Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
8.9.2012 | 15:02
Ólöf kveður
Síðar færði hún sig suður og tók að sér önnur og stærri verkefni í flokksstarfinu. Og nú ætlar hún að hætta.
Það verður eftirsjá af henni úr pólitísku starfi hér. Vonandi kemur hún aftur síðar.
Kveður þingið í vor | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.8.2012 | 11:18
Mikilvægi endurnýjunar og uppstokkunar
Flest bendir til þess að Sjálfstæðisflokkurinn hafi pálmann í höndunum í upphafi kosningabaráttunnar. Ekki kemur það að óvörum. Nái Sjálfstæðisflokkurinn ekki vopnum sínum og ráðandi stöðu við þessar aðstæður er vandséð hvenær hann fær betra tækifæri til að ná góðri kosningu. Fjölmargir þeirra sem treystu vinstriflokkunum fyrir atkvæði sínu fyrir rúmum þremur árum eru vonsviknir og líta í aðrar áttir, skiljanlega.
Eigi Sjálfstæðisflokkurinn að vera trúverðugur valkostur í þingkosningum nú þarf að tryggja að prófkjör fari fram í öllum kjördæmum og gagnger uppstokkun að verða lykilstef lokastigs uppbyggingar sem fram hefur farið eftir fylgishrunið 2009. Þingframbjóðendur Sjálfstæðisflokksins að þessu sinni þurfa að fara í gegnum prófkjörsslag og sækja umboð sitt til, skýrt og afgerandi umboð, til flokksmanna. Annað kemur ekki til greina.
Forysta Sjálfstæðisflokksins ætti að vera mjög sterk og hafa ráðandi stöðu í pólitískri baráttu. Samt finnur maður fyrir efasemdarröddum. Þær er aðeins hægt að kveða niður með prófkjöri þar sem reynir á stöðu forystumanna flokksins og aðrir hafa tækifæri til að gefa kost á sér líka. Þetta var mikilvægt á síðasta landsfundi þegar valkostir voru skýrir. Sumir vildu halda áfram aðra leið og enn aðrir skipta út.
Nú þarf að reyna á hvort almennir flokksmenn vilja meiri uppstokkun og hvort þingmenn Sjálfstæðisflokksins njóti almenns trausts, sérstaklega eftir Icesave-málið þegar mikil óánægja kom fram hjá grasrótinni. Sjálfstæðismenn um allt land tóku af skarið þá með eftirminnilegum hætti.
Uppgjör nú er hollt fyrir Sjálfstæðisflokkinn og tryggir að hann fari sterkari inn í kosningar en ella. Nýtt upphaf er mikilvægt.
1.7.2012 | 04:07
Glæsilegur sigur Ólafs Ragnars
Ólafur Ragnar Grímsson hefur unnið glæsilegan og traustan sigur í forsetakosningunum. Sigurinn er sögulegur. Ólafur Ragnar verður fyrsti forsetinn í lýðveldissögunni sem situr fimmta kjörtímabilið. Þetta er mikill persónulegur sigur Ólafs Ragnars, einkum vegna þess að honum var sótt af mikilli hörku. Framan af stefndi í að atlagan að Ólafi Ragnari heppnaðist, en með vel skipulagðri og markvissri kosningabaráttu sneri forsetinn vörn í sókn og hlaut meirihlutastuðning í kosningunni.
Ég neita því ekki að það eru vonbrigði að kjörsókn var ekki betri. Hvort þar réði að botninn fór úr kosningabaráttu Þóru Arnórsdóttur þegar leið á vikuna og fólk var visst um traustan sigur forsetans er erfitt um að spá. Kosningarétturinn er mikilvægasta lýðræðislega verkfæri okkar og hann verðum við alltaf að nýta.
En úrslitin eru ljós. Það er alveg sama hvernig við reynum að snúa hlutum á hvolf, þeir verða alltaf eins. Sigur forsetans er staðreynd og hann hefur stuðning eftir þessa atlögu.
Ég óska Ólafi Ragnari og Dorrit Moussaieff innilega til hamingju með kjörið. Það leynist engum eftir þessa kosningu að þau eiga stuðning og virðingu stórs hluta þjóðarinnar.
Ólafur Ragnar ótvíræður sigurvegari | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 04:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.6.2012 | 20:18
Sjálfsmark á Stöð 2
Andrea Ólafsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson og Hannes Bjarnason gerðu vel og rétt í því að yfirgefa samkunduna strax í upphafi þegar ljóst var að tveir og tveir frambjóðendur ættu að tala saman og enda að lokum á þeim tveimur sem mests fylgis njóta í skoðanakönnunum. Mér finnst skoðanakannanir ekki eiga að ráða því hverjir tjái sig og hvernig í kappræðum. Ræða á við alla þá sem hafa safnað fjölda meðmælenda og eru í kjöri til forsetaembættis.
Til að kóróna allt klúðrið var svo gert hlé á kappræðum og sýnt innslag frá Spaugstofunni. Kannski átti þetta að vera fyndið, en var alveg gríðarlega taktlaust og slappt.
Þarna klikkaði Stöð 2 á mikilvægum grundvallaratriðum í fréttamennsku. Þetta var fréttastofunni til skammar og var eitt risastórt sjálfsmark.
Yfirgáfu kappræður í Hörpu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.6.2012 | 21:39
Góð staða Ólafs Ragnars í kosningabaráttunni
Yfirburðir Ólafs Ragnars fara ekki fram hjá neinum þeim sem fylgjast með atburðarásinni. Ólafur Ragnar kann sitt fag, hefur farið í gegnum margar kosningar og hefur reynsluna með sér, auk þess sem það kemur honum mjög til góða að tala gegn aðild að Evrópusambandinu og minna á forystu sína í Icesave-málinu, þegar hann sneri því máli við, með stuðningi þjóðarinnar.
Þóra Arnórsdóttir hafði meðbyr framan af en hefur misst nokkuð fylgi eftir því sem hefur liðið nær kjördegi. Held að mörgum hafi mislíkað mjög að lesa stöðluð og ópersónuleg svör hennar á beinni línu DV, þegar hún svaraði spurningum án þess að svara þeim, og hljómaði frasaleg og kuldaleg. Hún hefur haldið áfram á sömu braut, virkar eins og leikari án handrits.
Þetta kom mér aðeins á óvart þar sem ég taldi að Þóra myndi reyna að vera hlýleg, gera sér far um að svara spurningum hreint út og vera afdráttarlaus. Vandræðalegt hefur verið að sjá hana reyna að neita fyrir tengsl sín við Samfylkinguna og öflin sem tengdust henni. Þessi tjáning styrkir ekki stöðu hennar.
Svo er einn kapítuli hvernig stuðningsmannasveit hennar hefur farið hamförum í árásum á forsetann vegna þess að hann hóf kosningabaráttu af krafti og tjáði sig hispurslaust. Kosningabarátta er aldrei teboð, allra síst núna á örlagatímum þegar við þurfum forseta sem getur verið mótvægi við rúið trausti Alþingi, sem hefur glatað virðingu og trausti þjóðarinnar. Hver treystir Alþingi núna?
Styrkist æ meira í afstöðu minni að við eigum að tryggja Ólafi Ragnari afgerandi og traust umboð í þessum forsetakosningum. Finnst aðrir valkostir í þessum kosningum ekki beysnir og í sjálfu sér rétt að forsetinn njóti þess hversu vel hann hélt á Icesave-málinu og leyfði þjóðinni að taka af skarið. Lýðræðispostular hljóta að fagna því beina lýðræði sem forsetinn hefur fært þjóðinni.
Ólafur með afgerandi forystu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.5.2012 | 18:06
Forsetakjör
Ólafur Ragnar talaði máli Íslands á örlagastundu, eftir hrunið, þegar aðrir forystumenn gáfu eftir, sumir þeirra til að þóknast hinni vanhugsuðu aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Sú þögn var stjórnmálaforystu landsins til skammar. Þegar þingmenn og ráðherrar brugðust stóð forsetinn í lappirnar. Sú framganga er virðingarverð og ég ætla að launa Ólafi það með stuðningi mínum.
Hinsvegar neita ég því ekki að oft áður hef ég gagnrýnt Ólaf Ragnar, líka hrósað honum þegar mér hefur fundist það rétt. Við forsetakjör 1996 dáðist ég að framgöngu Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur. Allir muna hversu mjög hún var stjarna þeirrar kosningabaráttu. Ekki síður hefur Dorrit Moussaieff staðið forsetavaktina við hlið Ólafs með glæsibrag eftir fráfall Guðrúnar Katrínar.
Þessar forsetakosningar litast vissulega af því að Alþingi Íslendinga er rúið trausti. Óvinsæl vinstristjórn hefur staðið sig illa að öllu leyti, fyrst og fremst brást í því að verja Ísland þegar þess þurfti. Icesave-málið opinberaði mjög átakalínur og sýndu hverjir stóðu sig þegar á þurfti að halda.
Ólafur Ragnar fór í fjölmiðla á alþjóðavettvangi þegar vantaði rödd Íslands í umræðuna, þegar stjórnmálamenn voru þess ekki megnugir. Sú framganga skipti sköpum. Ákvörðun Ólafs Ragnars að fela þjóðinni valdið í Icesave var rétt og sumir geta ekki fyrirgefið honum að hafa spurt þjóðina.
Mér finnst rétt að forsetinn hljóti endurkjör, stuðning þjóðarinnar, á þessum tímapunkti.
6.3.2012 | 16:55
Pólitískur skrípaleikur í landsdómi
Þetta er mjög vandræðalegt ferli, undarlegt "réttlæti" og skakkt uppgjör sem þarna er í spilunum. Efast stórlega um að þetta líti vel út í sögubókum framtíðar. Allir veikleikar landsdóms opinberast í þessu ferli. Vonandi leiðir þessi skrípaleikur til þess að landsdómur verði stokkaður upp, helst lagður niður og tekið á augljósum vanköntum sem fram hafa komið á þessari vegferð, allt frá þingferli til loka.
Eftir stendur í yfirferð málsins að rétt var haldið á málum á örlagastundu. Mun verr hefði getað farið. Undir forystu þeirra sem réðu málum var tekið skynsamlega á málum. Neyðarlögin og gjaldþrot bankanna var rétta leiðin úr þessum ógöngum. Auðvitað var skaði Íslands nokkur, en bæði tímasetning hrunsins reyndist heilladrjúg og aðferðin til lausnar krísunnar var sú rétta.
Undarlegast við þennan skrípaleik allan, eins skrautlegur og hann annars er að öllu leyti, er skortur á miðlun upplýsinga til fjölmiðla, og svo þaðan til landsmanna allra. Aðeins er boðið upp á twitter-skrif úr réttarsal. Engu er líkara en réttarhöldin séu haldin um miðja 20. öld og aðeins hægt að skrifa fréttir í dagblöð morgundagsins.
Fornaldarbragurinn á landsdómi er algjör. Skortur á miðlun upplýsinga, staðsetning pólitísku réttarhaldanna og yfirbragðið frá a-ö er til skammar.
Neyðarlögin urðu til bjargar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.3.2012 | 15:17
Söguleg ákvörðun Ólafs Ragnars
Ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar um að sækjast eftir forsetaembættinu fimmta kjörtímabilið er söguleg, því enginn forseti hefur setið lengur á Bessastöðum en 16 ár. Auk þess vekur mikla athygli að Ólafur, sem verður sjötugur í maí 2013, opnar opinskátt á þann möguleika að hann víki af forsetastóli á næsta kjörtímabili, en því mun ekki ljúka fyrr en í júlílok 2016.
Með þessu höfðar Ólafur Ragnar greinilega til þess að hann sé traustur valkostur í forsetaembætti meðan Alþingi, sem er rúið trausti og virðingu, klárar sitt kjörtímabil og spilin stokkuð upp í landsmálum. Held að þessi punktur ráði mestu um bæði ákvörðun Ólafs að fara fram og hann hafi fengið fjölda áskorana og stuðning í skoðanakönnunum.
Þegar á reyndi í Icesave-málinu og rúin trausti vinstristjórn hlustaði ekki á þjóðina var Ólafur Ragnar sá sem stóð í lappirnar og varði hagsmuni Íslands á alþjóðavettvangi. Þetta er óumdeilt að mínu mati. Margir þeirra sem höfðu áður gagnrýnt Ólaf harkalega og almennir kjósendur virtu það framlag hans.
Í ljósi þess er hann fulltrúi stöðugleika í pólitískri upplausn. Við þær aðstæður þarf öflugan forseta. Á þessum forsendum fer Ólafur Ragnar fram og segist tilbúinn að sinna verkum á forsetastóli meðan hægist um og stöðugleiki færist yfir. Auk þess opnar hann á að víkja fyrr en síðar.
Þetta er söguleg ákvörðun að öllu leyti, heiðarleg yfirlýsing um vilja til verka takmarkaðan tíma. Ólafur Ragnar kann öll þessi trix og hefur vissulega nokkuð til síns máls. Hver hefur trú og traust á því þingi sem nú situr? Veikleiki Alþingis styrkir forsetann og festir hann í sessi.
Ólafur Ragnar gefur kost á sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
1.3.2012 | 12:08
Dapurleg málalok á Alþingi
Málið var svo í meðförum þingsins nú sett í þann farveg að um líf lánlausrar vinstristjórnar væri að tefla. Þar var pólitíkin í þessu máli staðfest. Réttarhöldin verða pólitísk aðför að Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra. Allt málið ber líka þann blæ og hefur gert frá upphafi. Svosem ágætt að fá það staðfest endanlega.
Málsmeðferð nú staðfestir hversu rúið trausti Alþingi er. Þar er ekki tekin málefnaleg afstaða til málsins beint, heldur beitt klækjum og brögðum til að koma í veg fyrir málefnalega afgreiðslu málsins. Það er lítil reisn yfir svona vinnubrögðum og sýnir pólitíkina í ferlinu frá upphafi.
Tillögu Bjarna vísað frá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
1.3.2012 | 00:23
Beðið eftir forseta
Frá stofnun lýðveldis árið 1944 hefur embætti forseta Íslands verið í mótun. Þeir fimm einstaklingar sem hafa gegnt embætti forseta og setið á Bessastöðum hafa hver með sínum hætti sett svip á embættið. Þeir hafa þó leikið misjafnlega stórt hlutverk í stjórnmálum jafnan bakvið tjöldin við stjórnarmyndanir og þegar á hefur reynt í stjórnleysi. Aðeins hefur þó ein utanþingsstjórn setið, við sjálfa lýðveldisstofnunina, auk þess var hún í kortunum tvisvar á áttunda áratugnum.
Enginn forsetanna hefur þó gengið lengra, einbeitt og ákveðið, stundum undir rós, eins og Ólafur Ragnar Grímsson, sem nú hefur setið fjögur kjörtímabil á Bessastöðum. Nær allan starfstíma ríkisstjórna Davíðs Oddssonar sat hann á hliðarlínunni. Deilur um fjölmiðlamálið 2004 ýfðu upp gömul sár milli Ólafs og hægrimanna. Vann forsetinn nokkurn sigur, hætt var við lagasetningu og málinu komið í annan farveg. Hefndi forsetinn þar fyrir vinnubrögð í heimastjórnarmálinu og virkjaði umdeilt vald forseta.
Fjórða kjörtímabilið varð Ólafi þó framan af erfitt. Hann stóð lemstraður eftir hrunið og daðrið við útrásarvíkinga. Ólafur hélt þó áfram að virkja völd sín þegar veikburða vinstristjórn settist til valda, tók sér í hendur umdeild völd og nýtti sér mælsku og tengsl á alþjóðavettvangi í fjölmiðlum meðan klaufaskapur einkenndi stjórnvöld sem sömdu af sér í lykilmáli. Á þeirri örlagastundu fór hann eigin leiðir og náði aftur frumkvæði fyrir hönd þjóðarinnar. Ólafur endurreisti með því sögulega stöðu sína á forsetastóli og naut virðingar fyrir að láta tryggð við þjóðina ráða för.
Einkum þess vegna hefur nú gerst að raunhæfur möguleiki er á því að Ólafur sitji áfram í embætti, gefi kost á sér fimmta kjörtímabilið og sitji lengst allra forseta. Á þeirri vegferð sinni að hugleiða framboð og framtíð á forsetastóli hefur Ólafi Ragnari enn og aftur tekist að velgja fornum samherjum undir uggum. Þeir hugsa með hryllingi til þess að hann sitji áfram og eiga erfitt með að leyna gremju og vonbrigðum sínum. Í og með skemmtir Ólafur Ragnar sér við að tefja ákvörðun með því að stríða gömlum keppinautum í Alþýðubandalaginu forðum daga, sem nú ráða för í VG, flokki sem virðist á vonarvöl.
Í umræðu um næsta kjörtímabil er ljós sterk staða Ólafs. Erfitt er að fara af stað gegn sitjandi forseta, sárafáir sterkir kandidatar hafa verið nefndir og veik staða stjórnvalda sýnir vanmátt þeirra. Við þeim blasir afhroð í þingkosningum. Beðið er eftir forseta hann skýri mál sitt betur og taki af skarið. Þrátt fyrir að forseti segist hafa talað skýrt í nýársávarpi er öllum ljóst að hann skildi eftir glufu leynt og ljóst. Hann vildi kanna bakland sitt, stuðning meðal landsmanna og hversu jákvæð eða neikvæð viðbrögð hann fengi.
Ég hef jafnan haft þá skoðun að setja eigi kjörtímabilsmörk á forseta Íslands og tryggja tvær umferðir nái enginn forsetaframbjóðandi hreinum meirihluta. Þegar ég sat í stjórn SUS í gamla daga nutum við þess að tala fyrir því að leggja niður forsetaembættið. Það væri valdalaust og til skrauts. Segja verður eins og er að í forsetatíð Ólafs Ragnars hefur embættið gjörbreyst. Það hefur nú raunveruleg völd, hvort sem andstæðingum eða samherjum Ólafs Ragnars líkar betur eða verr. Líklegt er að sú breyting sé trygg til framtíðar.
Glöggt hefur mátt sjá hversu ákveðið Ólafur Ragnar sækir fram í almennri umræðu í fjölmiðlum. Forðum daga töluðu forsetar undir rós í nýársávarpi. Þeir héldu sér til hlés, héldu varla blaðamannafundi og pössuðu sig upp á að virða stjórnarstefnu valdhafa, halda sér á hliðarlínu. Forsetinn var sameiningartákn, hélt veislur og skálaði við fyrirfólk. Hann var til skrauts. Þessi blær á embættinu hefur gjörbreyst. Nú er forsetinn ákveðinn, hefur sent þinginu gula spjaldið og látið reyna á hvort það hafi stuðning þjóðarinnar.
Fáir tala nú um að leggja embættið niður. Blaðamannafundir núverandi forseta á Bessastöðum, bæði vegna framtíðar á forsetastóli og afstöðu í Icesave, hafa fengið á sig pólitískan blæ. Hann hefur leikið á blaðamenn eins og fimur fiðluleikari - sent stjórnvöldum tóninn og verið afdráttarlaus í tali um menn og málefni, beinlínis ýtt undir það með því að leyfa blaðamönnum að spyrja sig spurninga sem engum hefði dottið í hug að spyrja forseta fyrri tíðar.
En 16 ár er langur tími. Brátt reynir á hvort biðin eftir forsetanum færi okkur sögulegt fimmta kjörtímabil Ólafs Ragnars eða kosningu um eftirmann hans. Sú kosning, hvort sem hún fer fram á þessu ári eða næsta, mun snúast um áherslur í embættinu. Þar verður talað um stjórnmál og hversu áberandi húsbóndinn á Bessastöðum eigi að vera í umræðu um menn og málefni.
Þetta er vissulega hin mikla sögulega arfleifð Ólafs Ragnars. Embættið er ekki lengur ígildi farandsendiherra. Þar situr valdsmaður sem hefur örlög þjóðar og stjórnmálamanna á sínu færi. Synjunarvaldið er virkt vald forseta til að setja mark sitt á umdeilt mál er afdráttarlaust til staðar. Því neitar enginn það var reynt árið 2004 í fjölmiðlamálinu en virkar máttlaust píp núna.
Pólitískur refur á Bessastöðum hefur öll spil á hendi. Með fimni og útsjónarsemi hefur hann náð stöðu þess sem hefur stuðning þjóðarinnar meðan þingið er rúið trausti. Hann hefur völdin sem mestu skipta, hefur fest sig í sessi og nýtur þess að óánægja landsmanna með ráðandi öfl á þingi er algjör. Hann hefur spilað skákina mjög fimlega.
En það er spurning hvort hann nær að spila þessa skák til enda. Biðin eftir forseta er enn óljós. Nú reynir á hvernig endataflið er, hvort hann spilar skákina rétt eða missir hana í tapaða stöðu. Okkur hægrimönnum leiðist ekki þessi skák, einkum þegar vinstrimönnum gremst hún eins augljóslega og raun ber vitni.