Er hægt að eiga nýtt upphaf með fortíðarfólkinu?

Ég er ekki undrandi á því að kröfuhafarnir vilji setja af forstjóra Exista. Ef þeir njóta ekki trausts eru engar forsendur fyrir því að hafa stjórnendur sem hafa spilað djarft og eru táknmyndir gömlu og spilltu tímanna í bissness. Heiðarlegt að reyna að byrja upp á nýtt sé þess einhver kostur. Eigi fyrirtækin annars að eiga einhverja framtíð undir sömu merkjum aftur.

Mikilvægt er að taka til og reyna að byrja upp á nýtt, sé þess einhver kostur. Andlit liðinna tíma eru ekki hluti af nýrri framtíðarsýn. Slíkt sjá allir.


mbl.is Vilja reka forstjóra Exista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ævintýralegt bankarán í Reykjavík

Sagan af bankaráninu í Austurstræti hljómaði svo ævintýraleg þegar ég heyrði hana fyrst að ég tvítékkaði fréttina hvort þetta væri örugglega að gerast á Íslandi. Þetta var eins og handrit að einhverri bíómynd, frekar lélegri sennilega, í henni Ameríku. Ekki nóg með bankaránið heldur hjartastopp og endurlífgun eftir hasarinn.

En þetta er víst íslenskur veruleiki. Vantar ekki hasarinn á kvöldvaktinni hjá lögreglumönnum í Reykjavík.

mbl.is Braust inn í banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamlar tuggur hjá Jóhönnu - engin framtíðarsýn

Afskaplega var það nú sorglegt að hlusta á Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, í þingumræðum síðdegis. Hún tafsaði þar á gömlum tuggum um stöðu efnahagslífsins. Gamlar fréttir sem við höfum heyrt margoft. Við vitum öll að staðan er grafalvarleg og það þarf að taka ákvarðanir og marka einhverja framtíðarsýn, koma með lausnir og keyra hlutina áfram. En það er engin framtíðarsýn hjá þessari ríkisstjórn. Hún er algjörlega blankó.

Vorkenndi Jóhönnu í umræðunum. Held að Jóhanna viti ekkert hvað eigi að gera og sé alveg ráðalaus frammi fyrir vandanum. Þessi stjórn hefur setið í rúma hundrað daga og ekkert gert til að taka á stöðunni. Hún er enn í myrkrinu, situr á mikilvægum gögnum og skýrslum og vill ekki tala hreint út við þjóðina. Þetta er sorglegt lið, lið sem veit ekkert í sinn haus.

Þessi umræða var aðeins upplýsandi að einu leyti. Ríkisstjórn Íslands er alveg lost.

mbl.is Róttækar og erfiðar ákvarðanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Borgarahreyfingin að springa á mettíma?

Aðeins mánuði eftir þingkosningarnar virðist allt komið upp í bál og brand innan Borgarahreyfingarinnar. Lýsingarnar af fundinum í gær gefur til kynna að þetta verði varla langlíf stjórnálasamtök. Enda voru þau stofnuð fyrst og fremst vegna óánægju í samfélaginu. Fulltrúar þeirra í forystunni eru ólíkt fólk með ólíkar lífshugsjónir og hefur fyrst og fremst orðið sammála um að tjá andstöðu við kerfið. Ekki verður mikið vart við ferska nálgun pólitískt og fyrstu áherslumálin gáfu til kynna mun frekar diss á hefðir en vel mótaða stjórnmálastefnu.

Held að það sé ofrausn að halda að þessi hreyfing haldi saman heilt kjörtímabil fyrst að svona er komið eftir fyrsta mánuðinn á Alþingi. Annars finnst mér merkilegt hvað er lítið talað um hversu sóló Þráinn Bertelsson er í þessum félagsskap. Hann var ekki sjáanlegur í bandalaginu með Birgittu, Þór og Margréti í að hunsa messuna, er ekki í stjórn þingflokksins og var ekki ræðumaður í umræðunum um stefnuræðu forsætisráðherra, þó hann sé elstur og þekktastur þingmannanna. Enda heyrast ýmsar sögur um að hann sé frekar einn á báti.

Ætli það sé nokkuð óeðlilegt að búast við því að einn eða fleiri þingmenn Borgarahreyfingarinnar verði komnir í aðra flokka fyrir mitt tímabil, verði það annars svo langt. Fátt bendir til að við séum á heilsteyptu kjörtímabili, að nokkru leyti. Pólitískur stöðugleiki er lítill sem enginn.

Ekki er trúverðugt að Borgarahreyfingin hafi samið sig upp í hjónasængina hjá stjórnarflokkunum. Valdið og áhrifin sem þau fengu með því kompaníi var langt fram yfir kjörfylgi og í raun ekki þeim til sóma. Valdið heillar alltaf jafn mikið.

Ef Borgarahreyfingin ætlar að taka sér stöðu með ríkisstjórninni þegar líður á sumarið mun líftími þeirra verða styttri en margan grunaði fyrir nokkrum vikum. Auk þess virðast innan innanmeinin ansi mikil. Heilindin eru ekki til staðar.

mbl.is Átakafundur hjá Borgarahreyfingunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dæmigerðir útúrsnúningar hjá Ólafi í Samskip

Ólafur Ragnar á góðri stundu með Sheiknum
Yfirlýsing Ólafs í Samskipum er full af dæmigerðum útúrsnúningum, þeim sömu og einkenndu málatilbúnað og tjáningu Baugsmanna á sínum tíma. Á ekki von á að hann muni eiga jafn auðvelt með að snúa sér úr heimatilbúinni ógæfu. Landsmenn hafa lágmarks þolinmæði fyrir þeim vinnubrögðum sem einkenndu bixið hjá Ólafi með Sheiknum.

Skítalyktin af þeim vinnubrögðum leggur langar leiðir og fáir tilbúnir til að vorkenna þeim sem stóðu að þeim vinnubrögðum. Ólafur í Samskipum á ekki inni mikinn stuðning hjá þjóðinni. Flestum er einfaldlega nóg boðið af öllu ruglinu.

En mér finnst eðlilegt að taka undir með Agli Helgasyni: Af hverju var ekki gerð húsleit á Bessastöðum?

mbl.is Rannsókn leiði í ljós sakleysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gert grín að Jóni Ásgeiri í Telegraph

Jón Ásgeir með Ólafi Ragnari á góðri stundu
Mér finnst það alveg unaðslegt hvernig dálkahöfundurinn Jonathan Russell dregur Jón Ásgeir Jóhannesson sundur og saman í háði í flottri grein í Telegraph um helgina. Er þar talað um nýtt fyrirtæki Jóns Ásgeirs í London sem fyrst hafi verið stofnað sem Foldtown á 41 Chalton Street, síðan breytt í Tecamol á 55 Baker Street og loks JMS Partners á 413 Oxford Street. Allt á örfáum mánuðum.

Á eftir kemur þessi mergjaða greining hjá Ross: "I would give him a call to ask what is going on, but I fear I wouldn't know where to find him. Anyway let's hope it is fifth time lucky for Jon. Baugur and three previous companies 365 Media, FLGroup/Stodir and Teymi have all failed. He could do with a bit of success, and some extra cash."

Algjör skyldulesning þessi grein.

Öskubuskuævintýri Susan Boyle



Skoska öskubuskan Susan Boyle varð heimsfræg á einni nóttu með söng sínum á I Dream a Dream úr Les Miserables í þættinum Britain's Got Talent og heillaði bæði dómarana kröfuhörðu og alla áhorfendur. Frammistaða hennar var einlæg og flott - hún túlkaði lagið heillandi og gerði það vel. Fjölmargir í salnum, auk dómaranna, höfðu áður dæmt hana af útliti sínu og fasi og voru ekki þolinmóðir í hennar garð. Hún náði athygli þeirra og allrar heimsbyggðarinnar með einlægni, fyrst og fremst. Auk þess stóð hún sig bara vel.

Ég efast satt best að segja um að Susan Boyle sé besta söngkona heims. En hún er einlæg og ákveðin í senn, ein af hvunndagshetjunum sem hefur aldrei vakið athygli og hefði aldrei fengið séns í tónlist ef ekki væri þessi áhugamannaþáttur. Paul Potts náði svipaðri frægð fyrir nokkrum árum þegar hann söng Nessun Dorma úr Turandot af mikilli innlifun. Hann hafði lúkkið kannski ekki með sér en var fantagóður söngvari og sló í gegn. Susan Boyle virðist vera nokkuð örugg um sigurinn, sé mið tekið af því hvernig hún heillar fólk.

Þetta er eins og gamla spakmælið um bókina. Dæmum aldrei bókina af kápunni áður en innihaldið er skoðað.

mbl.is Susan Boyle komin í úrslitin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er rétt að verðlauna fegurð?

gdr
Mjög lengi hefur verið deilt um hvort keppa eigi í fegurð. Femínistar hafa reyndar sérstaklega haft dálæti á að traðka niður þetta form á keppni og sagt hana niðurlægjandi fyrir konur og skaði ímynd kvenna að flestu leyti. Samt sem áður þrátt fyrir þessa umræðu tekur fjöldi kvenna þátt í slíkum keppnum og hefur áhuga á þeim tækifærum sem opnast með því.

Lengi vel voru femínistar mjög á móti þessum keppnum hérlendis meðan að eingöngu var keppt í fegurð kvenna en raddirnar hafa minnkað eftir að karlar kepptu í fegurð sinni líka. Persónulega hef ég aldrei haft neitt á móti fegurðarsamkeppnum. Mér finnst að þetta sé val einstaklinganna sem taka þátt hvort þeir gera það eður ei.

Þeir sem vilja keppa gegn öðrum með fegurð sinni eiga að hafa frelsi til þess. Í mínum huga er þetta einfalt mál.

Ég óska nýrri ungfrú Ísland til hamingju með sigurinn í keppninni.

mbl.is Guðrún Dögg valin Ungfrú Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húsleit hjá Ólafi - ábendingin kom frá Davíð

Mikil tíðindi eru að leitað hafi verið á heimili Ólafs Ólafssonar í Samskipum í dag. Eftir margra mánaða vangaveltur um eðlilega viðskiptahætti er rannsóknin komin á fullt. Eins og kunnugt er kom ábendingin um viðskipti Q Iceland Finance í Kaupþingi frá Davíð Oddssyni, fyrrum seðlabankastjóra og forsætisráðherra. Hann upplýsti um það í frægu Kastljósviðtali í febrúarmánuði.

Ólykt var af þessum viðskiptaháttum - innkoma Sheiksins þótti aldrei trúverðug og ekki óeðlilegt að farið sé í alvöru rannsókn. Velta þarf við öllum steinum og klára þetta mál með sóma. Mér finnst saksóknarinn hafa staðið sig vel í dag og sýnt og sannað að hann er á vaktinni.

mbl.is Leitað á heimili Ólafs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikið var að eitthvað almennilegt var gert

Ég fagna því að sérstakur saksóknari sé loksins farinn að gera eitthvað í rannsókn sinni sem tekið er eftir. Húsleitirnar marka þau þáttaskil að fólk fær á tilfinninguna að verið sé að taka á því sem þarf að gera. Slíkt er mikils virði.

Mér finnst Gunnar Andersen hafa byrjað vel hjá Fjármálaeftirlitinu. Loksins fær þjóðin það á tilfinninguna að þar sé fólk á vaktinni en ekki steinsofandi í sínum verkum.

Saksóknarinn hefur verið undir ámæli um að vera ekki nógu sýnilegur og nægilega öflugur í sínum verkum. Hann hefur sýnt það í dag að þar er unnið að málum.


mbl.is Húsleit gerð á 10 stöðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórn í algjörri afneitun

Mér finnst það algjör dónaskapur hjá Steingrími J. við fólkið í landinu að segja að það skynji ekki hversu alvarleg staðan sé. Nær væri fyrir fjármálaráðherrann að líta í eigin barm og fara að gera eitthvað; taka einhverjar ákvarðanir og sýna fólkinu að stjórnvöld hafi einhverja framtíðarsýn.

Ríkisstjórnin er mun frekar í afneitun heldur en fólkið í landinu. Þessi ríkisstjórn var mynduð stóru gati þegar kom að ríkisfjármálum og hefur aldrei komið með neinar lausnir eða áætlun til að taka á stöðunni.

Reyndar finnst mér Steingrímur J. algjörlega orðinn ráðalaus og áttavilltur þessa dagana. Það er hans vandamál en ekki þjóðarinnar.

Þeir hljóta að vera verulega sárir og reiðir þeir kjósendur sem kusu þennan mann til að taka til hendinni.

mbl.is Framsóknarmenn í afneitun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri grænir vilja ekki fara í gömlu Moggahöllina

Mér finnst það merkilegast af öllu í athyglisverðri grein Einars Skúlasonar, skrifstofustjóra þingflokks Framsóknarflokksins, um herbergjamálið í þinginu, að vinstri grænir hafa afþakkað skrifstofuaðstöðu í gömlu Moggahöllinni við Aðalstræti. Hversvegna vilja þeir ekki fara þangað?

Á maður virkilega að trúa því að kommarnir hafi enn fordóma í garð húss sem eitt sinn voru höfuðstöðvar Morgunblaðsins, í þá tíð þegar Matthías og Styrmir voru á sínu gullaldarskeiði?

Aumt er það þykir mér. Eru þetta kannski einu hugsjónirnar sem eftir eru hjá vinstri grænum eftir að þeir seldu ESB-afstöðuna fyrir völdin?

mbl.is 14 sitja fundi þingflokks framsóknarmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verkalýðsfélag greiðir niður Detoxið

Eflaust eru það nokkur tíðindi þegar verkalýðsfélag er farið að niðurgreiða Detox-lækningameðferðina í lækningaskyni fyrir alþýðuna í Þingeyjarsýslum. Í þessu felst líka mikil viðurkenning á meðferðinni, sem framkvæmd hefur verið í Mývatnssveit undir forystu Jónínu Benediktsdóttur, og kannski ekki undarlegt að Þingeyingar vilji fara í þetta í sinni heimabyggð.

Sumir deila reyndar um hvort það sé skottumeðferð eða lækning. Burtséð frá því á Jónína Ben á hrós skilið fyrir að hafa startað þessu verkefni og gert úr því bissness bæði fyrir hótelið þarna og aðra þætti, bætt heilsu og líðan fólksins sem hefur farið til hennar.

mbl.is Niðurgreiðir Detox meðferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dramatísk herbergjaást Framsóknar

Svolítið dramatískt er að fylgjast með sögunni af Framsóknarflokknum og þingflokksherbergi þeirra. Skil vel rök þeirra fyrir sögulegu hlutverki herbergisins fyrir flokkinn, en hinsvegar er erfitt að skilja hvernig einn flokkur geti hreinlega átt eitthvað herbergi sama hvað gerist, hvort flokkur bæti við sig fylgi eða tapi því. Mér finnst það undarlegt að flokkur með færri en tíu þingsæti geti allavega haldið svo stóru herbergi á tilfinningalegum rökum einum saman.

Vonandi tekst þó að leysa þetta mál. Hinsvegar er augljóst að herbergið verður varla tekið af þeim úr þessu og gegn þeirra vilja. Ætli niðurstaðan verði ekki sú að ríkisstjórnarherbergið svokallaða í þinghúsinu verði gert að þingflokksherbergi VG og ríkisstjórnarfundir (það sjaldan að þeir séu á Alþingi) verði hér eftir í þinghúsinu í gamla þingflokksherbergi Alþýðuflokksins, sem framsóknarmenn vildu ekki vera í.

mbl.is Þeir sitja sem fastast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munu "hugsjónamennirnir" í VG ekki taka afstöðu?

Lítið virðist fara fyrir hugsjónum í VG ef þingmenn flokksins ætla ekki að taka afstöðu til Evrópusambandsins og sitja hjá í kosningunni. Erfitt er reyndar að lesa í afstöðu vinstri grænna. Þeir seldu hugsjónir sínar fyrir ráðherrastóla og völd - eru að reyna að telja öðrum trú um að þeir hafi enn einhverja stefnu og skoðanir. Slíkt blaður fellur um sjálft sig ef þingmenn VG, hugsjónamennirnir miklu að eigin sögn, ætla bara að sitja hjá og taka ekki afstöðu.

Frá stofnun VG hafa forystumennirnir hreykt sér af því að vera með hugsjón í öllum málum og tjá sannfæringu sína. Væntanlega reynir þessi kosning á, einkum þegar flokksformaðurinn hefur gefið í skyn að hjáseta í svo mikilvægu máli sé eðlileg, hvort sem er út frá hugsjónum eða flokksstefnunni sem virðist kristalskýr. Samviska flokksins birtist reyndar í tali nýrra þingmanna, Guðfríðar Lilju og Ásmundar Einars, sem létu Jóhönnu Sigurðardóttur heyra það eftir ESB-skotna stefnuræðu.

Skiljanlegt er að óbreyttir flokksmenn vinstri grænna hafi áhyggjur af því að völdin hafi verið dýru verði keypt. Einhverjir muni láta hugsjónirnar gossa í þinglegri meðferð ESB-tillögunnar og ætli sér að verða skoðana- og hugsjónalausir vindhanar með því annað hvort að svíkja eigin sannfæringu eða sitja hjá eins og lyddur.

mbl.is Óttast klofning í VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður byltingarástand á Íslandi í sumar?

Ég er ekki undrandi á því að fólk sé að fá nóg af aðgerðar- og úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar. Vel gert hjá Hagsmunasamtökum heimilanna að boða til fundahalda og vekja athygli á því að vinstristjórnin er með risastórt gap í ríkisfjármálum í stefnuskrá sinni - ætlar ekkert að gera fyrir heimilin í landinu og atvinnulífið enn sem komið er. Skjaldborg virðist fyrst og fremst hafa verið slegin um fjármagnseigendur og tengda aðila.

Ekki er ósennilegt að byltingarástand verði hér á Íslandi í sumar. Að óbreyttu má búast við að fólk fái endanlega nóg og fari í sama gírinn og síðasta vetur. Því ekki? Staðan er mun verri nú en hún var t.d. í janúar. Allt stefnir á verri veg. Ekki verður betur séð en hjólin séu einfaldlega að stöðvast í samfélaginu.

Þetta gæti orðið hitasumar í tvennum skilningi; bæði veðursfarslega og í þjóðmálum. Ekki er óeðlilegt að þeir sem hafa beðið eftir aðgerðum hafi fengið nóg. Þeir sem veðjuðu á vinstriflokkana til að taka á málum hafa örugglega orðið fyrir miklum vonbrigðum.

mbl.is Samstöðufundur á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýrkeypt áhætta Bretanna

Æ betur kemur í ljós að bresk sveitarfélög og aðilar sem fóru illa á viðskiptum við íslensku bankana tóku áhættuna þrátt fyrir ráðleggingar um annað verklag og aðvaranir. Áhættan varð þeim dýrkeypt. Ótrúlegt er að sveitarfélög, stofnanir og hagsmunasamtök af ýmsu tagi hafi tekið slaginn og sett peningana við þær aðstæður sem voru uppi. Skellurinn er líka mikill, ótrúlegustu aðilar sem lögðu mikið af fjármunum þar undir.

Bretarnir hafa ráðist að íslensku þjóðinni með mjög ómaklegum hætti, einkum forsætisráðherrann óvinsæli sem er rúinn trausti. Nær væri fyrir þessa aðila að líta í eigin barm.

mbl.is Sniðgengu ráðgjöf um Glitni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er gáfulegt að klára tónlistarhúsið í kreppunni?

Ég er ekki hissa á því þó tónlistarhúsið hiksti í þingmönnum Samfylkingarinnar (sem rifust opinberlega um það í þinginu í dag), enda einum of stór biti til að renna í gegn í einu vetfangi. Mikilvægt er að stjórnvöld forgangsraði á þessum erfiðu tímum og hugleiði hvort rétt sé að binda sig þessu verkefni nú. Bygging hússins gat ekki stöðvast á verri tímapunkti en þessum, enda er það eins og svöðusár í miðborg Reykjavíkur.

Að óbreyttu er það reyndar minnisvarði um græðgina og sukkið sem varð íslensku samfélagi svo dýrkeypt, hinu liðnu tíma þegar útrásarvíkingarnir þóttu hálfgerðir guðir hér á Íslandi. Kannski er best að það verði einmitt þannig á næstu árum, minnisvarði um siðleysið á öllum sviðum?

Eðlilegt er að stjórnvöld hugleiði hvað sé mikilvægt og hvað ekki.

mbl.is Deilt um tónlistarhús á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heiðarleg rannsókn eða ímyndarherferð?

Mér finnst ákvörðun Glitnis um að fela ráðgjafafyrirtæki að aðstoða við rannsókn á óeðlilegum millifærslum nokkuð athyglisverð. Er þetta heiðarleg rannsókn eða einfaldlega aum og veruleikafirrt ímyndaherferð sem snýst um aukaatriði en ekki aðalatriðin sem mestu skipta? Fróðlegt verður að sjá hvort það er.

Óttast að þetta sé hið síðarnefnda að fenginni reynslu okkar allra af verklaginu í bönkunum. Þeir eru ekki hátt skrifaðir eftir atburði síðustu mánaða.

mbl.is Rannsaka óeðlilegar millifærslur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

One big happy family?

happyfamily
Þessi skopmynd um íslensku stjórnmálafjölskylduna er ansi skondin. Gárungarnir tala þó um að vísitölufjölskyldan séu foreldrar, tvo börn og tilsjónarmaður. Sú sé framtíðarsýnin í villta vinstrinu. Má vera. Hann vantar á þessa mynd. Ætli það sé landsstjóri IMF hérlendis?

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband