Hvar er allt "fræga" fólkið?

Íslandshreyfingin Ég varð svolítið hissa áðan þegar að ég sá nöfnin yfir efstu menn á lista Íslandshreyfingarinnar hér í Norðausturkjördæmi. Þar eru nöfn sem ég kannast ekki við. Biðin eftir þessum lista og fleirum frá þessum flokki hefur verið nokkur og átti maður von á að þau myndu flasha einhverjum stórnöfnum til að reyna að hífa flokkinn úr þeirri vondu stöðu sem hann er í almennt í skoðanakönnunum.

Ekki eru þessi frægu nöfn að koma fram til sögunnar til framboðs og ekki sjást þau hér allavega í þessari nafnarunu, þó eflaust sé þetta allt hið mætasta fólk. Það er greinilega stórvandi þessa flokks að hann segist vera hægri grænn. Hvar er þá allt hægrafólkið? Það er von að spurt sé þeirrar stóru spurningar. Á þetta kannski að vera flokkur til vinstri í dulargervi? Á kannski að reyna að segja manni að lykilforystufólkið þarna utan mögulega Ómars Ragnarssonar sé ættað frá hægri?

Það er greinilegt skv. skoðanakönnunum að þessum flokki er ekki að takast með neinu móti að eiga nein þáttaskil í pólitískri umræðu. Hann er ekki að taka neitt fylgi frá hægri. Hann er að taka frá vinstri. Og ekki er ég hissa lítandi yfir þann mannskap sem þau hafa. Ég er ekki fjarri því að telja að tilkoma þessa flokks hafi verið hin mesta blessun sem Sjálfstæðisflokkurinn gat orðið vitni að í þessari kosningabaráttu.

mbl.is Hörður Ingólfsson í fyrsta sæti Íslandshreyfingarinnar í NA-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sarko-Sego áfram í seinni umferð í Frakklandi

sarko-sego Það er nú ljóst að Nicolas Sarkozy og Segolene Royal munu berjast um franska forsetaembættið í seinni umferð forsetakosninganna þann 6. maí er eftirmaður Jacques Chirac verður kjörinn. Sarkozy vann sigur í fyrri umferðinni með 30% atkvæða en Royal hlaut rúm 25%. Næst þeim er miðjumaðurinn Francois Bayrou með tæp 20%. Þjóðernisöfgamaðurinn Jean-Marie Le Pen sem komst óvænt í seinni umferð forsetakosninganna 2002 fékk rúm 11% nú.

Kjörsókn í þessari fyrri umferð forsetakosninganna var hin mesta frá forsetakosningunum 1981. Þá vann Valery Giscard d´Estaing, sitjandi forseti, fyrri umferðina en tapaði forsetakosningunum er á hólminn kom fyrir Francois Mitterrand, sem sat á forsetastóli í fjórtán ár. Mikill andi óvissu hvíldi yfir þessari fyrri umferð forsetakosninganna nú. Í síðustu könnunum sem birtust á föstudag var þriðjungur kjósenda óákveðinn og því erfitt að lesa í stöðuna. Um var að ræða mestu óvissu fyrir franskar forsetakosningar í áratugi og nær ómögulegt var að spá með vissu þó flestir hefðu hugmyndir um stöðuna.

Flestir hafa þó í gegnum þessa kosningabaráttu talið að þetta yrði að lokum einvígi Sarkozy og Royal. Fjölmiðlar í Frakklandi hafa allt frá vorinu 2006 talað um forsetakosningarnar 2007 sem Sarko-Sego kosningar. Það mun fara svo að lokum. Þau eru hefðbundnar andstæður vinstri og hægri og því eru valkostirnir eins afgerandi og þeir geta í raun orðið. Þungu fargi er væntanlega létt af sósíalistum við úrslit fyrri umferðarinnar, þó að Sarkozy hafi unnið hana. Margir þeirra óttuðust að eins færi fyrir Royal og Lionel Jospin vorið 2002 er hann var sleginn harkalega út af taflborði franskra stjórnmála í einu höggi.

Þessar kosningar marka endalok litríks stjórnmálaferils Jacques Chirac, forseta Frakklands, sem hefur verið lykilspilari í frönskum stjórnmálum í áratugi og verið áberandi þar allt frá valdadögum stríðskempunnar Charles De Gaulle. Það verður fróðlegt hver mun taka við af honum er á hólminn kemur. Barátta næstu vikna verður eflaust æsispennandi. Munurinn á milli Sarkozy og Royal er ekki afgerandi mikill. Kannanir síðustu vikna hafa sýnt Sarkozy sterkari en Royal sé spurt um afstöðu til þeirra beggja. Það verður fróðlegt að sjá þróun kannana næstu dagana.

Forseti Frakklands er einn af lykilleikmönnum stjórnmálanna, bæði innan Evrópusambandsins og á alheimsvísu, enda einn valdamesti stjórnmálamaður heims. Það verður fylgst vel með því hvort að hægri- eða vinstribylgja verður í Frakklandi eftir hálfan mánuð er nýr húsbóndi í Elysée-höll verður kjörinn. Fyrri umferðin gefur ekkert afgerandi til kynna, nema það að staða Sarkozy sé vænlegri.

En það er í raun erfitt að fastsetja neitt og því spennandi lokasprettur framundan í Frakklandi milli þessara afgerandi fulltrúa klassískra meginpóla í stjórnmálum.

mbl.is Sarkozy og Royal áfram samkvæmt útgönguspám
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin eykur þingmeirihluta sinn

Ríkisstjórn Geirs H. Haarde Ríkisstjórnin eykur þingmeirihluta sinn í nýjustu skoðanakönnun Fréttablaðsins sem birt er í dag; Framsóknarflokkurinn hækkar milli vikna og mælist með sjö þingsæti og Sjálfstæðisflokkurinn hefur 29 þingmenn og yfir 40% fylgi. Samfylking og VG mælast nærri jafnstór á meðan að Frjálslyndi flokkurinn mælist fallinn af þingi með engan þingmann rétt eins og Íslandshreyfingin.

Þessi könnun boðar merkileg tíðindi. Hún sýnir traustan meirihluta stjórnarflokkanna, meira að segja traustari en hann er í dag. Framsóknarflokkurinn virðist vera að rétta úr kútnum og auka fylgi sitt. Samfylkingin bætti við sig í síðustu viku í kjölfar landsfundar. Sú sveifla gengur snarlega til baka og flokkurinn fellur lóðbeint í sama 20% farið sem hann hafði fyrir landsfund. Könnunin sýnir því yfir 10% fylgistap Samfylkingarinnar frá kosningunum 2003 og að hann sé helmingi minni en Sjálfstæðisflokkurinn.

Það er merkilegt að sjá trausta stöðu Sjálfstæðisflokksins og góða mælingu ríkisstjórnarinnar. Það virðist vera sem að tilkoma Íslandshreyfingarinnar sé það besta sem fyrir stjórnarflokkana hefur komið í langan tíma. Það verður áhugavert að sjá hvort að tilkoma þess framboðs tryggi traustan og öruggan þingmeirihluta ríkisstjórnarinnar eftir 20 daga.

Sjálfstæðisflokkurinn drottnar yfir Suðurkjördæmi

Könnun í Suðurkjördæmi Skv. kjördæmakönnun Gallups í Suðurkjördæmi mælist Sjálfstæðisflokkurinn með fimm kjördæmakjörna þingmenn og rúmlega 10% meira fylgi en í kosningunum 2003. VG bætir við sig miklu fylgi á meðan að Samfylking og Framsóknarflokkur missa talsvert fylgi og kjördæmakjörinn mann. Íslandshreyfingin nær ekki flugi.

Mikla athygli vekur að aðeins tvær konur mælast inni, báðar frá Sjálfstæðisflokknum. Aðeins einn Suðurnesjamaður mælist inni, Björk Guðjónsdóttir, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, en þetta er fjölmennasta svæði kjördæmisins.

Sjálfstæðisflokkurinn: 40,9% - (29,2%)
Samfylkingin: 24% - (29,7%)
Framsóknarflokkurinn: 14,2% - (23,7%)
VG: 13,7% - (4,7%)
Frjálslyndi flokkurinn: 4,8% - (8,7%)
Íslandshreyfingin: 2,2%
Baráttusamtökin 0,3%

Þingmenn skv. könnun

Árni M. Mathiesen (Sjálfstæðisflokki)
Árni Johnsen
Kjartan Ólafsson
Björk Guðjónsdóttir
Unnur Brá Konráðsdóttir

Björgvin G. Sigurðsson (Samfylkingu)
Lúðvík Bergvinsson

Guðni Ágústsson (Framsóknarflokki)

Atli Gíslason (VG)

Fallin skv. könnun

Drífa Hjartardóttir
Guðjón Hjörleifsson
Gunnar Örn Örlygsson (féllu öll í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins)

Þetta er merkileg mæling vissulega. Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin tapa eins og fyrr segir nokkru fylgi og missa þingmann. Þetta virðist vera fylgistrendið um allt land. Sérstaklega er áfall Framsóknarflokksins mikið í könnuninni og yrði útkoma í einhverri líkingu við þetta umtalsvert pólitískt áfall fyrir Guðna Ágústsson, varaformann Framsóknarflokksins. Frjálslyndir mælast örlítið lægri kjörfylginu 2003 og missa þingmann sinn. Íslandshreyfingin virðist ekki vera að fá neitt alvöru start og virðist vandræði flokksins vera að sjást vel í fylgisleysi.

Sjálfstæðisflokkurinn stendur mjög vel yfir kjörfylginu og með fimm kjördæmakjörna þingmenn. Sá fimmti er reyndar mjög tæpur, en þetta er gríðarlega góð mæling. Þeir fengu vondar kosningar í þessu sterka kjördæmi sínu árið 2003, en þar varð mjög vondur klofningur með sérframboði þingmannsins Kristjáns Pálssonar þess valdandi að flokkurinn missti forystu á svæðinu til Samfylkingarinnar og hlaut ekki fjórða manninn. Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera að ná fyrri flugi og endurheimta lykilstöðu í góðu vígi sínu.

VG bætir umtalsverðu fylgi við sig og eru greinilega á mikilli siglingu í kjördæminu undir forystu Atla Gíslasonar. Þeir hafa þó verið að mælast með tvo en missa nú nokkuð fylgi milli kannana og hafa nú aðeins Atla inni. Ef marka má þessa mælingu eru Bjarni Harðarson og Róbert Marshall báðir utan þings, sem hljóta að teljast mikil tíðindi. Það er þó stutt í þá báða í þessari mælingu og er t.d. Framsóknarflokkurinn að bæta stöðu sína milli kjördæmakannana.

Það er auðvitað gleðiefni að sjá þessa góðu stöðu sjálfstæðismanna en ég tel að stóra stjarna þeirra í þessum kosningum verði vinkona mín, Unnur Brá - í fimmta sætinu. Hún mælist þarna inni, sem eru mikil gleðitíðindi. Hún er greinilega í baráttusætinu þeirra og er hiklaust ferskasti kosturinn í baráttusæti þarna. Það er greinilegt að hún er að stimpla sig inn þarna og á marktæka möguleika á þingsæti skv. þessu.

En þetta er vissulega athyglisverð mæling, sem gefur ágætis vísbendingar og pælingar í pólitísku umræðuna. Margir eru þó óákveðnir og spennandi 20 dagar sannarlega framundan í kosningabaráttunni þar.

mbl.is Sjálfstæðisflokkur bætir við sig tveimur þingmönnum í Suðurkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Hillary Clinton að missa tökin á stöðunni?

Hillary Rodham Clinton Fram til þessa hefur það verið metið nær öruggt að Hillary Rodham Clinton yrði frambjóðandi demókrata á næsta ári og myndi eiga auðvelt með að næla í útnefninguna í forkosningum. En það er ekki tekið út með sældinni að vera lengi í forystu svona kapphlaups og það getur snúist upp í öndverðu sína er á hólminn kemur að lokum. Það er öllum ljóst að Barack Obama hefur sótt mjög á Hillary og eygir alvöru möguleika á því að jafnvel sigra hana er á hólminn kemur.

Fyrir forsetakosningarnar 2004 var mikið skorað á Hillary Rodham Clinton að gefa kost á sér gegn George W. Bush. Þá hefði hún getað snúið allri samkeppni upp bara með því að blikka augunum til flokksmanna. Hillary fór ekki fram enda vildi hún standa við loforð til íbúa í New York um að klára kjörtímabil sitt. Hún var hyllt sem sigurhetja væri á flokksþinginu í Boston árið 2004 og þau hjónin voru stjörnur þingsins þar sem krýna átti John Kerry sem forsetaefni flokksins í heimaborg sinni. Stjörnumáttur þeirra var þar yfirgnæfandi allt þingið, þó sérstaklega væri gætt upp á að þau kæmu saman fram bara fyrsta þingdaginn.

Það verða mikil tíðindi ef Hillary myndi tapa fyrir t.d. Barack Obama eða einhverjum öðrum. Barack Obama hefur saxað mjög síðustu vikurnar á forskot Hillary Rodham Clinton í baráttunni. Það er greinilegt að æ fleiri líta á hann sem raunverulegan valkost. Ljóst er nú að blökkumenn eru í æ ríkari mæli að horfa til hans og segja skilið við Hillary og þeir hópar sem voru síður að gefa sig upp áður horfa nú frekar til blökkumannsins frá Illinois sem vonarstjörnu en Hillary. Þetta eru vissulega mikil tíðindi - þessi mæling sýnir vel að Hillary er fjarri því örugg um útnefningu flokksins og framundan er hörð barátta. Obama virðist hafa veðjað á rétt.

Obama hefur enda engu að tapa með framboðinu og mun aðeins styrkja sig hvernig sem fer, ólíkt Hillary sem hefur miklu að tapa nái hún ekki útnefningunni, sem flestir hafa talið hennar eftir ósigur John Kerry í forsetakosningunum 2004. Obama er ekki í ólíkri stöðu nú og John Edwards við síðustu forsetakosningar, sem maður er tekur áhættuna vitandi að hann tapar engu hvernig sem fer. Hann mun aðeins eflast og það verulega - stimplar sig inn. Það hlýtur að fara um Clinton-hjónin í þessari stöðu. Það er alveg ljóst að tapi Hillary mun ekki aðeins hún veikjast verulega á þessari áhættu sem fylgdi framboðinu heldur líka eiginmaður Hillary, Bill Clinton, 42. forseti Bandaríkjanna.

Þau munu leggja allt sitt í framboðið og sækja bæði alla peninga sem þau geta safnað og leita í allar áttir stuðningsmanna sem þau telja mögulega geta styrkt framboðið. Það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir Hillary að stjörnurnar í Hollywood og peningamenn í Kaliforníu eru í æ ríkari mæli að horfa til Obama. Til dæmis hefur áhrifamaður í Hollywood á borð við Steven Spielberg, sem ávallt hefur fylgt þeim hjónum til þessa, veðjað á Obama. Bill og Hillary Rodham Clinton lögðu grunn að þessu framboði með forsetatíðinni 1993-2001 og eiga víða vini og kunningja. Þau stóla nú á að það muni tryggja forsetafrúnni á þeim tíma vist í Hvíta húsinu nú.

Þau munu sækja inni alla greiða sem þau mögulega geta tryggt og leita víðar en það. Það sem eitt sinn var talið sigurganga Hillary gæti nú orðið þyrnum stráð og verulega erfið. Þetta gæti orðið þrautaganga og öllum er ljóst að Hillary skaðast verulega sem sterkur stjórnmálamaður og stjörnuljómi innan flokksins með tapi. Clinton forseti veit líka hvað er í húfi. Tap fyrir nýja vonarneistanum gæti orðið þungt til lengri tíma litið. Þetta verður því verulega harður slagur - óvæginn og hvass.

Obama þykir hafa sjarmann og útgeislunina sem t.d. John F. Kennedy hafði fyrir hálfri öld og virðist maður nýrra tíma meðal demókrata, ekki ósvipað því sem Bill Clinton var á sínum tíma. Fram að þessu hefur Hillary þótt stjarna á sviði flokksins. En er Hillary búin að missa sinn sjarma? Er hún að missa tökin á stöðunni? Þetta eru stórar spurningar óneitanlega. Margir hafa nefnt að sterkt væri að þau yrðu leiðtogapar flokksins. Það hefur hinsvegar breyst, enda hefur staða Obama styrkst mjög síðustu vikurnar og hann virðist geta komist langt án allrar hjálpar. Hann hefur þegar útilokað með afgerandi hætti að verða varaforsetaefni framboðs Hillary.

Við þetta hljóta Clinton-hjónin að vera hrædd, enda hefur Hillary verið markaðssett sem stjarna flokksins og með hinn fullkomna pólitíska maka sér við hlið. Þær sögusagnir ganga svo að Clinton forseti gæti orðið varaforsetaefni eiginkonu sinnar. Það er ekkert í lögum sem bannar það, en sögulegt yrði það næði Hillary útnefningunni. Það er reyndar ólíklegt en það er ekki þaggað á stórt hlutverk Clintons forseta, skv. þessari moggafrétt hér neðst. Þar er talað um að hann verði jafnvel farandsendiherra í nafni Bandaríkjanna. Ekki skortir honum reynsluna en við blasir að Hillary ætlar að reyna að nota til fulls vinsældir hans meðal þjóðarinnar.

En þetta verða bæði sögulegar og áhugaverðar forsetakosningar. Þetta verða fyrstu forsetakosningarnar frá árinu 1952 þar sem hvorki forseti eða varaforseti eru í kjöri og miklar breytingar blasa við. Persónulega taldi ég alltaf að Hillary myndi vinna hjá demókrötum og við myndum fá að ári eftir forkosningar að sjá loksins sögulega öldungadeildarslaginn í New York sem stefndi lengi vel í að yrði aðalslagurinn í kosningunum 2000 en varð svo aldrei af vegna veikinda annar þeirra; semsagt keppni milli Hillary Rodham Clinton og Rudolph Giuliani.

En maður er farinn að efast nú. Mun Obama stela sviðsljómanum af sjálfri Hillary, taka af henni tækifæri ferilsins? Jahérna, það yrði rosaleg frétt færi svo. Það er allavega ljóst að fáir spá nú afgerandi sigri Hillary og þetta gæti orðið mjög jafnt, jafnvel svo að forsetafrúin fyrrverandi sæti eftir með sárt ennið.

mbl.is Vill nýta vinsældir Clintons til að bæta ímynd Bandaríkjanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reykjavíkurborg kaupir brunarústirnar

Stórbruni í miðbæ Reykjavíkur Ein helsta frétt dagsins er að Reykjavíkurborg stefnir að því að kaupa húsin sem brunnu í miðbæ Reykjavíkur á síðasta vetrardag. Það kom greinilega í ljós með afgerandi hætti strax á þeirri stundu er húsin stóðu í ljósum logum að borgin vildi fylgja málum þar eftir. Þá kom enda borgarstjóri strax með þá pólitísku yfirlýsingu að götumyndin á svæðinu ætti að halda sér eftir uppbyggingu sama hvernig færi.

Það er skiljanlegt að Reykjavíkurborg vilji fylgja þessu máli eftir, enda er um að ræða elstu heillegu götumynd borgarinnar og svæði sem skiptir án nokkurs vafa talsverðu máli. Þetta er viðkvæmt svæði sem þarf að hafa umsjón með að fari ekki á einhverjar villuslóðir. Samt sem áður er það eflaust mjög umdeilt að borgin sé að kaupa þetta svæði upp og vinna málið með þeim hætti. Ég verð nú að segja það alveg eins og er að það er stórt spurningamerki í huga mér yfir því hvort það sé rétta leiðin. En ég er svosem ekki kjósandi í Reykjavík og sé þetta frá annarri hlið.

Í dag var Hrafn Gunnlaugsson, leikstjóri, gestur í hádegisviðtalinu á Stöð 2. Hrafn hefur ekki farið troðnar slóðir við að tjá skoðanir og hefur sérstaklega verið ófeiminn við að tjá sig um skipulagsmál í Reykjavík. Sumir eru ekki ánægðir með skoðanir hans, aðrir fagna þeim. Ég er einn þeirra sem sá báða þætti hans þar sem hann teiknar upp lifandi myndir af skipulagsbreytingum og leikur sér með lifandi form þeirra. Það voru áhugaverðar myndir og margar aðrar hugmyndir lifnuðu við í kjölfar þeirra. Til dæmis var þar komið með flugvallarkost á Lönguskerjum og talað um að byggja hátt og byggja meira við ströndina.

Hrafn gaf lítið fyrir þessar pælingar um að vernda götumyndina og sagði sem rétt er að menn byggja ekki fornminjar frá grunni aftur. Þegar þær eru farnar eru þær svo sannarlega farnar veg allrar veraldar. Hann kallaði þessa pólitík meirihlutans vinsældapólitík á örlagastundu. Það er kannski eitthvað til í því. Þetta var allavega viðtal sem var áhugavert að sjá. Hrafn hefur þann stóra kost að tala máli sem er auðvelt að skilja og setja fljótt í samhengi. Hann vill greinilega nota tækifærið og byggja með öðrum hætti á þessu brunarústasvæði og gaf lítið fyrir forna götumynd.

Ég veit ekki hvað er rétt í þessu. Persónulega finnst mér þó rétt að gera engar drastískar breytingar á þessari götumynd. En ég efast um að ég myndi vera talsmaður þess að Akureyrarbær keypti upp brunasvæði dýrum dómum þó á viðkvæmu svæði væri svo að ég hugsi málið frá mínum sjónarhóli í eigin sveitarfélagi. Þetta er eflaust umdeilt og sitt sýnist hverjum.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig byggt verður á þessu svæði og hvaða starfsemi verður þar. Varla ætlar borgin að eiga þau hús sem þar rísa.

mbl.is Reykjavíkurborg vill kaupa hús sem urðu eldi að bráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ná Jón Sigurðsson og Jónína Bjartmarz á þing?

Jón Sigurðsson Það blæs ekki byrlega fyrir Framsóknarflokknum í Reykjavík. Þegar að þrjár vikur eru til kosninga mælast Jón Sigurðsson, viðskiptaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, og Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra, utan þings æ ofan í æ. Örlög þessarar ríkisstjórnar munu að mínu mati ráðast fyrst og fremst með því með hvort að formaður Framsóknarflokksins nái kjöri á Alþingi, þ.e.a.s. haldi ríkisstjórnin hvort eð er meirihluta sínum. Ef Jón nær ekki á þing er að mínu mati erfitt að líta á Framsóknarflokkinn sem stjórntækan.

Kannanir eru Framsóknarflokknum mjög erfiðar nú um stundir. Það að formaður flokksins sé að mælast svo veikur og utan þings marga mánuði í röð og sjái ekki til sólar hlýtur að sliga mjög flokkinn. Sérstaklega miðað við að þetta er maður sem ekki hefur verið lengi í stjórnmálum og ætti því varla að bera þungar byrðar fortíðar með sér. Kannski er það þó eftir allt veikleiki hans, að vera ekki sterkur stjórnmálamaður með fortíð, hafa ekki suma þungann pólitískt og Halldór Ásgrímsson hafði í þingkosningunum 2003, sem leiðtogi sem leiddi vagninn rétta leið að lokum.

Í dag birtist könnun í Reykjavík suður sem er enn eitt áfallið fyrir Framsóknarflokkinn. Þar mælist Jónína Bjartmarz enn utan þings og vantar enn þónokkuð upp á að eygja von á öruggu þingsæti. Það verður Framsóknarflokknum gríðarlegt áfall nái hann ekki fótfestu í Reykjavík og þurrkist út. Það myndi um leið lama borgarstjórnarflokk Framsóknarflokksins umtalsvert og verða flokknum þung byrði. Ég tel stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks feigt sem alvöru samstarfskost, haldi það velli, nái þessi forni flokkur valda og áhrifa ekki fótfestu í höfuðborginni er á hólminn kemur, í takt við skoðanakannanir.

Það er vandséð hvernig að Sjálfstæðisflokkurinn geti horft til þess samstarfs fái Framsóknarflokkinn þennan þunga dóm í Reykjavík sem kannanir sýna æ ofan í æ. Reyndar er sviðin jörð um allt land skv. könnunum fyrir flokkinn. Meira að segja gömlu lykilvígin hafa bognað til. Staða Framsóknarflokksins hér í Norðaustri mælist ekki góð. Það er orðið óralangt síðan að Framsókn mældist með fleiri en tvo þingmenn hér. Í síðustu kosningum fengu framsóknarmenn hér fjóra menn en hafa hrapað mjög síðan. Í Suðurkjördæmi á Guðni Ágústsson í vök að verjast og Siv Friðleifsdóttir heyr þunga baráttu í Kraganum.

Á vef sínum í dag kemur Björn Ingi Hrafnsson með varnarræðu til framsóknarmanna. Þar er talað fyrir því að standa vörð um Jón og Jónínu í Reykjavík og halda lykilmönnum á landsbyggðinni. Eins og staðan er núna sér flokkurinn ekki mikla von í nýju þingmönnum sínum í Reykjavík. Allar kannanir sýna Guðjón Ólaf og Sæunni Stefáns kolfallin í Reykjavík. Höskuldur mælist úti í Norðaustri, langt er í Samúel Örn í Kraganum og Helgu Sigrúnu í Suðrinu og Herdís lifir í voninni í Norðvestri. Svona mætti lengi telja. Það verður Framsókn þungt högg að enda með aðeins lykilmennina inni og jafnvel aðeins Birki Jón sem eina einstaklinginn undir fertugu inni.

Það er vörn yfir merkjum Framsóknarflokksins í þessari kosningabaráttu. Það blæs ekki byrlega fyrir flokknum þrem vikum fyrir kosningar. Þar er lifað í voninni um að það sama endurtaki sig og gerðist á lokasprettinum 2003. Þar var tapaðri skák snúið við og Framsókn náði að spila síðustu leiki skákarinnar sér í vil. Sama lukkustjarnan er ekki komin til sögunnar en framsóknarmenn bíða og vona. Á meðan berst formaður Framsóknarflokksins fyrir pólitísku lífi sínu í Reykjavík og umhverfisráðherrann stendur veikt í von um endurkjör. Þetta er ekki glæsileg staða fyrir flokk sem hefur haft völd áratugum saman.

Nú er komið að örlagastundu fyrir Framsóknarflokkinn. Hvernig mun lífróðrinum ljúka? Þetta er stór spurning, sem brátt fæst svar við. Það verða þung örlög fyrir elsta starfandi stjórnmálaflokk landsins falli taflið ekki þeim í vil á lokasprettinum. Þar verður þungur skellur þann 13. maí fari allt á versta veg. Hvað verður um Jón Sigurðsson falli hann fyrir borð, verði hafnað af kjósendum í sinni fyrstu og örlagaríkustu kosningabaráttu?

Spurningarnar eru margar - svörin fást ekki að fullu fram fyrr en síðla kvölds 12. maí en munu þó eflaust afhjúpast að vissu marki þó stig af stigi dag hvern næstu þrjár vikurnar.

Hver er Jón Sigurðsson?
pistill SFS - 20. ágúst 2006

Nöturlegur harmleikur í skugga eineltis

Cho Seung-hui Það hefur verið lærdómsríkt að fylgjast með fréttum frá Bandaríkjunum síðustu dagana í skugga harmleiksins í Virginia Tech. Ekkert hefur verið ofar á baugi, enda er þetta skelfilegasta skotárás í sögu landsins. Vettvangur hennar var friðsælt skólahverfi. Það vekur margar spurningar og skiljanlegt að reynt sé að fá svör við stórum spurningum.

Það er greinilegt að skotmaðurinn, nemandinn í Virginia Tech, var tifandi tímasprengja og með algjörum ólíkindum að ekki hafi verið búið að bregðast við honum. Öll saga hans er hrópandi áminning um að eitthvað átti að gera. Það er sannkallaður áfellisdómur yfir fjölda hlutum í bandarísku kerfi og það verður að leita svara við því hví ekkert var gert. Einnig er ljóst að hann sætti miklu einelti í skólanum, hann var greinilega að höggva gegn því.

Heiftin sem sést í skotmanninum í myndbandinu sem farið hefur um allan heim, verið þar sýnt í fréttatímum og verið í umræðunni er ógnvænlega mikil. Þetta var niðurbæld ólga gegn öllu í kringum hann. Það er fyrir það fyrsta með ólíkindum að tveir tímar liðu milli skotárásanna tveggja. Það er ófyrirgefanlega langur tími og með ólíkindum að ekkert hafi verið að gert. Það er því margt sem finna má að og það eru mörg spurningamerki til staðar í þessu máli, sem verður að svara. Það er löngu vitað að einelti getur kveikt elda ólgu í huga þeirra sem verða fyrir og það getur brotist út með krafti.

Allir sem hafa kynnt sér skotárásina í Columbine í apríl 1999 hafa séð að það var þáttur sem skipti þar máli. Skotmennirnir þar voru einfarar í skólanum, menn sem voru í skugga félagslífsins og lifðu sínu lífi, voru í eigin heimi. Það sama virðist hafa verið tilfellið í þessu máli. Að því leyti er fjöldamorðinginn í Virginia Tech skólabókardómi um einstaklinga sem fremja slíkt voðaverk. Hann fellur í sama ramma og Eric Harris og Dylan Klebold í Columbine. Ég hef lesið bækur og séð heimildarmyndir um Columbine-málið. Það er ótrúlega margt líkt með þessu tvennu.

Það virðist líka vera að Cho Seung-Hui hafi stúderað Harris og Klebold og hann talar um þá sem píslarvætti í myndbandinu. Það er því greinilegt hver fyrirmyndin sé. Þeir Harris og Klebold hafa reyndar öðlast sess í huga margra Bandaríkjamanna og er enginn vafi að Columbine er í senn bæði cult-fyrirbæri margra og fjöldi ungra Bandaríkjamanna líta á Harris og Klebold sem uppreisnarmenn sem hafi gert það eina sem þeir gátu gert. Skelfilegur hugsunarháttur það.

Það má spyrja sig að því hvort að einelti hafi verið einn aðalþáttur þess hvernig fór í Virginia Tech eða hliðarþáttur. Því fæst eflaust aldrei svarað með vissu, þó margt bendi til þess að það hafi ráðið miklu. Það er skiljanlegt að fjölskylda þessa námsmanns sé í rusli. Þetta er erfitt tilfelli fyrir fjölskyldu og eftir standa mun fleiri spurningar en nokkru sinni svör.

mbl.is Fjölskylda fjöldamorðingjans: Þetta myrkur er yfirþyrmandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einlæg iðrun og skapgerðarbrestir

Kim Basinger og Alec Baldwin Leikarinn Alec Baldwin hefur alla tíð verið þekktur fyrir það að vera skapmikill og önugur ef eitthvað gengur honum á móti. Þessar fréttir um símskilaboðin sem hann sendi til dóttur sinnar hefur verið honum til skammar og hann hefur nú beðist afsökunar. Það hefur reyndar verið mikill hiti í einkalífi Baldwins um áralangt skeið og átök hans fyrir forræði dótturinnar verið mikið í fréttum.

Einu sinni voru Alec Baldwin og Kim Basinger mjög ástfangið par í Hollywood og áberandi í slúðurumræðunni. Þau voru mjög í sviðsljósinu. Þau léku saman t.d. fyrir þrettán árum í endurgerð kvikmyndarinnar The Getaway, þar sem leikarahjónin Steve McQueen og Ali MacGraw fóru á kostum árið 1972, sem var ein besta mynd ferils þeirra. Endurgerðin þótti vera nokkuð floppuð og myndin féll mjög í skugga forverans sem hefur öðlast sögulegan sess í kvikmyndasögunni.

Þegar að Kim Basinger fékk óskarinn, mörgum að óvörum, í mars 1998 fyrir túlkun sína í L.A. Confidential var Alec við hlið hennar og gladdist mjög. Frægar voru myndirnar af þeim þetta kvöld í kvikmyndaborginni þar sem hann var ekki síður í sviðsljósinu en verðlaunaleikkonan. Sigur Basinger var reyndar umdeildur, enda töldu margir að Gloria Stuart hefði frekar átt verðlaunin skilið fyrir túlkun sína í Titanic. Basinger var hiklaust stjarna myndarinnar, en L.A. Confidential er hiklaust ein af eftirminnilegustu kvikmyndum tíunda áratugarins, rómuð svört undirheimamynd, hin besta frá Chinatown árið 1974.

Það er æði langt síðan að glamúrinn rann af Basinger og Baldwin. Bitbein þeirra allt frá harkalegum skilnaði hefur verið dóttirin Ireland, mjög athyglisvert nafn vissulega, og hagur hennar. Þessi símskilaboð láku til fjölmiðla og sýnir vel heiftina í Baldwin og skapgerðarköst hans. Ekki bæta þau fyrir honum í baráttunni fyrir forræði t.d. Iðrun hans í yfirlýsingu til fjölmiðla er jafnvel sönn en þetta mál hefur skaðað mjög fyrir honum. Spurning hvort að það fylgi honum lengi, en það er þó alveg víst að hann hefur litla stjórn á sér í þessum málarekstri.

En það er vissulega skondið að fylgjast með lífi stjarnanna og jafnvel vandræðalegustu mál geta orðið forsíðuuppsláttur.

mbl.is Baldwin biðst afsökunar á skömmunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterk staða Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík suður

Könnun í Reykjavík suðurSkv. kjördæmakönnun Gallups í Reykjavík suður mælist Sjálfstæðisflokkurinn með fimm kjördæmakjörna þingmenn. Samfylkingin mælist næststærst, er því stærri en VG en báðir flokkar hafa tvo kjördæmakjörna menn. Samfylking og Framsókn missa kjördæmakjörinn þingmann. Íslandshreyfingin er stærri en Framsókn en fær ekki þingmann frekar en Frjálslyndir.

Sjálfstæðisflokkurinn: 42,5% (38,3%)
Samfylkingin 24,9% (33,3%)
VG: 18,8% (9,3%)
Íslandshreyfingin: 5,4%
Framsóknarflokkurinn: 4,5% (11,3%)
Frjálslyndi flokkurinn: 3,9% (6,6%)
Baráttusamtökin 0%

Þingmenn skv. könnun

Geir H. Haarde (Sjálfstæðisflokki)
Björn Bjarnason
Illugi Gunnarsson
Ásta Möller
Birgir Ármannsson

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Samfylkingu)
Ágúst Ólafur Ágústsson

Kolbrún Halldórsdóttir (VG)
Álfheiður Ingadóttir

Fallin skv. könnun

Jónína Bjartmarz
Sæunn Stefánsdóttir
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir
Mörður Árnason

Þetta er merkileg niðurstaða. Framsóknarflokkurinn tapar miklu fylgi og Jónína Bjartmarz og Sæunn Stefánsdóttir eru órafjarri þingsæti. Frjálslyndir falla niður og eru minni en Íslandshreyfingin sem stendur nær þingsæti en í könnun fyrir nokkrum vikum. Sjálfstæðisflokkurinn stendur mjög vel með fimm kjördæmakjörna og gætu eygt möguleika á sjötta manni í þessari stöðu, Dögg Pálsdóttur, hæstaréttarlögmanni. Samfylkingin tapar nokkru fylgi og missir einn kjördæmakjörinn mann í stöðunni og Mörður Árnason er kolfallinn af þingi skv. þessu. VG bætir miklu við sig en missir nokkuð frá síðustu kjördæmakönnun.

Þetta er allavega athyglisverð mæling, sem gefur ágætis vísbendingar og pælingar í pólitísku umræðuna.


mbl.is Sjálfstæðisflokkur bætir við sig þingmanni í Reykjavík suður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dramatískur föstudagur í Houston

Umsátrið við NASA Það var dramatískt að fylgjast með fréttamyndunum frá umsátrinu við NASA í Houston í kvöld. Umsátri lögreglu þar lauk með því að vopnaður maður framdi sjálfsmorð og skaut til bana annan gísl sinn. Þessi atburður varð á þeim degi er átta ár voru liðin frá fjöldamorðinu í Columbine-skólanum í Denver. Kuldaleg áminning um þann skelfilega dag, sem skók Bandaríkin.

Bandaríska þjóðin er enn að jafna sig á fjöldamorðunum í Virginia Tech á mánudag. Það er þjóðarsorg í Bandaríkjunum. Það er ekki fjallað um annað vestanhafs en þennan blóðuga mánudag og bakgrunn alls sem fylgdi þessu skelfilega fjöldamorði. Þetta var svartur endir á vondri viku í bandarísku samfélagi. Það var ekki löng stund liðin frá því að fregnast hafði af því sem var að gerast í Houston er fréttastöðvarnar voru komnar með útsendingu þaðan og var sjónarhornið á húsið úr flugvél það fyrsta sem blasti við er ég skipti yfir á erlenda fréttastöð.

Það er ekki hægt að komast hjá því að þessir sorglegu atburðir leiði til spurninga um hvert bandarískt samfélag er að stefna. Þetta er napur vitnisburður slæmra tíðinda. Það mun taka langan tíma fyrir bandarískt samfélag að jafna sig á mánudeginum blóðuga í Virginia Tech. Minningin um þriðjudaginn 20. apríl 1999 vaknaði mjög skarpt þann dag og það var kuldalegt að heyra fyrst fréttir um það sem var að gerast í Houston á sama degi, 20. apríl.

Það er erfitt um að spá hvaða eftirmálar þessar tvær skotárásir hafa, þær eru reyndar ólíkar en samt ansi skelfilegar. Eflaust hefst einhver umræða um hvort breyta eigi hinum umdeildu bandarísku byssulögum. Fyrst og fremst vekur þetta spurningar um veikar hliðar bandarísks samfélags. Það er með ólíkindum að heyra meira af fjöldamorðingjanum í Virginia Tech, sem var klassískt tilfelli fjöldamorðingja og ótrúlegt að ekki hafði verið brugðist við honum.

Það er reyndar erfitt að taka á svona tilfellum. Þetta eru tifandi tímasprengjur. Sérstaklega verður fróðlegt að heyra meira um bakgrunn þess sem stóð fyrir umsátrinu í Houston. Það þarf varla að deila um hvert verði aðalfréttaefni bandarískra fjölmiðla næstu dagana eftir þessa blóðugu viku í rólegu bandarísku samfélagi, þar sem engin aðkallandi ógn eða vígvöllur blasir við.

mbl.is Vopnaður maður í NASA drap gísl sinn og síðan sjálfan sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennandi óvissa yfir franska forsetakjörinu

sarko-sego Fyrri umferð frönsku forsetakosninganna, þar sem eftirmaður Jacques Chirac, forseta Frakklands í tólf ár, verður kjörinn, fer fram á sunnudag. Flest bendir til þess að Segolene Royal og Nicolas Sarkozy hljóti flest atkvæði og taki þátt í seinni umferðinni þann 6. maí. Samt vofir mikill andi óvissu yfir forsetakjörinu. Kannanir sýna að þriðjungur kjósenda hefur ekki enn tekið opinbera afstöðu og því fátt öruggt.

Opinberri kosningabaráttu lauk í Frakklandi núna kl. 22:00 og engar skoðanakannanir verða birtar eftir það. Teningunum er því kastað! Síðustu kannanir gefa til kynna mjög opna stöðu, þó að forskot Sarkozy og Royal sé ansi mikið er ekki neitt hægt að útiloka. Í kosningunum 2002 höfðu Chirac forseti og Jospin forsætisráðherra nokkuð forskot og allir töldu þá örugga áfram. Það urðu því vissulega stórtíðindi er þjóðernisöfgamanninum Jean Marie-Le Pen tókst að komast í seinni umferðina og slá því Lionel Jospin út úr frönskum stjórnmálum. Það vakti heimsathygli.

Það er greinilegt að franskir sósíalistar eru ansi smeykir um stöðu Royal og ganga ekki út frá öruggri stöðu hennar fyrr en talning hefur farið fram og farmiði í seinni umferðina er öruggur. Skipting atkvæða í margar áttir til vinstri árið 2002 gekk frá möguleikum Jospin. Fáum hafði órað fyrir því að Le Pen ætti alvöru möguleika þá og mynduð var blokk til að koma í veg fyrir kjör hans. Sósíalistar gengu að kjörborðinu með óbragð í munni og kusu Chirac forseta. Hann fékk 82% atkvæða í þeim kosningum, sínum síðustu á litríkum stjórnmálaferli. Þetta var sætur sigur Chiracs yfir vinstrinu, sérstaklega eftir tapið í þingkosningunum 1997.

En nú er semsagt komið að kjördegi. Í Frakklandi lýkur kosningabaráttunni rúmum sólarhring áður en gengið er að kjörborðinu. Klippt er á auglýsingar og kannanir - landsmenn fá frið fyrir öllum ágangi. Þetta er því ansi fjarri því sem gengur og gerist síðasta sólarhringinn hér heima þegar keyrslan er oft einna mest í auglýsingum. Tólf frambjóðendur eru í kjöri í fyrri umferðinni. Stóra spurningamerkið er miðjumaðurinn Francois Bayrou. Honum tókst fyrir mánuði að komast upp að hlið Sarkozy og Royal, en síðan misst aðeins flugið.

Nýjustu kannanir sýna að möguleikar Bayrou aukast til muna nái hann í seinni umferðina. Hann myndi sigra hvort þeirra sem væri við þær aðstæður. Sarkozy hefur haft forskot á Royal nú um nokkuð skeið og virðist sigurviss með hægriblokkina nær alla að baki sér. Sérstaklega munar þar um að báðir núlifandi forsetar hægritímans í frönskum stjórnmálum, erkifjendurnir Valery Giscard d´Estaing og Chirac forseti, hafa lýst yfir stuðningi við hann. Það kom mjög að óvörum að Giscard skyldi frekar styðja Sarkozy en Bayrou.

Þetta verða svo sannarlega spennandi kosningar. Fróðlegt verður að sjá hver mun hljóta kjör á forsetastól og ríkja í Elysée-höll frá 17. maí, er Chirac hverfur af hinu pólitíska sviði. Verður seinni umferðin Sarko-Sego stund eins og svo lengi hefur verið spáð, eða mun Bayrou koma á óvart? Með þessum kosningum verður víða fylgst enda er forseti Frakklands einn af lykilleikmönnum stjórnmálanna, bæði innan Evrópusambandsins og á alheimsvísu, enda einn valdamesti stjórnmálamaður heims.

mbl.is Styttist óðum í kosningar í Frakklandi; þriðjungur kjósenda óákveðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Róleg kosningabarátta

Það eru bara 22 dagar til þingkosninga. Mér finnst rólegt yfir baráttunni. Kannski er það vegna þess að þetta eru fyrstu kosningarnar í fjölda ára þar sem ég er ekki á fullu í kosningavinnu fyrir Sjálfstæðisflokkinn og ekki að taka þátt að neinu leyti þannig séð. Veit ekki svosem, en samt finnst mér þetta fjarskalega rólegt séð úr fjarlægðinni sem ég hef á þetta allt núna. Það er samt greinilega hiti að færast yfir þetta núna. Auglýsingarnar eru að komast á fullt og fundir eru auglýstir um dreifðar byggðir landsins.

Mér finnst mjög notalegt að vera ekki að taka þátt í þessu núna. Það er mjög þægilegt að geta skrifað meira og vera undir minni pressu, enda er mikil pressa að taka þátt í kosningabaráttu sitjandi á kosningaskrifstofu allan daginn. Kosningabaráttan hér á Akureyri í sveitarstjórnarkosningunum 2006 var mikil vinna. Þá tók ég þátt í eins miklu návígi og hægt var þá án þess að vera ekki frambjóðandi. Það var fínn tími. Mér finnst vera komið mál að linni og finnst þetta hið rétta nú. Það er líka gott að þurfa ekki að vera bundinn neinum við skrifin.

Það spurði mig einn vinur minn hvernig ég héldi að kosningarnar færu. Þó að það væri varhugavert að spá nú, enda eru síðustu 22 sólarhringar kosningabaráttu æði oft heil eilífð, er ég viss um að þær fara vel. Ég er viss um að fólk vegur og metur hvaða kostur sé farsælastur og hvaða flokksleiðtogi sé traustastur. Einhvernveginn finnst mér innst inni að það sé dómur sem minn gamli góði flokkur þarf eiginlega ekki að óttast núna. Hann stendur vel að mannskap í forystu og er með traust málefni. Hann hefur grunn sem er traustur á þessum tímapunkti.

Það var gaman að sitja landsfund um daginn. Ég var ekki bundinn neinum þar og hafði fyrst og fremst innilega gaman af að hitta vini og kunningja. Þetta var sannkölluð vinastund. Ég hef verið það lengi í Sjálfstæðisflokknum og í almennu félagsstarfi svosem að ég á marga vini, trausta vini sem ég met mikils. Það er það skemmtilegasta við svona landsfund að þetta er stund vina. Það jafnast í sannleika sagt ekkert á við það. Enda var þetta skemmtilegur vinafundur og það var um margt spjallað. Pólitíkin var þar ráðandi.

Mér fannst það áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Norðausturkjördæmi hversu vonda útreið hann fékk í miðstjórnarkjöri þar. Það stakk mig mest við þennan landsfund. Fulltrúar hér sameinuðust um tvo fulltrúa, annað að norðan og hinn að austan. Hvorugur náði kjöri. Einn spurði mig hverju sætti. Ég er þess fullviss að þar hafi ráðið úrslitum að tengingar hafi vantað á milli frambjóðendanna og stóru svæðanna innan flokksins og ég held að aldur hafi ráðið miklu líka. Bæði voru þau yfir fimmtugt. En svona kjaftshögg fyrir flokkinn hér vekur athygli.

Ég held að Sjálfstæðisflokkurinn í Norðausturkjördæmi standi þó vel að vígi í væntanlegum kosningum. Blær uppstokkunar einkennir listann og það er ferskleiki yfir honum. Ennfremur er öllum ljóst að lykilsvæðin geta vel við unað. Ég held að þau verði að vinna vel fyrir sínu en ættu að geta komið vel standandi frá þessum slag. Þetta verður þeim barátta og þau geta ekki unnið nema berjast eins og ljón. Þau verða að vera sterk heild. Ef þeim auðnast það eru þau sigursveit. Það eru allar forsendur skv. könnunum fyrir góðum sigri.

En það er erfitt að spá um hvernig allt fer að lokum. En ég held áfram að spá og spekúlera úr þeirri góðu fjarlægð sem ég hef sjálfur valið mér og hef gaman af þeim pælingum sem ég set fram. Það er um að gera að vera lifandi í því að skrifa og fara yfir stjórnmálin. Vonandi verður þó lokaspretturinn og líflegur - við kjósendur fáum vonandi gargandi góða stemmningu á þessum blálokum.


Leyndardómar hafsins

Dead Calm Það er ekki hægt að segja annað en að þessi frétt um áströlsku draugaskútuna sé ansi draugaleg. Það er auðvitað mjög nöturlegt að heil skúta, þar sem matur er á borðum og öll merki þess að fjöldi fólks sé um borð, sé mannlaus. Þetta virðist vera mikið spurningamerki og óljóst hvað hefur orðið um fólkið. Það blasir við að eitthvað skuggalegt hafi gerst þarna, þetta er allavega eitthvað sem tekið er eftir.

Það eru að verða tveir áratugir síðan að kvikmyndin Dead Calm var gerð. Hún er ein sterkasta kvikmyndin frá Eyjaálfu í seinni tíma kvikmyndasögu, ef Piano, er undanskilin. Hún var byggð á frægri sögu Charles Williams, sem segir frá hjónum sem verða vör við mannlausa skútu á leið sinni. Ævintýri þeirra verða mikil og að því kemur að þau verða að berjast fyrir lífi sínu í grimmri baráttu. Það voru aðeins þrír leikarar að heita má í myndinni og hún var í senn bæði spennandi og dulúðug, flott blanda.

Þetta var myndin sem gerði óskarsverðlaunaleikkonuna Nicole Kidman að stjörnu og kom henni á kortið í Bandaríkjunum. Hún varð ein vinsælasta leikkona sinnar kynslóðar og hlaut óskarinn fyrir The Hours árið 2003. Sam Neill, traustur ástralskur leikari, átti þar eina af sínu bestu kvikmyndatúlkunum, og Billy Zane sló í gegn, einkum fyrir að vera óvæginn. Hann varð síðar heimsfrægur fyrir túlkun sína á Cal Hockley í stórmyndinni Titanic árið 1997.

Flott mynd, samt orðið of langt síðan að ég sá hana síðast. Set hana kannski í tækið um helgina. Það stefnir í rólega helgi, svo að það er ekki galin hugmynd. En vonandi verða leyndardómar draugaskútunnar áströlsku auðleyst.

mbl.is „Draugaskúta“ fannst við strendur Ástralíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skelfing Framsóknarflokksins að ná hámarki

Guðni Ágústsson Það blæs ekki byrlega fyrir Framsóknarflokknum þrem vikum fyrir alþingiskosningar. Hann er enn að mælast með lítið fylgi og ekkert ber á neinni uppsveiflu þar. Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, er greinilega orðinn ansi skelkaður og farinn að undirbúa sig og sína undir hið versta. Fylgi upp á minna en 10% mun án nokkurs vafa þýða stjórnarandstöðu fyrir Framsóknarflokkinn, augljós ábending kjósenda um að hann eigi að pása sig og taka sér hvíld frá setu í ríkisstjórn. Tölurnar segja sína sögu vel.

Það verða auðvitað tíðindi fái Framsóknarflokkurinn rauða spjaldið með þessum hætti, hrein og afgerandi skilaboð landsmanna um að fara í stjórnarandstöðu. Allir sem þekkja pólitíska sögu og staðreyndir hennar vel vita að allt undir 10% fylgi fyrir Framsókn þýðir það. Framsóknarflokkurinn hefur verið forn flokkur valda og áhrifa. Hann hefur setið nær samfellt í ríkisstjórn frá sumrinu 1971; aðeins ef undan er skilið tvenn tímabil, 1979-1980, er minnihlutastjórn Alþýðuflokksins sat og er fyrsta ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, Viðeyjarstjórnin - stjórn sjálfstæðismanna og krata, sat 1991-1995.

Formenn Framsóknarflokksins áratugum saman hafa verið menn valda, menn sem hafa getað krafist oddastöðu í íslenskum stjórnmálum. Þeir hafa getað krafist mikils í stjórnarsamstarfi, þeir hafa sprengt ríkisstjórnir og myndað nýjar um leið án hiks, gott dæmi er þegar að ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sprakk haustið 1988. Þessi staða markar nýjan grunn fyrir Framsóknarflokkinn verði hún að veruleika. Hún myndi marka formann Framsóknarflokksins sem hornkarl í íslenskum stjórnmálum, flokksleiðtoga sem skipti engu máli. Það yrði vissulega ný staða, en Framsókn hefur alltaf annaðhvort verið marktækt afl í ríkisstjórn eða leiðandi í stjórnarandstöðu.

Það blasir við öllum að fari Framsóknarflokkurinn niður í 5-7 þingsæti er hann kominn í biðstöðu, settur í endurhæfingu á meðan að hann byggir sig upp. Þetta er staða sem verður ekki túlkuð með öðrum hætti en sem sögulegt afhroð. Það yrði enda svo. Það er greinilegt af viðbrögðum Guðna Ágústssonar að honum er mjög brugðið. En því má ekki gleyma að Framsókn hefur stundum tekið kosningar á 10-20 dögum, jafnvel færri en tíu dögum. Öll munum við eftir ævintýralegum lokaspretti Framsóknarflokksins í kosningunum 2003, er hann sneri tapaðri skák sér í vil. Hann varð örlagaafl við stjórnarmyndun að kosningum loknum.

Þegar að 22 dagar eru til kosninga og sama down-staðan birtist æ ofan í æ verður kosningasérfræðingum og stjórnmálaspekúlöntum hugsað til þess hvort að þessir 22 dagar geti orðið tímabil sama viðsnúnings. Það yrði að ég tel metið sem algjör varnarsigur færi Framsóknarflokkurinn upp fyrir 12% úr þessu. Hann hefur ekki mælst með meira en 11% fylgi í háa herrans tíð í könnunum Gallups og góð ráð eru orðin dýr fyrir þennan forna flokk valda og áhrifa. Byrjað er að auglýsa Jón Sigurðsson í löngum sjónvarpsauglýsingum sem klettinn í hafinu í stjórnmálum með sama taktfasta blænum og var í tilfelli Halldórs og Steingríms. En trúir einhver því að hann verði jafn sterkur leiðtogi og þeir?

Guðni Ágústsson talar í þessu vefviðtali við Moggann með þeim hætti að Sjálfstæðisflokkurinn sé stikkfrí. Þessi ummæli og þessi örvænting ráðherra flokks í vanda eru með ólíkindum. Ég tel að staðan kristalli vel að landsmenn treysti Sjálfstæðisflokknum, þjóðin treystir Geir H. Haarde sem leiðtoga á næstu fjórum árum. Kannski er þjóðin að fella dóm yfir vandræðagangi Framsóknar sem hefur ekki borið barr sitt eftir að hún samdi sig í forsætisráðherrastól með umdeildum hætti.

Þjóðin er vissulega að fella mjög þungan dóm yfir Framsókn, en þar á bæ væri hollt að líta í eigin barm um stund, tel ég.

mbl.is Guðni: Sjálfstæðisflokkurinn virðist stikkfrí í umræðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun skuggi Silvíu Nætur skemma fyrir Eiríki?

Eiríkur Hauksson Eftir þrjár vikur mun Eiríkur Hauksson syngja lagið Valentine Lost í Helsinki. Stóra spurningin er hvort að Eiríki takist að komast upp úr undanriðlinum. Það verður fróðlegt hvort að skuggi Silvíu Nætur skemmi fyrir Eiríki í keppninni nú. Á síðasta ári söng Silvía Nótt sig út úr keppninni með bæði eftirminnilegum og magnþrungnum hætti. Hún stuðaði allt og alla í Aþenu en vakti um leið mikla athygli. Hún öðlaðist þó sögulegan sess í keppninni er púað var á hana fyrir og eftir flutning sinn.

Eiríkur Hauksson er maður sögu í Eurovision. Hann hefur keppt þrisvar og er mjög reyndur, bæði sem tónlistarmaður og áhugamaður um Eurovision. Hann býr að þeirri reynslu í þessari þriðju ferð sinni út. Lagið er vissulega mjög gott, textinn venst en er ekkert meistaraverk þó. Mörgum, þar á meðal mér, finnst íslenska útgáfan mun betri, hún rennur betur í gegn finnst mér og hljómar betur í heildina. Myndbandið við lagið vakti athygli og hann hefur fengið mikla bylgju stuðnings héðan að heiman.

Það er ekki auðvelt að bera saman Silvíu Nótt og Eirík Hauksson, þau eru ólík eins og dagur og nótt. Sem söngvarar á leið í Eurovison eru þau enn ólíkari en sem persónur. Ísland fer tvær mjög ólíkar leiðir á þessu ári og hinu síðasta. Þjóðin var ekki öll á bakvið Silvíu Nótt. Hún var mun umdeildari flytjandi í keppninni. Mörgum fannst og finnst reyndar enn að annað lag hefði átt að fara og sigur hennar varð umdeildur. Lagið sem slíkt varð miklu minna áberandi en karakterinn sjálfur. Í tilfelli Eiríks er þetta söngvari að flytja lag, en ekki lag sem er borið upp af miklum karakter sem hefur alla athygli á sér en ekki laginu. Þetta er því allt mjög ólíkt.

Silvía Nótt stuðaði mjög þá sem héldu utan um keppnina. Karakterinn varð ansi yfirdrifinn. Hef reyndar oft hugsað um það hvernig að Ágústa Eva Erlendsdóttir gat haldið dampi í gervi þessarar glamúrgellu þetta lengi. Þetta hefur eflaust tekið mikið á og verið þungur baggi að bera. Held að framkoman vikuna í Aþenu hafi skemmt mjög fyrir okkur. Þetta show varð einum of. Það sem byrjaði sem fínn local-brandari endaði sem súr og dýr brandari á erlendu sviði. Floppið varð mikið og áfallið varð gríðarlegt, bæði fyrir karakterinn og skaparann og síðast en ekki síst þá sem höfðu stutt hana hér heima, sem reyndar urðu sífellt færri eftir því sem styttist í stóru stundina.

Eiríkur er ekki alveg öfundsverður að fylgja á eftir þessu mikla show-i sem var í Aþenu í fyrra. Það verður fróðlegt að sjá hvort að þessi skuggi sem fylgir honum, skuggi Silvíu Nætur, skipti máli eður ei. Hann hefur einhver hliðaráhrif hið minnsta. Eiríkur ætti að geta með hressilegri framkomu og sínum karakter verið þar á eigin forsendum og varla munu skuggar fortíðar sliga hann. Lagið er gott og hefur allt til að bera að komast lengra. Hann fékk allavega góða dóma í norrænu deildinni um daginn, sem skiptir máli fyrir stolt okkar Íslendinga fyrst og fremst.

Það verður mikið áfall nái Eiríkur ekki að komast á úrslitakvöldið þann 12. maí. Það verður strax litlausara kosningakvöldið komist hann ekki áfram. Augu allra landsmanna verða á því sem gerist í Helsinki þann 10. maí og við vonum að andar fortíðar, hvort sem það er umdeild glamúrgella eða einhver annar, hafi ekki neikvæð áhrif á stöðu mála er á hólminn kemur.

Íslandshreyfingin skiptir um leiðtoga í Norðvestri

Íslandshreyfingin Það vekur athygli að Íslandshreyfingin hefur skipt um leiðtoga í Norðvesturkjördæmi. Í kjördæmaþætti Stöðvar 2 þar fyrir nokkrum vikum var þar mætt Helga Jónsdóttir frá Akranesi sem vildi taka þátt í umræðum og titlaði sig sem væntanlegan leiðtoga framboðslistans. Voru hún og Margrét Sverrisdóttir mjög ósáttar við að Helga gæti ekki tekið þar þátt.

Í yfirlýsingu Íslandshreyfingarinnar í dag, 23 dögum fyrir alþingiskosningar, er nafn Helgu Jónsdóttur hvergi að finna yfir efstu frambjóðendur. Pálína Vagnsdóttir, athafnakona frá Bolungarvík er nú kynnt til leiks sem leiðtogi Íslandshreyfingarinnar í kjördæminu. Pálína er mikil kjarnakona, hún er komin af öflugu fólki vissulega. Hún ásamt systkinum sínum gáfu út hina landsþekktu plötu Hönd í hönd í kjölfar andláts föður síns og mágs.

Systir Pálínu, Soffía Vagnsdóttir, er skólastjóri Grunnskóla Bolungarvíkur, forseti bæjarstjórnar þar og forystukona fyrir Samfylkinguna á ýmsum vettvangi. Hún hefur alla tíð verið áberandi í samfélaginu fyrir vestan. Frænka þeirra systra, Valgerður Hrólfsdóttir, var lengi bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Akureyri og var fyrsta og eina konan sem var stjórnarformaður orkufyrirtækis Akureyrarbæjar og leiddi fyrst Norðurorku, en hún féll frá langt fyrir aldur fram. Hún var litrík forystukona í bæjarmálum okkar.

Það er eflaust fengur fyrir Íslandshreyfinguna að fá Pálínu Vagnsdóttur í forystusveit sína en það er samt frekar athyglisvert að sjá þó þessi leiðtogaskipti á svona skömmu tímabili. Hvað varð um Helgu Jónsdóttur?

mbl.is Íslandshreyfingin kynnir fimm efstu frambjóðendur sína í Norðvesturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Púslin koma saman - grimmilegt fjöldamorð

Cho Seung-hui Eftir því sem púslin á bakvið harmleikinn í Virginia Tech raðast saman og verða heildstæð mynd verður sífellt ljósara hversu grimmilega skipulagt þetta fjöldamorð var af hálfu S-Kóreumannsins Cho Seung Hui. Nú hafa komið upp á yfirborðið myndband hans og yfirlýsing um voðaverkin, sem hann sendi NBC-sjónvarpsstöðinni á milli morðanna á heimavist og skólahúsnæði, en tveir tímar liðu þar á milli.

Það er vægt til orða tekið að þetta myndband veki óhug og skelfingu. Grimmdin og geðtruflunin í persónu þessa manns er svo augljós að með ólíkindum sé að ekkert hafi verið gert til að taka á málum hans. Uppljóstranir hafa nú komið fram um að hann hafi verið á geðlyfjum, hann hafi farið í geðrannsókn og kennarar hafi margoft varað við honum, þar á meðal kennari hans í enskudeildinni sem fékk frá honum mjög truflaða ritgerð sem sýndi öll merki skapgerðareinkenna sem voru stórhættuleg fyrir svona samfélag. Samt var ekkert að gert, þetta er auðvitað skelfilegt mál í alla staði.

Fjölmiðlar í Bandaríkjunum hafa fjallað mjög ítarlega um þetta mál. Það hefur skekið bandarískt samfélag. Það er þjóðarsorg í Bandaríkjunum. Hef horft á fréttir af þessu máli á Sky News. Það er vissulega mjög athyglisverð umfjöllun. Svörin á bakvið fjöldamorðin koma fram, en spurningarnar verða þó sífellt háværari. Það er ljóst að pottur er brotinn að nokkru leyti í þessum málum. Það er með ólíkindum að enginn hafi gert neitt róttækt í málum þessa manns, sem greinilega var snarbilaður og hafði verið sem tifandi tímasprengja um mánaðarlangt skeið, gott ef ekki í nokkur ár. Þetta er nöturlegt.

Eftir standa margar spurningar um þessa persónu. Svörin koma mörg fram. Best koma þau fram í því sem hann skildi eftir sig. Þetta myndband er sorglegt og það er átakanlegt að horfa á það. Það er líka með ólíkindum að heilir tveir tímar liðu á milli skotárásanna tveggja, eins og fyrr segir. Það er óafsakanlega langur tími, og er ekki undrunarefni að þeir sem eftir lifa í Virginia Tech og fjölskyldur þeirra sem voru myrtir af Cho Seung Hui vilji svör og farið verði almennilega yfir málið. Þetta er harmleikur sem heldur sífellt áfram að verða skelfilegri.

Sem betur fer er íslenskt samfélag órafjarri svona veruleika. En sársauki fólks í Bandaríkjunum finnst þó vel alla leið hingað. Það er alveg ljóst að verulega mikið er að undir niðri í bandarísku samfélagi. Þessi veruleiki vekur upp mun fleiri spurningar en nokkru sinni fæst svarað.

mbl.is Sendi sjónvarpsstöð pakka á milli árásanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öflug landsfundarbylgja - frjálslyndir þurrkast út

Leiðtogar Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkur bæta við sig talsverðu fylgi milli vikna í nýjustu könnun Gallups. VG tapar sess sínum sem næststærsti flokkurinn um nokkurra vikna skeið. Frjálslyndi flokkurinn þurrkast út og tapar talsverðu fylgi milli vikna og Framsóknarflokkurinn tapar fylgi. Ríkisstjórnin heldur velli í könnuninni með 33 þingsæti, einu færra en stjórnin hefur nú.

Athygli vekur að þeir flokkar sem héldu landsfundi sína um síðustu helgi, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking, hækka mjög og virðast hafa hlotið hefðbundna landsfundarbylgju, sem reyndar gerðist ekki í tilfelli Framsóknarflokksins fyrir nokkrum vikum. Þessir tveir flokkar hafa nú 2/3 atkvæða, 65%, og sýnir þessi könnun annað landslag en fyrir viku þegar að þeir höfðu vel innan við 60%.

Samkvæmt þessu hefur Sjálfstæðisflokkurinn 28 þingsæti (bætti við sig 6), Samfylkingin fengi 17 (töpuðu 3), VG fengi 13 (bættu við sig 8) og Framsókn fengi 5 (tapaði sjö). Frjálslyndir, sem fengu fjögur þingsæti vorið 2003 fá eins og fyrr segir ekkert þingsæti í þessari könnun. Íslandshreyfingin og Baráttusamtökin ná engu flugi.

Þessi könnun er mikið áfall fyrir vinstri græna sem greinilega eru að missa flugið sem þeir hafa verið á. Samfylkingin bætir nokkru við sig og verður fróðlegt að sjá hvort að það heldur í næstu könnunum, eða er bara skammvinn fylgisbóla. Staða Sjálfstæðisflokksins er mjög sterk.

Heilt yfir stefnir í spennandi kosningar. Fall kaffibandalagsins margfræga hefur verið áberandi í vetur. Það trúir enginn lengur á það og það fjarar sífellt undan því. Annars eru enn 23 dagar til kosninga og mikið þannig séð enn eftir.

Eins og sést í þessari könnun er fylgið á miklu flugi og varhugavert að spá nokkru um hvernig fer að lokum, enda mörg spurningamerki í stöðunni.


mbl.is Samfylkingin eykur verulega fylgi sitt á kostnað VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sviptingasamur lokadagur vetrar í Reykjavík

Stórbruni í miðbæ Reykjavíkur Þessi síðasti vetrardagur var sviptingasamur í Reykjavík. Stórbruninn í miðbænum eru auðvitað mikil og váleg tíðindi, sorgleg tíðindi og mjög dapurlegt að sjá það tjón sem varð í þessari viðkvæmu bæjarmynd sem hefur verið óbreytt síðan á nítjándu öld að mestu leyti, og í ofanálag flæddi svo vatn niður Laugaveginn í kvöld eftir heitavatnsæð brast og gufa lagði yfir nærliggjandi svæði.

Húsið við Austurstræti 22, þar sem skemmtistaðurinn Pravda var síðast til húsa og í denn hýsti m.a. hina sögufrægu verslun Karnabæ í íslenskri verslunarsögu, er eins og sjá mátti af fréttamyndum dagsins gjörónýtt. Það mun hafa verið byggt á árinu 1801. Það á sér mjög merka sögu og var fróðlegt að heyra þá meginpunkta hjá Magnúsi Skúlasyni. Það verður sjónarsviptir af því. Örlög Lækjargötu 2 eru óljós, húsið er auðvitað stórskemmt en þó óvíst hver framtíð þess verður. Það verður næsta verkefnið að huga að framtíð mála.

Mér hefur alltaf fundist þessi götumynd sjarmerandi. Hún átti sér merka sögu og það er sjónarsviptir af því, ekki síður og er önnur gömul hús hverfa. Ég tek heilshugar undir með Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, borgarstjóra, að það verði að standa vörð um megingötumyndina og færa hana í sem líkast horf og við höfum þekkt hana alla tíð. Það má ekki gerast að uppbyggingu þessa svæðis verði klúðrað með byggingum sem eru of ólíkar þeim sem þar stóðu fyrir þennan bruna. Þetta er viðkvmt svæði í borgarmyndinni. Finnst reyndar enn frekar skrýtið til þess að hugsa að þetta hafi skeð.

Ég var í Reykjavík um síðustu helgi. Það er órjúfanlegur hluti helgarferðar í borgina að kanna næturlífið og skemmta sér vel. Það er reyndar svo sérstakt að á bakaleiðinni frá miðbæjarlabbinu í Bæjarins besta og þar sem ég kvaddi vini mína er ég leitaði mér að leigubíl aftur á hótelið varð mér starsýnt á götumyndina og hugsaði með mér hvað myndi gerast ef kæmi þar upp bruni. Enda varð mér brugðið þegar að ég heyrði af þessum bruna í útvarpinu fyrst í dag og las svo fréttir af netinu og horfði á netútsendinguna. Þetta er eflaust það sem margir hafa óttast en fáir voru viðbúnir undir.

En það er mikilvægt að horfa til framtíðar. Þetta er orðinn hlutur og framtíðin boðar að byggja þarf svæðið upp. Það er alveg ljóst að Austurstræti 22 sem átti þessa merku sögu var orðin nokkur hryggðarmynd undir lokin. Síðast þegar að ég fór þar inn mér til skemmtunar fyrir einhverju síðan fannst mér þetta hús orðin hálfgerð hryggðarmynd. Útlit hússins var komin öll úr skorðum og það var orðið teygt og sjoppulega dapurt að innan.

Það er mikilvægt að þetta svæði miðbæjarins verði sem líkast þeirri götumynd sem er í huga fólks og hefur verið alla tíð. Fyrst að svona hörmulega fór í þessum bruna þarf að nota tækifærið og gera upp þessa fallegu götumynd á ný. Ég treysti því að borgaryfirvöld vinni vel í þeim efnum og leiði málið með þeim hætti sem sómi er að.

mbl.is Slökkvistarfi lokið að mestu og hreinsunarstörf hafin í miðborginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband