Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Undrabarnið missir ofurlaunin

Þegar Jón Sigurðsson varð forstjóri FL Group, þegar Hannesi Smárasyni var sparkað út, var hann nefndur undrabarnið. Ofurlaunavitleysunni var samt haldið áfram og undarlegt að fyrst nú ári eftir hrunið sé tekið á þeim vinnubrögðum sem viðgengist hafa í ráðningarsamningum sem eru fjarri öllum veruleika ársins 2009.

Þetta er eitthvað svo 2007 þessi vitleysa sem hefur viðgengist og ætti að heyra sögunni til. Þetta er ágætt fyrsta skref í þeim efnum og ekkert óeðlilegt að sjálft undrabarnið taki á sig árið 2009.


mbl.is Laun framkvæmdastjóra Stoða lækka um 70%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigmundur Ernir biðst loksins afsökunar

Sigmundur Ernir Rúnarsson, alþingismaður, gerir rétt í því að biðjast afsökunar á dómgreindarleysi sínu og alvarlegum mistökum í þingsal fyrir viku. En það gerir hann nokkrum dögum of seint og eftir vandræðalegar tilraunir til að fara með málið út í móa. 

Vörnin um að hann hafi ekki kennt áhrifa af drykkju og hann hafi aðeins drukkið tvö rauðvínsglös var pínleg í meira lagi - stórundarlegt að vanur fjölmiðlamaður skuli hafa haldið að ráðlegt væri að svæfa málið með því að ljúga sig út úr því.

Með því að leggja spilin á borðið styrkir hann stöðu sína vissulega... hann er samt skaddaður á eftir. Bæði það að fara á þetta golfmót í boði banka og fara svo til vinnu slompaður er dómgreindarleysi hjá þingmanni.

Þetta er örugglega ekki þau nýju vinnubrögð sem við krefjumst af nýjum þingmönnum... en það er líka kominn tími til að setja siðareglur sem taka á svona málum.

Lágmarkskrafa er að þingmenn mæti til vinnu edrú og séu með á hvað þeir eru að segja og gera... þetta er skammarlegur barnaskapur hjá fullorðnu fólki.


mbl.is Sigmundur Ernir baðst afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigmundur Ernir viðurkennir áfengisnotkun

Sigmundur Ernir Rúnarsson, alþingismaður, hefur nú loks viðurkennt hið augljósa, að hafa fengið sér í glas áður en hann mætti til starfa í þingsal á fimmtudagskvöld. Hann var teymdur til að segja satt, en hafði áður reynt að ljúga sig út úr klípunni, áður en sögurnar um golfveisluna urðu opinberar. Þetta er vægast sagt mjög vandræðalegt og er þingmanninum til algjörrar skammar.

Hefði hann strax viðurkennt að hafa verið undir áhrifum hefðu margir eflaust getað fyrirgefið honum og þetta litið betur út, hið minnsta, fyrir hann. Vanur fjölmiðlamaður sem þekkir þankagang pressunnar, sérstaklega þeirrar gulu, á ekki að láta góma sig svona gjörsamlega í bólinu eða með höndina í kökuskálinni.

Vandræðalegt.... þetta er fyrst og fremst spurning um heiðarleika og menn sinni starfinu sínu með sóma. Það gera þeir varla eftir að hafa fengið sér í glas og ræða mikilvægt mál í sjálfum þingsalnum. Trúverðugleikinn er skaddaður á eftir.


mbl.is Fékk sér léttvín með mat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Edward Kennedy látinn

Teddy Kennedy
Edward Kennedy, einn áhrifamesti öldungadeildarþingmaður í sögu Bandaríkjaþings, oft nefndur ljónið í öldungadeildinni, er látinn, 77 ára að aldri. Ted Kennedy hefur verið umdeildur stjórnmálamaður en hann er hluti af einni litríkustu valdaætt bandarískrar stjórnmálasögu. Hann sat i öldungadeildinni í 47 ár, allt frá árinu 1962, eða síðan John F. Kennedy, bróðir hans, varð forseti Bandaríkjanna, en hann var kjörinn í öldungadeildarsæti hans fyrir Massachusetts. Sæti Kennedys var geymt fyrir Teddy í tvö ár þar til hann náði löglegum aldri til að taka sætið.

Þegar bróðir hans, Bobby, var myrtur fyrir fjórum áratugum, í miðri kosningabaráttu til embættis forseta Bandaríkjanna, bjuggust flestir við að Ted myndi feta í fótspor bræðra sinna og sækjast eftir forsetaembættinu. Væntanlega hefði hann getað gert sterkt tilkall til embættisins hefði hann ekki farið svo illa úr Chappaquiddick-málinu á sjöunda áratugnum. Varð hann valdur að dauða einkaritara síns í bílslysi, stakk af frá slysstað og tilkynnti ekki um slysið fyrr en mörgum klukkutímum síðar. Hann sat áfram í öldungadeildinni en stórlega skaddaður pólitískt á eftir.

Hann sóttist síðar eftir forsetaembættinu árið 1980, fór fram gegn Jimmy Carter, þáverandi forseta Bandaríkjanna, en beið lægri hlut í eftirminnilegri baráttu. Einkalíf hans var þá í rúst, ekki aðeins var hann stórlega skaddaður enn af Chappaquiddick heldur var kona hans haldin drykkjusýki. Þau virkuðu ósannfærandi saman, enda hjónabandið komið í strand, og framboðið var aldrei sterkt. Tapið batt enda á valdasögu Kennedy-anna, enda var tapið skaðlegt fyrir Ted, en áhrif hans náðu ekki út fyrir öldungadeildina og innstu valdakjarna eftir það.

Hef ég ekki farið leynt með aðdáun mína á Kennedy-unum. John F. Kennedy og Bobby Kennedy voru miklir pólitískir snillingar sem sett hafa sögulegt mark á bandarísk stjórnmál, áhrif þeirra hafa náð út yfir gröf og dauða. Kennedy forseti féll fyrir morðingjahendi á hápunkti ferils síns og Bobby var hársbreidd frá því að ná í Hvíta húsið er hann var myrtur í Los Angeles, hafði unnið forkosningar demókrata í Kaliforníu það kvöld. Skarð hans var mikið. Ted Kennedy hefur verið sterkur talsmaður vissra hópa innan flokksins en aldrei náð styrk og stöðu bræðra sinna.

Hann hafði þó mikil áhrif í flokkskjarnanum og var óumdeilanlega leiðtogi Kennedy-fjölskyldunnar frá dauða Bobbys. Mótaði hann afstöðu fjölskyldunnar til lykilmála allt til hinstu stundar. Eftir að hann lýsti yfir stuðningi við Barack Obama í ársbyrjun 2008 komu helstu fjölskyldumeðlimir fram opinberlega og gerðu slíkt hið sama. Ethel Kennedy ákvað að styðja Obama með þeim orðum að hann væri eini maðurinn sem hefði komið til sögunnar í bandarískum stjórnmálum í áratugi sem minnti sig á eiginmann sinn, Robert F. Kennedy.

Maria Shriver ákvað að rjúfa hlutleysi sitt sem demókrata við hlið repúblikans, eiginmanns síns, á ríkisstjórastóli í Kaliforníu með því að styðja Obama. Og Caroline Kennedy Schlossberg sagðist styðja hann því að í honum sæi hún hugsjónir og kraft föður síns. Þær tóku sömu afstöðu og Ted frændi, hann réð ferðinni í Kennedy-fjölskyldunni og hafði markað línur fyrir börn fallinna bræðra sinna, sem hann gekk í föðurstað.

Stóra spurningin er nú hver taki sæti Teddys í öldungadeildinni. Háværar sögusagnir eru um að halda eigi sætinu í fjölskyldunni og reyna að koma Joseph Patrick Kennedy, syni Bobbys Kennedys, í það. Nokkrum dögum áður en Teddy dó reyndi hann að beita sér fyrir breytingum á skipunarreglum til að tryggja að sætið yrði skipað þó það myndi losna; sem var augljóst merki þess að hann væri að deyja.

Fylkisreglur í Massachusetts gera ekki lengur ráð fyrir því að ríkisstjóri skipi eftirmann. Þeim reglum var breytt árið 2004 af demókrötum sem réðu fylkisþinginu til að koma í veg fyrir að repúblikaninn Mitt Romney myndi sem ríkisstjóri velja eftirmann John Kerry ef hann yrði forseti Bandaríkjanna. Teddy beitti sér fyrir þeim breytingum. Fyrir nokkrum dögum vildi hann breyta þeim... fyrir sig.

Nú fer fram fylkiskosning innan 160 daga, væntanlega í janúar 2010, og það verða kjósendur í Massachusetts sem velja eftirmann Teddys í öldundadeildinni og velja þingmann þar til kjörtímabili Teddys lýkur í janúar 2010. Nú verður fróðlegt að sjá hvort Kennedy-ættin mun halda sæti Johns og Teds.

mbl.is Edward Kennedy látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandræðalegt fyrir Sigmund Erni og Samfylkinguna



Ég er ekki undrandi á því að þingflokksformaður Samfylkingarinnar hafi rætt stórundarlega framkomu Sigmundar Ernis Rúnarssonar, alþingismanns, á þingfundi í síðustu viku, við þingmanninn enda er málið vandræðalegt ekki síður fyrir flokkinn en Sigmund persónulega.

Eins og ég hef bent á er eðlilegt að velta fyrir sér hvort þingmaðurinn hafi verið ölvaður eða ekki starfi sínu vaxinn eftir framkomuna. Allir sem horfa á klippuna hér fyrir ofan hljóta að velta fyrir sér hvað sé að þingmanninum... hvað sé eiginlega málið með hann.

Þetta er óásættanleg framkoma, tel ég, á Alþingi, sérstaklega í mikilvægu máli á borð við Icesave. Hafi þingmaðurinn ekki verið ölvaður er eðlilegt að velta fyrir sér hvað hann sé að fara með framkomu sinni. Forsætisnefndin á auðvitað að ræða þetta.

Hvernig er hægt að gleyma fjórum milljörðum?

Ég man í svipinn varla eftir vandræðalegri mistökum en þeim að Lögmannsstofan hafi gleymt að lýsa fjögurra milljarða kröfu í Straum fyrir lífeyrissjóðinn Stapa hér á Akureyri. Þvílíkt endemis klúður - er hægt að hafa þetta vandræðalegra? Hvernig er það annars... hver á að taka ábyrgðina á þessum mistökum muni aðrir kröfuhafar ekki taka þessa kröfu gilda?

Ætlar Lögmannsstofan að taka það á sig eða yfirstjórn Stapa sem fylgdi málinu ekki eftir? Þetta er klúður af stærra taginu... sem ekki gleymist í bráð. Hvernig er hægt að gleyma fjórum milljörðum sisvona?

Dorrit og demantaveröldin

Mér finnst það virðingarvert að óskarsverðlaunaleikkonan Kate Winslet vilji leggja heimildarmyndinni Sólskinsdrengurinn lið. Kate er besta leikkona sinnar kynslóðar og hefur þann stjörnuljóma sem myndin þarf á að halda til að vekja athygli. Þátttaka hennar er til vitnis um hversu traustur karakter leikkonan er og hversu mjög henni er umhugað um málstaðinn og það sem fjallað er um í þessari vönduðu heimildarmynd.

Dorrit Moussaieff á heiður skilið fyrir að hafa náð að tryggja þátttöku Kate Winslet. Sambönd hennar meðal hinna frægu og ríku eru væntanlega óumdeild. Mikið hefði ég samt viljað að hún hefði beitt sér jafn ötullega bakvið tjöldin í Icesave-deilunni og reynt að milda átökin þar. En kannski eru samböndin bara í demantaveröldinni, ekki það að slíkt sé slæmt, heldur hefðu pólitísk sambönd skipt þjóðina ekki síður máli.

Einar Már Guðmundsson, skáld, hitti naglann á höfuðið í góðri ræðu á fundi um Icesave fyrr í þessum mánuði þegar hann spurði hvar sambönd forseta Íslands á alþjóðavettvangi væru, þegar á þeim væri virkilega þörf, þegar á reyndi fyrir þjóðina. Hann spurði hvort þau sambönd væru bara meðal demantafólksins sem Dorrit þekkti. Skarplega ályktað.

En kannski mátti Dorrit ekki beita sér í Icesave-málinu fyrir Ísland... bannaði ekki forsetinn henni að tala þegar hann var í viðtali sem endaði í hálfgerðu rifrildi fyrir framan blaðamanninn.


mbl.is Dorrit fékk Kate Winslet
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örlögin ráðast brátt í Icesave-málinu



Örlögin ráðast brátt í hinu risavaxna Icesave-máli í þingferlinu. Sögusagnir eru um að Bretar og Hollendingar ætli að sætta sig við fyrirvarana en fá þeim hnekkt fyrir dómi þegar á þá reynir. Þeir eru þá í raun orðnir marklausir eða haldlitlir í besta falli. Nú reynir á hvort þingið skerpir á fyrirvörunum eða kemur með einhverja lausn sem hentar þingmeirihlutanum í málinu.

Óþarfi er að minna þingmenn á að afstaða þeirra í þessu máli mun elta þá lengi... þarna er spilað með örlög þjóðarinnar næstu áratugi. Verði þeim á skrifast mistökin á þá sem samþykktu málið með haldlitlum fyrirvörum. Eðlilegt er að þingmenn reyni að vinna að sem hagstæðustu niðurstöðu fyrir Ísland og fólkið í þessu landi.

Eðlilegt er á lokaspretti þingumræðunnar að benda á góða klippu sem sýnir vel þá hringekju sem leiðtogar stjórnarflokkanna tóku fyrir og eftir undirskrift þessa afleita samnings sem Svavar Gestsson skrifaði undir því hann vildi ekki hafa þetta mál lengur hangandi yfir sér, eins og hann orðaði svo smekklega.

Fáir hafa tekið meiri áhættu í þessu máli en Steingrímur J. Sigfússon sem hefur tekið marga hringi frá því að hann varð ráðherra og beygt af leið sannfæringar og hugsjóna fyrir völdin.

mbl.is Funda um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lögregla handtekur sprengjugabbarann

Fregnir herma að lögreglan hafi handtekið þann sem hringdi út sprengjugabbið til lögreglunnar fyrr í dag.... og setti allt úr skorðum í Borgarholtsskóla. Gott að lögreglan hafi tekið fljótt og vel á þessu og náð þeim sem stóð að þessu. Þeir sem hringja út svona hótun hljóta að vera meira en lítið brenglaðir og þarf að taka á þeirra máli.

Eflaust væri gott að vita hvað þessum manni gekk til með þessu... annað en reyna að koma sér í fréttirnar.

mbl.is Engin sprengja fannst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lélegt sprengjugabb í Borgarholtsskóla

Mér finnst lélegt að einhverjir hringji inn sprengjugabb í Borgarholtsskóla... til þess eins að reyna að vekja á sér athygli eða hræða aðra. Þetta er eins og fleiri sprengjuhótanir eflaust gabb til þess eins að kalla fram viðbrögð og hræðslu. Þeir eru meira en lítið sjúkir sem hafa gaman af þessu eða gera þetta gamansins vegna.

mbl.is Borgarholtsskóli rýmdur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband