Haldið austur

Ég er að fara austur á firði á morgun. Ég fékk bústað fyrir austan og ætla að vera þar í allt að viku, ræðst auðvitað í senn bæði af veðri og vindum. Veðurspáin lofar góðu, svo að það stefnir vonandi í góða daga á næstunni fyrir austan. Það verður gaman að hitta vini og ættingja fyrir austan. Það er orðið alltof langt síðan að ég hef farið austur, það er að verða ár og nauðsynlegt að skella sér austur nú, svona í sumarbyrjun. Fínt að taka nokkra daga í rólegheitum fyrir austan.

Þetta hefur verið mjög líflegur vetur í pólitíkinni. Gaman að skrifa um málin, en nú fer að styttast, held ég allavega, í að þar róist mjög og fólk slappi af eftir annasaman vetur. Það hefur verið gaman að skrifa um pólitíkina í vetur og ég held að hér hafi bara birst ágætis pælingar og umfjöllun um það sem hefur verið að gerast.

Það verður notalegt að pása sig aðeins þessa daga fyrir austan, þó að eflaust geti vel verið að maður pári eina og eina línu þegar að svo liggur við og vel stendur á að láta í sér heyra.

Vönduð og vel flutt stefnuræða hjá Geir

Geir H. Haarde Geir H. Haarde, forsætisráðherra, flutti í kvöld á Alþingi fyrstu stefnuræðu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Þar var farið yfir lykilmarkmið stjórnarinnar og þau verkefni sem framundan eru á hinni pólitísku vegferð á kjörtímabilinu, næstu fjögur árin. Það eru nýjir tímar í íslenskum stjórnmálum. Samstarf þessara tveggja flokka markar þáttaskil og þar kemur til sögunnar nýr og sterkur þingmeirihluti sem setur afar metnaðarfull markmið á dagskrá og byggir nýjan grunn til verka.

Geir flutti stefnuræðuna af miklu öryggi og festu. Mér finnst Geir sífellt vera að eflast sem stjórnmálamaður. Hann styrktist sífellt í aðdraganda þingkosninganna og hélt sína leið til forystu, en reyndi ekki að leika Davíð Oddsson eða fara í sporin hans. Það er ekki hægt og Geir hefur markað sér sinn eigin stíl og eigin pólitík í raun. Þar liggur farsæld hans. Ég sá þetta best á landsfundi um miðjan síðasta mánuð. Eftir þann landsfund og sterka framkomu hans þar var aðeins spurning um það hversu öflugt umboð Sjálfstæðisflokkurinn fengi til forystu í kosningunum.

Það eru vissulega nýjir tímar með samvinnu tveggja stærstu flokka landsins. Það er auðvitað nýtt pólitískt landslag sem fylgir þessum breytingum og það eru spennandi tímar framundan. Sterk stjórn með öruggt umboð heldur nú til verkanna. Það reynir um margt á stjórnarandstöðuna í því ferli, því að þar eru fáir þingmenn og þeir eiga erfitt verkefni fyrir höndum. Öflug stjórnarandstaða er sterkri ríkisstjórn mikilvæg. Það efast enginn um sterka stöðu stjórnarinnar eftir þetta umræðukvöld í þinginu og ljóst að spennandi tímar eru framundan í þinginu á kjörtímabilinu.

mbl.is Meginmarkmið stjórnmála að skapa samfélag þar sem fólki líður vel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur J. ber harkalega á Samfylkingunni

Steingrímur J. Sigfússon Steingrímur J. Sigfússon barði á Samfylkingunni með leiftrandi hætti í sannkallaðri eldmessu fyrir stundu. Þar var ekki talað undir kratarauðri rós, heldur allt látið flakka. Öll gremjan braust fram í orðum leiðtoga stjórnarandstöðunnar. Það var merkileg ræða. Í senn áhugaverð og fróðleg fyrir stjórnmálaáhugamenn. Þarna talaði leiðtogi sem er ósáttur við stöðuna og greinilega getur ekki með nokkru móti horft framhjá súrsætri tilverunni sinni.

Það er skiljanlegt að Steingrímur J. sé ekki sáttur við sitt hlutskipti. Hann hefur setið á þingi í 24 ár, frá árinu 1983. Hann hefur aðeins verið í stjórnarmeirihluta í þrjú ár af þessum árafjölda. Það segir allt sem segja þarf. Steingrímur J. gerði sér háleit markmið um stjórnarþátttöku að loknum kosningunum 12. maí sl. Sigur VG, sem svo lengi var í augsýn alla kosningabaráttuna, varð er á hólminn kom ekki eins glæstur og stefndi svo lengi í. Flokkurinn mældist með allt upp í 28% og 15-17 þingsæti en hlaut að lokum aðeins níu, tveim fleiri en Framsókn.

Þó að VG hafi unnið um margt stóran sigur í kosningunum, sem óumdeilt er, varð sigurinn súrsætur og brosin voru ekki sönn á kosninganótt. Stærsta stjarna VG í kosningunum, Guðfríður Lilja skákdrottning, komst ekki inn á þing er á hólminn kom og eftir stóð þingflokkur sem minnti meir á Alþýðubandalagið eldgamla sem sofnaði svefninum langa fyrir áratug en nýs framsækins stjórnmálaflokks með nýjar og ferskar rætur. Ásýndin var önnur en að var stefnt, það var flokknum verulegt áfall að ná ekki inn Guðfríði Lilju og Ingibjörgu Ingu, svo að ekki sé nú talað um Björn Val og Ölmu Lísu, svo fáir séu nefndir.

Gremja VG í garð Samfylkingarinnar leyndi sér ekki í eldmessu Steingríms J. áðan. Norðlenski bóndasonurinn frá Gunnarsstöðum minnti meira á hryggbrotinn unglingspilt í ástarsorg en hnarreistan mann valdsins. Enda var það VG og formanninum mikið áfall að ná ekki að semja sig inn í ríkisstjórn. Klúðrið á þeim vængnum kom í veg fyrir vinstristjórn og bjargaði okkur frá ísköldu vinstri vori. Það er gleðilegt.

Samt sem áður er lítið um gleði hjá vinstri grænum á þessu vori. Þar tekur nú við sambúð með fornum fjandvini, sjálfum Framsóknarflokknum. Það verður sambúð sem kengur verður í, svona kæfingarfaðmlag tveggja andstæðinga sem verða að unnast en vilja það ekki, eru hundfúl í sömu hjónasæng. Í ljósi þess er gremjan í garð Samfylkingarinnar skiljanleg.

mbl.is Steingrímur J. Sigfússon: Samfylkingin gafst upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrafnkell A. Jónsson látinn

Hrafnkell A. Jónsson Hrafnkell A. Jónsson, verkalýðskempan mikla og öflugur forystumaður flokksstarfsins okkar fyrir austan, er látinn, aðeins 59 ára að aldri. Hann féll í valinn eftir hetjulega baráttu sína við alvarleg veikindi sem eira engu í raun. Hrafnkell kvaddi okkur of snemma, það er mikill sjónarsviptir af mönnum á borð við hann. Hrafnkell var maður skoðana og krafts í stjórnmálastarfi. Hann tjáði skoðanir sínar óhikað, hvar og hvenær sem var. Þrátt fyrir að vera trúr sínum flokksgrunni hikaði Hrafnkell ekki við að fara sína leið, jafnvel vera ósammála forystunni.

Amma mín, Sigurlín Kristmundsdóttir, vann áratugum saman í Verkalýðsfélaginu Árvakri á Eskifirði og var trúnaðarkona þar um langt skeið. Hrafnkell tók við félaginu skömmu áður en hún yfirgaf Eskifjörð og hélt norður. Hún var kjarnakona í starfinu, sönn verkakona og öflug sínum grunni og þekkti vel félagið fyrir austan. Hún talaði mjög oft um framlag Hrafnkels í verkalýðsstarfinu fyrir austan og virti það mikils. Þar var ekkert hik og þar kom fram hennar afgerandi skoðun hversu vel hann hélt á málefnum verkafólks á Eskifirði. Ég tel hennar dóm hafa verið réttan. Enda leiddi Hrafnkell félagið um mjög langt skeið.

Hrafnkell var öflugur í bæjarmálunum á Eskifirði um árabil. Hann leiddi Sjálfstæðisflokkinn þar um langt skeið og var trúnaðarmaður hans í starfinu og var forystumaður á vettvangi sveitarfélagsins. Þar heyrði ég í raun fyrst af pólitísku starfi hans og bar alla tíð mikla virðingu fyrir því framlagi hans. Eftir að hann hélt upp á Egilsstaði til verka fyrir Héraðsskjalasafnið hélt hann áfram sínum pólitísku verkum á nýjum slóðum og var þar allt í öllu meðan að heilsa og kraftar entust. Hann var formaður fulltrúaráðsins þar um nokkuð skeið og það var í gegnum þau verk sem ég kynntist honum best hin síðari ár, vegna verka minna á vegum kjördæmastarfs flokksins og í ungliðamálunum. Hrafnkell var mjög áberandi í kjördæmastarfinu allt þar til yfir lauk.

Sérstaklega er mér minnisstæð ferð mín og Guðmundar Skarphéðinssonar, formanns kjördæmisráðsins, austur í janúar 2005 á fundaferðalag af hálfu flokksins með Halldóri Blöndal. Við áttum ógleymanlega stund á Egilsstöðum á köldum janúardegi þar sem Hrafnkell lóðsaði okkur um svæðin í fylgd með Halldóri. Við fórum í fyrirtæki á Egilsstöðum og vinnustaði, litum á helstu málin á svæðinu. Það var skemmtileg stund og mjög notalegt að hlusta á Hrafnkel tala um stöðu mála fyrir austan, atvinnu- og samgöngumál - í raun allt á milli himins og jarðar. Sérstaklega var gaman að fara í heimsókn til Þráins í Lagarfellið og hlusta á þá þrjá félagana, Halldór og austfirsku kappana tala um stöðu mála.

Hrafnkell var mjög áberandi í sínu flokksstarfi. Hann hafði skoðanir á öllum málum og hikaði aldrei við að tjá sig. Hann lét sínar skoðanir vaða og af öllum krafti, sama þó að þær væru ekki alltaf í flokksfarvegi né væru sléttar og felldar eftir meðalmennskunni. Hann var trúr sínu. Undir lokin var Hrafnkell farinn að blogga. Hann naut sín mjög vel á þeim vettvangi. Það var gaman að fylgjast með honum tjá sig þar og sem fyrr lét hann allt vaða. Þannig var hann enda bestur. Hrafnkell var þannig maður að hann varð að vera frjáls í sinni tjáningu og það var bara hans eðli. Það er sorglegt hversu stutt krafta hans naut við á bloggvettvanginum.

Það eru aðeins nokkrir mánuðir síðan að Hrafnkell fékk dóminn mikla, veikindin urðu ljós og þau ágerðust stig af stigi meira, þó viss vonarglæta kæmi inn á milli. Framan af háði Hrafnkell baráttu sína á netinu. Börnin hans, Tjörvi og Fjóla, hlúðu vel að honum á þeim vettvangi og færðu okkur fréttir af honum lengst af. Smám saman minnkaði vonin og baráttan tók á sig ójafna mynd, en Hrafnkell barðist af krafti þó allt til enda. Það var eðli hans að berjast og hann gerði það svo sannarlega meðan að stætt var í ójöfnum og erfiðleikum leik við máttarvöld sem við ráðum ekki við.

Að Hrafnkeli er mikill sjónarsviptir fyrir okkur sjálfstæðismenn. Hann var öflugur leiðtogi flokkstarfsins fyrir austan og sinnti því af samviskusemi og alúð. Síðustu samskipti mín við hann á flokksvettvangi voru fyrir nákvæmlega ári. Þá vann ég í kosningabaráttunni hér á Akureyri og hann leiddi kosningavinnuna, sem alltaf fyrr, austur á fjörðum. Við áttum í nær daglegum samskiptum, ræddum stöðu mála og komum skilaboðum um utankjörfundaratkvæði áleiðis, þau atkvæði sem oft gera kraftaverk í jafnri baráttu. Það voru mjög skemmtileg samskipti og eftirminnileg.

Ég vil að leiðarlokum þakka Hrafnkeli allt gamalt og gott í flokksstarfinu, sérstaklega í kjördæmastarfinu eftir sameiningu kjördæmaheildanna eftir aldamótin. Ég vil votta fjölskyldu hans innilega samúð mína.

Guð blessi minningu baráttumannsins Hrafnkels. 

mbl.is Hrafnkell A. Jónsson látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Átök á Alþingi milli stjórnar og stjórnarandstöðu

AlþingiHátíðarblærinn var ekki lengi yfir Alþingi á þingsetningardegi. Átök milli stjórnar og stjórnarandstöðu hófust strax eftir að Sturla Böðvarsson var kjörinn forseti Alþingis. Stjórnarandstaðan mótmælti harðlega uppstokkun nefnda eftir verksviðum og verklagi við það ferli af hálfu stjórnarmeirihlutans. Var ansi hörð rimma á þinginu á fimmta tímanum um þessi mál.

Það er greinilegt að átakatímar eru framundan í þinginu, strax nú þegar á þessu sumarþingi. Meirihluti ríkisstjórnarinnar er reyndar svo öflugur að nú getur hann farið sínu fram á afbrigði frá þingsköpum með áberandi hætti, í krafti öflugs þingmeirihluta, og án þess að leita að nokkru leyti eftir stuðningi frá stjórnarandstöðu. Segja má því að stjórnarmeirihlutinn hafi öll völd þingsins á sinni hendi og geti farið sínu fram með þeim hætti sem hún telur bæði réttast og best. Það verður því annar bragur á þinginu og átökin verða eflaust þess þá meiri fyrir vikið.

Í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gat stjórnin ekki farið sínu fram nema að fá stuðning frá stjórnarandstöðu að hluta allavega til að fá afbrigði frá þingsköpum. Þetta sást t.d. best síðast í auðlindamálinu í marsmánuði þegar að átök voru milli aflanna og stjórnarskrárbreytingar, mjög umdeildar vissulega, stöðvust í meðförum þingsins vegna þess að stjórnarblokkin hafði ekki nægt afl til þess að keyra málið ein síns liðs í gegn. Nú er það úr sögunni. Meirihluti stjórnarinnar hefur 43 þingsæti og aðeins 20 þingmenn sitja í stjórnarandstöðu.

Það var merkilegt að sjá umræðurnar á þingi áðan en ég fylgdist með þeim í tölvunni. Þar tókust Arnbjörg Sveinsdóttir og Siv Friðleifsdóttir á sem þingflokksformenn sinna flokka og ennfremur tóku þeir Guðni Ágústsson, Kristinn H. Gunnarsson og Steingrímur J. Sigfússon höndum saman gegn ákvörðunum ríkisstjórnarinnar. Þetta eru merkilegir tímar í þinginu. Gamlir fjandvinir á báða bóga farnir að vinna saman og nýjir pólar að myndast.

Það stefnir allt í funheitt sumarþing og ekki verður neinn ískuldi yfir vetrarþinginu ef marka má þennan forsmekk á samkomulagið milli stjórnar og stjórnarandstöðu þegar á fyrsta degi þingstarfsins á kjörtímabilinu.


mbl.is Stjórnarandstaðan á Alþingi byrsti sig á þingsetningarfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sturla Böðvarsson kjörinn forseti Alþingis

Sturla Böðvarsson Sturla Böðvarsson, fyrrum samgönguráðherra, hefur verið kjörinn forseti Alþingis. Hann hlaut 54 atkvæði í kjöri á Alþingi á fjórða tímanum. Sturla hefur verið alþingismaður frá árinu 1991 og var samgönguráðherra 1999-2007. Sturla verður forseti Alþingis í tvö ár, en samkomulag er á milli stjórnarflokkanna að Samfylkingin fái embætti forseta Alþingis árið 2009.

Sturla er reyndur stjórnmálamaður og hefur mikla þingreynslu og hefur setið í forsætisnefnd þingsins. Hann er því mjög hæfur til verksins og mun vonandi ná að standa sig vel. Forsetaembætti þingsins er hlutverk sáttasemjara milli ólíkra póla í þingstarfinu, hann miðlar málum og leiðir starf þingsins svo sómi sé að. Það verður sérstaklega merkilegt að fylgjast með þessu hlutverki í vetur en þingmeirihluti ríkisstjórnarinnar er sá mesti nú í marga áratugi. Það reynir þrátt fyrir það mjög á verklag forseta.

Sturla tekur við forsetaembættinu af Sólveigu Pétursdóttur, sem lét af þingmennsku þann 12. maí sl. Frá kjördegi til þingsetningardags hefur Birgir Ármannsson gegnt embætti forseta þingsins, sem þriðji varaforseti Alþingis, enda létu bæði Rannveig Guðmundsdóttir og Jón Kristjánsson, sem voru 1. og 2. varaforseti af þingmennsku 12. maí sl. Birgir fer nú úr forsætisnefnd og tekur við formennsku í allsherjarnefnd af Bjarna Benediktssyni. Varaforsetar þingsins verða Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Þuríður Backman, Kjartan Ólafsson, Einar Már Sigurðarson, Magnús Stefánsson og Ragnheiður Ríkharðsdóttir.

Það verður fróðlegt að fylgjast með verkum Sturlu á nýjum vettvangi. Þetta er nýtt hlutverk fyrir Sturlu eftir átta ár á ráðherrastóli. En um leið vaknar spurningin um hvað verði um Sturlu eftir tvö ár. Þeirri spurningu hef ég áður velt upp hér og komið með væna tilgátu um það.

mbl.is Sturla kjörinn forseti Alþingis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Setning Alþingis - ræða forseta Íslands

Alþingi Alþingi Íslendinga var sett eftir hádegið. Það er jafnan hátíðleg stund þegar að þingsetning fer fram. Viðgerðir á þinghúsinu setja greinilega mark sitt á upphaf þinghaldsins en viðgerðarpallar umlykja nú þinghúsið og þar eru viðgerðir á þaki meðal annars. Samkvæmt hefð hófst þingsetning á messu í Dómkirkjunni.

Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra og starfsaldursforseti Alþingis, stýrði fundi í þingsal eftir að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, flutti ávarp sitt. Þar lauk forsetinn lofsorði á fjölmiðla hérlendis og sagði fjölmiðlaflóruna í aðdraganda kosninga hafa veitt öllum stjórnmálaöflum tækifæri á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri en það væri breyting frá fyrri tímum þegar stjórnmálaflokkar hefðu haft tök á fjölmiðlunum.

Mikla athygli vöktu ummæli forsetans um hermálin, en hann sagði að menn hefðu orðið vitni að því hvernig mál sem hefði klofið þjóðina í tvennt í áratugi hefði verið til lykta leitt í vetur en þá hefði Bandaríkjaher horfið af landi brott. Herskálum væri nú breytt í háskóla og hann hefði á ferðum sínum um Bandaríkin fundið fyrir miklum áhuga hjá þarlendum vísindamönnum á uppbyggingunni í gömlu herstöðinni. Þetta átakamál var nú svo til gufað upp að mínu mati fyrir löngu svo að ég skil ekki ummæli forsetans í raun.

Framundan er beitt og gott sumarþing eflaust. Það eru sautján einstaklingar að taka sæti á Alþingi í fyrsta skipti í dag en sjö þingmenn hafa verið þar áður sem þingmenn eða varamenn. Það verður fróðlegt að sjá hvernig samstarf stjórnar og stjórnarandstöðu á þessu stutta en snarpa sumarþingi verði háttað og hvernig það gangi fyrir sig, miðað við hin mjög svo breyttu hlutföll í þinginu.

mbl.is Ólafur Ragnar: Ágreiningur sem klauf þjóðina í áratugi gufaði upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Ágústi Ólafi ekki treyst til áhrifa?

Ágúst Ólafur Ágústsson Ég verð að viðurkenna að þegar að ljóst varð að Lúðvík Bergvinsson yrði þingflokksformaður Samfylkingarinnar taldi ég að í því fælist að Ágúst Ólafur Ágústsson yrði formaður fjárlaganefndar. Svo er ekki. Þann stól á Gunnar Svavarsson að fá. Ágúst Ólafur sem hvorki varð ráðherra né þingflokksformaður verður formaður viðskiptanefndar, vissulega öflug nefnd en hann er greinilega flokkaður með óbreyttu þingmönnunum og hefur enga stöðu sem varaformaður til að sækjast eftir áhrifum.

Staða Ágústs Ólafs er mjög undarleg. Hann sem varaformaður flokksins er ekki í ríkisstjórn né formaður þingflokksins, þrátt fyrir ummæli í þá átt. Hann hefur veikst til mikilla muna og er greinilega í frystigeymslu formanns flokksins. Þetta er að mörgu leyti merkileg og athyglisverð staða sem varaformanninum er boðið upp á. Með þessu sannast vel öll orðin sem sögð voru í stjórnarmyndunarviðræðunum um veika stöðu Ágústs Ólafs. Þeim verður ekki neitað úr þessu.

Ég sá á vef Magnúsar Más Guðmundssonar, formanns Ungra jafnaðarmanna, að hann er ekki beint sáttur við valið á þingflokksformanninum nýja. Þar er talað um að hann hafi fjórum sinnum tapað innan flokksins að undanförnu en sé svo hækkaður í tign. Þar er vikið að því augljósa; að Ingibjörg Sólrún hafi stutt hann til varaformennsku. Það hefur eflaust haft áhrif á goggunarröðina.

Ég skil annars vel að ungliðar Samfylkingarinnar séu mjög ósáttir við stöðu varaformannsins. Hann er jú einn af þeim og fyrrum leiðtogi þeirra. Þau eru varla sátt við hversu neðarlega hann er staddur innan flokksins. Slæm staða hans er nú endanlega ljós og hún vekur athygli um alla stjórnmálaflóruna.

mbl.is Gunnar verður formaður fjárlaganefndar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Róbert Marshall aðstoðar Kristján L. Möller

Björgvin, Kristján og Róbert Kristján L. Möller, samgönguráðherra og leiðtogi Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi, hefur ráðið Róbert Marshall, varaþingmann Samfylkingarinnar, sem aðstoðarmann sinn. Ég verð að viðurkenna að ég átti von á að Kristján myndi velja flokksmann héðan úr Norðausturkjördæmi sem aðstoðarmann sinn en engu að síður þarf valið ekki beint að koma að óvörum.

Það mun reyna mikið á Kristján á næstu mánuðum og árum í embætti samgönguráðherra. Hann er eini þingmaður Norðausturkjördæmis sem situr á ráðherrastóli og fólk hér bindur vonir við verk hans. Í kosningabaráttunni fyrir þingkosningarnar 12. maí sl. talaði Kristján fyrir því að setja Vaðlaheiðargöng á dagskrá fljótt og vel og bæta málefni Grímseyjarferjunnar. Vel verður fylgst með efndum í þeim efnum, þó greinilega hafi verið dregið í land í orðavali af hálfu hins nýja ráðherra.

Það vantar ekki verkefnin í samgöngumálum. Það verður fróðlegt að sjá hvernig að Kristján Möller mun standa sig á þessum vettvangi. Nú er mikilvægt að tími framkvæmda hefjist en ekki orða. Nú reynir á nýjan ráðherra og hvað hann vill í raun og veru gera. Ef hann stendur fyrir öllu því sem hann hefur sagt eru miklar framkvæmdir á öllum sviðum framundan. 

Auk þessa finnst mér val Kristjáns sýna vel að hann vilji reyndan fjölmiðlamann til starfa; mann með tengsl í fjölmiðlabransann. Það er oft gott að eiga tengslamann inn á fjölmiðla sem aðstoðarmann sinn. Þetta veit Kristján Möller. Valið sýnir mjög vel þá áherslu.

mbl.is Róbert Marshall verður aðstoðarmaður samgönguráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í minningu Ástu Lovísu

Ásta Lovísa Vilhjálmsdóttir Það var mikill sorgarblær yfir netinu í kvöld þegar að andlát Ástu Lovísu, bloggvinkonu okkar allra, varð opinbert. Þrátt fyrir veikindin var það mikið og sorglegt högg og ég held að allir sem hafa lesið vef Ástu Lovísu hafi verið sorgmædd yfir þeim örlögum hennar. Það sést vel af vef hennar en yfir 1100 samúðarkveðjur hafa verið skrifaðar á vef Ástu Lovísu eftir skrif bróður hennar þar sem andlátið var tilkynnt. Það eitt og sér segir allt sem segja þarf um þann sess sem Ásta Lovísa öðlaðist í hjarta og huga okkar allra.

Ég heyrði fyrst sögu Ástu Lovísu í Kastljósinu í fyrra, þar sem að hún ræddi við Sigmar. Það var tilfinningaþrungin saga og hún sagði hana af svo leiftrandi og sönnum krafti að allir voru snortnir sem sáu. Síðan hef ég verið daglegur lesandi vefsins hennar og fylgst með sorgum og sigrum á erfiðri vegferð. Ég þekki það sjálfur sem ættingi einstaklings sem greinist með krabbamein og missir stig af stigi tök á baráttunni en heldur í baráttukraftinn engu að síður hversu sorglegt það er að fylgjast með henni.

Ásta Lovísa öðlaðist fyrst og fremst sess í huga okkar því að hún gerði baráttu sína opinbera, hún hikaði ekki við að deila hugsunum sínum; allt í senn vonbrigðum, vonum, væntingum, eldmóð, bakslögum og baráttuþreki með okkur. Við urðum áhorfendum að baráttu hennar. Það er ekki auðvelt að lifa svona baráttu svo opinbert og halda reisn sinni og glæsileik allt til enda. Það tókst Ástu Lovísu. Öll vonuðum við að hún næði að sigrast á meininu og þrátt fyrir bakslögin undanfarnar vikur sem fram komu á blogginu var andlátsfregn hennar sláandi og er mikið áfall. Þó að ég hafi aldrei hitt Ástu Lovísu leið mér nær alveg eins og vinur væri fallinn frá.

Þetta er í raun máttur netsins. Með því að lesa skrif einstaklings sér maður hlið á honum og getur í raun lesið karakter hans og persónugerð. Það opinberast allt í því sem fram kemur á vefnum. Þetta er vettvangur hugsana; í senn pælinga og hugleiðinga um lífið og tilveruna. Sumir skrifa um lífið sitt, aðrir skrifa um áhugamálin sín og aðrir taka fyrir hluti sem fáir skrifa um og jafnvel þarna mitt á milli. Það þarf hugrekki til að opna líf sitt upp á gátt og lifa baráttu fyrir heilsu sinni með opinberum hætti. Með því opnast allar þær dyr sem margir vilja hafa lokaðar. Ásta Lovísa hikaði aldrei á vegferð sinni.

Ég las áðan síðustu bloggfærsluna sem Ásta Lovísa skrifaði, það var aðeins tíu dögum áður en hún dó. Þar er engin neikvæðni og ekkert hik eða ótti einstaklings sem horfist í augu við örlög sín, án þess að vita hvernig þau verða. Þar er þó bjart yfir - þar skrifar einstaklingur sem berst af krafti og vill sjá bjartari daga en þá sem áður hafa orðið á vegferðinni. Það var merkilegt að lesa þessi skrif áðan vitandi um hver staða mála er orðin. Þarna birtist ljóslifandi sú Ásta Lovísa sem við öll viljum minnast. Þetta var kjarninn í hennar karakter.

Ég hef allt frá fyrsta degi er ég las vef Ástu Lovísu talið hana til vina minna, þó ég hafi aldrei þekkt hana í eigin persónu. Það er vissulega merkileg tilfinning, en ég tel hana einn sterkasta bloggara sem hefur ritað hérlendis. Hún var sönn og kraftmikil í sinni baráttu. Þannig verður hennar minnst.

Hrafnagilsskóli hlýtur menntaverðlaunin

Hrafnagilsskóli í Eyjafjarðarsveit hlaut í kvöld íslensku menntaverðlaunin í flokki skóla. Þetta er glæsilegur árangur fyrir skólann og mikil viðurkenning fyrir gott starf þar. Karl Frímannsson, skólastjóri Hrafnagilsskóla, var kennari minn fyrir um tveim áratugum. Hann þekki ég af góðu einu. Ég veit að Karl hefur unnið vel í forystu skólans og leitt hann af krafti og fært honum ný tækifæri og markað honum farsælt leiðtogahlutverk á sínu sviði.

Ég óska Karli, nemendum og starfsfólki Hrafnagilsskóla innilega til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu.

mbl.is Íslensku menntaverðlaunin veitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ásta Lovísa Vilhjálmsdóttir látin

Ásta Lovísa Vilhjálmsdóttir Ásta Lovísa Vilhjálmsdóttir er látin. Ásta Lovísa vann hug og hjörtu þjóðarinnar í erfiðu veikindastríði við krabbamein. Hún bloggaði um lífsreynslu sína og örlög með í senn hetjulegum og eftirminnilegum hætti. Baráttuhugur hennar var aðdáunarverður. Hún miðlaði lífsreynslu sinni til fólks með þeim hætti sem aldrei mun gleymast. Hún barðist til hinstu stundar og bloggaði nær alveg fram í andlátið. Vefurinn hennar er minning um hetju. Ég dáðist mjög að henni. Styrkur hennar var aðdáunarverður, allt til hinstu stundar.

Ég votta börnum Ástu Lovísu og fjölskyldu hennar mína innilegustu samúð.

Minningin um mikla hetju í baráttuhug mun aldrei gleymast.

mbl.is Ásta Lovísa Vilhjálmsdóttir látin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður Ágúst Ólafur formaður fjárlaganefndar?

Ágúst Ólafur ÁgústssonÍ ljósi þess að Lúðvík Bergvinsson er orðinn þingflokksformaður Samfylkingarinnar hlýtur flest að benda til þess að Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður flokksins, verði formaður fjárlaganefndar, eins og ég benti á hér fyrr í dag. Allt annað væri hrein niðurlæging fyrir mann í stöðu þeirri sem Ágúst Ólafur gegnir innan flokksins. Staða mála skýrist af nefndakapal flokksins, en þar hljóta Ágústi Ólafi að vera falin mikil störf. Ella er hann hreinlega úti í kuldanum.

Það verður fróðlegt að sjá hvaða sess hann fær. Upphækkun Lúðvíks til forystu í þingflokknum vekja athygli eftir öll ummælin á flokksstjórnarfundinum 22. maí sl, er ráðherrar voru valdir. Það var Ágúst Ólafur mjög dapur, það er erfitt verandi varaformaður stjórnmálaflokks sem hefur úr sex ráðherrastólum að skipa og vera ekki valinn í neinn þeirra að leyna vonbrigðum sínum. Það er eðlilegt. Ágúst Ólafur er keppnismaður í pólitík og hefur verið kjörinn varaformaður flokksins en nýtur samt sem áður ekki stöðu til ráðherrasetu.

Það verður fróðlegt að sjá hvað Ágúst Ólafur fær í kjölfarið. Ef það verður ekki formennska í lykilnefnd á borð við fjárlaganefndina, sem er stærsti bitinn í þingstarfinu, eru örlög hans köld og grimm, segi ég og skrifa. Þá gengisfellur hann enn meir en orðið er.


mbl.is Lúðvík kjörinn þingflokksformaður Samfylkingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fær Valgerður keppni um varaformennskuna?

Valgerður Sverrisdóttir Ég er ekki í vafa um að Valgerður Sverrisdóttir verður kjörin varaformaður Framsóknarflokksins á miðstjórnarfundi þann 10. júní nk. og taki þar með stöðu í forystusveit flokksins. Til þess hefur hún stuðning víða að, að því er virðist. Hún er leiðtogi flokksins í lykilvígi sínu, þar sem flokkurinn hlaut mest fylgi í kosningunum 12. maí sl. Í Norðausturkjördæmi sitja þrír af sjö þingmönnum Framsóknarflokksins og hún vann nokkurn varnarsigur með því að halda flokknum stærri en VG og Samfylkingin eftir að hafa fengið vondar skoðanakannanir.

Það vakti athygli mína þegar að ég hlustaði á svæðisfréttir RÚVAK síðdegis í gær að þar talaði Gunnar Bragi Sveinsson, leiðtogi Framsóknarflokksins í Skagafirði, fyrir endurnýjun innan flokksins. Hann sagðist þar íhuga framboð til varaformennskunnar. Ég held að Gunnar Bragi sé sá fyrsti til þess sem hefur talað um mögulegt framboð til varaformennskunnar, utan auðvitað Valgerðar. Magnús Stefánsson, fyrrum félagsmálaráðherra, talaði jafnvel um að hann færi fram en hann hefur nú ákveðið að leggja ekki í það.

Það er auðvitað ljóst að Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, og Valgerður Sverrisdóttir, varaformannsframbjóðandi, hafa bæði setið á Alþingi frá árinu 1987, eða í tvo áratugi. Þau hafa mikla reynslu fram að færa og kynnst bæði vist í stjórnarandstöðu sem og í stjórnarsamstarfi auðvitað. Það er auðvitað ljóst að nokkuð nýjir tímar eru framundan fyrir Framsókn, þar eru tímar uppbyggingar og uppstokkunar framundan í ljósi þess að flokkurinn varð fyrir afhroði á landsvísu þann 12. maí sl. Flokkurinn er nú kominn í stjórnarandstöðu í fyrsta skipti í tólf ár og aðeins í þriðja skiptið frá árinu 1971, er viðreisnarstjórnin féll.

Það verður fróðlegt að sjá hvort að fulltrúar yngri kynslóða innan flokksins fara fram í varaformannskjörinu. Það er greinilegt ákall til staðar um uppstokkun skv. þessum fréttum og tali Gunnars Braga. Það er samt sem áður mjög ólíklegt að Valgerður tapi varaformannskjörinu, eftir sín áralöngu flokksstörf og hún hefur væntanlega stuðning víðsvegar til þess að taka við, sérstaklega í ljósi þess hve flokkurinn fékk góða kosningu á hennar svæði í ljósi afhroðs um allt land.

Lúðvík kjörinn þingflokksformaður Samfylkingar

Lúðvík BergvinssonLúðvík Bergvinsson, alþingismaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, hefur verið kjörinn þingflokksformaður Samfylkingarinnar. Það vekur athygli í ljósi þess að á fundi flokksstjórnar Samfylkingarinnar var gefið í skyn að Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, yrði þingflokksformaður í kjölfar þess að hann var ekki valinn til ráðherrasetu fyrir flokkinn, þrátt fyrir stöðu sína innan flokksins. Reyndar gaf Ágúst Ólafur ekkert út á það í viðtölum um kvöldið.

Það hlýtur að vera eins og staðan er nú orðin að Ágúst Ólafur verði valinn sem formaður fjárlaganefndar Alþingis, eftir að hafa hvorki orðið ráðherra né þingflokksformaður í þessum kapal flokksins eftir stjórnarmyndunina. Það hljóta að vera mikil vonbrigði fyrir ungliða í UJ að Ágúst Ólafur skyldi ekki hafa verið valinn til ráðherrasetu fyrst að flokkurinn fékk sex ráðherrasæti. Reyndar ekki síður að Katrín Júlíusdóttir varð ekki fyrir valinu í ráðherrakapalnum.

Lúðvík Bergvinsson tapaði eins og flestir muna fyrir Ágúst Ólafi í varaformannskjöri á landsfundi Samfylkingarinnar í maí 2005, sem mikið hefur verið um fjallað. Lúðvík hefur langa þingreynslu að baki, aðeins Jóhanna Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson og Ellert B. Schram hafa lengri þingreynslu en Lúðvík og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hefur verið jafnlengi og Lúðvík á þingi.

Hann var fyrst kjörinn á þing í kosningunum 1995 fyrir Alþýðuflokkinn og frá 1999 setið á Alþingi fyrir Samfylkinguna. Þannig að hann hefur talsverða reynslu svo sannarlega af þingstörfum og hefur því vigt til að takast á við formennsku þingflokksins í ljósi þess væntanlega.


Óánægja meðal sjálfstæðismanna á Akureyri

Kristján Þór JúlíussonSverrir Leósson, fyrrum útgerðarmaður á Akureyri, skrifaði grein í Morgunblaðið um síðustu helgi og fjallar þar um óánægju sína með að Sjálfstæðisflokkurinn í Norðausturkjördæmi fékk ekki ráðherrastól. Ég tel að þessi óánægja sé almenn meðal sjálfstæðismanna hér allavega á Akureyri og að Sverrir tali fyrir hönd fjölda fólks hér. Það blasir alveg við að það er ekki beint ásættanlegt að eftir sögulegan sigur Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi fái hann ekki ráðherrastól.

Sverrir hefur vissulega alla tíð verið kjarnyrtur í sínum skrifum, en ég tel að hann tali máli fjölda fólks í þessum skrifum. Ég skrifaði sjálfur grein með þessum brag daginn eftir að ráðherrakapallinn lá fyrir. Það er öllum ljóst að eftir sigur af þessum hætti sem vannst hér þann 12. maí sl. er staða mála varðandi Norðausturkjördæmi frekar óásættanleg og það er því engin furða að Staksteinar Morgunblaðsins taki málið upp í skrifum sínum í dag. Enda vekja skrif af þessu tagi frá t.d. manni eins og Sverri mikla athygli. Það er alveg ljóst.

Sá sigur sem vannst hér hjá Sjálfstæðisflokknum í Norðausturkjördæmi fyrir rúmum hálfum mánuði var aldrei sjálfsagður. Það er sögulegt að Sjálfstæðisflokkurinn vinni sigur á Norðurlandi eystra og Austurlandi. Aðeins einu sinni áður í stjórnmálasögunni hefur Sjálfstæðisflokkurinn orðið stærstur á svæðinu, en það var árið 1999 þegar að flokkurinn vann mjög naumlega og aðeins á utankjörfundaratkvæðum sigur í Norðurlandskjördæmi eystra hinu forna, í síðustu kosningunum þar, undir forystu Halldórs Blöndals. Það er reyndar mjög kaldhæðnislegt að eftir sinn mesta kosningasigur þá var Halldór tekinn út úr ríkisstjórn og gerður að forseta Alþingis.

Mér finnst þessi niðurstaða ekki vænleg fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Norðausturkjördæmi. Þetta er niðurstaða sem er verð mikillar umhugsunar á stöðu mála fyrir okkur hér í ljósi þess að við tókum kjördæmið með frekar afgerandi hætti og færðum sögulegan sigur. Það er ekki sjálfgefið að sú staða verði fyrir hendi eftir fjögur ár tel ég. Ég tel að það sé óhætt að segja að það sé mikil óánægja hér á Akureyri með þessa niðurstöðu og að hér fáist ekki ráðherrastóll. Þetta eru mjög vond skilaboð frá forystu flokksins til fólks hér.


Spáð og spekúlerað í aðstoðarmönnunum

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og SamfylkingarÞað er mikið spáð og spekúlerað í því þessa dagana hverjir verði aðstoðarmenn ráðherranna nýju. Það kom fáum að óvörum í dag að Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, ákvað að velja Einar Karl Haraldsson sem aðstoðarmann sinn og eins fyrir helgina þegar að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, ákvað að velja Kristrúnu Heimisdóttur sem aðstoðarmann sinn. Nöfn beggja voru í umræðunni og talin bæði líkleg til að vera valin.

Einar Karl og Kristrún voru framarlega í flokki helstu trúnaðarmanna Össurar og Ingibjargar Sólrúnar í formannskjörinu í Samfylkingunni árið 2005. Einar Karl var reyndar áður fyrr mjög framarlega í Alþýðubandalaginu og framkvæmdastjóri flokksins í formannstíð Ólafs Ragnars Grímssonar og hefur því þekkt Össur lengi, en Össur starfaði innan Alþýðubandalagsins allt þar til árið 1990 og var varaborgarfulltrúi flokksins um nokkuð skeið, áður en hann fór í Alþýðuflokkinn. Einar Karl var varaþingmaður Samfylkingarinnar á síðasta kjörtímabili og hefur verið áberandi í starfinu þar eftir að flokkurinn varð til.

Það sem við hér í Norðausturkjördæmi veltum eflaust mest fyrir okkur í þessum ráðherrakapal er hvern Kristján L. Möller, samgönguráðherra, muni velja sem aðstoðarmann sinn. Ekki yrði ég hissa þó að hann veldi flokksmanneskju héðan úr kjördæminu sér við hlið. Það yrði nærtækt fyrir hann að líta til Láru Stefánsdóttur og Margrétar Kristínar Helgadóttur, varaþingmanna Samfylkingarinnar í kjördæminu. Það var Kristjáni og Samfylkingunni auðvitað talsvert áfall að ná ekki að tryggja kjör Láru, en hún var þó vissulega mjög nærri því að detta inn sem jöfnunarmaður, og að tryggja Möggu Stínu sem fyrsta varaþingmann. Staðan fyrir flokkinn hér er því óbreytt.

Samfylkingin í Norðausturkjördæmi tapaði þriggja prósentustiga fylgi og varð fyrir nokkru áfalli og mistókst að verða stærra afl í kjördæminu en áður. Það er samt sem áður mjög merkilegt í ljósi úrslitanna að aðeins Samfylkingin hafi ráðherrastól í kjördæminu. Það kæmi mér ekki að óvörum að Kristján veldi aðstoðarmann úr kjördæminu m.a. til að tengjast betur flokksmönnum á svæðinu, enda er þetta stórt og viðamikið kjördæmi og honum vantar tengilið við flokksmenn á svæðinu vegna mikilla anna og til að byggja upp við starfið á svæðinu. Þetta gerði Sturla Böðvarsson t.d. sem samgönguráðherra áður. Ég tel Láru og Möggu Stínu mjög líklegar í þessu ljósi.

Ennfremur verður fróðlegt að sjá hverja hinir ráðherrarnir velja. Orðrómur er um að Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, velji Guðnýju Hrund Karlsdóttur eða Róbert Marshall. Talað er um að Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, velji jafnvel Dofra Hermannsson, varaborgarfulltrúa og starfsmann þingflokks Samfylkingarinnar, sem aðstoðarmann sinn. Svo er auðvitað talað um að Jóhanna Sigurðardóttir velji aðstoðarmann af höfuðborgarsvæðinu. Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, mun væntanlega velja aðstoðarmann úr ungliðastarfinu eða náinn samstarfsmann innan flokksins.

Fróðlegt verður svo að lokum að sjá hvern Geir H. Haarde, forsætisráðherra, velur sem aðstoðarmann sinn, en Ragnheiður Elín Árnadóttir, aðstoðarmaður hans, varð alþingismaður í kosningunum 12. maí sl. Mjög líklegt er að hann velji aðstoðarmann innan úr flokkskjarnanum eða einhvern sem hefur staðið honum nærri í starfi flokksins.

Það er líklegt að þessi aðstoðarmannakapall skýrist fyrir lok mánaðarins, en Alþingi kemur saman á fimmtudag.


Einar og Ingibjörg Sólrún ósammála um hvalveiðar

Ingibjörg Sólrún Það er greinilegt að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, og Einar Kristinn Guðfinnsson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, eru algjörlega ósammála um hvalveiðar Íslendinga eins og fram kom í kvöldfréttum Stöðvar 2. Þar töluðu þau hvort í sína áttina. Það blasir við að Samfylkingin heldur fast við andstöðu sína við hvalveiðarnar, en hún kom vel fram síðasta vetur er fráfarandi ríkisstjórn opnaði á þær.

Hvalveiðarnar voru svosem ekki stærsta málið í stjórnarmyndunarviðræðum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar en það blasti þó alltaf við að fylgst yrði með því hver yrði afstaða nýrrar ríkisstjórnar í þeim efnum. Það er nú að koma vel fram að afstaða flokkanna er óbreytt og því auðvitað spurt hvort verði ofan á, að halda fast við hvalveiðar áfram eða salta þær. Það er auðvitað alveg ljóst að hvalveiðarnar sem fór fram í fyrra skiluðu engan veginn þeim árangri sem að var stefnt. Þær ollu miklum vonbrigðum og skoðanir voru mjög skiptar um þær.

Í dag sendu nítján evrópskar ferðaskrifstofur Geir H. Haarde, forsætisráðherra, bréf þar sem þær lýstu yfir formlegum áhyggjum sínum af áhrifum hvalveiða á ferðamannastraum til landsins. Bréfið er sent í tengslum við fund Alþjóðahvalveiðiráðsins sem nú stendur yfir í Alaska. Þar munu væntanlega ráðast næstu skref málsins. Ef marka má afgerandi ummæli Ingibjargar Sólrúnar í kvöld má telja nokkuð öruggt að hvalveiðar við Ísland séu úr sögunni. Þessi ummæli verða enn meira áberandi eftir viðtal við Einar Kristinn á Sky í dag þar sem hann talar enn fyrir sömu skoðunum.

Það verður fróðlegt að sjá hvort þeirra verði ofan á í málinu. Ekki er hægt að tala báðum röddum af hálfu þessarar ríkisstjórnar öllu lengur að mínu mati. Það blasir við að taka verði afgerandi ákvörðun. Persónulega var ég fylgjandi hvalveiðum en ég verð að viðurkenna að efasemdir mínar í garð þeirra hafa aukist til muna eftir veiðarnar í vetur sem skiluðu fjarri því þeim árangri sem að var stefnt. Það verður að hugleiða vel hvort við séum ekki að fórna meiri hagsmunum fyrir minni í þeim efnum.

mbl.is Japanar segjast ekki hætta við áform um hnúfubakaveiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björn og Ingibjörg Sólrún sitja saman í þinginu

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar Mikið hefur verið rætt og ritað um það síðustu dagana að Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sitji hlið við hlið á fundum ríkisstjórnar. Þar ræður engin tilviljun eins og bent hefur verið á og er það þeim eflaust ný upplifun að vinna saman sem samherjar og vera sessunautar á fundum ríkisstjórnar.

Ekki munu þau þó aðeins sitja saman í Stjórnarráðinu á ríkisstjórnarfundum heldur verða þau ennfremur sessunautar í þingsalnum frá og með þingsetningu á fimmtudag. Björn hefur setið lengst allra núverandi ráðherra í ríkisstjórn og situr því við hlið forsætisráðherra og formanns hins stjórnarflokksins, rétt eins og var á síðasta þingi, þegar að Björn sat við hlið Jóns Sigurðssonar, fyrrum formanns Framsóknarflokksins.

Það er svo sannarlega ekki tilviljun hvar ráðherrar sitja í þingsalnum og þar ræður allt í senn lengd ráðherrasetunnar, hvaða ráðuneyti ráðherrann stýrir, staða ráðherrans innan flokkanna, þingreynsla og aldur. Þannig að það er engin tilviljun hvernig þeim málum er uppraðað. Það verður áhugavert að sjá þau Björn og Ingibjörgu Sólrúnu hlið við hlið í þingstarfinu. Þau hafa lengi unnið á sama vettvangi en aldrei verið samherjar fyrr en nú. Það verður fróðlegt að fylgjast með því samstarfi.

Ummæli um samkynhneigð Stubbana afturkölluð

Stubbarnir Ekki kemur það nú að óvörum að hinn pólski umboðsmaður barna hafi dregið til baka umdeild ummæli sín um samkynhneigðar tengingar í Stubbana margfrægu. Þessi ummæli fóru held ég víðar en umboðsmaðurinn átti von á og vakti heimsathygli. Reyndar gekk þessi kona í sömu átt og sjónvarpspredikarinn nýlátni Jerry Falwell, sem lét orð í þessa átt falla fyrir sjö til átta árum að mig minnir. Þeim höfðu flestir gleymt held ég þegar að hin pólska tjáði sig.

Mér skilst að þessi umboðsmaður barna hafi reyndar gengið svo langt að tala um að biðja sálfræðinga að rannsaka hvort Stubbarnir ýttu undir samkynhneigð. Í dag er semsagt komið allt annað hljóð í strokkinn og eitthvað sem segir mér að pólskir forystumenn stjórnmálanna hafi tekið snarlega fram fyrir hendurnar á umboðsmanninum til að drepa umræðuna sem vakti heimsathygli.

Ég skrifaði aðeins um þetta í dag. Svosem litlu við það að bæta. Heilt yfir er þetta frekar hlægileg umræða finnst mér. Flestir líta held ég á Stubbana sem saklaust barnaefni, þó eflaust geti einhver sem horfir smátt á hlutina séð eitthvað sem aðrir sjá ekki.

mbl.is Umboðsmaður barna í Póllandi dregur ummæli sín um Stubbana tilbaka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband