23.5.2007 | 17:59
Sárindi hjá Samfylkingunni í Suðvesturkjördæmi?

Það vekur athygli í þessari moggafrétt að Gunnar getur hvorki sagt hvort hann sé ánægður eða óánægður með ráðherrakapal Samfylkingarinnar. Þessi niðurstaða hlýtur að hafa orðið verulegt áfall fyrir Gunnar sem leiðtoga í kjördæminu og eftir að hafa verið lykilmaður hjá Samfylkingunni í sterkasta vígi flokksins, Hafnarfirði, en hann hefur verið forseti bæjarstjórnar þar frá árinu 2002. Eins og kunnugt er hefur Samfylkingin sjö af ellefu bæjarfulltrúum í Hafnarfirði.
Einhver ólga er vegna ráðherrakapalsins. Auk Gunnars vakti athygli að Ágúst Ólafur Ágústsson fékk ekki ráðherrastól þrátt fyrir að vera varaformaður flokksins. Niðurlæging hans er algjör. Auk þessa vekur athygli að spútnik-stjarnan úr Kópavogi, Katrín Júlíusdóttir, varð ekki ráðherra. Með þessu er gengið gegn öflugum fulltrúum ungra jafnaðarmanna innan þingflokksins - en bæði hafa verið metin lykilstjörnur innan flokksins, en þeim er þó ekki treyst fyrir ráðherrastól.
![]() |
Gunnar sóttist eftir ráðherraembætti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.5.2007 | 16:32
SUS fagnar áherslum stjórnar í heilbrigðismálum

Ennfremur fögnum við auðvitað því að landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti verði eitt og sama ráðuneytið. Það er löngu tímabært að svo fari. Þetta hefur verið áherslumál hjá SUS í fjölda ára að stokka þessi mál upp og sameina með þessum hætti landbúnaðar- og sjávarútvegsmál. Þetta er mál sem ber sérstaklega að fagna auðvitað.
Fleiri góð mál eru í þessum stjórnarsáttmála. Ennfremur er auðvitað mikið gleðiefni að Guðlaugur Þór Þórðarson verði heilbrigðisráðherra. Gulli er fyrrum formaður SUS og er ennfremur einn af forverum mínum sem formaður Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna hér á Akureyri. Það er góður áfangi að hann taki sæti í nýrri ríkisstjórn.
![]() |
SUS ánægt með málefnasamninginn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.5.2007 | 14:32
Vandaður grunnur frjálslyndrar hægristjórnar
Ný stjórn boðar að því er virðist öfluga velferðarþjónustu, kraftmikið efnahagslíf, áberandi skattalækkanir og náttúruvernd. Athygli vekur að ný ríkisstjórn lýsir því sérstaklega yfir að hún harmi stríðsreksturinn í Írak. Orðalagið um Evrópumálin er vissulega mjög loðið, en það er auðvitað alveg ljóst að það er ekkert sem mælir gegn málefnalegum skoðanaskiptum í þeim málaflokki frekar en öðrum. Mér líst vel á orðalag í landbúnaðarmálum og sérstaklega er ánægjulegt að Íbúðalánasjóður verði færður undir verksvið fjármálaráðuneytisins. Svo er gleðilegt að ekkert stóriðjustopp er þarna grúnderað.
Heilt yfir tel ég að frjálslynd hægristjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar muni vinna farsælt og gott verk. Þetta er öflug stjórn með traust og gott umboð, sterkan þingmeirihluta og stuðning tæplega 2/3 hluta kjósenda. Heilt yfir eru spennandi tímar framundan. Þessi stjórnarsáttmáli boðar nýja tíma á mjög mörgum sviðum, mjög spennandi tíma, sem ég tel að flokkarnir hafi náð góðum grunni um. Það verður heldur ekkert deilt um styrk hennar. Þetta er hin sögulega stóra samsteypa að þeirri fyrirmynd sem við sjáum til dæmis í Þýskalandi, þar sem tveir meginpólar sameinast um að halda saman til verka af krafti og án alls hiks.
Mér líst vel á þessa stöðu og tel að við munum eiga góð fjögur ár á mörgum sviðum. Þetta verða ár framfara og ferskleika, nýrra tíma. Á þeim þurfum við að halda núna.
Stefnuyfirlýsing Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar
![]() |
Íslendingar taki forustu í baráttu gegn haf- og loftmengun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.5.2007 | 14:02
Vonbrigði Kristjáns Þórs Júlíussonar

Skilaboð formanns Sjálfstæðisflokksins eru klárlega með þeim hætti að menn verði ekki ráðherrar um leið og þeir taki sæti á Alþingi. Þessi niðurstaða vekur mikla athygli í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn vann um margt sögulegan sigur í Norðausturkjördæmi í alþingiskosningunum 12. maí sl. Flokkurinn er langstærsta aflið í kjördæminu og leiðir nú svæði sem um áratugaskeið voru lykilvígi Framsóknarflokksins. Það var sigur sem aldrei var sjálfsagður og er einstakur ef frá er skilinn mjög naumur sigur flokksins í Norðurlandskjördæmi eystra árið 1999.
Í ráðherrakapal Sjálfstæðisflokksins vorið 2003 var gengið mjög freklega framhjá Norðausturkjördæmi. Í þeim kapal fólst aftaka á bæði Halldóri Blöndal og Tómasi Inga Olrich sem stjórnmálamönnum að mínu mati. Tómas Ingi var sleginn af sem menntamálaráðherra með frekar lágkúrulegum hætti er hann var sleginn af í ráðherrakapal í maí 2003 en var látinn danka í embætti hálft ár í viðbót með skugga eftirmannsins á eftir sér með áberandi hætti. Halldór Blöndal var samhliða þessu sleginn af sem þingforseti í maí 2003 en það tók ekki gildi fyrr en á miðju kjörtímabili. Þetta kom í kjölfar vondra kosningaúrslita það vor. Þann skell var svosem eðlilegt að við tækjum á okkur, en engu að síður var verklag formanns flokksins frekar brútalt.
Að þessu sinni erum við eina kjördæmið innan flokksins sem er sniðgengið í ráðherrakapal. Fyrir fjórum árum sátum við líka hjá rétt eins og Suðurkjördæmi. Ég lít ekki svo á að áframhaldandi ráðherraseta Tómasar Inga fyrir fjórum árum, með örlögin ráðin, hafi verið ákvörðun um ráðherrasetu hans. Það var mikið áfall og ekkert gleðiefni fyrir okkur hér. Að þessu sinni er staða okkar óbreytt. Við höldum að vísu Öbbu sem þingflokksformanni, en það er augljóslega bara vegna þess að hún er kona. Það kemur ekkert annað til skýringa á því að mínu mati.
Mér finnst þessi niðurstaða ekki vænleg fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Norðausturkjördæmi. Þetta er niðurstaða sem er verð mikillar umhugsunar á stöðu mála fyrir okkur hér í ljósi þess að við tókum kjördæmið með frekar afgerandi hætti og færðum sögulegan sigur. Það er ekki sjálfgefið að sú staða verði fyrir hendi eftir fjögur ár tel ég.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
23.5.2007 | 12:21
Guðni Ágústsson tekur við Framsóknarflokknum
Það kemur svo sannarlega ekki að óvörum að Guðni Ágústsson taki við formennsku í Framsóknarflokknum á örlagatímum í sögu hans. Hann hefur verið varaformaður flokksins í sex ár og verið ráðherra af hans hálfu í tæpan áratug - lykilforystumaður innan flokksins árum saman og hefur leikið stórt hlutverk í stjórnmálum. Við þau þáttaskil að Jón Sigurðsson missti stöðu sína í stjórnmálum voru forystuskipti óhjákvæmileg.
Allt frá því að Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra og flokksformaður, tilkynnti um þá ákvörðun að víkja úr forystu stjórnmála hefur verið talað um hvort að Guðni sem varaformaður í nokkur ár og forystumaður innan flokksins myndi sækjast eftir formennskunni. Sú ákvörðun Guðna fyrir tæpu ári að leggja ekki í formannsslaginn og sækjast eftir að verja varaformennskuna fyrir ásókn Jónínu Bjartmarz voru mikil pólitísk tíðindi. Guðni hefur verið þingmaður frá 1987, leitt Suðrið í flokknum frá 1995, verið ráðherra frá 1999 og varaformaður frá 2001. Það eru því varla stórtíðindi að maður með hans bakgrunn í flokknum taki við flokknum þegar að honum vantar forystumann.
Guðni þarf að leiða Framsóknarflokkinn til uppbyggingarstarfs. Á morgun missir flokkurinn völdin og heldur í stjórnarandstöðu í þriðja skiptið á 36 ára tímabili, frá árinu 1971 er Ólafur Jóhannesson leiddi flokkinn til forystu við fall viðreisnarstjórnarinnar. Guðni er mjög reyndur stjórnmálamaður og býr að þeirri reynslu. Reyndar má spyrja hvort að stolt Halldórs Ásgrímssonar, sem sett var ofar flokkshag á síðasta ári þegar að Guðni sýndi greinilegan áhuga á formennsku en var sparkaður niður með áberandi hætti, hafi ekki verið mjög dýrkeypt. En nú fær Guðni tækifærið mikla sem hann fékk ekki á síðasta ári.
Það er alveg rétt sem Jón Sigurðsson sagði í morgun er hann sagði af sér formennskunni að formaður Framsóknarflokksins í þeim raunveruleika sem fylgir þessari stjórnarandstöðuvist verður að vera alþingismaður, hann verður að hafa hlutverki að gegna. Annað er einfaldlega ekki í spilunum. Guðni hefur lengsta þingreynslu í flokknum, ásamt Valgerði Sverrisdóttur, en bæði komu inn á þing í kosningunum 1987. Nú verður það Guðna að taka við verkum í forystusveit. Hann býr að sterkum tengslum inn í flokkskjarna á landsbyggðinni og er þekktur stjórnmálamaður sem þarf ekki að kynna sig neitt.
Framundan eru þó eflaust einhverjir spennutímar innan Framsóknarflokksins. Nýr varaformaður verður kjörinn á miðstjórnarfundi í næsta mánuði, skv. fréttum. Enn er svo ekki ljóst hvort að Guðni fær mótframboð í formennskuna á næsta flokksþingi. Framsóknarflokkurinn er staddur í mikilli óvissu við þessi þáttaskil og verður athyglisvert að sjá hvernig honum gengur í stjórnarandstöðu á næstu árum og við að byggja sig upp til verka í nýjum veruleika.
![]() |
Guðni Ágústsson: Mín viðhorf eru þekkt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.5.2007 | 10:42
Jón Sigurðsson segir af sér formennsku

Jón Sigurðsson fórnaði sér með eftirtektarverðum hætti fyrir flokk sinn með því að fórna öruggri seðlabankastjórastöðu fyrir óöruggan ráðherrastól í mikilli krísu Framsóknarflokksins og aðeins fjarlæga möguleika á þingsæti, en staða flokksins var erfið er hann tók mjög óvænt við ráðherraembætti fyrir tæpu ári og formennskunni í kjölfarið sem maður sátta og uppbyggingar. Staða Framsóknarflokksins batnaði þó að hluta á sumum stöðum en afhroðið sem kannanir höfðu gefið til kynna mánuðum saman varð ekki umflúið. Persónulega tel ég að Jóni hafi tekist að byggja flokkinn upp innan frá en við blasir að honum mistókst það utan frá að miklu leyti. Það var einfaldlega við of ramman reip að draga.
Sögulegur kosningaósigur Framsóknarflokksins þann 12. maí sl. var að mínu mati ekki ósigur Jóns Sigurðssonar, þetta var ósigur Halldórs Ásgrímssonar að mínu mati. Þetta var áberandi áfellisdómur yfir sundrungunni sem einkenndi lokasprett valdaferils Halldórs innan ríkisstjórnar og Framsóknarflokksins. Það er einfalt mál. Hver svo sem framtíð Jóns verður er ég þess fullviss að honum séu allir vegir færir nú að loknu stjórnmálastarfi. Meginhluti ævi hans hefur verið á öðrum vettvangi og það fer gott orðspor af honum, enda maður sem hefur alltaf lagt sig allan fram og unnið vel.
Jón fórnaði sér fyrir flokkinn sinn, sem var aðdáunarvert góðverk af hans hálfu í þeirri vondu stöðu sem flokkurinn var í við afsögn Halldórs. Ég held að hans verði minnst sem heiðarlegs, trausts og vandaðs manns sem á örlagastundu spurði sig að því hvað hann gæti gert fyrir flokkinn sinn en verið fjarri því viss um hvað hann fengi í staðinn.
Slíkir menn hugsa ekki eigin hag heldur annarra og sýna af sér kraft og kjark í erfiðri stöðu. Ég held að Jóns verði fyrst og fremst minnst í stjórnmálum með þeim hætti.
![]() |
Jón Sigurðsson segir af sér formennsku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.5.2007 | 01:32
Sterk staða Björgvins G. - áfall Ágústs Ólafs

Fyrirfram var ég mjög efins um að Björgvin G. yrði ráðherra að þessu sinni. Það voru greinilega óþarfar pælingar að efast um stöðu hans innan Samfylkingarinnar. Sá einstaklingur sem verður viðskiptaráðherra á öðru kjörtímabili sínu á þingi og hefur ekki náð fertugsaldri er enginn léttvigtarmaður innan síns flokks í þessari stöðu. Reyndar hef ég alltaf litið á Björgvin G. sem sterkasta forystumann sinnar kynslóðar hjá Samfylkingunni og mikinn framtíðarmann. Þessi niðurstaða styrkir hann mjög.
Það eru reyndar mikil tíðindi í sjálfu sér að iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið sé brotið upp og fært aftur í sinn gamla farveg. Síðasti ráðherrann sem gegndi einungis stöðu viðskiptaráðherra í íslenskri stjórnmálasögu er Jón Sigurðsson, gamall forystukappi á vinstrivængnum, sem var ráðherra málaflokksins árin 1987-1988. Frá árinu 1988 hafa iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti verið flokkað sem eitt, en þá tók Jón við báðum málaflokkum, en Friðrik Sophusson var síðasti iðnaðarráðherrann fram að því, í stjórn Þorsteins Pálssonar 1987-1988. Þannig að það eru tímamót með því að taka upp þessi tvö ráðuneyti sér aftur.
Ágúst Ólafur Ágústsson átti mjög erfitt með að leyna vonbrigðum sínum í viðtali á Stöð 2 í kvöld. Þessi ráðherrakapall er gríðarlegt áfall fyrir hann og stöðu hans sem varaformanns. Hann virðist ekki vera metinn þungavigtarmaður innan flokksins og hefur ekki stöðu sem lykilráðherra fyrir flokk sinn. Jafnan er það metið öruggt að varaformaður stjórnmálaflokks verði ráðherra og sérstaklega þegar að viðkomandi flokkur hefur úr sex ráðherrastólum að spila fyrir sig.
Vond staða Ágústs Ólafs hefur reyndar sést víða, sérstaklega í því að hann þurfti að berjast hatrammlega í prófkjöri fyrir því að hækka upp í fjórða sætið í prófkjöri í nóvember 2006, semsagt því að hljóta annað sætið á öðrum listanum í Reykjavík, og fáir vildu rýma til fyrir stöðu hans. Þessi staða mun veikja hann utan flokksins, ásýnd hans verður önnur. Það blasir algjörlega við í þessari stöðu.
En ekki þarf Björgvin að kvarta í þessum ráðherrakapal. Hann styrkist mjög með því að fá lyklavöld að viðskiptaráðuneytinu, sem er auðvitað mjög stór málaflokkur og hann verður lykilmaður í stjórnmálunum hér á næstu árum. Á meðan situr varaformaðurinn eftir sem einhver verkamaður inn á við en ekki út á við í ríkisstjórn. Það eru kostuleg örlög.
![]() |
Björgvin: Stefnuyfirlýsing felst í skiptingu iðnaðar- og viðskiptamála |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.5.2007 | 00:05
Sterk staða Björns Bjarnasonar

Persónulega hef ég alla tíð borið mikla virðingu fyrir Birni Bjarnasyni. Þar ræður mjög miklu eljusemi hans og kraftur í stjórnmálastarfi - ennfremur því að hann var fyrsti forystumaður Sjálfstæðisflokksins sem sýndi skrifum mínum og flokksstarfi einhvern áhuga og sýndi í verki að hann mæti það. Hann hefur alla tíð verið vinnusamur og öflugur, vefur hans ber vitni þeim krafti sem einkennt hefur hans stjórnmálastarf en þar má fara yfir alla hans pólitík frá a-ö með aðgengilegum hætti.
Það er mér gleðiefni að Björn njóti í þessu ráðherravali áralangra verka sinna og forystu á vegum flokksins. Hann hefur alla tíð lagt heill og hag Sjálfstæðisflokksins í fyrsta sæti og sinnt kjarna flokksins vel. Það skiptir að mínu mati miklu máli og það hefur eflaust skipt máli er á hólminn kom. Þetta er altént mikill persónulegur sigur fyrir Björn í erfiðri stöðu síðustu daga.
22.5.2007 | 22:12
Ágúst Ólafur ekki ráðherra - Jóhanna á fornar slóðir
Samfylkingin hefur nú samþykkt stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokki og valið ráðherra sína. Mikla athygli vekur að Ágúst Ólafur Ágústsson verður ekki ráðherra þrátt fyrir að vera varaformaður Samfylkingarinnar og hljóta þessi tíðindi að vera gríðarlegt pólitískt áfall fyrir hann. Það hafði vakið mikla athygli að hann var ekki með sömu vigt í stjórnarmyndunarviðræðum og varaformaður Sjálfstæðisflokksins og staðfestist staða hans í þessu vali.
Það eru merkileg tíðindi að Jóhanna Sigurðardóttir snýr aftur í félagsmálaráðuneytið eftir þrettán ára fjarveru, en hún var ráðherra málaflokksins árin 1987-1994, er hún sagði skilið við Alþýðuflokkinn. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti verður nú skipt upp og mun Björgvin G. Sigurðsson verða viðskiptaráðherra og Össur Skarphéðinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, verður iðnaðarráðherra. Merkilegur hluti ráðherrakapalsins er svo auðvitað að mínu mati að Þórunn Sveinbjarnardóttir verður umhverfisráðherra, þrátt fyrir að vera þriðja á lista Samfylkingar í Kraganum og þau sem fyrir ofan hana eru sitja eftir.
Kristján L. Möller, leiðtogi Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi, verður nú samgönguráðherra í stað Sturlu Böðvarssonar. Kristján er auðvitað þingmaður okkar hér og hinn vænsti maður. Hann verður eini ráðherra kjördæmisins allavega fyrst í stað. Það er auðvitað mjög afleitt að enginn ráðherra komi frá Sjálfstæðisflokknum í kjördæminu. En ég vil samt sérstaklega óska Kristjáni Möller til hamingju með ráðuneytið og vona að hann muni nú taka til við að efna öll þau fögru fyrirheit sem hann talaði um á mörgum sviðum. Fróðlegt verður reyndar hvort að hann stendur við stóru orðin sín og ríkisvæðir Vaðlaheiðargöngin eins og hann talaði um í vor.
Áfall Ágústs Ólafs er augljóslega mikið. Það hlýtur að gengisfella hann verulega sem stjórnmálamann og varaformann stjórnmálaflokksins að vera ekki einn af sex ráðherrum flokksins og fá t.d. Björgvin fyrir framan sig í dæmið. Þetta eru merkileg tíðindi og greinilegt að pælingar fólks um undarlega stöðu hans í stjórnarmyndunarviðræðum áttu fullkomlega rétt á sér og vel það. Hans staða er ekki beysin eftir þennan dóm sem þessi ráðherrakapall er fyrir hann
En hér er semsagt tillaga formanns Samfylkingarinnar um skipan embætta sem var samþykkt í kvöld:
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra
Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra
Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra
Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra
Kristján L. Möller, samgönguráðherra
Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra
Ágúst Ólafur Ágústsson, þingflokksformaður
![]() |
Þrjár konur og þrír karlar ráðherrar fyrir Samfylkingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
22.5.2007 | 20:38
Guðlaugur Þór ráðherra - Björn áfram í ríkisstjórn
Sturla Böðvarsson, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, sem verið hefur samgönguráðherra í átta ár, eða frá árinu 1999, missir nú ráðherrastól sinn og verður forseti Alþingis, en samgönguráðuneytið færist nú yfir til Samfylkingarinnar. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, verður áfram menntamálaráðherra. Það eru auðvitað mikil vonbrigði fyrir okkur sjálfstæðismenn í Norðausturkjördæmi að fá ekki ráðherrastól. Þetta eru mjög vond tíðindi eftir sögulegan kosningasigur hér.
Arnbjörg Sveinsdóttir verður áfram þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og Árni M. Mathiesen verður áfram fjármálaráðherra, sem eru vissulega mjög merkileg tíðindi og staðfesta mjög vel sterka stöðu Árna innan Sjálfstæðisflokksins, en hann leiddi flokkinn til glæsilegs kosningasigurs í Suðurkjördæmi í þessum kosningum. Það eru vissulega vonbrigði að aðeins ein kona sé ráðherra en annað var ekki í spilunum miðað við prófkjörin á vegum flokksins þar sem flokksmenn sjálfir völdu stöðu ráðherraefnanna.
En hér er listinn yfir ráðherra og önnur embætti sem þingflokkurinn gerði tillögu um í kvöld á fundi sínum í Valhöll.
Geir H. Haarde, forsætisráðherra
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra
Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra
Einar Kristinn Guðfinnsson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra
Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra
Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis
Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður
![]() |
Guðlaugur Þór verður heilbrigðisráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.5.2007 kl. 02:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
22.5.2007 | 18:05
Ingibjörg Sólrún verður utanríkisráðherra

Það þótti alltaf líklegra að Ingibjörg Sólrún yrði utanríkisráðherra í stjórninni. Skv. þessu blasir við að Sjálfstæðisflokkurinn haldi áfram fjármálaráðuneytinu og verður fróðlegt að sjá hvort að Árni M. Mathiesen gegnir því embætti áfram.
Ráðherrar stjórnarinnar verða valdir í kvöld. Tillögur formanna flokkanna um ráðherraskipan verða tilkynntar eftir fundi æðstu stofnana Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar en þingflokkar þeirra verða að staðfesta það val.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.5.2007 kl. 00:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.5.2007 | 17:07
Óbreyttur ráðherrafjöldi - jöfn kynjaskipting Samfó
Það þarf svosem varla að koma að óvörum sú yfirlýsing Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, að jöfn kynjaskipting verði í þeirra hópi. Hún hafði tekið það fram á flokksfundum í vetur að færi flokkurinn í ríkisstjórn yrðu hlutföll kynjanna jöfn og það eru flokkssamþykktir fyrir því að jöfn kynjaskipting eigi að vera til staðar í þessu tilfelli. Þetta vekur vissulega athygli, en það virðast sömu, eða allavega mjög lík, sjónarmið uppi til þessara mála og var innan Framsóknarflokksins, en þar hafa um nokkuð skeið verið jöfn hlutföll, ef undan er skilinn forsætisráðherraferill Halldórs Ásgrímssonar.
Ég hef persónulega aldrei talað fyrir því að festa þessi hlutföll í sessi. Mér finnst mikilvægt að uppröðun ráðherrasæta eða embætta að öðru leyti eigi ekki að ráðast einvörðungu eftir kynferði. Vissulega er mikilvægt að konur eigi sína fulltrúa, en mér finnast þetta undarleg viðmið sem fest í sessi með þessum hætti. Mér finnst vissulega mjög mikilvægt að konur hafi tækifæri og stuðning til verka. Það er þó ekki eðlilegt að binda þessa stöðu óháð öllum viðmiðum. Konur eiga að hljóta embætti af þessu tagi vegna verðleika sinna og krafts í stjórnmálastarfi en engu öðru. Hafi konur stuðning til verka og ráðherrasetu í þessu tilfelli hafa þær afgerandi stuðning.
Það verður fróðlegt að sjá stöðu mála með kvöldinu. Það virðist ekki hafa náðst samstaða eða sameiginlegur grunnur innan flokkanna um að stokka upp skipan ráðuneyta eða grunnmála Stjórnarráðsins. Hinsvegar hafa einhver verkefni verið færð á milli. Í ljósi þessa er ljóst að stólarnir eru tólf, sex hjá hvorum flokki. Þrjár konur verða ráðherrar innan Samfylkingarinnar og því ljóst að ekki munu allir kjördæmaleiðtogar Samfylkingarinnar, sem flestir voru karlkyns, verða ráðherrar að þessu sinni.
Þetta verður merkilegur kapall sem verður áhugavert að sjá ráðast með kvöldinu.
![]() |
Ingibjörg Sólrún: Skipting kynja í ráðherraembættum jöfn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.5.2007 | 16:02
Jón Sigurðsson á útleið - orðrómurinn magnast
Tilraunir Jóns Sigurðssonar, formanns Framsóknarflokksins, til að slá á orðróminn innan úr Framsóknarflokknum um yfirvofandi afsögn hans af formannsstóli hafa aðeins magnað hann til muna. Það er enda ljóst að þeir fjölmiðlar sem hafa fjallað um þessi tíðindi með áberandi hætti standa við sína umfjöllun, enda með trausta heimildarmenn innan úr innsta hring, og reyndar má segja að umfjöllun Arnars Páls Haukssonar í hádegisfréttum RÚV í dag hafi verið mjög vel unnin sérstaklega.
Það er greinilegt á fréttum að stuðningur við Jón innan þingflokksins er hverfandi og svo virðist vera sem að valdabaráttan sé þegar hafin með þeim spuna sem birtist með umfjöllun Steingríms Sævarrs Ólafssonar, fyrrum aðstoðarmanns Halldórs Ásgrímssonar, í Íslandi í dag á Stöð 2 í gærkvöld. Það var umfjöllun klárlega byggð á afgerandi heimildum, enda standa þátturinn og ritstjóri hans við umfjöllunina. Þeir eru auk þess fáir sem vilja leggja peningana sína undir að þar sé farið rangt með.
Á morgun missir Jón Sigurðsson ráðherrastól sinn í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu þegar að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tekur formlega við völdum. Með því missir Jón stöðu sína í íslenskum stjórnmálum utan flokksins. Fá dæmi eru fyrir því, sérstaklega í seinni tíð, að flokksformenn leiði flokka sína án hlutverks í stjórnmálum út fyrir flokksstofnanir, með þingsetu eða varaþingmennsku, setu í ríkisstjórn eða í sveitarstjórnum.
Með ríkisstjórnarskiptum stendur Jón aðeins eftir sem flokksformaður og ekki hluti þingflokksins né getur setið þingfundi eftir það. Staða hans er með því ráðin, enda eru stjórnmál dagsins í dag byggð mjög á því að flokksformenn hafi hlutverki að gegna út fyrir flokka sína. Þetta er vissulega vond staða en hún blasir nú við og ekkert sem breytir henni. Jón fórnaði sér að mörgu leyti fyrir flokk sinn í fyrrasumar er hann tók sæti í ríkisstjórn og gaf upp á bátinn seðlabankastjórastöðu.
Það er skiljanlegt að Jón vilji yfirgefa sviðið við þessi þáttaskil og telji rétt að flokkurinn fái annan forystumann, enda er hann í raun utan helstu hringiðu stjórnmálanna með ríkisstjórnarskiptum. Það verður fróðlegt að fylgjast með stöðunni innan Framsóknarflokksins samhliða formannsskiptum innan við ári eftir að Jón tók við formennsku af Halldóri Ásgrímssyni.
22.5.2007 | 14:58
Siv kjörin þingflokksformaður Framsóknarflokksins

Á móti kemur að Siv hefur aldrei verið þingmaður í stjórnarandstöðu á sínum þingferli, sem bæði Valgerður og Guðni upplifðu hinsvegar á Viðeyjarstjórnarárunum. Það verða því þáttaskil fyrir hana að verða óbreyttur þingmaður í stjórnarandstöðu þegar að hún missir lyklavöldin í heilbrigðisráðuneytinu á morgun. Hún hefur eins og fyrr segir verið áhrifamikil í stjórnmálum. Hún var mjög virk í starfi þingsins 1995-1999 og varð umhverfisráðherra vorið 1999 en missti þann stól í hrókeringunum sem fylgdu dýrkeyptri forsætisráðherratign Halldórs Ásgrímssonar. Hún varð svo aftur ráðherra árið 2006 eftir að hafa verið formaður þingnefnda um skeið.
Siv er auðvitað í mjög sterkri stöðu að mörgu leyti innan flokksins, þó varla verði talað um sterka stöðu svosem heilt yfir þegar að Framsóknarflokkurinn á í hlut þessa dagana. Hún er nú skyndilega orðin eini þingmaður Framsóknarflokksins á höfuðborgarsvæðinu, en flokkurinn missti þrjú af fjórum þingsætum sínum á svæðinu í kosningunum 12. maí. Það er öllum ljóst að flokkurinn er í molum á þessu svæði, en Siv má teljast heppin að hafa náð aftur naumlega inn á þing með maísólinni að morgni eftir kjördag.
Það eru spennandi tímar innan Framsóknarflokksins. Varla eru þeir þó gleðilegir. Formaðurinn er á útleið á næstu dögum og enn einn forystuhasar framundan. Það verður ekki síðra átakasumar um völdin innan flokksins þetta sumarið en var í fyrrasumar, þegar að Halldór steig niður af sínum stalli. Nú er flokkurinn hinsvegar valdalaus í landsmálum og lamaður að mjög mörgu leyti. Algjör naflaskoðun og grunnendurskoðun blasir þar við.
Siv stefnir eflaust á lykilstöðu í þeim forystukapal. Það verður fróðlegt hvort að þingflokksformennskan verði henni einhver stökkpallur í þeim efnum.
![]() |
Siv kjörin formaður þingflokks Framsóknarflokks |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.5.2007 | 12:08
Þingvallastjórnin tekur við völdum á fimmtudag

Mikil uppstokkun verður samhliða stjórnarskiptum. Framsóknarflokkurinn er að fara í stjórnarandstöðu í þriðja skiptið á 36 ára tímabili, en hann sat í stjórn 1971-1979, 1980-1991 og frá 1995. Það stefnir því í mikla uppstokkun. Það er ennfremur sögulega athyglisvert að meginpólar til hægri og vinstri vinni saman sem hin stóra samsteypa. Þetta er mjög öflugur ríkisstjórnarkostur. Þetta er enda stjórn með mikinn stuðning og um leið mikið umboð frá landsmönnum til verka.
Það verður áhugavert að sjá hverjir verði ráðherrar í nýrri ríkisstjórn, en fyrir liggur að ákvörðun um það verði kynnt á þingflokksfundum að loknum flokksfundum í kvöld.
![]() |
Formenn ræða við þingmenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.5.2007 kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.5.2007 | 11:29
Fundur boðaður í flokksráði Sjálfstæðisflokksins
Fundur hefur nú verið boðaður í flokksráði Sjálfstæðisflokksins í kvöld kl. 19:00 í Valhöll að Háaleitisbraut 1 í Reykjavík. Þar mun verða tekin afstaða til nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Ég sit í flokksráði Sjálfstæðisflokksins og hef því fengið fundarboð. Það blasir því við að ný ríkisstjórn taki við á næstu dögum og vinna við myndun stjórnar sé á lokastigi og lokafrágangur standi nú yfir.
Það hefur tekið skamman tíma að mynda ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Aðeins örfáir dagar eru liðnir frá því að Geir H. Haarde fékk umboð til myndunar meirihlutastjórnar og dagarnir sem síðan hafa liðið hafa verið vel nýttir til verka.
21.5.2007 | 23:17
Jón reynir að bera á móti pólitískum endalokum

Það er þó algjörlega ljóst að napra staðan er engu að síður óbreytt. Hann stendur í raun eftir án hlutverks í íslenskum stjórnmálum um leið og hann missir ráðherrastólinn. Sennilega væri enginn að velta þessu fyrir sér hefði Jón hlotið kjör á Alþingi í Reykjavík norður eða hefði aðkomu að þinginu sem mögulega varaþingmaður eftir að hafa misst ráðherrastólinn. Það er þó ekki í spilunum og öllum ljóst að missi Jón ráðherrastólinn eru örlögin ráðin, altént að því leyti að hann hafi einhver áhrif í íslenskum stjórnmálum. Það þarf engan sérfræðing til að sjá það.
Það á varla nokkur maður von á að hann staðfesti þessi endalok sjálfur meðan að hann er enn ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Hinsvegar vakti orðalag Jóns, sem höfðu voru eftir honum í tíufréttum í kvöld, mikla athygli en hann talaði þar um að beðið yrði niðurstaðna viðræðna um stjórnarmyndun og þá fyrst yrði framtíðin ljós. Ég er ekki í vafa um að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar verði mynduð og taki við fyrir vikulokin, svo að ég á ekki von á að hann staðfesti eitt né neitt í þessum efnum fyrr en hann hefur látið af ráðherraembætti.
Þeir eru fáir tel ég sem sjá það fyrir sér að Jón Sigurðsson verði formaður Framsóknarflokksins án pólitísks hlutverks út fyrir flokksstofnanir. Það að missa af þingsætinu var Jóni gríðarlegt áfall en það að missa lyklavöldin að iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu verður enn meira áfall. Þegar að það gerist eru örlögin ráðin. Þess vegna mun Jón ekki staðfesta orðróm af þessu tagi innan úr Framsóknarflokknum og sem er fluttur af fyrrum aðstoðarmanni forvera hans á formannsstóli flokksins á prime sjónvarpstíma fyrr en hann hefur misst stöðu sína innan Stjórnarráðsins.
En örlögin eru giska ráðin og það efast varla fáir um það hvað framundan er. Allavega ekki þeir sem þekkja stjórnmál vel og vita hvaða hlutverki stjórnmálamenn verða að gegna er þeir sitja sem formenn stjórnmálaflokks. Það er enda vonlaust að vera flokksformaður með völd án þess að hafa hlutverk út fyrir flokkinn. Það er napri veruleikinn sem ekki blasir við Jóni Sigurðssyni fyrr en hann hefur misst ráðherrastólinn sem plat-form í stjórnmálum.
![]() |
Jón segir fregnir af andláti sínu stórlega ýktar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.5.2007 | 19:03
Jón Sigurðsson hættir formennsku í Framsókn
Ég skrifaði ítarlegan pistil um þessi yfirvofandi pólitísku endalok Jóns Sigurðssonar í gær og bendi á þau skrif. Það blasti við öllum að staða Jóns hefði verið allt önnur hefði hann haldið ráðherrastól og verið áfram í fronti innan ríkisstjórnarinnar. Með því hefði hann haft lykilstöðu til að vera virkur þátttakandi í stjórnmálum bæði talsmaður innan þingflokks og í þingumræðum - leiða Framsóknarflokkinn innan þings og hafa alvöru hlutverki að gegna við að byggja flokkinn upp.
Með endalokum stjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hurfu þær vonir Jóns Sigurðssonar og endalokin voru ljós. Hann fer frá velli innan við ári eftir formannskjör sitt. Þessi orðrómur um endalokin er bara staðfesting þess sem allir vissu. Það verður fróðlegt að sjá hvað við tekur en óneitanlega er staða Guðna Ágústssonar sterk í þessu ljósi og mjög líklegt að hann taki við formennsku sem sitjandi varaformaður. Aftur á móti gætu orðið átök um formennskuna á næsta flokksþingi.
Það stefnir í uppstokkun innan Framsóknarflokksins á öllum sviðum samhliða yfirvofandi formannsskiptum. Það blasir við öllum. Það verður fróðlegt að sjá hver mun taka við formannshlutverkinu nú þegar að Jón Sigurðsson er orðinn pólitískt landlaus og formannsskipti í augsýn.
21.5.2007 | 17:35
Hlé gert á viðræðum - vinna í eðlilegum farvegi
Þessar viðræður hafa gengið mjög vel á stuttum tíma. Innan við vika er liðin frá endalokum stjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og Geir H. Haarde fékk umboð forseta Íslands til stjórnarmyndunar á Bessastöðum á föstudaginn, eftir að hafa beðist lausnar fyrir fráfarandi stjórn. Fundað var eftir hádegið á föstudaginn í Ráðherrabústaðnum og helgin var vel nýtt til fundahalda á Þingvöllum, hinum sögufræga stað í íslenskri sögu. Þar var fundað báða daga frá morgni til kvölds og ljóst að þar myndaðist góður grunnur að verkinu.
Það er ljóst að ekkert liggur í sjálfu sér á. Flokkarnir eru enn vel staddir innan við tímafrest þann sem Ólafur Ragnar Grímsson nefndi á föstudag er hann veitti umboð til stjórnarmyndunar. Skv. fréttum mun þingflokkur Samfylkingarinnar hittast í kvöld til að kveðja þá þingmenn, sem létu af þingmennsku 12. maí sl. en meðal þeirra eru eins og kunnugt er þær Margrét Frímannsdóttir, síðasti formaður Alþýðubandalagsins og Rannveig Guðmundsdóttir, fyrrum félagsmálaráðherra hverfa nú af þingi eftir langa þingsetu.
Það verður fróðlegt að sjá hversu langan tíma vinnan við stjórnarmyndun flokkanna gengur, en vægt er til orða tekið að stjórnmálaáhugamenn bíði spenntir eftir stjórnarsáttmála flokkanna og ráðherrakapal þeirra og skiptingu annarra embætta, bæði innan ríkisstjórnar og á Alþingi.
![]() |
Hlé gert á stjórnarmyndunarviðræðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.5.2007 | 14:04
Verður Þorgerður Katrín ráðherra í lykilráðuneyti?

Staða Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur innan Sjálfstæðisflokksins styrkist mjög í ljósi þessara úrslita. Hún er auðvitað í ljósi stöðu sinnar örugg um ráðherrastól og svo gæti farið að kjördæmið hlyti annan ráðherrastól. Þetta er sterkasta vígi Sjálfstæðisflokksins, staða hans á Kragasvæðinu er auðvitað mjög sterk á sveitarstjórnarstiginu og öllum ljóst að hann er þar í fararbroddi. Það þurfti því varla að koma að óvörum að flokkurinn hefði innistæðu fyrir sex þingsætum, en samt sem áður flokkast þessi úrslit undir mikinn sigur flokksins á svæðinu og kórónar sterka stöðu Þorgerðar Katrínar ennfremur. Það blasir við öllum sem líta á úrslitin og stöðu mála.
Fyrir fjórum árum var mikið talað um stöðu Þorgerðar Katrínar í ráðherrakapal. Margir töldu að hún yrði ekki ráðherra þá, enda skipaði hún fjórða sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Kraganum 2003. Þá hafði hún barist fyrir prófkjöri á svæðinu en það ekki orðið ofan á og efstu fjögur sætin óbreytt frá framboðslista í Reykjaneskjördæmi hinu forna árið 1999. Þrátt fyrir það ákvað Davíð Oddsson að velja Þorgerði Katrínu á ráðherralista sinn. Hann ákvað að Þorgerður Katrín skyldi verða menntamálaráðherra á gamlársdag 2003 og sló af Tómas Inga Olrich. Þorgerður Katrín var tekin framfyrir bæði Sigríði Önnu Þórðardóttur og Gunnar I. Birgisson, sem voru fyrir ofan hana á lista.
Staða Þorgerðar Katrínar er önnur nú. Stór spurning sem fylgir ráðherrakapal Sjálfstæðisflokksins að þessu sinni er hvort að hún taki sæti í lykilráðuneyti að þessu sinni. Lykilráðuneyti eru eins og flestir vita, auk forsætisráðuneytis, utanríkis- og fjármálaráðuneyti. Aðeins ein kona hefur skipað sæti í lykilráðuneyti fram að þessu, en það er Valgerður Sverrisdóttir, fráfarandi utanríkisráðherra, sem varð fyrsta konan á stóli utanríkisráðherra fyrir tæpu ári, þann 15. júní 2006. Nú þegar er ljóst að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, skipar sæti í lykilráðuneyti en óvissa er um hvort sætið hún skipi. Óvissa er þó yfir hvort að Þorgerður Katrín færist upp í hinn stólinn.
Þegar að Árni M. Mathiesen varð fjármálaráðherra í september 2005, við endalok stjórnmálaferils Davíðs Oddssonar, var staða mála önnur. Árni var leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi og fyrsti þingmaður kjördæmisins og Þorgerður Katrín skör neðar sett. Síðan hefur Þorgerður Katrín orðið varaformaður Sjálfstæðisflokksins og tekið við leiðtogastöðunni af Árna í Suðvesturkjördæmi. Þorgerður Katrín varð varaformaður flokksins, mánuði eftir að Árni varð fjármálaráðherra, á landsfundi Sjálfstæðisflokksins haustið 2005 og byggt sig sífellt betur upp til forystu. Árni gaf ekki kost á sér til varaformennsku gegn Þorgerði Katrínu og færði sig um kjördæmi að lokum.
Staða mála er önnur nú. Þó að Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur þyki eflaust vænt um menntamálaráðuneytið og það sem hún hefur sinnt á þeim vettvangi er ekki ósennilegt að hún færi sig um set og taki sæti í lykilráðuneyti við hlið forsætisráðherrans, Geirs H. Haarde, og formanns Samfylkingarinnar, sem leiðir flokk sinn í fronti Þingvallastjórnarinnar. Það verður fróðlegt að sjá hver staða Þorgerðar Katrínar verði í nýrri ríkisstjórn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)