Góð skrif Björns - pólitísk sáluskil í Framsókn

Björn Bjarnason Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, skrifar ítarlegan pistil um ummæli Jóns Sigurðssonar, viðskiptaráðherra og formanns Framsóknarflokksins, á miðstjórnarfundi um Íraksmálið. Þar vék Jón klárlega af braut yfirlýsinga Halldórs Ásgrímssonar, verðandi framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar, sem var utanríkisráðherra á árunum 1995-2004 og forsætisráðherra 2004-2006, í þeim málum.

Virðist það einna helst líta út sem örvænting vegna stöðu flokksins, enda hefur Jón áður ekki tekið svo sterkt til orða og í frægu viðtali við Helga frænda minn Seljan á Stöð 2 í sumar vildi hann ekki taka svona til orða og fór í mikla og augljósa vörn fyrir Halldór í þessu máli, en segja má að Íraksmálið hafi mála mest sett mark á forsætisráðherraferil Halldórs og skaðað hann pólitískt gríðarlega mikið. Deilur um þetta mál voru innan flokksins en Halldór gerði það ekki upp áður en hann hætti.

Mér finnst Björn skrifa um þetta mál mjög vel, eins og hans er von og vísa. Enda löngu ljóst að Björn er sá þingmanna flokksins sem mesta þekkingu hefur á utanríkis- og varnarmálum. Er ég sammála Birni í því að það veki mikla athygli að nýr formaður annars stjórnarflokksins, sem að auki á engan pólitískan bakgrunn í forystusveit íslenskra stjórnmála, ræði um fjögurra ára gamla atburði sem meginpunkt pólitískrar stefnuræðu á vettvangi flokksins og skilji við slóð og forystu Halldórs Ásgrímssonar, svo skömmu áður en hann heldur til starfa í Kaupmannahöfn. Það er öllum ljóst að Jón telur þetta mál vera steinbarn fyrir flokkinn og slítur á tengsl fyrri tíma.

Jón Sig Mér finnst það vera orðið átakanlegt fyrir Framsóknarflokkinn hversu tómur formaður þeirra er í raun. Þar vantar alvöru pólitískt bit við að greina mál dagsins í dag. Það er svolítill blanko-svipur yfir Jóni, það er bara þannig. Hann er mikill heiðursmaður tel ég og vandaður í alla staði, en mér finnst pólitík hans vera mjög ósýnileg. Það er orðið mjög áberandi.

Ég hélt þegar að Jón var kjörinn formaður á flokksþinginu í ágúst, eftir snarpan slag við Siv Friðleifsdóttur, að hann myndi þá þegar hefjast handa við að kynna sig og sína pólitík. Síðan hefur hann haldið spilum sínum mjög fast að sér. Staða flokksins hefur ekki skánað hætishót eftir kjör hans og fyrri væringar og sundrung lama enn innviði flokksins. Enn er ekki heldur vitað hvaða áhrif fall Sleggjunnar í Norðvestri hefur og enn veit enginn hver þessi formaður er pólitískt.

Stjórnmálamaðurinn Jón Sigurðsson flutti sína fyrstu alvöruræðu í stjórnmálum sem sáluskil yfir síðustu misserum stjórnmálaferils Halldórs Ásgrímssonar og hreinsaði loft væringa og óeiningar innan flokksins. Þar sáum við enga framtíð, enga stefnu né grunnpunkta þess sem Jón ætlar að verða flokknum. Þar var litið í baksýnisspegil átakanna og þau vissulega greind. Vel má vera að það gagnist eitthvað þessum flokki sem hefur upplifað annus horribilis ekki bara síðasta árið heldur öll ár kjörtímabilsins til þessa. Sorgarsaga er rétta orðið. Í ræðunni sáum við ekki neitt nýtt til framtíðar.

Hver er Jón Sigurðsson? spurði ég í pistli í ágúst eftir formannskjör. Í nóvember er þeirri spurningu enn ósvarað. Er Framsóknarflokknum á vetur setjandi með blanko formann? Stórt spurt, svörin vantar.

Hver er Jón Sigurðsson? - pistill í ágúst 2006

mbl.is Björn: Ríkisstjórn Íslands bar enga ábyrgð á innrásinni í Írak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mjög ánægður með prófkjörið okkar

SjálfstæðisflokkurinnÉg verð að segja það alveg eins og er að ég er mjög ánægður með prófkjörið okkar hér í Norðausturkjördæmi. Það kusu yfir 3000 í þessu prófkjöri, mun fleiri en t.d. í prófkjöri Samfylkingarinnar hér í kjördæminu. Mér fannst þessi dagur ganga virkilega vel og við erum sátt hér. Nú bíðum við bara úrslitanna, sem verða ljós eftir rúma tólf tíma. Biðin er svo sannarlega spennandi.

Ég skellti mér einmitt í bæinn í kvöld og ræddi þar við fjölda fólks og fórum við einmitt sérstaklega yfir stjórnmálin. Mikið og gott spjall. En nú bíðum við sjálfstæðismenn úrslitanna. Þeirra er að vænta á morgun. Ég var nokkuð spurður um þetta allt í kvöld. Flestir bíða úrslitanna með áhuga. Það verða því allra augu á fyrstu tölum.

Nú höfum við ákveðið að lesa fyrstu tölur á Hótel KEA en ekki í Kaupangi. Líst vel á það, enda tryggir það meiri stemmningu og gott andrúmsloft þar meðan að talningin fer fram í Kaupangi. Talningin hefst innan nokkurra klukkutíma er allir atkvæðaseðlar hafa skilað sér hingað til Akureyrar. Fyrir dagslok hefur nýr leiðtogi tekið við forystu flokksins í kjördæminu. Það verður fróðlegt að sjá hvern flokksmenn völdu í prófkjörinu.


mbl.is 3.032 greiddu atkvæði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Örvænting Framsóknarflokksins

Jón Sigurðsson Það stefnir í erfiða tíma fyrir Framsóknarflokkinn. Fylgi hans virðist að festast undir 10 prósentustigum og það jókst ekki þrátt fyrir að Halldór Ásgrímsson yfirgæfi hið pólitíska svið. Kjör Jóns Sigurðssonar í formannsstól flokksins síðsumars efldi ekki flokkinn og staðan hefur verið að versna enn frekar. Flokkinn leiða tveir menn um eða yfir sextugt. Flokkurinn virðist vera í tilvistarkreppu og verulegum vandræðum.

Í ljósi alls þessa er skiljanlegt að formaður Framsóknarflokksins segi skilið við verk forvera hans á formannsstóli sem utanríkis- og forsætisráðherra í Íraksmálinu. Þetta eru athyglisverð ummæli og þau sýna vel örvæntinguna sem er að verða innan flokksins með viðvarandi vont gengi Framsóknarflokksins og brostnar vonir og væntingar flokksmanna með forystuna. Hún hefur ekki aflað flokknum meira fylgis og formaðurinn hefur ekki mikið sýnt af öflugri stjórnmálaforystu.

Það er greinilegt að hræðsla er innan flokksins vegna komandi kosninga. Það er skiljanlegt með stöðuna svona innan við hálfu ári fyrir þingkosningar.

mbl.is Ákvarðanir stjórnvalda um Írak byggðust á röngum upplýsingum og voru því rangar eða mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í NA-kjördæmi lokið

Sjálfstæðisflokkurinn Kjörfundi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi er lokið. Rúmlega 3000 manns kusu í prófkjörinu á bæði kjörfundi sem fram fór á milli kl. 9:00 og 18:00 og utan kjörfundar síðustu tvær vikur. Allan þann tíma var ég staddur á kjörstað hér á Akureyri í Oddeyrarskóla. Það var góð stemmning þar og skemmtileg vinna í gangi. Mesti þunginn í kjörsókninni var á milli kl. 13:00 og 15:00, en þá mynduðust biðraðir hér í skólanum en þetta var annars jöfn kjörsókn í gegnum þessa 9 klukkutíma sem kjörfundur stóð hér á Akureyri.

Vinna við frágang hér er nú lokið. Nú taka atkvæði um allt kjördæmið að streyma til Akureyrar. Atkvæði verða væntanlega öll komin til Akureyrar í nótt eða fyrramálið. Talning atkvæða hefst kl. 14:00 á morgun og fyrstu tölur verða lesnar upp kl. 18:00. Nú tekur því biðin langa við fyrir okkur flokksmenn. Teningunum hefur verið kastað og aðeins þess beðið sem verða vill á morgun. Þá mun dómur kjósenda í prófkjörinu liggja fyrir og ný forysta á framboðslistanum og af hálfu flokksins í kjördæminu liggja fyrir. Það verður fróðlegt að sjá skiptingu atkvæða í fyrstu tölum eftir sólarhring.

Við áttum góðan dag saman hér í Oddeyrarskóla. Gott og öflugt fólk að vinna, gaman að hitta flokksmenn að kjósa og eiga gott spjall saman um stöðu mála. Var virkilega ánægjulegt að vera í kjördeildinni með þeim Oktavíu Jóhannesdóttur, Birnu Sigurbjörnsdóttur, Ragnheiði Jakobsdóttur, Jóni Oddgeiri Guðmundssyni og Maríu H. Marinósdóttur, en við fylgdumst að í gegnum daginn þar sem við vorum. Þar sem ég sat í miðju borðsins allan daginn var það mitt að fylgjast með kjörtölum og er nú lokafrágangur minnar kjördeildar frá. Nú tekur biðin við.

Það verða kaflaskil í flokksstarfinu hér á morgun, hvernig sem fer. Þá liggur fyrir hver leiði lista flokksins að vori og taki við leiðtogahlutverkinu hér í kjördæminu af Halldóri Blöndal, sem hefur setið á þingi frá 1979 og leitt lista hér á svæðinu frá 1984. Nýr leiðtogi verður fulltrúi nýrra tíma. Flokksmenn völdu í dag þennan fulltrúa sem við viljum að sjálfsögðu að verði ráðherra að vori og leiði flokkinn til sigurs þann 12. maí hér í kjördæminu.

mbl.is 2261 hefur kosið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í NA-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í NA-kjördæmi hafið

Sjálfstæðisflokkurinn Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi er hafið. Kjörstaðir opnuðu hér á Akureyri nú kl. 9:00 og verða opnir þar til kl. 18:00 og á 20 öðrum stöðum um kjördæmið. Í þessu prófkjöri verður nýr leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi kjörinn. Halldór Blöndal, fyrrum ráðherra og forseti Alþingis, hefur ákveðið að segja skilið við stjórnmálaþátttöku að loknu þessu kjörtímabili og nú er það í höndum sjálfstæðismanna um allt kjördæmið hver leiðir framboðslista flokksins að vori.

Ég verð á kjörstað í Oddeyrarskóla í allan dag, enda er ég í kjörstjórn og það eru því næg verkefni sem við blasa um helgina. Það er þó ekki þannig að úrslit verði ljós og nýr kjördæmaleiðtogi formlega ljós fyrir dagslok. Við lok kjörfundar kl. 18:00 um allt kjördæmið tekur við það verkefni að safna saman öllum kjörgögnum. Það mun taka þónokkurn tíma. Atkvæði í þessu prófkjöri verða formlega talin því á morgun. Við búum í gríðarlega stóru kjördæmi, sem spannar fleiri hundruðir kílómetra. Öll atkvæði verða komin í húsnæði Sjálfstæðisflokksins á Akureyri fyrir hádegi á morgun. Þar mun talning hefjast formlega kl. 14:00 og fyrstu tölur liggja fyrir kl. 18:00. Úrslit verða kunn fyrir 21:00 væntanlega.

Þeir sem hafa lesið þessa bloggsíðu hafa séð lágstemmda umfjöllun um þetta prófkjör á vef mínum. Mér fannst ekki viðeigandi að skrifa mikið um frambjóðendur og hliðar þeirra í ljósi þess að ég vann í utankjörfundaratkvæðagreiðslunni í Kaupangi. Henni lauk í gær, en gærdagurinn var auðvitað þar annasamastur og gekk á ýmsu. Þetta hefur verið lifandi og góð kosning sem hefur vel fram og góð kjörsókn verið. Nú er komið að aðaldeginum og nú ráðast örlögin. Fyrir dagslok á morgun verða úrslit kunn. Í ljósi minnar stöðu í þessu ferli hef ég ekki lýst opinberlega yfir stuðningi við neinn frambjóðanda, né verið áberandi í starfi eins né neins. Það er fyrir bestu.

Ég kaus einn með sjálfum mér í salnum upp í Kaupangi á síðdegi fimmtudags skömmu fyrir framboðsfundinn á Hótel KEA. Ég hafði myndað mér mínar skoðanir mjög vel þónokkru fyrir þá stund. Ákvað að bíða ekki eftir framboðsfundinum, en staða mála á þeim fundi breytti engu um mína afstöðu til þess hver ætti að leiða þennan framboðslista og hverjir myndu sóma sér best með því leiðtogaefni sem mér líst best á. Í mínu vali koma saman reynsla, þekking og nýtt blóð til verka. Það er öllum fyrir bestu að hafa góða samblöndu kynjanna og ég stuðlaði að því. Ég tel að mitt val hafi einnig staðið vörð um hagsmuni ólíkra svæða.

Það má búast við að mikil spenna verði meðal frambjóðenda og flokksmanna þennan sólarhring frá lokun kjörstaða til fyrstu talna síðdegis á morgun. Það verður hinsvegar gott að losa um mestu spennuna er yfir lýkur í Oddeyrarskóla í dag og við þolum öll biðina mjög vel. Framundan eru þáttaskil. Það verður fróðlegt að sjá hver mun fá umboð flokksmanna til leiðtogasetu nú við pólitíska kveðjustund Halldórs og hvernig liðsheildin skipast. Það eru spennandi tímar framundan.

Landsvirkjun sponserar Ómar Ragnarsson

Ómar og Friðrik

Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, og Ómar Ragnarsson, sjónvarpsmaður, undirrituðu í dag samkomulag um að Landsvirkjun styðji Ómar um 8 milljónir króna. Er samkomulagið um að fjárhæðin renni í kvikmyndagerð Ómars af myndun Hálslóns við Kárahnjúkavirkjun. Átti stuðningurinn upphaflega að vera 4 milljónir en var hækkaður eftir upphaflegt samkomulag, gegn því að Landsvirkjun fær afnot af myndefni Ómars.

Þetta eru mikil tíðindi. Ómar hefur verið harður talsmaður gegn virkjun við Kárahnjúka og stóriðju á Austurlandi. Þegar að myndun Hálslóns hófst í september hóf Ómar að gera heimildarmynd um lónið. Við öllum blasir að ekki verður aftur snúið fyrir austan. Lónið er orðin staðreynd og innan skamms verður virkjunin gangsett á fullt. Sigling Ómars á örkinni var umdeild í samfélaginu og deildi Ómar harkalega á Landsvirkjun vikurnar áður, eftir að hann sté formlega út úr hlutleysi fréttamannsins og varð baráttumaður andstöðunnar.

Fyrir tveim mánuðum gengu nokkur þúsund manns með Ómari niður Laugaveginn. Það væri fróðlegt að heyra mat þeirra sem það gerðu á þessu samkomulagi sem Friðrik og Ómar hafa nú handsalað. Mér skilst að þessi samningur tryggi Ómari og samstarfsfólki hans húsaskjól og fæði í búðum Landsvirkjunar við Kárahnjúka á meðan á kvikmyndatökum stendur, svo að væntanlega er næturvist í jeppagörmunum liðin tíð núna upp á fjöllum. Nú er gist í boði Landsvirkjunar. Þetta er allavega athyglisvert samkomulag í ljósi margs þess sem gerst hefur í samskiptum aðila vegna Kárahnjúkavirkjunar.

En þetta verður væntanlega flott mynd um Hálslón með sponseringu Landsvirkjunar. Fróðlegt verður að líta á hana þegar að hún verður til, væntanlega þegar að virkjun við Kárahnjúka verður endanlega staðreynd með vorinu og Hálslón hefur náð sinni endanlegu mynd.


mbl.is Landsvirkjun styrkir Ómar um 8 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðiskonur álykta gegn Árna Johnsen

Árni Johnsen Ég vil lýsa yfir fullum stuðningi mínum við ályktun stjórnar Landssambands sjálfstæðiskvenna um Árna Johnsen, sem send var til forystu Sjálfstæðisflokksins nú síðdegis. Það er hið eina rétta að flokksmenn tali hreint út um afleita endurkomu Árna í stjórnmálin í ljósi alls sem gerst hefur. Ég persónulega sé mér ekki fært að tala máli þessa manns sem fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í þingframboði eftir afleitt klúður hans í orðavali í síðustu viku.

Það er mitt mat að Árni Johnsen hafi orðið sjálfum sér til skammar með þeim ummælum sínum um að afbrot hans á árinu 2001 hefði verið tæknileg mistök. Þar klúðraði Árni hinu gullna tækifæri til að sýna marktæka iðrun á afbrotum sínum og sýna að hann hefði bætt rétt í hugsun, sem og gjörðum. Greinilegt var að Árni sér ekki eftir því sem hann gerði. Það er engin iðrun að mínu mati að kalla fjárdrátt og tengd brot tæknileg mistök. Aumingjalegt yfirklór Árna í Fréttablaðinu í dag er máttlaust og breytir engu. Það er greinilegt að Árni getur ekki beðið flokksmenn afsökunar á klúðri sínu.

Það er alveg greinilegt að þetta klúður í Árna Johnsen er ekki gott fyrir Sjálfstæðisflokkinn og innkoma hans aftur í stjórnmálin mun ekki efla flokkinn. Í síðustu viku ályktaði SUS með afgerandi hætti um málefni Árna Johnsen eftir þessi heimskulegu ummæli sem hann lét falla. Það var nauðsynlegt að senda þá ályktun frá sér og hún hefði orðið harðari hefði ég einn samið hana. Mér fannst Árni gjörsamlega klúðra góðu tækifæri til að endurheimta virðingu flokksmanna og stuðning þeirra eftir þetta prófkjör.

Það er greinilega engin iðrun frá syndaranum í þessu máli og það er engin eftirsjá eða neitt sem þar stendur eftir. Það er ekki bara óheppilegt fyrir Árna Johnsen heldur líka Sjálfstæðisflokkinn, sem þarf að sætta sig við endurkomu Árna eftir að sunnlenskir sjálfstæðismenn kusu hann þar aftur inn. Nú er orðið ljóst að borið hefur á úrsögnum úr flokknum vegna kosningar Árna í annað sætið í Suðurkjördæmi. Þetta hefur Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, staðfest í viðtali við Morgunblaðið fyrir nokkrum dögum.

Það var kannski varla við öðru að búast en að almennum flokksmönnum myndi blöskra framganga Árna Johnsen og sérstaklega hin dæmalausu ummæli hans, sem voru algjörlega afleit og ekki viðunandi. Þau ein og sér gera manninn ekki tækan fyrir Sjálfstæðisflokkinn til framboðs. Ég styð því ályktun sjálfstæðiskvenna heilshugar og vonast til þess að yfirstjórn Sjálfstæðisflokksins grípi til sinna ráða við að koma í veg fyrir að Árni verði í framboði fyrir flokkinn að vori. Ég tel framboð hans afleitt fyrir flokkinn úr því sem komið er.

mbl.is Óttast að framboð Árna dragi úr fylgi Sjálfstæðisflokks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott rektorsval fyrir Háskólann í Reykjavík

Svafa Grönfeldt Það er gleðiefni að heyra af því að Svafa Grönfeldt hafi verið ráðin sem rektor Háskólans í Reykjavík. Hún tekur við rektorsembættinu þann 1. febrúar 2007 af Guðfinnu S. Bjarnadóttur, verðandi alþingismanni Sjálfstæðisflokksins, sem hlaut örugga kosningu í öruggt þingsæti á framboðslista flokksins í Reykjavík í prófkjöri í síðasta mánuði. Guðfinna hefur verið rektor HR frá stofnun árið 1998 og byggt skólann upp sem eina kraftmestu menningarstofnun í landinu.

Svafa er aðstoðarforstjóri Actavis en var þar áður framkvæmdastjóri IMG Deloitte. Hún lauk Ph.D. gráðu í Industrial Relations frá London School of Economics and Political Science árið 2000. Þar áður lagði hún stund á Technical and Professional Communication í Florida Institute of Technology og lauk M.Sc. prófi þaðan árið 1995. Svafa er einnig með BA-gráðu í stjórnmála- og fjölmiðlafræði frá Háskóla Íslands. Svafa hefur verið lektor í stjórnun og markaðsfræðum við Viðskipta og hagfræðideild HÍ frá 1997.

Ég tel að þarna komi öflug kona til verka í stað kjarnakonu sem hefur byggt HR upp með undraverðum hraða og byggt upp kraftmikla menntastofnun sem kveðið hefur að með áberandi hætti.

mbl.is Nýráðinn rektor HR: „Í senn mjög erfið ákvörðun og mjög auðveld.“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afhending Gullkindarinnar

Gullkindin Í gærkvöldi var Gullkindin afhend, en það eru verðlaun sem eru sérstaklega veitt þeim sem taldir eru hafa staðið sig sérlega illa á árinu. Skemmtilegur húmor í þessum verðlaunum, finnst mér. Þetta kemur einmitt mátulega í kjölfar Edduverðlaunanna og öllu því glamúr og glysi sem einkenndi hana. Erlendis er það einna helst Razzie-verðlaunin sem vekja athygli af þessu tagi.

Silvía Nótt hlaut verðlaunin fyrir klúður ársins, en það var að sjálfsögðu Eurovision-ævintýrið, allt frá sigrinum hér heima í febrúar til skellsins mikla í þráðbeinni útsendingu frá Aþenu í maí er hún púuð niður, sem er einsdæmi í sögu keppninnar. Mikið ævintýri en líka mikill skellur er yfir lauk. Ekki furða að menn ætli að gera kvikmynd úr þessari ótrúlegu sögu. Það kom engum á óvart, held ég, að ég var sannspár í minni spá á mánudag um að Búbbarnir yrði valinn versti sjónvarpsþátturinn, enda átakanlega slappur. Plata Snorra úr Idol var valin versta plata ársins.

Verstu sjónvarpsmennirnir voru stjórnendur Innlits-Útlits á Skjá einum og fall Unnar Birnu Vilhjálmsdóttur, ungfrú Heims 2005, við krýningu ungfrú Íslands 2006 þótti uppákoma ársins. Engum kemur á óvart að vafasamasti heiðurinn, sjálf heiðursverðlaunin, féllu Árna Johnsen í skaut. Engin tæknileg mistök þar.

Þetta er bara flottur húmor held ég, líst vel á þetta hjá X-inu FM. Gott mál.


mbl.is Silvía Nótt klúður ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Courtney Love dömpar endanlega Kurt Cobain

Kurt Cobain Þegar að ég var unglingur var Kurt Cobain og Nirvana málið. Það var uppáhaldstónlistin mín á þeim árum. Ekkert sló við Nirvana. Það var rosaleg upplifun þegar að Nevermind var gefin út árið 1991 - rosalega góð plata og flottur toppur á glæsilegum ferli. Dúndur. Ein þeirra platna sem ég met mest. Er alltaf eðall á að hlusta. Þegar að hún kom út var það toppurinn - er það eiginlega enn að svo mörgu leyti. Cobain hafði mikil áhrif á heila kynslóð.

Þau áhrif náðu út fyrir gröf og dauða. Cobain fyrirfór sér árið 1994 og eftir stóðu lögin. Tólf árum eftir endalokin lifir minning hans og tónlistarinnar góðu lífi. Margar kjaftasögur ganga enn um samband Cobain og Courtney Love. Bæði lifðu þau hátt á sínum tíma, fallið varð mikið en Love lifir enn hærra en flestir. Er þekkt fyrir það. Flestir hafa alltaf talið að Cobain væri ást lífsins hennar, þrátt fyrir allt og allt. Sterkt samband en rosalega beitt og afgerandi. Lifandi var allavega lifað, hátt yfir öllum mörkum.

Finnst mjög merkilegt að Love telji leikarann Edward Norton ást ævinnar. Annars er Love ekki alveg normal á því, eins og flestir vita. Merkilegt að Cobain sé talinn besti vinur ævi hennar, þrátt fyrir allt sem gekk á. Ég hélt að þetta væri einmitt alveg hið gagnstæða. Mjög merkilegt bara, finnst mér. Fannst alveg skemmtilega villt að sjá myndina um þau skötuhjú fyrir nokkrum árum og ég hef reyndar lesið mikið um ævi Cobain. Stjörnuheimurinn er oft ansi feik og þar er lifað hátt.

En þetta eru merkilegar persónulegar uppljóstranir sem koma fram. Það má kannski segja að Courtney hafi endanlega dömpað Kurt Cobain. Kaldhæðnislegt alveg, merkilegt alveg.

En Nirvana-fíklar - hvert er uppáhaldslag ykkar með bandinu. Má til með að spyrja ykkur. Endilega kommentið. Mitt er Lithium. Smells Like Teen Spirit er líka eðall.

mbl.is Courtney Love segir Kurt Cobain ekki stóru ástina í lífi sínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styttist í prófkjör - góður framboðsfundur

Sjálfstæðisflokkurinn Það var notaleg og góð stemmning á Hótel KEA í kvöld á fundi frambjóðenda í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins, sem haldinn var af okkur í stjórn málfundafélagsins Sleipnis. Mjög vel var mætt á fundinn, en bæta þurfti við stólum í fundasalnum vegna fjöldans sem þar var saman kominn. Það var virkilega ánægjulegt að sjá þennan mikla og lifandi áhuga flokksmanna koma svo vel fram í þessari góðu fundarsókn, en það er varla furða að svo sé, enda er þetta prófkjör mikilvægt okkur öllum sjálfstæðismönnum hér.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, heiðraði fundinn með nærveru sinni. Hófst framboðsfundurinn með þriggja mínútna framsögum frambjóðendanna níu og að því loknu drógu þau spurningu sem samdar voru af okkur í stjórninni. Höfðu frambjóðendurnir ekki séð spurningarnar fyrirfram og var því áhugavert að sjá viðbrögð þeirra við spurningunni og heyra svo auðvitað svarið. Sumir frambjóðendurnir voru heppnir með spurningar, aðrir ekki eins og gengur. Flestir komu þó vel frá aðstæðum, en flestir þurftu að sýna á sér nýja hlið.

Flestir frambjóðendur tjáðu sig um mál sem þeir hafa lítið fjallað um og það tryggði líflegt fundaform og fjarri því hefðbundið. Þessi fundur var því vel heppnaður og hressilegur. Það var einmitt markmið okkar stjórnarmanna í Sleipni að tryggja lifandi og léttan fund. Fengum við fréttamanninn Sigrúnu Vésteinsdóttur á bæjarsjónvarpsstöðinni N4 einmitt til að verða fundarstjóra til að tryggja lifandi og ferska fundarstjórn. Hún spurði beinskeytt meira út í málið sem frambjóðandinn var spurður um eftir svarið og því var haldið áfram og gengið eftir betri svörum kæmu þau ekki hjá frambjóðandanum á tilsettum tíma. Kom nokkrum sinnum til þess.

Fundurinn var tveir tímar að lengd. Greinilegt var að fundargestum leist vel á fundinn og snarpt og létt form hans. Engin dauð stund og við kynntumst öll bestu hliðum frambjóðendanna held ég, hreint út sagt. Við erum með virkilega góðan hóp fólks í boði og fróðlegt að sjá hvernig raðast. Voru fundarmenn ánægðir og heyrðum við góða umsögn um allar hliðar kvöldsins hjá þeim sem sátu fundinn og frambjóðendum leist vel á. Það var því góð stemmning á Hótel KEA.

Spennan magnast vegna prófkjörsins. Lokadagur baráttunnar er á morgun og á laugardagsmorgun opna kjörstaðir um allt kjördæmið. Á sunnudagskvöldið liggja úrslitin fyrir og þá hefur nýr kjördæmaleiðtogi verið formlega valinn af flokksmönnum. Það eru spennandi tímar framundan hér hjá okkur sjálfstæðismönnum í Norðausturkjördæmi. Þetta verður spennandi helgi.

Framboðsfundur á Akureyri í kvöld

Sjálfstæðisflokkurinn Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi fer fram á laugardag. Þar verður eftirmaður Halldórs Blöndals á leiðtogastóli flokksins kjörinn. Hér á skrifstofu flokksins í Kaupangi á Akureyri hefur verið góð kjörsókn undanfarna daga, en ég hef verið þar á fullu við að sjá um utankjörfundarkosninguna, sem stendur til morgundags. Það stefnir í gott veður um helgina svo að allt ætti að ganga vel um helgina.

Í kvöld munum við í stjórn Sleipnis, málfundafélags Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, standa fyrir framboðsfundi á Hótel KEA kl. 20:00. Þar gefst Akureyringum tækifæri til að hitta frambjóðendur og ræða málin. Mun fundaform verða með þeim hætti að frambjóðendur flytja framsögu og svo munu þeir frá sérvaldar spurningar frá okkur í stjórninni og að lokum gefst fundargestum færi á að spyrja þá.

Sigrún Vésteinsdóttir, fréttamaður N4 á Akureyri, mun verða fundarstjóri á þessum fundi. Þar sem þetta er eini framboðsfundurinn vegna prófkjörsins sem haldinn verður hér á Akureyri hvet ég að sjálfsögðu alla Akureyringa til að mæta á fundinn í kvöld og heyra í frambjóðendunum níu.

Ríkisvæðing stjórnmálaflokkanna

Álit nefndar kynnt Í gær kynnti Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, álit nefndar um lagalega umgjörð stjórnmálastarfsemi, sem Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra, skipaði á síðasta ári og var stýrð af Sigurði Eyþórssyni og Kjartani Gunnarssyni. Það er athyglisvert mjög að kynna sér skýrslu nefndarinnar. Þar er að finna mikil tíðindi og nýtt landslag í þessum efnum. 

Meðal grunnniðurstaðna í skýrslunni er að fjárframlög til stjórnmálaflokka og einstaklinga í prófkjörum innan flokkanna mega að hámarki vera 300.000 krónur. Heildarkostnaður frambjóðanda í prófkjöri má ekki vera meira en 1 milljón að viðbættu álagi sem fer eftir fjölda þeirra sem skráður er á kjörskrá, mest auðvitað á höfuðborgarsvæðinu. Auk þess munu flokkarnir fá 130 milljónir króna á fjárlögum í viðbót við tæpar 300 milljónir sem þeir höfðu áður, til að standa straum af útgjöldum á kosningaári.

Auk þessa sýnist mér að þingflokkar stjórnarandstöðunnar fái hærri framlög en stjórnarflokkarnir til að jafna vissan aðstöðumun fylkinganna. Nú hefur breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið í samræmi við þetta verið dreift á Alþingi. Athyglisvert er að Kjartan Gunnarsson, fráfarandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, segir að þótt þetta hafi ekki verið talið brýnt áður fyrr, þá hafi aðstæður gjörbreyst og þörfin fyrir þetta sé orðin ótvíræð. Bendir hann einkum á líkurnar á því að fjársterkir aðilar geti keypt sér áhrif inn í stjórnmálin séu ríkari nú. Vissulega er meiri hætta á því, en hafa peningaöfl ekki alltaf haft færi á því bakvið tjöldin hingað til? Er hættan meiri nú en áður? Varla.

Mér fannst Sigríður Ásthildur Andersen, vonandi verðandi alþingismaður með vorinu, orða þetta bæði skynsamlega og vel í Kastljósviðtali í gærkvöldi. Ég er sammála henni í þessu máli. Mér finnst þetta óttaleg ríkisvæðing stjórnmálaflokka og flokksstofnana sem þarna er í uppsiglingu. Vissulega er gott að hafa skýran regluramma utan um stöðu mála, en mér finnst ekki alveg nógu gott að dæla meiru inn til flokkanna af almannafé en nú er. Ég hef t.d. afskaplega lítinn áhuga á að fjármagna kostnað við rekstur Samfylkingarinnar og Framsóknarflokkins, svo dæmi séu tekin og sennilega eru fylgismenn þeirra sama sinnis varðandi Sjálfstæðisflokkinn.

En svona er þetta bara. Eflaust er þetta umdeilt víða, enda hef ég heyrt líflegar umræður um þetta í gær og í dag. Það verður fróðlegt að heyra umræður um þetta í þinginu og samfélaginu á næstunni.

mbl.is Takmörk sett á kostnað frambjóðenda í prófkjörum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sagan af umdeilda kynlífsmyndbandinu

K-Fed og Britney Það er alveg kostulegt að lesa um dramað um kynlífsmyndbandið svokallaða, sem kom í umræðuna eftir skilnað glamúrgellunnar Britney og Federline. Showið er búið þar heldur betur og engin bros eftir framan í myndavélarnar. Vart var um tíma annað rætt en þetta merkilega myndband og sögusagnir um að K-Fed ætlaði að selja sig dýrt fyrir þetta myndband. Nú segir hann að það hafi aldrei verið til. Another day - another dollar, segir máltækið.

Á meðan heldur sápuóperan í skilnaðarmáli Paul McCartney áfram, en hann á núí harðri baráttu við Heather sína, sem reyndist hið mesta skass er á hólminn kom, og vill hún nú fá vænar fúlgur Bítlafjár. Jafnast þessi erja sem vel sést á vefsíðum bresku slúðurblaðanna á við átök hjónanna í The War of the Roses þessi deilanna Macca við Mucca (eins og bresku slúðurblöðin kalla Heather). Mucca segist nú frekar vilja missa útlimi heldur en að ganga aftur í gegnum skilnað. Fyndið.

Hlægilegt. Fyndin tilvera. Það er oft mesta feikið í brosum stjarnanna, ekki satt?

mbl.is Federline segir ekkert kynlífsmyndband til með honum og Spears
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hægriöflin lýsa yfir sigri í Hollandi

Jan Peter Balkenende Það blasir fróðleg staða við eftir þingkosningarnar í Hollandi í dag. Hvorug fylkingin hefur afgerandi umboð til að stjórna landinu. Þrátt fyrir það hefur Jan Peter Balkenende, forsætisráðherra, nú lýst formlega yfir sigri en CDA, flokkur forsætisráðherrans, hlaut flest þingsæti í kosningunum. Meirihluti stjórnarinnar er ekki lengur til staðar með sama hætti og verður Balkenende, sem væntanlega fær stjórnarmyndunarumboðið fyrstur, að leita til annarra flokka.

Ég sé á fréttavefum að mikið er talað um að jafnvel muni erkifjendur kosninganna, CDA og Verkamannaflokkurinn, fara í stjórnarmyndunarviðræður eftir þessar þingkosningar. Það yrði ekki ósvipað eins og var eftir þýsku þingkosningarnar í fyrra, þar sem að vinstristjórnin féll og hægriblokkin myndaði stjórn með jafnaðarmönnum undir forystu dr. Angelu Merkel. Í dag er einmitt ár frá því að stóra samsteypa aflanna tók við völdum.

Skoðanakannanir höfðu sýnt í Hollandi að jafnt væri með fylkingunum en líklegast þó að hægriblokkin héldi velli með naumindum. Svo fór ekki, en nú reynir á samningalipurð forsætisráðherrans.

mbl.is Balkenende lýsir yfir sigri í hollensku kosningunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófkjör á laugardaginn - nýr leiðtogi kjörinn

Sjálfstæðisflokkurinn Nýr leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi verður kjörinn í prófkjöri flokksins á laugardag. Það líður að lokum prófkjörsbaráttunnar. Hún hefur verið lífleg; leiðtogaframbjóðendurnir þrír hafa verið mjög áberandi, opnað kosningaskrifstofur og heimasíðu og auglýst talsvert. Það er því mikið lagt í baráttuna og mikil vinna sem frambjóðendurnir leggja á sig. Það er skiljanlegt, enda hefur hér ekki verið prófkjör hjá flokknum í norðurhluta kjördæmisins frá árinu 1987 er Halldór Blöndal vann prófkjör.

Þetta eru því lífleg en um leið heiðarleg prófkjörsbarátta, eftir því sem ég heyri allavega. Það sem gerir baráttuna líflegri hér en ella eru einmitt prófkjörsskrifstofurnar, sem er nýbreytni í svona prófkjörsbaráttu hér um slóðir. Sjö frambjóðendur af níu hafa opnað heimasíður og í bréfalúgur okkar hafa safnast saman dreifirit frambjóðenda og kynningarefni. Þetta er því ekta prófkjörsslagur að hætti þess sem gerist og gengur í Reykjavík. Það er svosem ekkert nema gott um það. En fyrir leiðtogaefnin er þetta greinilega mjög dýr barátta og mikið lagt í verkefnið. Það er engin furða, enda gæti leiðtogastóllinn verið ráðherrastóll að vori.

Mikið er spáð og spekúlerað í prófkjörsúrslitin. Mér finnst vera nokkur óvissa yfir. Flokksmenn hér halda hver með sínum kandidat, en flestir telja þó fjarri því öruggt hvernig fari. Það eru tveir frambjóðendur frá Akureyri sem gefa kost á sér til forystu og einn Austfirðingur. Að því gefnu ætti þetta hvergi nærri öruggt að vera, enda skiptast atkvæði á Akureyri á þessa tvo en fátt er vitað svosem að austan, þó flestir gefi sér að Arnbjörg njóti þar mikils stuðnings til forystu. Örlögin ráðast hér á Akureyri. Það hafa allir leiðtogaframbjóðendurnir sýnt með afgerandi hætti með þeim þunga sem lagt er í kosningabaráttuna þar. Þar eru enda flest atkvæðin í pottinum.

Það stefnir í spennandi helgi. Á laugardaginn er kjörfundur í Oddeyrarskóla hér á Akureyri frá 09:00-18:00 og á 21 kjörstað öðrum vítt og breitt um kjördæmið. Fyrstu tölur verða lesnar upp á talningarstað í Kaupangi, höfuðstöðvum flokksins hér á Akureyri af Önnu Þóru Baldursdóttir, formanni kjörnefndar, kl. 18:00 á sunnudagskvöldið. Þá er sólarhringur liðinn frá lokun kjörstaðar, en tíma tekur að safna öllum kjörgögnum saman og hefst talning kl. 14:00 á sunnudaginn. Það má búast við að mikil spenna verði meðal frambjóðenda og flokksmanna þennan sólarhring frá lokun kjörstaða til fyrstu talna.

Á morgun gefst Akureyringum tækifæri til að hitta frambjóðendur á framboðsfundi á Hótel KEA kl. 20:00. Við í stjórn málfundafélagsins Sleipnis stöndum fyrir þessum fundi og verður Sigrún Vésteinsdóttir, fréttamaður N4 á Akureyri, fundarstjóri. Hvet alla Akureyringa til að mæta á fundinn annaðkvöld og heyra í frambjóðendunum níu.

Snilld Megasar

Megas Í gær keypti ég mér plötuna Pældu í því sem pælandi er í, en þar taka landsþekktir söngvarar lög Megasar með sínu nefi. Þetta er virkilega vönduð og góð plata. Þarna er lögum Megasar gerð góð skil. Best af þeim finnst mér lagið Dauði Snorra Sturlusonar í túlkun KK, Táraborg í túlkun Ragnheiðar Gröndal og Þóttú gleymir Guði í túlkun Páls Óskars. Mæli svo sannarlega með þessari plötu.

Fullyrða má að Megas sé merkilegur tónlistarmaður í tónlistarsögu landsins. Hann er snillingur orðsins í nútíma ljóðlist og hefur tekist með undraverðum hætti að tjá sig með næmleika og merkilegri fegurð um daglegt líf og getur tjáð sig með svipmiklum hætti um samtíma sinn. Umfram allt er þó Megas kaldhæðinn og napur í yrkisefnum, það er viss ádeila í honum sem alltaf er gaman af.

Það hefur líka verið gaman af því hvernig hann hefur notað heimsbókmenntirnar, sagnaarfinn okkar og þá hefð sem hann byggist á og kveðskap fyrri tíma sem efnivið í verk sín. Hann hefur með merkilegum hætti náð að flétta saman slangri, rokkfrösum seinustu áratuga, nýyrðum og sett saman við gullaldarmál fyrri tíma, svo úr verði næm meistaraverk. Hef ég lengi borið mikla virðingu fyrir verkum hans og tónverkum. Með vinnubrögðum sínum hefur hann tekist bæði að heilla og hneyksla.

Hvað sem segja má þó um Megas leikur þó enginn vafi á því að hann hefur náð til fólks og hreyft við samtímanum með merkilegum hætti. Það er hans afrek og verður það sem mun ávallt setja mestan svip á feril hans. Hvernig er annars hægt að gera upp tónlistarsögu 20. aldarinnar án þess að taka fyrir plötur hans, t.d. Millilendingu, Fram og aftur blindgötuna, Á bleikum náttkjólum, Drög að sjálfsmorði og síðast en ekki síst Loftmynd?

Fallegasti texti Megasar er þó hiklaust Tvær stjörnur. Gríðarlega fallegt og táknrænt. Eitt af uppáhaldslögunum mínum. Sætt og ljúft lag.

Borat

Borat Kvikmyndin um frettamanninn líflega Borat hefur heldur betur farið sigurför um heiminn. Hún er þó umdeild, sumum líst ekki vel á, en öðrum líkar betur við hana og telja hana vel gerða og líflega. Fór og sá hana í bíó hér á Akureyri fyrir nokkrum vikum og fannst hún flott. Lifandi og hressileg.

Nú eru að spretta upp málaferli vegna myndarinnar, eins og fram hefur komið á fréttavefsíðum, t.d. fréttinni hér fyrir neðan. Er þar um að ræða að tveir Rúmenar sem komu fram í myndinni krefja kvikmyndaverið 20th Century Fox um skaðabætur upp á 30 milljónir dala.

Það verður seint sagt um Sacha Baron Cohen að hann sé ekki umdeildur og svo mikið er víst að túlkun hans er kostuleg og viðtölin sprenghlægileg.

mbl.is Rúmenar í mál við 20th Century Fox vegna myndarinnar um Borat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sturla boðar stórátak í vegamálum

Sturla Böðvarsson Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, boðaði stórátak í vegamálum á fundi Samtaka verslunar og þjónustu í morgun. Það er svo sannarlega ánægjulegt að heyra það. Hann boðar fjögurra akreina veg hingað norður til Akureyrar og austur að Markarfljóti, þangað sem beygt yrði niður að Bakkafjöru og höfn sem byggð yrði þar fyrir Vestmannaeyjaferju.

Það er ánægjulegt að heyra að ráðherra hefur metnað fyrir því að leggja fjögurra akreina veg hingað norður í land. Allir sem fara leiðina Akureyri - Reykjavík sjá vel að leiðin er löngu sprungin og kominn tími til að hugsa stórt í þessum efnum. Okkur hér fyrir norðan hefur fundist leitt að ráðherrann hafi ekki hugsað nógu stórt varðandi styttingu leiðarinnar. En það er eins og það er bara.

Þetta er gott skref og við hljótum að fagna því hér fyrir norðan að heyra af þessum hugmyndum ráðherrans, sem eru stórátak svo sannarlega og boða mikil tíðindi.

mbl.is Samgönguráðherra segir þörf á stórátaki í vegamálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

43 ár liðin frá dauða John F. Kennedy

John F. Kennedy Í dag eru 43 ár liðin frá því að John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna, var myrtur í Dallas í Texas. Hann hafði þá setið á forsetastóli í Bandaríkjunum í rúmlega 1000 daga. Þótt liðinn sé langur tími frá þessum atburðum eru þeir mörgum Bandaríkjamönnum enn í fersku minni og blandast þar saman sorg, söknuður og tilfinningin um að þjóðin hafi verið svipt ungum og kraftmiklum leiðtoga. Þá er að margra mati sem spurningunni um hver myrti forsetann hafi ekki verið svarað með fullnægjandi hætti.

Opinber rannsóknarnefnd, Warren-nefndin, komst að þeirri niðurstöðu að Lee Harvey Oswald hefði framið morðið og verið einn að verki en margir aðhyllast þá kenningu að árásarmennirnir hafi verið tveir og sumir segja allt að fjórir, eins og vel kom fram í umdeildri kvikmynd Oliver Stone, JFK, árið 1991. Einnig hafa komið fram kenningar um að mafían, bandaríska leyniþjónustan, útsendarar erlendra ríkja eða jafnvel Lyndon B. Johnson, eftirmaður Kennedys á forsetastóli, hafi skipulagt ódæðið. Kvikmyndin kemur með aðra útgáfu en þá opinberu og þær samsæriskenningar sem þar komu fram hafa alltaf verið umdeildar.

Ólíklegt er að niðurstaða, sem allir sætta sig við, fáist nokkurn tíma en ekkert lát er á umfjöllun um morðið, bæði í bókum og fjölmiðlum þótt rúmir fjórir áratugir séu liðnir frá morðinu á forsetanum. Enn er mikið fjallað um pólitíska arfleifð forsetans og 1000 daga hans á forsetastóli. Fyrir þrem árum, þegar að fjórir áratugir voru liðnir frá morðinu á forsetanum, birtist á vef Heimdallar ítarlegur pistill minn um stjórnmálaferil og ævi Johns Fitzgerald Kennedy.

Kennedy forseti, fæddist í Brookline í Massachusetts, þann 29. maí 1917, næstelstur í hópi 9 barna hjónanna Joseph og Rose Kennedy. Hann nam í Choate menntaskólanum og Harvard, fór að því loknu í herþjónustu í seinni heimsstyrjöldinni. Hann hóf þátttöku í stjórnmálum, 29 ára gamall árið 1946 er hann var kjörinn þingmaður í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. 1952 var hann kjörinn til setu í öldungadeild þingsins fyrir Massachusetts.

Árið 1960 var hann kjörinn forseti Bandaríkjanna, sigraði Richard M. Nixon naumlega í spennandi kosningum. Hann sat á forsetastóli í rúmlega 1000 daga, var myrtur 22. nóvember 1963 í Dallas í Texas, skömmu eftir að hann kom þangað en hann hafði dagana á undan verið á ferðalagi um fylkið. Kennedy forseti var jarðsettur í þjóðargrafreitnum í Arlington, 25. nóvember 1963.

Í ferð minni til Washington í október 2004 fór ég í Arlington-þjóðargrafreitinn að grafreit Kennedys forseta. Á gröf hans og Jacqueline, konu hans, sem lést árið 1994, lifir hinn eilífi logi, táknmynd þess að vonarneistinn slokknar aldrei, hvað sem á bjátar.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband