Eva Joly veitir ráðgjöf - skynsamleg ákvörðun

Ég er mjög ánægður með þá ákvörðun stjórnvalda að fá Evu Joly til að veita okkur ráðgjöf á þessum erfiðu en mikilvægu tímum þegar rannsaka þarf með trúverðugum hætti allar hliðar bankahrunsins. Fara verður í heiðarlega og ítarlega rannsókn þar sem velta þarf við öllum steinum og fá alla hluti upp á borðið. Aðkoma Joly er mikilvæg, tel ég, enda sérfræðiþekking hennar óumdeild.

Eva Joly er heimsþekkt fyrir rannsóknir sínar á spillingu og fjármálabrotum víða í Evrópu og hefur verið rannsóknardómari í Frakklandi. Aðkoma hennar er mikilvæg fyrir okkur, enda þurfum við ráðleggingar manneskju sem hefur átt við svona mál áður og kann til verka, með þeim íslensku aðilum sem hafa verið valdir í verkefnið.

mbl.is Eva Joly sérstakur ráðgjafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aumingja Baugur kveinkar sér enn einu sinni

Mikið ósköp og skelfing er orðið leiðinlegt og þreytandi að hlusta á þetta væl í forsvarsmönnum fyrirtækisins Baugs. Alltaf er það öðrum að kenna ef eitthvað aflaga fer og umræða um hreinar staðreyndir er auðvitað aðför vondra manna að fyrirtækinu. Þetta er orðið vægast sagt fyrirsjáanlegt og hundleiðinleg umræða. Held að flestir séu farnir að sjá í gegnum þessa vitleysu, sem hefur staðið alltof lengi. Lengi vel gátu þeir reddað sér með því að kenna vissum mönnum um einhverja herferð gegn sér. Nú er sú spilaborg fallin yfir þá sjálfa.

Steininn tók endanlega úr þegar Jón Ásgeir ætlaði að kenna Davíð Oddssyni um verklag bankanna gegn Baugi, þegar þeir gengu að þeim fyrir nokkrum vikum. Þá var ný ríkisstjórn komin til valda og þá fyrst fóru hinir staðföstu varnarjálkar Baugs að gefa eftir, enda trúði enginn maður að Davíð gæti sagt ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir verkum, hvað þá gefið henni ordrur um verk og ákvarðanir. Þessi margfræga vitleysa féll kylliflöt og ekki var búst í að taka hringekjuna enn einn hringinn.

Sama gerist nú. Hver trúir þessu fjandans væli um að allir séu svo vondir við Baug og vilji gera þeim allt hið versta. Menn hafa kallað þetta yfir sig sjálfir. Þeir eiga nú að hætta þessum blekkingarleik og fara að standa fyrir máli sínu eins og menn en ekki væludúkkur.


mbl.is Baugur: Segja fullyrðingar rangar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingið þarf að starfa í sumar - virðing þingsins

Ég er algjörlega sammála Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, alþingismanni, um að þingið sem kjörið verður 25. apríl verður að vera vinnusamt. Þar verður að vinna verkin hratt og vel af ríkisstjórn með sterkt umboð. Engin traust verk verða í raun unnin fyrr en eftir að þessari kosningabaráttu lýkur. Þingstörfin hafa verið í einhverju rugli milli fylkinga í þinginu á síðustu vikum, enda enginn virkur þingmeirihluti og allt starf verið þar í limbó.

Funda verður í sumar að einhverju leyti á Alþingi. Mikilvægast af öllu er að Alþingi endurheimti virðingu sína og verði falin alvöru verkefni og verkstjórn í málum, í stað þess að ráðherraræðið verði algjört. Minnihlutastjórnin var ekki lengi að svíkja loforð sitt um lýðræðisleg vinnubrögð. Starfsaldursforsetarnir Jóhanna og Steingrímur voru ekki lengi að valta yfir þingræðið með ákvarðanir og vildu ráða hraðanum þar.

Þingræði á að vera staðreynd en ekki orð á blaði. Því þarf nýtt þing að vinna vel, bæði til að vera vandanum vaxinn, sjálfstæð stofnun þar sem verkin eru unnin, en ekki afgreiðslustofnun ráðherranna einvörðungu. Leita þarf að virðingu Alþingis í þeim rústum sem þessi minnihlutastjórn skilur eftir sig.

mbl.is Steinunn Valdís: Vill að þingið starfi í sumar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægt að fá ráðleggingar frá Evu Joly

Viðtalið við Evu Joly í Silfri Egils í gær er með þeim betri í íslensku sjónvarpi mjög lengi. Hún hefur mikið fram að færa fyrir íslenska þjóð, við erum á krossgötum og þurfum alþjóðlega aðstoð til að komast úr þessum vanda. Við þurfum ráðleggingar fyrst og fremst.

Íslenskir embættismenn verða að standa undir sér í þeim verkefnum sem framundan eru, en við verðum að leita til fólks sem þekkir vandann og getur greint hann á örskotsstundu - hefur átt við svipuð mál og þekkir allar aðstæður í raun.

Við þurfum að leita til hennar og fá hana til aðstoðar, eða tryggja aðkomu sérfræðinga að málinu, fyrst og fremst til að veita því verkstjórn og fóstra það - fólk sem getur tekið á málinu fumlaust og af ábyrgð með þeim sem leiða málið nú.


mbl.is Eva Joly ráðleggur ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skynsamleg ákvörðun hjá Tryggva Þór

Tryggvi Þór Herbertsson, prófkjörsframbjóðandi Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi, gerir rétt með því að birta opinberlega fjárhagsleg tengsl sín við atvinnulífið. Þetta eiga allir frambjóðendur að gera á vefsíðum sínum eða í blaðaskrifum fyrir þessar alþingiskosningar. Ótækt er með öllu að vafi leiki á tengslum frambjóðenda og beinni þátttöku við atvinnulífið eða óljóst hvort þeir hafa hagsmuna að gæta.

Á þessum tímum þegar mikil óvissa og tortryggni ríkir þarf þetta að koma fram. Þetta eykur enn möguleika á því að Tryggvi Þór nái góðum árangri í prófkjörinu á laugardag. Fólk vill heiðarleika og traust vinnubrögð í þessum efnum.

mbl.is Tryggvi Þór: Greinir frá fjárhagslegum tengslum sínum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkið yfirtekur Straum

Yfirtakan á Straumi eru enn ein nöpru þáttaskilin í íslensku efnahagslífi. Á innan við þrem sólarhringum fóru allir þrír stærstu bankarnir, þar af gömlu ríkisbankarnir tveir sem voru einkavæddir árið 2002, undir vald Fjármálaeftirlitsins. Nú, fimm mánuðum síðar, fer Straumur sömu leið, þegar flestir töldu mestu hættuna liðna hjá.

Merkilegustu tíðindin eru þau að Straumur þurfti að standa skil á skuldbindingum að fjárhæð 33 milljónum evra í dag en hafði aðeins handbært fé að fjárhæð rúmlega 15 milljónum evra. Segir meira en mörg orð um stöðuna. 

Á meðan allt hrynur og breytist í ólgusjó sögulegra þáttaskila um allan heim, þar sem bankar falla og fjármálafyrirtæki hníga gerist ekkert í helstu loforðum íslensku ríkisstjórnarinnar, varðandi heimilin og fyrirtækin.

Spaugstofan lýsir Jóhönnu og Steingrími sem ráðalausum flugstjórum sem að lokum stökkva fyrir borð. Fáir hafa lýst vandræðagangi þeirra betur.


mbl.is Ríkið tekur Straum yfir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagur hopar fyrir Jóhönnu - plottið endurnýjað

Mér finnst merkilegt að Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi, sem talaði fyrr í dag um að meta þurfi stöðuna innan Samfylkingarinnar sé nú búinn að lýsa yfir stuðningi við Jóhönnu Sigurðardóttur sem eftirmann Ingibjargar Sólrúnar. Greinilegt er að þetta er nýja plottið hjá Samfylkinguna. Allt kapp verði lagt á til að fá Jóhönnu til að hætta við að hætta svo bjarga megi samstöðunni innan flokksins.

Eins og ég benti á fyrr í kvöld er engin samstaða um formennskuna gefi Jóhanna ekki kost á sér, þar sem hún er aldna kempan á forsætisráðherrastóli sem leiðir flokkinn fram að uppgjöri um forystuna á miðju kjörtímabili. Þetta er nýja plottið. Þá muni Jóhanna víkja og nýr formaður taka við forystunni, væntanlega fulltrúi nýrrar kynslóðar, væntanlega Dagur sem varaformaður.

Þannig muni plott Ingibjargar Sólrúnar halda velli - eina breytingin verði sú að Jóhanna taki sess ISG þar til Dagur taki við verði hann varaformaður eða hún láti landsfund eftir að velja formanninn. Væntanlega er plottið eftir sem áður að formennskan verði tekin frá fyrir Dag.

mbl.is Rökrétt að Jóhanna taki við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skorað á Jóhönnu til að koma í veg fyrir átök

Samfylkingarmenn um allt land eru nú byrjaðir að skora á Jóhönnu Sigurðardóttur um að gefa kost á sér til formennsku í stað Ingibjargar Sólrúnar til að koma í veg fyrir fylkingamyndanir og harkaleg átök um forystuna á landsfundi í lok mánaðarins. Augljóst er að engin samstaða er um eftirmann Ingibjargar Sólrúnar nema þá Jóhanna taki hlutverkið að sér. Greinilegt er að það hefur verið mikið áfall fyrir fjölda fólks að Jóhanna skyldi skjóta formannshugleiðingarnar niður allt að því á sama augnabliki og Ingibjörg Sólrún kvaddi, hálfpartinn með tárin í augunum.

Greinilegt var að þessi pólitíska kveðjustund var mjög erfið fyrir Ingibjörgu Sólrúnu, enda verið í pólitík mjög lengi og kveður við erfiðar aðstæður, enda gengur hún ekki heil til skógar og er ekki lengur óumdeild. Á átta dögum komu veikleikar hennar í ljós á öllum sviðum. Hún naut ekki lengur ótvíræðs stuðnings og hefur auk þess ekki lengur líkamlegan þrótt til að vera í forystusveit fyrir stjórnmálaflokk í kosningabaráttu. Plott hennar um að halda völdum og sjá til, en um leið búa til eftirmann, gekk einfaldlega ekki upp.

Jóhanna Sigurðardóttir hefur á þessu kjörtímabili öðlast mjög sterkan sess í forystusveit Samfylkingarinnar. Á meðan bæði Ingibjörg og Össur veiktust vegna bankahrunsins styrktist hún. Upphaflega átti að láta hana fara í þingforsetaembættið á þessu ári og klára kjörtímabilið og ferilinn þar. Nú er hún orðin ótvíræður leiðtogi Samfylkingarinnar án þess þó að hafa þann titil að nafninu til. En Jóhanna er að verða 67 ára gömul, orðin greinilega svolítið þreytt og hugsar til pólitískra endaloka.

Annað hvort er henni alvara um að klára verkefnið sem hún hefur, þá til bráðabirgða, eða að búa til eftirspurn eftir sér. Jóhanna hefur sem forsætisráðherra þá stöðu að leiða í raun pólitíska baráttu flokksins síns. En hún er hinsvegar gamalt andlit í pólitískri baráttu - hefur setið á þingi frá vinstrisveiflunni árið 1978, fór á þing með Vilmundi Gylfasyni, arkitekt þeirrar sveiflu, og hefur mikla reynslu að baki. Slíkt er bæði kostur og galli á breytingaári í stjórnmálum.

Dagur bíður greinilega á hliðarlínunni. Hann átti að verða varaformaðurinn hennar Sollu og valinn arftaki - staðgengill hennar og eftirmaður mjög fljótlega sennilega. Brotthvarf Ingibjargar Sólrúnar markar þá framtíð mikilli óvissu. Hann kemst ekki í borgarprófkjörið nema kjörnefnd skvísi honum inn með valdi að ofan á allra síðustu stundu, sem yrði mjög vandræðalegt, tel ég. Auk þessu eru aðrir á hliðarlínunni, t.d. Lúðvík Geirsson, Árni Páll og Björgvin Sigurðsson.

Svo er það Jón Baldvin. Hann býður greinilega Jóhönnu að fá stólinn og hætti þá við endurkomuna margfrægu, sem er frekar vandræðaleg og pínleg en nokkru sinni tignarleg heimkoma postulans margreynda. Hann er fjarri því vinsæll og virðist á einni nóttu orðinn hataður meðal vissra hópa í flokknum. Glæpur hans var að ráðast að hinum fallandi leiðtoga, sem féll á átta örlagaríkum dögum vegna þess að heilsa hennar og pólitískur styrkleiki var farin.

Þetta stefnir í mikið skuespil, skemmtilegt það. Annað hvort hættir Jóhanna við að hætta eða við fáum skemmtilegan vinstrifarsa um völdin, þar getur margt gerst og ýmis öfl verið leyst úr læðingi - öfl sem Ingibjörg Sólrún gat ekki ráðið við undir lokin. Gleymum því ekki að margir ólíkir hópar eru saman undir merkjum Samfylkingar og ISG var límið sem hélt þeim öllum saman sem hinn sterki leiðtogi.

mbl.is Jón Baldvin skorar á Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ingibjörg Sólrún hættir í stjórnmálum

Ég held að ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um að hætta þátttöku í stjórnmálum komi engum að óvörum. Hún er mjög veikburða og þarf að ná áttum, auk þess sem hún er orðin dragbítur fyrir Samfylkinguna eftir bankahrunið. Kannanir síðustu daga hafa sýnt svo ekki verður um villst að styrkleiki hennar í pólitískri baráttu er ekki lengur til staðar, hún er ekki lengur sá leiðtogi sem höfðar mest til kjósenda og staða hennar hefur veikst umtalsvert innan eigin raða.

Enginn vafi leikur á því að Ingibjörg Sólrún var þar til fyrir nokkrum mánuðum ótvíræður leiðtogi Samfylkingarinnar og hefði engum órað fyrir því fyrir ári að hún myndi þurfa að yfirgefa pólitíska forystu, ekki frekar en Geir H. Haarde. Styrkleiki þeirra beggja hrundi á sama tíma, enda ábyrgð þeirra beggja í aðdraganda bankahrunsins ótvíræð. 

Ingibjörg Sólrún reyndi að snúa vörn í sókn með því að halda ótrauð áfram, en hún fékk óblíðar móttökur, enda var uppsetning kosningabaráttunnar sem kynnt var á blaðamannafundi um síðustu helgi klaufaleg og vandræðaleg, sérstaklega að ákveðið væri fyrirfram hverjir yrðu í þremur efstu sætunum í Reykjavík.

Þar sem framboðsfrestur er liðinn er eflaust velt fyrir sér hvað muni gerast innan Samfylkingarinnar. Mikið er talað um Dag B. Eggertsson sem nýjan formann, en hann getur ekki farið í prófkjörið í Reykjavík, en bæði Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir hafa gefið formannsstólinn frá sér.

Væntanlega verður líflegur slagur um formennskuna í Samfylkingunni nú. Jón Baldvin sagðist fara fram til að stöðva Ingibjörgu Sólrúnu. Mun hann halda fast við framboð sitt eða mun unga kynslóðin í flokknum taka forystuna yfir við þessar breyttu aðstæður?

mbl.is Ingibjörg Sólrún hættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kolbrúnu hafnað af vinstri grænum í Reykjavík

Skilaboð vinstri grænna í Reykjavík til Kolbrúnar Halldórsdóttur, umhverfisráðherra, eru mjög skýr. Þeir vilja hana ekki lengur í forystu framboðslista í Reykjavík og ekki heldur að hún verði áfram þingmaður þeirra. Sem sitjandi leiðtogi á öðrum framboðslistanum í kosningunum 2007 og sitjandi ráðherra fær hún skell. Þetta vekur mikla athygli, einkum í kjölfar nýjustu fjölmiðlaframkomu hennar. Mér finnst ekki óvarlegt að álykta að verið sé að hafna túlkun hennar í þeim efnum, allavega forystu hennar þar.

Ég skynja að Kolbrún er mjög reið. Slíkt má lesa milli línanna í orðum hennar. Eðlilegt svosem. Það gerist ekki á hverjum degi að sitjandi ráðherra fái slíka niðurlægingu. Maður hefði frekar skilið það í Samfylkingunni, þar sem fólki varð á og brást á vaktinni á örlagatímum. Þar eru leiðtogarnir hinsvegar kallaðir upp, meira að segja viðskiptaráðherrann sem steinsvaf á vaktinni í stað þess að standa sig.

Þessi úrslit þýða væntanlega að Kolbrún þarf að víkja til hliðar, væntanlega fyrir Ara Matthíassyni þegar listanum verður raðað upp. Er ekki kynjakvótinn annars í fullu gildi?

mbl.is Keik og stolt í sjötta sætinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Katrín og Svandís í forystu - Kolbrún fær skell

Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir styrkjast í sessi sem framtíðarleiðtogar VG með sigrinum í prófkjöri flokksins í Reykjavík í dag. Kolbrún Halldórsdóttir, umhverfisráðherra, fær mikinn skell í prófkjörinu og fellur niður í sjötta sæti, sem er ekki þingsæti miðað við stöðuna í dag. Hefur ekki gerst lengi að sitjandi ráðherra fái annan eins skell. Kemur svosem varla að óvörum, enda hefur hún verið að veikjast í sessi og mældist nýlega óvinsælasti ráðherra ríkisstjórnarinnar.

Þetta kemur í kjölfarið á varnarstöðu hennar gegn álverum og tali gegn atvinnusköpun tengdri stóriðju síðustu dagana þar sem hún reyndi að beita sér gegn stjórnarfrumvarpi. Langt síðan ráðherra hefur beitt sér jafn mikið gegn augljósum meirihlutavilja í þinginu. Þar talaði hún gegn uppbyggingu á Austurlandi og því að horfa til vilja íbúanna í Húsavík og nærsveitum.

Auk þess fær Álfheiður Ingadóttir sinn skell, en hún fellur úr þingsæti miðað við stöðuna í dag. Í staðinn koma Svandís og Lilja Mósesdóttir, sem í raun hlýtur að teljast sigurvegari prófkjörsins, enda ný í pólitísku starfi en hún hefur verið mikið í fréttum eftir efnahagshrunið.

Með þessari niðurstöðu stimplar Svandís sig inn í landsmálin og heldur til verka þar og lætur forystusætið í borgarstjórn eftir á næstu vikum. Væntanlega mun hún ætla sér að ná formannssætinu rétt eins og Katrín, þegar Steingrímur fer af velli.

mbl.is Katrín og Svandís efstar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siv heldur velli í SV - sögulegur kvennasigur

Ég vil óska Siv Friðleifsdóttur innilega til hamingju með glæsilegan sigur í prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi. Sótt var að henni í þessum slag af sitjandi þingmanni úr Suðurkjördæmi en hún hafði sigur, heldur velli og verður áfram ein af forystumönnum Framsóknarflokksins. Hún er eini kjördæmaleiðtogi flokksins úr kosningunum 2007 sem verður í kjöri í þessum alþingiskosningum og hefur lifað af pólitískt hina miklu uppstokkun innan flokksins frá afhroðinu mikla þegar Halldórsarmurinn missti tökin á flokknum. Mikið afrek hjá Siv.

Þetta er reyndar sögulegt prófkjör kynjalega séð, enda í fyrsta skipti svo ég viti til á Íslandi sem konur eru í fimm efstu sætum í slíkri kosningu. Slíkt er eflaust mjög sjaldgæft þó víðar væri leitað. Þarna verða konur fyrir hinum margfræga kynjakvóta og verða tvær þeirra færðar niður fyrir karlmenn. Ég hef aldrei skilið þessa kynjakvóta, enda geta þeir verið tvíeggjað sverð. Mér finnst það eiginlega sorglegt þegar setja þarf slíkar girðingar til að tryggja stöðu kvenna og það á árinu 2009.

mbl.is Siv efst í SV-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björgvin G. fær endurnýjað umboð í Suðrinu

Samfylkingin heldur áfram að klappa upp ráðherra síðustu ríkisstjórnar og hefur nú endurnýjað umboð Björgvins G. Sigurðssonar, viðskiptaráðherrans sem svaf á verðinum í aðdraganda bankahrunsins og skrifaði lofgreinar um útrásarvíkingana á heimasíðu sína alveg þangað til í ágúst 2008. Greinilegt er á öllu að Samfylkingin ætlar að hampa öllum sínum ráðherrum í gömlu stjórninni á meðan þeir eru flestir að víkja af hinu pólitíska sviði í Sjálfstæðisflokknum.

Allir ráðherrar Samfylkingarinnar í 20 mánaða stjórninni sækjast eftir endurkjöri og munu greinilega hljóta endurnýjað umboð. Sigur Björgvins G. í þessu prófkjöri vekur vissulega mikla athygli, enda sagði hann ekki af sér sem viðskiptaráðherra fyrr en ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var feig og ekki hugað líf og tekin hafði verið ákvörðun um að slíta samstarfinu og horfa til vinstri. Stjórnin féll innan við sólarhring eftir þá afsögn.

Sumir töluðu um að hann hafi axlað ábyrgð, en æ fleiri sjá að hann sagði aðeins af sér til að reyna að heilla kjósendur flokksins og bjarga því sem bjargað varð hjá sér.

mbl.is Afsögnin skipti miklu máli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Möllerinn heldur velli - Sigmundur Ernir á þing

Ég er ekki undrandi á því að Kristján L. Möller, samgönguráðherra, hafi haldið velli í netprófkjöri Samfylkingarinnar. Fáir eru duglegri eða ósvífnari í atkvæðasmölun en hann, enda frægur fyrir að skrá megnið af Siglfirðingum inn í Samfylkinguna í prófkjörum til þessa. Stóru tíðindin í prófkjörinu eru þó að Sigmundur Ernir vinnur annað sætið og er á leiðinni á þing og Einar Már Sigurðarson, alþingismaður, fékk mikinn skell og náði ekki einu sinni í topp átta!

Einar Már hefur verið mjög ósýnilegur í kjördæminu en verið virkur í nefndastarfi þingsins og fyrirsjáanlegt að hann myndi falla við samkeppni að austan um sætið, en þetta er meira fall en mörgum óraði fyrir. Augljóst var að Kristján Möller tók Einar Má með sér í lest í síðasta prófkjöri Samfylkingarinnar og unnu gegn Láru Stefánsdóttur sem þá sóttist eftir öðru sætinu en tapaði þeim slag.

Miklar kjaftasögur voru um að Kristján hafi tekið Sigmund Erni með sér í lest að þessu sinni og valdi systurdóttur sína, Helenu Þuríði Karlsdóttur, bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar hér á Akureyri, í það þriðja. Logi Már Einarsson, arkitekt, var með metnaðarfullt framboð og ætlaði sér stóra hluti - fór gegn þessari lest og náði í þriðja sætið en fellur í það fjórða vegna kynjakvóta.

Jónína Rós Guðmundsdóttir, framhaldsskólakennari og bæjarfulltrúi á Egilsstöðum, sigraði Helenu í baráttunni um hvor þeirra yrði efsta konan á listanum en Helena náði bara í fimmta sætið og verður því ekki einu sinni varaþingmaður miðað við óbreytta stöðu. Jónína Rós fór í forystuframboð og gerði þar með væntanlega út af við Einar Má, sem var veikur í sessi.

Ég sé að mikið var talað um það í netmiðlum virkra Samfylkingarmanna að jafnvel myndi kona komast upp í annað forystusætanna, þingsæti miðað við óbreytta stöðu. Slíkt hafðist ekki frekar en 2003 og 2007. Fróðlegt verður að sjá hvernig Sigmundi Erni gangi í nýju hlutverki, en hann er auðvitað óskrifað blað í pólitískri baráttu.

mbl.is Kristján Möller efstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitísk áhætta Sigmundar - sterk staða Alfreðs

Mér finnst það bera merki um djörfung hjá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, að taka slaginn í Reykjavík heldur en sækjast eftir öruggu þingsæti í landsbyggðarkjördæmi í kosningunum í næsta mánuði. Framsókn missti þrjú þingsæti í Reykjavík í kosningunum fyrir tveimur árum og hefur ekkert öruggt haldreipi í sjálfu sér. Þeir ætla sér þó greinilega stóra hluti framsóknarmenn í Reykjavík miðað við að sjálfur formaðurinn leiðir þar lista, rétt eins og Ólafur Jóhannesson og Halldór Ásgrímsson áður.

Merkilegast við valið á listunum í Reykjavík er þó hversu sterkur Alfreð Þorsteinsson, fyrrum borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og R-listans, er enn. Hann lagðist gegn valinu á Magnúsi Árna Skúlasyni í annað sætið á eftir Sigmundi í Reykjavík norður. Alfreð fór í ræðustól og talaði eindregið gegn þeim valkosti og náði að snúa það niður með þeim orðum að "ekki þyrfti að sækja spillingu í aðra flokka". Alfreð er greinilega enn sterki maðurinn í Reykjavík þó þrjú ár séu liðin frá því hann vék af leiðtogastóli í borgarmálunum.

Auk þess vekur athygli að Vigdís Hauksdóttir, mágkona Guðna Ágústssonar, fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins, hafi unnið slaginn um fyrsta sætið í Reykjavík suður við Einar Skúlason, skrifstofustjóra þingflokksins, og Hall Magnússon, moggabloggara. Báðir eru mjög traustir og voru sigurstranglegir valkostir. Einar tekur annað sætið á eftir Vigdísi. Hann var eitt sinn kosningastjóri R-listans (í síðustu borgarstjórnarkosningum ISG 2002) og augljóst að Samfylkingin vildi fá hann í sínar raðir.

En Sigmundur Davíð tekur pólitíska áhættu með því að fara fram í Reykjavík. Ekkert er tryggt þar og því verður þetta mikil pólitísk áskorun fyrir hinn unga formann. Nái hann kjöri og að endurreisa Framsókn á mölinni á hann sér góða pólitíska framtíð. Nái hann hinsvegar ekki kjöri verður staða hans mjög erfið og veik í kjölfarið.

mbl.is Sigmundur í Reykjavík norður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helmingur kjósenda hafnar formennsefnum SF

Ég er ekki undrandi á því að helmingur landsmanna vilji hvorki Jón Baldvin Hannibalsson eða Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í forystusæti í íslenskum stjórnmálum. Tel að tími þeirra beggja sé liðinn, reyndar sést það best með Ingibjörgu Sólrúnu sem ætlar að fara í gegnum næstu kosningar í pilsfaldi annarrar konu, reyna að komast inn á þing aftur á vinsældum hennar þrátt fyrir eigin óvinsældir.

Kjósendur vilja nýtt fólk í forystu stjórnmálananna, helst nýja kynslóð með nýjar hugmyndir og nýja sýn á málefnin. Ingibjörg Sólrún hefur enn enga ábyrgð axlað á því að hafa brugðist á vaktinni, í aðdraganda bankahrunsins og er stórlega sködduð pólitískt á eftir.

Mér finnst það merkilegt að grasrótin í flokknum ætli að sætta sig við fyrirskipanir hennar á blaðamannafundi og það að tekin séu frá þrjú efstu sætin í prófkjöri flokksins. Foringjaræðið virðist þar vera algjört.

Svo er sérstaklega athyglisvert að unga fólkið í Samfylkingunni tekur ekki fram fyrir hendurnar á eldra liðinu og kemur með eigin kandidat til forystu, þegar kallað er eftir nýju fólki og alvöru breytingum.

mbl.is Tæp 46% vilja hvorugan frambjóðandann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun Kaupþing verða hið íslenska Enron?

Bókhaldsbrellurnar í Kaupþingi, sem eru nú að verða opinberar, eru skelfilegar. Manni finnst hið íslenska Enron-mál vera hreinlega í uppsiglingu. Þetta er helsjúkur veruleiki sem afhjúpast með skrifum Morgunblaðsins í dag um Kaupþing. Við erum að sjá inn í innstu kviku geðveikislegrar hringekju spillingar og fjármálalegs sukks. Manni blöskrar vinnubrögðin og er hreinlega flökurt. Veruleikinn er dekkri og tragískari en manni óraði fyrir.

Lánabókin hjá Kaupþingi sýnir okkur vinnubrögðin í hnotskurn. 170 milljarða lán fór til Lýðs og Ágústs Guðmundssona, eigenda Exista, stærsta hluthafans í Kaupþingi. Ólafur Ólafsson í Samskipum og bissnessfélagar hans fengu 79 milljarða lánaða. Róbert Tschenguiz fékk svo fyrirgreiðslu til lánveitinga upp á rúmlega 200 milljarða. Hvernig veruleiki er það sem gúdderar svona sukk og svínarí?

Þetta er með mestu svikamyllum Íslandssögunnar. Manni dettur já Enron í hug. Ætlar RÚV ekki að endursýna þá frábæru mynd? Hana ætti reyndar að sýna reglulega til að við getum meðtekið allt sukkið sem var leyft að gerast hér á Íslandi!


mbl.is 500 milljarðar til eigenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

The best way to rob a bank is to own one!

Æ betur hefur komið í ljós á síðustu mánuðum hversu botnlaust siðleysi hefur verið í íslenska bankakerfinu. Hámark siðleysisins er nú að koma í ljós í Kaupþingi. Lánveitingar eigenda bankans fyrir þá sjálfa til að halda hringekju græðginnar áfram með því að dæla peningum til Hollands og Tortola er skelfilegur verknaður. Þetta mál verður að klára með sóma og fara yfir allar hliðar þess. Ég átti svosem ekki von á góðu þegar farið var að kafa í fen þessara manna en ósóminn er meiri en manni óraði fyrir.

En við hverju mátti svosem búast. Íslenska hrunið og eftirmáli þess hefur opnað fyrir okkur sorglegustu hliðarnar í íslensku þjóðarsálinni, hliðar siðleysis og græðgi sem loksins varð okkur öllum að falli. Verst af öllu er að við hlustuðum ekki nógu vel á þá sem voru að vara við og þjóðin svaf að mestu á verðinum. Jónína Benediktsdóttir hafði t.d. varað við þessu í Kaupþingi og Baugi árum saman.

Til að lýsa þessum ósóma í Kaupþingi er best að líta til William Kurt Black. Árið 2005 ritaði hann bókina The best way to rob a bank is to own one. Þetta spakmæli virðist vera yfirskrift þess sem gekk á í Kaupþingi og væntanlega öllum bönkunum hérlendis.

mbl.is Lánuðu sjálfum sér milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólga hjá VG í NA - frambjóðendum mismunað?

Greinilegt er að mikil ólga er innan VG með úrslit forvalsins hér í Norðausturkjördæmi, þar sem engin endurnýjun varð og ungu fólki var sérstaklega hafnað og þeim sem þorðu að fara fram gegn Steingrími J. Sú kjaftasaga hefur verið mjög hávær í umræðunni hér á Akureyri að frambjóðendum hafi verið mismunað í forvalinu hjá VG í kjördæminu. Þeim hafi ekki verið heimilaður aðgangur að kjörskrá, félagatali flokksins, og helstu gögnum sem teljast sjálfsögð frá flokksskrifstofu til frambjóðenda, og bannað að auglýsa.

Augljóst er að Steingrímur J. Sigfússon var mjög ósáttur við að Hlynur Hallsson skyldi nefna framboð í fyrsta sætið, gegn sér, og nefndi þrjú fyrstu sætin, enda augljóst samkvæmt flokksreglum að yrði Steingrímur efstur yrði kona í öðru sætinu óháð atkvæðafjölda. Mikið hefur verið talað um að Steingrímur J. hafi myndað blokk, valið fólk í lest og látið kjósa hann inn og ekki viljað neina nýliðun í efstu sætin.

Sú niðurstaða er augljós þegar litið er á úrslitin og hversu neðarlega Hlynur varð. Þessi niðurstaða vekur athygli hér á Akureyri, enda hefur Hlynur verið mjög áberandi við að tala máli VG en ekki gengið alltaf í takt með formanninum og lagði sérstaklega í metnaðarfullt framboð, ekkert síður gegn Steingrími en Þuríði Backman og Birni Val Gíslasyni. Þessi niðurstaða hefur líka vakið mikla athygli.

Ég heyri þær kjaftasögur, og þær eru staðfestar á netmiðlum í dag, að sama hafi gerst í Norðvesturkjördæmi þar sem Grímur Atlason skoraði Jón Bjarnason á hólm. Bannað að auglýsa og ekki aðgangur að flokksskrá. Varla er við því að búast að hægt sé að vinna prófkjör þegar svo ójafn aðgangur er að lykilgögnum. Myndaður er varnarveggur um Steingrím og Jón.

Þetta er lýðræðið í sinni merkilegustu mynd hjá vinstrimönnum, sem svo hátt tala um að lýðræðið eigi að vera virkt hjá öllum nema þeim sjálfum.


Grátlegt að tapa á lokamínútunum

Alveg er það nú grátlegt fyrir stelpurnar okkar að tapa leiknum við þær bandarísku á lokamínútunum. En hvað með það, við getum verið stolt af þeim. Þær hafa verið að standa sig frábærlega og stimplað sig heldur betur inn - loksins hefur kvennaboltinn hér á Íslandi öðlast verðskuldaðan sess.

Ekki fer á milli mála að þetta landslið hefur verið að blómstra - þjálfari og leikmenn samstíga í góðum verkum. Þarna er gott starf til fjölda ára að skila sér svo sannarlega. Nýjir tímar þar.

Tapið er ömurlegt en það gengur betur næst!

mbl.is Bandarískt mark í blálokin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband