Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Að loknum sveitarstjórnarkosningum

Sjálfstæðisflokkurinn getur mjög vel unað við stöðu sína að loknum sveitarstjórnarkosningum. Hann er klárlega stærsti flokkur landsins - vann víða á, á mörgum stöðum vann hann glæsilega kosningasigra - hreina meirihluta eða ráðandi stöðu þar sem sterk liðsheild með traustum forystumanni náði tiltrú kjósenda. Eins og gengur og gerist tapaði flokkurinn fylgi á sumum stöðum, þar sem hann hafði t.d. verið lengi við völd. Í heildina er útkoman góð - mun betri en spáð var.

Reykjavík er þó sérkapítuli fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þar náði fylgið sögulegum lægðum og hlýtur að teljast verulegt áhyggjuefni. Þar virðist margt að, liðsheildin ekki í takti, vantaði öflugar konur og ungliða ofar á lista, og síðast en ekki síst náði oddvitinn ekki flugi. Fyrir því eru margar ástæður en það er alveg ljóst að meinsemd er í flokksstarfinu í Reykjavík sem verður að laga. Fyrr öðlast Sjálfstæðisflokkurinn ekki trúverðugleika í höfuðborginni.

Mér fannst sláandi og frekar dapurt hversu metnaðarlaust slagorð flokksins var í Reykjavík. Þar var talað um Dásamlegu Reykjavík. Skildi ekki alveg það slagorð eftir minnihlutasetu Sjálfstæðisflokksins. Svo er augljóst að borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins voru mislagðar hendur við gerð aðalskipulags, hópurinn sundraður og veikur í verkefninu. Þar vantaði nær allt upp á það sem þarf til að ná árangri. Svo er augljóst að frekari endurnýjun á mannskap þurfti að vera.

Við greiningu vandans í Reykjavík er talað um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi misst tiltrú og ekki hlustað á almenning. Það má vel vera. En rót vandans þar er einföld - hann þarf að bjóða upp á samhenta og trausta liðsheild, breiðan hóp ungra og öflugra einstaklinga, og hafa konur í forystusveitinni. Breidd listans í Reykjavík var fjarri því sem gott var - svo þarf oddvitinn að vera með sterkt bakland. Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík hefur oftast farnast best með ungan oddvita, von framtíðar. 

Hér á Akureyri getum við sjálfstæðismenn vel við unað. Við erum langstærst; toppuðum allar skoðanakannanir - baráttumaðurinn Njáll Trausti náði glæsilegri kosningu. En vissulega vantaði herslumuninn, okkar staða hefði verið enn vænlegri hefði fjórði maður komist inn. En við öðlumst klárlega traust bæjarbúa að miklu leyti og unnum mjög vel á síðustu daga baráttunnar. Verkefnið að byggja flokkinn hér á Akureyri upp til verka og forystuhlutverks er þó langt á veg komið.

Afhroðið 2010 var okkur mikið áfall, en við verðum að horfast í augu við að það var heimatilbúinn vandi. Við hlustuðum ekki á bæjarbúa og trygga stuðningsmenn flokksins þegar miðbæjarskipulag var afgreitt í okkar valdatíð, bæjarstjórakapall þá misheppnaðist og varð okkur til smánar, höfðum setið vissulega lengi við völd. Við lærðum af mistökunum, héldum hverfagöngur um allt sveitarfélagið, efndum til rýnihópa við gerð stefnuskrár og héldum stóran og opinn vinnufund.

Síðast en ekki síst tel ég skipta máli að við hlustuðum á raddir bæjarbúa varðandi skipulagsmálin og tel ég það hafa styrkt okkur á lokaspretti baráttunnar þegar við sóttum meira fylgi en okkur hafði verið spáð alla baráttuna. Við munum væntanlega sitja áfram í minnihluta. En okkar staða er önnur, við erum mætt til leiks aftur með sterkan hóp í bæjarstjórn og munum láta til okkar taka af krafti - tala fyrir okkar málum í minnihluta undir forystu okkar. Og við munum veita nýjum meirihluta aðhald.

Myndun nýs meirihluta L-lista, Samfylkingar og Framsóknar virðist hafa vera kortlögð fyrir kjördag. Þessi meirihlutamyndun var augljóslega komin af stað áður en talið var úr kjörkössum, enda blasir við að þessi myndun er ekki í samræmi við úrslitin þar sem Sjálfstæðisflokkurinn tvöfaldaði fylgið og bætti við sig tveimur bæjarfulltrúum. Við bíðum eftir nýjum meirihluta og metum hann þegar málefnasamningur liggur fyrir. En við verðum beitt og ákveðin í minnihluta, nú með nýtt umboð.

Stóru tíðindin að loknum kosningunum er þó léleg kjörsókn. Mér finnst það mikið áhyggjuefni að lýðræðisvitund sé hnignandi og almennt áhugaleysi á stjórnmálum virðist vera að aukast. Kosningarétturinn er okkar helsta lýðræðislega verkfæri, ef við mætum ekki á kjörstað sendum við skilaboð um áhugaleysi og okkur sé sama um stjórnun nærsamfélagsins og landsins í senn.

Kannski finnst fólki það ekki hafa áhrif þó það kjósi - atkvæðið sé gengisfellt í pólitískum hrossakaupum. Þess eru klárlega dæmi að menn myndi meirihluta framhjá úrslitum og hlusti ekki á kjósendur. Eflaust munu einhverjir sérfræðingar skrifa lærðar greinar, en eigi ekki illa að fara þarf að fara í alvöru greiningu og reyna að laga það sem að er - þetta er þróun sem þarf að vinna gegn.


mbl.is Ármann áfram bæjarstjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólöf kveður

Fyrir sex árum hringdi Ólöf Nordal í mig og bað mig um liðsinni mitt í prófkjörsslag í Norðausturkjördæmi. Ég lagði henni lið stoltur og hafði gaman af að vinna með henni meðan hún sinnti pólitískum verkum hér í kjördæminu.

Síðar færði hún sig suður og tók að sér önnur og stærri verkefni í flokksstarfinu. Og nú ætlar hún að hætta.

Það verður eftirsjá af henni úr pólitísku starfi hér. Vonandi kemur hún aftur síðar.


mbl.is Kveður þingið í vor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægi endurnýjunar og uppstokkunar

Nú líður að alþingiskosningum. Pólitískur hiti magnast og augljós merki um upphaf kosningabaráttunnar liggja í lofti. Enn og aftur hriktir í stoðum veikburða vinstristjórnar sem hefur verið minnihlutastjórn um langt skeið og lifir aðeins fyrir völdin. Gömul kosningaslagorð frá árinu 2009 hljóma eins og brandari nú. Margt hefur breyst og mikil þörf á endurnýjun og gagngerri uppstokkun í íslenskum stjórnmálum.

Flest bendir til þess að Sjálfstæðisflokkurinn hafi pálmann í höndunum í upphafi kosningabaráttunnar. Ekki kemur það að óvörum. Nái Sjálfstæðisflokkurinn ekki vopnum sínum og ráðandi stöðu við þessar aðstæður er vandséð hvenær hann fær betra tækifæri til að ná góðri kosningu. Fjölmargir þeirra sem treystu vinstriflokkunum fyrir atkvæði sínu fyrir rúmum þremur árum eru vonsviknir og líta í aðrar áttir, skiljanlega.

Eigi Sjálfstæðisflokkurinn að vera trúverðugur valkostur í þingkosningum nú þarf að tryggja að prófkjör fari fram í öllum kjördæmum og gagnger uppstokkun að verða lykilstef lokastigs uppbyggingar sem fram hefur farið eftir fylgishrunið 2009. Þingframbjóðendur Sjálfstæðisflokksins að þessu sinni þurfa að fara í gegnum prófkjörsslag og sækja umboð sitt til, skýrt og afgerandi umboð, til flokksmanna. Annað kemur ekki til greina.

Forysta Sjálfstæðisflokksins ætti að vera mjög sterk og hafa ráðandi stöðu í pólitískri baráttu. Samt finnur maður fyrir efasemdarröddum. Þær er aðeins hægt að kveða niður með prófkjöri þar sem reynir á stöðu forystumanna flokksins og aðrir hafa tækifæri til að gefa kost á sér líka. Þetta var mikilvægt á síðasta landsfundi þegar valkostir voru skýrir. Sumir vildu halda áfram aðra leið og enn aðrir skipta út.

Nú þarf að reyna á hvort almennir flokksmenn vilja meiri uppstokkun og hvort þingmenn Sjálfstæðisflokksins njóti almenns trausts, sérstaklega eftir Icesave-málið þegar mikil óánægja kom fram hjá grasrótinni. Sjálfstæðismenn um allt land tóku af skarið þá með eftirminnilegum hætti.

Uppgjör nú er hollt fyrir Sjálfstæðisflokkinn og tryggir að hann fari sterkari inn í kosningar en ella. Nýtt upphaf er mikilvægt.

Glæsilegur sigur Ólafs Ragnars

Ólafur Ragnar og Dorrit Moussaieff
Ólafur Ragnar Grímsson hefur unnið glæsilegan og traustan sigur í forsetakosningunum. Sigurinn er sögulegur. Ólafur Ragnar verður fyrsti forsetinn í lýðveldissögunni sem situr fimmta kjörtímabilið. Þetta er mikill persónulegur sigur Ólafs Ragnars, einkum vegna þess að honum var sótt af mikilli hörku. Framan af stefndi í að atlagan að Ólafi Ragnari heppnaðist, en með vel skipulagðri og markvissri kosningabaráttu sneri forsetinn vörn í sókn og hlaut meirihlutastuðning í kosningunni.

Sama hversu vel Þóra Arnórsdóttir og stuðningsmenn reyna að bera sig duldist engum hversu mikið var á sig lagt í baráttunni. Á bakvið það framboð voru öfl sem vildu hefndir vegna þess að forsetinn spurði þjóðina í Icesave-málinu og fór eigin leiðir þegar vinstrimenn lögðu sig undir og töpuðu stórt í miklu átakamáli.

Ég neita því ekki að það eru vonbrigði að kjörsókn var ekki betri. Hvort þar réði að botninn fór úr kosningabaráttu Þóru Arnórsdóttur þegar leið á vikuna og fólk var visst um traustan sigur forsetans er erfitt um að spá. Kosningarétturinn er mikilvægasta lýðræðislega verkfæri okkar og hann verðum við alltaf að nýta.

En úrslitin eru ljós. Það er alveg sama hvernig við reynum að snúa hlutum á hvolf, þeir verða alltaf eins. Sigur forsetans er staðreynd og hann hefur stuðning eftir þessa atlögu.

Ég óska Ólafi Ragnari og Dorrit Moussaieff innilega til hamingju með kjörið. Það leynist engum eftir þessa kosningu að þau eiga stuðning og virðingu stórs hluta þjóðarinnar.


mbl.is Ólafur Ragnar ótvíræður sigurvegari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfsmark á Stöð 2

Fréttastofa Stöðvar 2 fór langleiðina með að stimpla sig út sem fagmannleg og traust fréttastofa með miklu klúðri í skipulagningu og umgjörð forsetakappræðna í Hörpu. Lágmark er að kjósendum sé gefið tækifæri til að hlusta á alla frambjóðendur tjá sig saman um kosningamálin, sérstaklega í fyrstu kappræðum kosningabaráttunnar, svo hægt sé að bera þá saman, auk þess sem fagmennska einkenni kappræðurnar. Fréttastofa Stöðvar 2 klikkaði algjörlega á þessu.

Andrea Ólafsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson og Hannes Bjarnason gerðu vel og rétt í því að yfirgefa samkunduna strax í upphafi þegar ljóst var að tveir og tveir frambjóðendur ættu að tala saman og enda að lokum á þeim tveimur sem mests fylgis njóta í skoðanakönnunum. Mér finnst skoðanakannanir ekki eiga að ráða því hverjir tjái sig og hvernig í kappræðum. Ræða á við alla þá sem hafa safnað fjölda meðmælenda og eru í kjöri til forsetaembættis.

Til að kóróna allt klúðrið var svo gert hlé á kappræðum og sýnt innslag frá Spaugstofunni. Kannski átti þetta að vera fyndið, en var alveg gríðarlega taktlaust og slappt.

Þarna klikkaði Stöð 2 á mikilvægum grundvallaratriðum í fréttamennsku. Þetta var fréttastofunni til skammar og var eitt risastórt sjálfsmark.

mbl.is Yfirgáfu kappræður í Hörpu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð staða Ólafs Ragnars í kosningabaráttunni

Mikið forskot Ólafs Ragnars Grímssonar í skoðanakönnunum fyrir forsetakosningar í lok þessa mánaðar kemur ekki að óvörum. Ég hef haft það á tilfinningunni nokkurn tíma að Ólafur Ragnar yrði endurkjörinn, sú tilfinning hefur styrkst eftir að hann hóf formlega kosningabaráttu sína. Eins og staðan er núna stefnir flest í að stóra spurningin á kjördag verði hvort Ólafur Ragnar hljóti hreinan meirihluta atkvæða í kosningabaráttu við fimm frambjóðendur.

Yfirburðir Ólafs Ragnars fara ekki fram hjá neinum þeim sem fylgjast með atburðarásinni. Ólafur Ragnar kann sitt fag, hefur farið í gegnum margar kosningar og hefur reynsluna með sér, auk þess sem það kemur honum mjög til góða að tala gegn aðild að Evrópusambandinu og minna á forystu sína í Icesave-málinu, þegar hann sneri því máli við, með stuðningi þjóðarinnar.

Þóra Arnórsdóttir hafði meðbyr framan af en hefur misst nokkuð fylgi eftir því sem hefur liðið nær kjördegi. Held að mörgum hafi mislíkað mjög að lesa stöðluð og ópersónuleg svör hennar á beinni línu DV, þegar hún svaraði spurningum án þess að svara þeim, og hljómaði frasaleg og kuldaleg. Hún hefur haldið áfram á sömu braut, virkar eins og leikari án handrits.

Þetta kom mér aðeins á óvart þar sem ég taldi að Þóra myndi reyna að vera hlýleg, gera sér far um að svara spurningum hreint út og vera afdráttarlaus. Vandræðalegt hefur verið að sjá hana reyna að neita fyrir tengsl sín við Samfylkinguna og öflin sem tengdust henni. Þessi tjáning styrkir ekki stöðu hennar.

Svo er einn kapítuli hvernig stuðningsmannasveit hennar hefur farið hamförum í árásum á forsetann vegna þess að hann hóf kosningabaráttu af krafti og tjáði sig hispurslaust. Kosningabarátta er aldrei teboð, allra síst núna á örlagatímum þegar við þurfum forseta sem getur verið mótvægi við rúið trausti Alþingi, sem hefur glatað virðingu og trausti þjóðarinnar. Hver treystir Alþingi núna?

Styrkist æ meira í afstöðu minni að við eigum að tryggja Ólafi Ragnari afgerandi og traust umboð í þessum forsetakosningum. Finnst aðrir valkostir í þessum kosningum ekki beysnir og í sjálfu sér rétt að forsetinn njóti þess hversu vel hann hélt á Icesave-málinu og leyfði þjóðinni að taka af skarið. Lýðræðispostular hljóta að fagna því beina lýðræði sem forsetinn hefur fært þjóðinni.

mbl.is Ólafur með afgerandi forystu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsetakjör

Ég hef tekið þá ákvörðun að kjósa Ólaf Ragnar Grímsson í forsetakosningunum 30. júní nk. Fyrir því eru margar ástæður. Mestu skiptir að ég tel hann frambærilegasta frambjóðandann í kjöri að þessu sinni og hann hefur með verkum sínum á þessu kjörtímabili staðið vörð um hagsmuni þjóðarinnar, þegar Alþingi og ríkisstjórn brugðust landsmönnum, sérstaklega í Icesave-málinu.

Ólafur Ragnar talaði máli Íslands á örlagastundu, eftir hrunið, þegar aðrir forystumenn gáfu eftir, sumir þeirra til að þóknast hinni vanhugsuðu aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Sú þögn var stjórnmálaforystu landsins til skammar. Þegar þingmenn og ráðherrar brugðust stóð forsetinn í lappirnar. Sú framganga er virðingarverð og ég ætla að launa Ólafi það með stuðningi mínum.

Hinsvegar neita ég því ekki að oft áður hef ég gagnrýnt Ólaf Ragnar, líka hrósað honum þegar mér hefur fundist það rétt. Við forsetakjör 1996 dáðist ég að framgöngu Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur. Allir muna hversu mjög hún var stjarna þeirrar kosningabaráttu. Ekki síður hefur Dorrit Moussaieff staðið forsetavaktina við hlið Ólafs með glæsibrag eftir fráfall Guðrúnar Katrínar.

Þessar forsetakosningar litast vissulega af því að Alþingi Íslendinga er rúið trausti. Óvinsæl vinstristjórn hefur staðið sig illa að öllu leyti, fyrst og fremst brást í því að verja Ísland þegar þess þurfti. Icesave-málið opinberaði mjög átakalínur og sýndu hverjir stóðu sig þegar á þurfti að halda.

Ólafur Ragnar fór í fjölmiðla á alþjóðavettvangi þegar vantaði rödd Íslands í umræðuna, þegar stjórnmálamenn voru þess ekki megnugir. Sú framganga skipti sköpum. Ákvörðun Ólafs Ragnars að fela þjóðinni valdið í Icesave var rétt og sumir geta ekki fyrirgefið honum að hafa spurt þjóðina.

Mér finnst rétt að forsetinn hljóti endurkjör, stuðning þjóðarinnar, á þessum tímapunkti.

Pólitískur skrípaleikur í landsdómi

Pólitísk réttarhöld eru hafin í Landsdómi. Yfirbragðið vissulega mjög sérstakt og rammpólitískt - einn maður gerður að blóraböggli, látinn standa reikningsskil af meintum brotum þegar alþjóðleg efnahagsleg krísa gekk yfir allan heiminn. Á meðan sleppa formaður hins stjórnarflokksins á tíma hrunsins og viðskiptaráðherrann við þetta uppgjör - þeim var komið í skjól af flokksfélögum sínum á þingi.

Þetta er mjög vandræðalegt ferli, undarlegt "réttlæti" og skakkt uppgjör sem þarna er í spilunum. Efast stórlega um að þetta líti vel út í sögubókum framtíðar. Allir veikleikar landsdóms opinberast í þessu ferli. Vonandi leiðir þessi skrípaleikur til þess að landsdómur verði stokkaður upp, helst lagður niður og tekið á augljósum vanköntum sem fram hafa komið á þessari vegferð, allt frá þingferli til loka.

Eftir stendur í yfirferð málsins að rétt var haldið á málum á örlagastundu. Mun verr hefði getað farið. Undir forystu þeirra sem réðu málum var tekið skynsamlega á málum. Neyðarlögin og gjaldþrot bankanna var rétta leiðin úr þessum ógöngum. Auðvitað var skaði Íslands nokkur, en bæði tímasetning hrunsins reyndist heilladrjúg og aðferðin til lausnar krísunnar var sú rétta.

Undarlegast við þennan skrípaleik allan, eins skrautlegur og hann annars er að öllu leyti, er skortur á miðlun upplýsinga til fjölmiðla, og svo þaðan til landsmanna allra. Aðeins er boðið upp á twitter-skrif úr réttarsal. Engu er líkara en réttarhöldin séu haldin um miðja 20. öld og aðeins hægt að skrifa fréttir í dagblöð morgundagsins.

Fornaldarbragurinn á landsdómi er algjör. Skortur á miðlun upplýsinga, staðsetning pólitísku réttarhaldanna og yfirbragðið frá a-ö er til skammar.

mbl.is Neyðarlögin urðu til bjargar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Söguleg ákvörðun Ólafs Ragnars

Ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar um að sækjast eftir forsetaembættinu fimmta kjörtímabilið er söguleg, því enginn forseti hefur setið lengur á Bessastöðum en 16 ár. Auk þess vekur mikla athygli að Ólafur, sem verður sjötugur í maí 2013, opnar opinskátt á þann möguleika að hann víki af forsetastóli á næsta kjörtímabili, en því mun ekki ljúka fyrr en í júlílok 2016.

Með þessu höfðar Ólafur Ragnar greinilega til þess að hann sé traustur valkostur í forsetaembætti meðan Alþingi, sem er rúið trausti og virðingu, klárar sitt kjörtímabil og spilin stokkuð upp í landsmálum. Held að þessi punktur ráði mestu um bæði ákvörðun Ólafs að fara fram og hann hafi fengið fjölda áskorana og stuðning í skoðanakönnunum.

Þegar á reyndi í Icesave-málinu og rúin trausti vinstristjórn hlustaði ekki á þjóðina var Ólafur Ragnar sá sem stóð í lappirnar og varði hagsmuni Íslands á alþjóðavettvangi. Þetta er óumdeilt að mínu mati. Margir þeirra sem höfðu áður gagnrýnt Ólaf harkalega og almennir kjósendur virtu það framlag hans.

Í ljósi þess er hann fulltrúi stöðugleika í pólitískri upplausn. Við þær aðstæður þarf öflugan forseta. Á þessum forsendum fer Ólafur Ragnar fram og segist tilbúinn að sinna verkum á forsetastóli meðan hægist um og stöðugleiki færist yfir. Auk þess opnar hann á að víkja fyrr en síðar.

Þetta er söguleg ákvörðun að öllu leyti, heiðarleg yfirlýsing um vilja til verka takmarkaðan tíma. Ólafur Ragnar kann öll þessi trix og hefur vissulega nokkuð til síns máls. Hver hefur trú og traust á því þingi sem nú situr? Veikleiki Alþingis styrkir forsetann og festir hann í sessi.


mbl.is Ólafur Ragnar gefur kost á sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dapurleg málalok á Alþingi

Alþingi hafði gullið tækifæri til að breyta rétt í landsdómsmálinu gegn Geir H. Haarde, stöðva þá vitleysu sem þar stendur. Pólitískir klækir á vinstrivængnum komu í veg fyrir það. Áður höfðu þingmenn Samfylkingarinnar sýnt pólitíkina í málinu með því að koma sínu fólki í þessu ferli í skjól. Með því að Geir væri einn sendur fyrir landsdóm kom í ljós tilgangur málsins.

Málið var svo í meðförum þingsins nú sett í þann farveg að um líf lánlausrar vinstristjórnar væri að tefla. Þar var pólitíkin í þessu máli staðfest. Réttarhöldin verða pólitísk aðför að Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra. Allt málið ber líka þann blæ og hefur gert frá upphafi. Svosem ágætt að fá það staðfest endanlega.

Málsmeðferð nú staðfestir hversu rúið trausti Alþingi er. Þar er ekki tekin málefnaleg afstaða til málsins beint, heldur beitt klækjum og brögðum til að koma í veg fyrir málefnalega afgreiðslu málsins. Það er lítil reisn yfir svona vinnubrögðum og sýnir pólitíkina í ferlinu frá upphafi.

En eftir stendur: einn greiddi ekki atkvæði, tveir voru fjarverandi. Þeir eiga allir sameiginlegt að vera þingmenn Samfylkingar - það er svolítið skondið hvernig þessir menn gufuðu upp og létu sig hverfa. Minnir eilítið á söguna um menn og mýs. En það er önnur saga.

Málið heldur nú áfram. Verði Geir Haarde sýknaður í landsdómi verður að líta á afgreiðslu þingmanna nú og í september 2010 og láta þá standa fyrir máli sínu. Er það ekki heiðarlegt?


mbl.is Tillögu Bjarna vísað frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband