni forseti Rússlands eftir einræðisstjórn kommúnista og var einn valdamesti maður heims á örlagatímum í alþjóðastjórnmálum eftir þáttaskilin sem urðu óneitanlega er Sovétríkin gufuðu upp.

Það er ansi sterkt í minningunni hvernig að Jeltsín greip frumkvæðið í Sovétríkjunum þegar að veldi kommúnismans hrundi eins og dómínókubbaröð. Hann tók af skarið er hik var á mörgum lykilmönnum og hann spilaði lykilhlutverk í því að brjóta valdaránið í Sovétríkjunum í ágúst 1991 á bak aftur. Hann markaði sér ógleymanlegan sess þar sem hann stóð upp á skriðdrekanum í miðborg Moskvu á þeim örlagaríka degi að Gorbachev hafði verið lokaður af í stofufangelsi í sumarleyfi á Krím-skaga og rændur völdum.

Jeltsín varð aðalleikari á svæðinu með þessu táknræna frumkvæði. Valdarán harðlínukommanna sem reyndu að snúa vörn í sókn fór út um þúfur. Gorbachev kom aftur heim til Moskvu eftir þessa örlagaríku ágústdaga en staðan var gjörbreytt. Jeltsín var við völd, hann hafði náð lykilstöðu sem talsmaður lýðræðis og frjálsræðis í augum vesturveldanna og Gorbachev horfði á stöðuna breytast dramatískt. Veldi kommúnistanna hrundi hratt eftir þetta. Kommúnistaflokkurinn var lagður niður fyrir lok ágústmánaðar og Jeltsín sem forseti Rússlands tók forystu. Sovétríkin liðuðust í sundur fyrir árslok 1991 og Gorbachev stóð eftir snupraður sem leiðtogi ríkis sem ekki var lengur til.

Jeltsín var mjög litríkur þjóðarleiðtogi. Hann náði að blómstra eftir að Gorbachev hrökklaðist frá völdum og Sovét-tíminn leið undir lok. Jeltsín var þekktur fyrir eftirminnilegan lífsstíl. Hann var mjög heilsulaus meginhluta forsetaferilsins og gekkst undir nokkrar mjög tvísýnar hjartaaðgerðir. Feluleikurinn með veikindi hans er eftirminnilegur, en hann stóð mjög tæpt á árinu 1996 er hann gekkst undir tvísýna og erfiða hjartaaðgerð sem haldið var í fyrstu leyndri fyrir fjölmiðlum en síðar opinberuð eftir að sýnt var fram á að myndir sem áttu að sýna forsetann við störf voru í raun eldgamlar og settar fram til að reyna að loka á orðróm.

Jeltsín vann eftirminnilegt endurkjör á árinu 1996 þrátt fyrir erfið veikindi. Þá var sennilega baráttan gegn fornum kommúnistum undir merkjum sósíalista tvísýnust. Jeltsín tókst að vinna andstæðingana með ansi sterkum hætti þá, en kosningarnar voru tvísýnni þá milli fylkinga en var eftir að Jeltsín fór frá, í forsetakosningunum 2000 og 2004. Drykkjusemi Jeltsíns var eftirminnileg ennfremur en ástríða hans á vodka fór ekki framhjá neinum. Þekkt voru drykkjulæti hans jafnvel í opinberum heimsóknum. Hann stjórnaði hljómsveit í Þýskalandsför og svaf af sér fund með forsætisráðherra Írlands í viðkomu til Dublin svo fátt sé nefnt. 

Þrátt fyrir að flestir hafi ekki átt von á að Jeltsín færi fram í forsetakosningunum 2000 kom mörgum að óvörum að hann skyldi segja af sér í áramótaræðu á skrifstofu sinni í Kreml á gamlársdag 1999. Náði Jeltsín að koma öllum á óvart og hann yfirgaf forsetaembættið og Kreml með tilþrifamiklum hætti með snöggum hætti, þvert á það sem margir höfðu átt von á. Tíð forsætisráðherraskipti einkenndu forsetaferil Jeltsíns. Undir lok forsetaferilsins lagði Jeltsín allt traust sitt á KGB-manninn forna Vladimir Putin. Hann varð starfandi forseti við afsögnina og var kjörinn í mars 2000 og hefur setið við völd, ægisterkur, alla tíð síðan.

Jeltsín markaði söguleg þáttaskil á litríkum stjórnmálaferli. Hann var umdeildur og stuðaði mjög á forsetaferlinum. En hann var einn lykilþátttakenda í sögulegri atburðarás sem lengi verður í minnum höfð.

mbl.is Boris Jeltsín fyrrum Rússlandsforseti látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prinsessa fæðist í Danmörku

Friðrik, Kristján og Mary Það er augljós þjóðargleði í Danmörku vegna fæðingar prinsessunnar, dóttur Friðriks, krónprins, og Mary, krónprinsessu. Það er svosem varla furða, enda er þetta fyrsta prinsessan sem fæðist í Danmörku í 61 ár, en Anna María Grikkjadrottning, yngsta systir Margrétar II Danadrottningar og eiginkona Konstantíns Grikkjakonungs, fæddist árið 1946.

Það er þegar farið að tala um það í Danmörku að prinsessan muni hljóta nafnið Margrét, í höfuðið á ömmu sinni drottningunni. Ekki kæmi það að óvörum. Það er reyndar alltaf viss sjarmi frá dönsku konungsfjölskyldunni í huga Íslendinga. Það eru ekki nema 63 ár síðan að danski þjóðhöfðinginn var um leið sá íslenski og því hafa tengsl Danmerkur og Íslands því auðvitað alltaf verið mjög mikil. Kristján X, afi Margrétar, var síðasti danski kóngurinn yfir Íslandi eins og flestir vita.

Það er nokkur glans yfir Friðrik krónprins og fjölskyldu hans og virðist stefna í góða tíma fyrir dönsku krúnuna þegar að hann erfir ríkið af móður sinni. Fyrir áratug hefði fáum órað fyrir því að hann yrði ráðsettur og öflugur fjölskyldufaðir, enda gengu frægar sögur af líferni hans og stöðugleiki var ekki beinlínis á honum. En það hefur allt breyst mjög eftir að hann tók saman við Mary Donaldson og það er mikill virðugleikablær yfir þessum hluta fjölskyldunnar.

Það stefnir í farsæla framtíð krúnunnar og konungsfjölskyldunnar, sem eitt sinn var jú æðsta valdafjölskylda Íslands.

mbl.is Nýfædd prinssessa fyrir augu almennings í fyrsta sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Par auglýsir eftir staðgöngumóður í Mogganum

Það vakti mikla athygli mína og eflaust fleiri annarra að sjá auglýsingu í sunnudagsblaði Moggans þar sem par óskar eftir konu sem gæti hugsað sér að ganga með barn fyrir það. Kemur sérstaklega  fram að notaður yrði fósturvísir frá parinu. Eins og flestir vita er ekki löglegt að gera slíkt hérlendis, því yrði slíkt gert erlendis. Það er mjög merkilegt að sjá slíka auglýsingu, en það leikur varla vafi á því að þetta sé í fyrsta skipti sem svona nokkuð gerist hérna heima. Ef það eru önnur tilfelli endilega bendið þá á það.

Fjallað var um þetta í kvöldfréttum Stöðvar 2 og rætt við lækni sem sagðist ekki telja rétt að taka fyrir þann möguleika að fólk geti eignast barn með þessum hætti og bendir á það sem við blasir að fyrir sum pör sé þetta eini möguleiki þeirra til að eignast börn. Ég verð að viðurkenna að ég þekki ekki hvaða lög gilda í þessum efnum utan Íslands, en hér heima er eflaust móðir barns skráð móðir hans með afgerandi hætti. Eflaust er þetta opnara erlendis. Þetta allavega opnar spurningar og pælingar sem hafa lítið verið í deiglunni hérna heima.

Það er altént svo að ekkert sem bannar fólki að fara út til að fara í gegnum svona ferli. Á Stöð 2 var rætt við nokkrar konur og þær spurðar um hvort þær væru tilbúnar til að ala barn annars fólks og voru þær ekki beint jákvæðar fyrir því. Það verður fróðlegt að heyra umræðuna um þetta. Það er þó hægt að fullyrða að þessi Moggaauglýsing opnar pælingar í þessum efnum og fróðlegt að heyra ýmsar skoðanir.

Þar sem ljóst er að slíkt er ekki löglegt hér heima er það úr sögunni, en mér finnst ekki rétt að loka á slíkt erlendis þar sem slíkt er löglegt. Að því leyti tek ég undir skoðanir læknisins sem rætt var við á Stöð 2.

Nicolas Sarkozy á sigurbraut í Frakklandi

Nicolas Sarkozy og Segolene Royal Fyrstu skoðanakannanir í Frakklandi eftir sigur Nicolas Sarkozy í fyrri umferð frönsku forsetakosninganna í dag gefa til kynna að hann verði kjörinn forseti þann 6. maí nk. með nokkuð öruggum hætti. Hann mælist með 54% í baráttunni við Segolene Royal, frambjóðanda sósíalista, skv. könnun IPSOS í kvöld. Það stefnir því í að hann sé á sigurbraut í þessum kosningum altént á þessum tímapunkti.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig að þessar kosningar fara, en Sarkozy hefur haft mjög sterka stöðu í könnunum í nokkra mánuði. Það er orðið mjög langt síðan að Royal hefur leitt í könnunum þar sem spurt er um afstöðuna til Sarko-Sego einvígis. Segolene Royal hefur verið mjög umdeild innan rótgróna valdakjarna Sósíalistaflokksins en samt sjarmerað vinstrið mjög og mun eflaust raka meginhluta þess fylgis alls saman á bakvið sig, ekki ósvipað Lionel Jospin (þó mjög lítið þekktur væri) í seinni umferð forsetakosninganna 1995, er hann tapaði fyrir Jacques Chirac. Það er reyndar athyglisvert að heil tólf ár eru síðan að alvöru vinstrimaður komst í seinni umferðina.

Nicolas Sarkozy mun eflaust taka fullt af fylgi frá miðjumanninum Francois Bayrou sem fékk um 20% í fyrri umferðinni í dag, mun meira fylgi en mörgum hefði reyndar órað fyrir er hann gaf kost á sér. Bayrou komst reyndar á kafla kosningabaráttunnar ótrúlega nærri því að sverfa að Royal og verða keppinautur Sarkozy um Elysée-höll en tókst er á hólminn kom ekki að skáka henni. Enda hefði það orðið sögulegt í meira lagi ef vinstrimenn hefðu ekki náð frambjóðanda í seinni umferðina aðrar kosningarnar í röð. Þó að Sarkozy sé mjög afgerandi til hægri og þyki pólitískur harðjaxl getur hann höfðað til stórs hóps miðjumanna sem fylgdu Bayrou.

Það virðist að vissu marki vera hægribylgja í Frakklandi. Það sást í góðri útkomu Sarkozy og Bayrou í dag. Það verður þó fróðlegt að sjá hversu góða kosningu Segolene Royal fær í seinni umferðinni, en hún er eins og flestir vita fyrsta konan sem á raunhæfa möguleika á franska forsetaembættinu. Ef hún nær kjöri verður það svo sannarlega sögulegt, enda yrði ásýnd evrópskra stjórnmála mjög athyglisverð og nýstárleg með konur bæði við völd í lykilríkjum svæðisins, Frakklands og Þýskalands, en dr. Angela Merkel hefur eins og flestir vita verið kanslari Þýskalands frá nóvember 2005.

Royal er viss vonarneisti evrópskra vinstrimanna og verður því vel fylgst með mælingu á henni og vinstrinu í forsetaeinvíginu við Sarkozy. Reyndar má segja með vissu að Jacques Chirac, fráfarandi forseti Frakklands, verði ekkert hoppandi glaður með sigurvegarann hvor sem hann verður, þó hann hafi lýst yfir stuðningi við Sarkozy. Milli þeirra hefur verið kuldalegt en þeir hafa greinilega grafið stríðsöxina sem svo mjög hefur svifið yfir samskiptum þeirra frá forsetakosningunum 1995 er Sarkozy studdi frekar Edouard Balladur en Chirac í fyrri umferðinni.

Það eru spennandi vikur í frönskum stjórnmálum. Nýr forseti verður svarinn í embætti þann 17. maí. Chirac hefur ekki fyrr kvatt og látið lyklana að Elysée-höll í hendur eftirmannsins en það skella á þingkosningar. Þar verður enn ein sterka mælingin á hægri og vinstri. Kosið verður 10. og 17. júní. Þar kemur mæling á valdablokk nýja forsetans og hversu sterkur hann/hún verður í raun næstu fimm árin og hvort til komi kannski stirð valdasambúð hægri og vinstri líkt og árin 1997-2002.

mbl.is Ný könnun: Sarkozy með meira fylgi en Royal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband