18.5.2007 | 00:34
Pólitísk þáttaskil á uppstigningardegi
Ég fór yfir tólf ára samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í ítarlegum pistli hér á vefnum þann 23. apríl sl. en þann dag voru tólf ár liðin frá því að ríkisstjórn flokkanna tók fyrst við völdum undir forsæti Davíðs Oddssonar. Svo virðist vera sem að sagan frá vorinu 1995 er þetta samstarf kom til sögunnar hafi endurtekið sig með kaldhæðnislega líkum hætti í dag. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ákveðið að segja skilið við þetta samstarf og horfir til nýs samstarfsflokks. Hann horfðist í augu við sama veikburða þingmeirihlutann þá og nú blasir við, í meira að segja sömu hlutföllum samstarfsflokka og vorið 1995, og allar aðstæður eru vissulega ótrúlega líkar.
Samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lýkur með brigslyrðum Guðna Ágústssonar, varaformanns Framsóknarflokksins, í garð Sjálfstæðisflokksins, en hann talaði mjög hvasst í kvöldfréttum sjónvarpsstöðvanna og sérstaklega í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í kvöld. Það var merkilegt að heyra þau orð. Þetta er auðvitað hans stíll, en ég skil vel að hann sé ósáttur við að missa væntanlega ráðherrastól eftir átta ára setu. Það hefur blasað við alla vikuna að hraðinn var rólegur í viðræðum flokkanna og öllum ljóst að meirihlutinn var orðinn mjög tæpur og varla starfhæfur.
Það var sjálfsagt að láta reyna á þetta samstarf en ég tel að það sé heilt yfir mat flestra sjálfstæðismanna að þessu samstarfi væri lokið og ekki neinn sá grunnur eftir í því sem treystandi væri á í raun. Ég var kominn á þá skoðun í gær að þessu samstarfi væri lokið og grunnurinn brostinn. Það er samt ekki þannig að þetta samstarf hafi verið afleitur valkostur en meirihlutinn var ekki starfhæfur. Það verður allt að vera í lagi til að halda upp í vegferð til fjögurra ára og sá grunnur var brostinn. Það er vissulega erfið ákvörðun að segja skilið við þetta samstarf en þetta var rétt ákvörðun.
Það er greinilegt að VG og Framsóknarflokkur eru verulega ósátt við stöðu mála. Það kom vel fram í kuldalegum viðbrögðum Guðna Ágústssonar og Steingríms J. Sigfússonar í Kastljósi í kvöld. Ég er ekki hissa á því. Þetta verður veik stjórnarandstaða sem þeir munu fara fyrir, aðeins 20 manna hópur. Það tekur reyndar við að Steingrímur J. Sigfússon muni nú leiða stjórnarandstöðu og þar með verða Framsóknarflokkur og Frjálslyndi flokkurinn. Staða Framsóknarflokksins í yfirvofandi stjórnarandstöðuvist er óviss, enda er formaður flokksins utan þings og því mikil óvissa yfir forystu hópsins þar.
Það eru spennandi tímar framundan. Helgin mun fara í að byggja nýtt stjórnarsamstarf. Ég vona að það muni ganga fljótt og vel saman með flokkunum og stjórnarskipti geti gengið tiltölulega hratt fyrir sig. Það er mikilvægt. En það er auðvitað eftirsjá eftir löngu og farsælu samstarfi. Í heild sinni er staða mála of veik til að þar verði haldið áfram og það verður að horfa fram á veginn í slíkri stöðu en ekki í baksýnisspegilinn. Það verður að láta reyna á nýja kosti þegar að við blasir að þetta samstarf er ekki lengur starfhæft og í raun orðið lamað, sem við blasir með stöðu mála í þessu ljósi með eins sætis meirihluta.
Í heildina tel ég farsæla tíma framundan með nýrri ríkisstjórn. Ég vona að ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar vinni farsælt og gott verk og þar náist fyrst og fremst góður málefnagrunnur. Það er lykilverkefni núna og það verður áhugavert að sjá hversu hratt það verk gengur. Ég tel að það sé mikilvægt að árangur náist í þeim efnum helst vel innan næstu fimm til sjö daga. Nú ganga Geir og Ingibjörg Sólrún til þessa verks og ég tel að heilt yfir sé sátt innan beggja flokka um framtíð mála.
En þetta er dagur sviptinga og atburðirnir hafa gerst mjög hratt á síðustu tólf klukkustundum. En í þessum sviptingum felast tækifæri sem báðir flokkar munu vonandi nýta vel til nýrrar forystu í landsmálum.
![]() |
Ingibjörg Sólrún: VG vildi ekki mynda stjórn með Framsóknarflokki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.5.2007 | 17:51
Geir og Ingibjörg Sólrún hefja viðræður á morgun

Það verður fróðlegt að fylgjast með stjórnarmyndunarviðræðum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Þar verður farið yfir öll helstu mál og kannað hversu vel flokkarnir nái saman. Eflaust munu forystumenn flokkanna helst vilja að þetta gangi frekar hratt fyrir sig svo að ný og öflug ríkisstjórn geti sem fyrst tekið við völdum af fráfarandi starfsstjórn. Þau mál sem helst verða í deiglunni verða utanríkismál, sérstaklega Evrópumál, stóriðjumálin, skattamál og velferðarmálin. Þetta verður allt í kastljósi umræðunnar næstu dagana þegar að Geir og Ingibjörg Sólrún setjast yfir málefnin.
Það er greinilegt að grunnur hefur verið lagður um nokkra stund að þessum stjórnarmyndunarviðræðum áður en Geir H. Haarde og Jón Sigurðsson tilkynntu síðdegis um endalok stjórnarsamstarfsins. Það var vel ljóst fyrir hádegið hvert stefndi og tíðindin um að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking ætluðu að láta reyna á samstarf kemur engum stjórnmálaáhugamanni að óvörum, ætti altént ekki að gera það. En nú reynir á þennan stærsta stjórnarkost. Það hefur lengi verið talað um þetta samstarf víða í hyllingum og talað um hann með rómanseruðum brag í takt við gömlu viðreisn eða Viðeyjarstjórnina 1991-1995, sem mörgum var eftirsjá að.
Fyrst og fremst reynir á hvernig þau passi saman sem forystuteymi á næstu fjórum árum; þau Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Þau brostu fallega til hvors annars og fjölmiðlanna fyrir stundu og halda glöð til viðræðnanna eftir að Geir hefur fengið formlegt umboð til stjórnarmyndunar úr hendi forsetans á morgun. Það eru spennandi tímar framundan í íslenskum stjórnmálum, á því leikur giska lítill vafi.
![]() |
Formlegar stjórnarmyndunarviðræður hefjast væntanlega á morgun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.5.2007 | 16:25
Rétt ákvörðun - Geir og Ingibjörg Sólrún funda í dag

Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir munu hefja stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar strax í dag og mun fyrsti fundur þeirra verða nú á fimmta tímanum. Eins og fyrr segir mun Geir H. Haarde biðjast lausnar á Bessastöðum í fyrramálið og helgin fer í að mynda nýja ríkisstjórn. Það er ekki mikill vafi í huga mér yfir því að þessir flokkar muni mynda stjórn og verður fróðlegt að sjá hversu hratt þessum flokkum gangi að ná saman.
Það mun eflaust taka samt sem áður einhvern tíma að mynda grunn undir nýja ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Það þarf að byggja upp nýjan stjórnarsáttmála og byggja undirstöður nýs samstarfs. Það er auðvitað mjög gagnlegt hversu stórir þingflokkar tilheyra Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu. Ekki verður deilt um styrkleika aflanna, en það verða eflaust einhver málefni sem þarf að útkljá vel til að byrja með. En heilt yfir sjást fáir farartálmar á leiðinni. Ég tel að báðum flokkum sé það mjög í mun að tryggja að þeir nái saman.
Það er gömul þjóðsaga að okkur sjálfstæðismönnum sé illa við Ingibjörg Sólrúnu Gísladóttur. Hún hefur aldrei unnið með Sjálfstæðisflokknum og verið andstæðingur okkar. Sú tíð virðist á enda runnin. Ég held að heilt yfir geti Geir og Ingibjörg Sólrún unnið vel saman og tryggt traustan grunn undir málin sem framundan eru. En á það verður að reyna og eðlilegast að þessi valkostur sé fyrstur á borðið nú við lok stjórnarsamstarfsins.
17.5.2007 | 15:11
Sögulegu samstarfi lokið - rætt við Samfylkinguna

Geir H. Haarde mun segja af sér fyrir hönd fráfarandi ríkisstjórnar í fyrramálið á fundi með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, að Bessastöðum og væntanlega munu Geir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, nota helgina til að leggja grunn að nýrri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar. Þetta ætti að vera mjög farsæll stjórnarkostur fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þetta yrði mjög voldug ríkisstjórn, sem hefði 43 þingsæti á Alþingi, og hefði sterkt umboð til uppstokkunar á mörgum sviðum.
Það voru mjög merkilegir tímar vorið 1995 þegar að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur bundust saman um að mynda ríkisstjórn. Það er merkileg saga að baki og það væri þarfaverk fyrir einhvern sérfræðinginn að setjast niður og fara yfir þessi tólf ár, sem hafa verið merkilegur og heilsteyptur tími fyrir íslenska þjóð. En það kemur ævinlega að leiðarlokum og svo er nú um þetta farsæla samstarf. Það hefur blasað við stóran hluta vikunnar að eitthvað væri ekki eins og það ætti að sér að vera og grunnur samstarfsins væri orðinn mjög veikburða. Það var erfitt að halda til verkanna á akrinum með svo veikan grunn.
Það eru spennandi tímar framundan. Ég lít svo á að þessir tveir flokkar sem nú taka upp viðræður um myndun stjórnar geti náð góðum grunni. Það er mjög góður mannskapur á bakvið slíkt samstarf og ég held að það gæti orðið farsælt. Það hefur blasað við eins og ég hef sagt hér að byrjað hefur verið að mynda grunninn undir viðræður. Það er mikilvægt. Ég tel að það muni ganga vel og hratt saman með þessum flokkum og þeir ættu að hafa sterkt umboð til verka. Það verður ekki efast um sterka stöðu flokkanna, enda fara þarna tveir stærstu flokkar landsins.
Það verður fróðlegt að fylgjast með þessum formlegu stjórnarmyndarviðræðum. Viðræðurnar fram til þessa hafa auðvitað ekki verið formlegar stjórnarmyndunarviðræður, enda héldu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur þingmeirihluta sínum. En nú er þessu tólf ára skeiði lokið og nýtt tekur við. Ég ætla að vona að það verði ekki síður farsælt fyrir íslensku þjóðina.
![]() |
Ekki grundvöllur fyrir áframhaldandi samstarfi stjórnarflokkanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.5.2007 | 14:40
Samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknar lokið

Það kemur ekki að óvörum að svona hafi farið. Það hefur blasað við í dag að þessu samstarfi væri í raun lokið. Ég skrifaði hér nokkuð ítarlega færslu um málið eftir fréttaskrif Morgunblaðsins og skrifaði áðan færslu um væntanlegar viðræður við Samfylkinguna.
Nú tekur við að mynda nýja ríkisstjórn í landinu. Nú mun Geir H. Haarde, forsætisráðherra, ganga á fund Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, og segja af sér formlega. Viðræður við Samfylkinguna eru þegar hafnar og halda nú áfram.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.5.2007 | 14:26
Viðræður Sjálfstæðisflokks við Samfylkingu hafnar?

Enn hefur ekkert verið ákveðið sem túlkast gæti sem endapunktur stjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Það er þó ljóst að óvissa er yfir stöðunni, enn meiri en áður hefur talist. Ljóst er af fundi þingflokks Framsóknarflokksins að þar er andi óvissu yfir hópnum og erfitt að lesa í stöðuna. Guðni Ágústsson, varaformaður Framsóknarflokksins, sagði fyrir þann fund að loft væri lævi blandið en hefur ekki viljað útskýra það neitt frekar.
Það er ljóst að mjög líður að örlagastund í ákvarðanatöku um það hvort meiri alvara komist á viðræður stjórnarflokkanna um áframhaldandi samstarf eða hvort haldið verði í aðrar áttir umræðna um stjórnarmyndun. Það hefur ekki farið framhjá neinum kjaftasögur um að þreifingar séu uppi um myndun stjórnar og greinilegt að allir angar eru úti sérstaklega innan Sjálfstæðisflokksins þar sem menn kanna hug manna og ræða saman, svo sem eðlilegt hlýtur að teljast.
Greinilegar efasemdir hafa komið fram innan Sjálfstæðisflokksins og koma vel fram í fréttaskrifum í dag. Það má ljóst vera að brátt verður staða mála vissari og meira hægt að fullyrða í þessum efnum. Það er ljóst að spenna er í lofti og flestum stjórnmálaáhugamönnum langar til að vita meira en hálfkveðnar vísur. Eflaust er stutt í að staða mála skýrist meira en það sem kjaftasögur mögulega segja.
![]() |
Framsóknarmenn vilja ekki ræða um fundinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.5.2007 | 11:03
Er stjórnarsamstarfið að líða undir lok?
Það er mjög greinilegt að efasemdir hafa aukist verulega innan Sjálfstæðisflokksins síðustu daga um það hvort að halda eigi áfram stjórnarsamstarfi við Framsóknarflokkinn. Frétt Morgunblaðsins í dag um þessar efasemdir koma mér ekki að óvörum. Ég persónulega er að komast á þá skoðun að samstarfinu sé lokið vegna óvissunnar innan Framsóknarflokksins og ég tel það eiginlega einsýnt að Framsókn verði að byggja sig upp utan ríkisstjórnar.
Það er ljóst að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er eins tæpur og hann getur orðið. Það er ekki beinlínis hægt að gera nein kraftaverk í stjórnarsamstarfi með 32 þingmenn, í samstarfi þar sem engin umdeild kraftmikil mál geta í raun komið til sögunnar og þar sem stóla verður á það að hver einn og einasti þingmaður megi ekki bregða sér af bæ nema að til staðar sé varamaður við minnstu breytingar. Það er ljóst að þetta er tæpt. Það hafa margir sjálfstæðismenn talað fyrir því að reyna þann valkost þrátt fyrir það. En ef svo á að vera þarf allt að vera í lagi.
Eins og fram kom hjá mér hér í morgun er athyglisvert að sjá forna höfðingja innan Framsóknarflokks skrifa í blöðin með þann áberandi boðskap sinn að flokkurinn sé umboðslaus og eigi að sleikja sárin í stjórnarandstöðu á næstu misserum. Mér fannst grein Ingvars Gíslasonar, fyrrum menntamálaráðherra, mjög hnitmiðuð og afgerandi í senn. Þar er ekki töluð nein tæpitunga. Það virðist ekki vera neinn einhugur innan Framsóknarflokksins með framhald mála. Ef að staða mála á þeim bænum er orðin svo tæp að kanna verður hvern einasta miðstjórnarmann til að athuga hvort að stjórnarsamstarfið verði mögulega samþykkt á slíkum fundi þar er öllum ljóst að tæpt stendur.
Mér finnst þessi ríkisstjórn hafa gert marga góða hluti og samstarf flokkanna sem hana mynda hefur verið mjög heilsteypt og vandað í þau tólf ár sem hún hefur starfað. Staða mála nú er með þeim hætti að velta verður fyrir sér framhaldinu. Þetta stendur mjög tæpt og það er ljóst að stjórn verður ekki mynduð með neinni alvöru ef ekki helst heilsteypt samvinna um að halda áfram af krafti. Mér finnst þessar viðræður sem staðið hafa síðustu daga verið óvenju litlausar og hægar. Það virðist lítið sem ekkert hafa gerst. Tvísýnan innan Framsóknarflokksins er orðin æpandi áberandi og ekki minnkar óvissan á þeim bænum.
Það er ljóst að gangi þetta ekki verður að horfa í aðrar áttir. Þar er ekkert annað sem kemur til greina nema tveggja flokka stjórn með annað hvort Samfylkingunni eða VG. Það er ljóst skv. skoðanakönnunum að landsmenn vilja frekar samstarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Mér finnst það nú líklegra að sá kostur verði kannaður á undan VG. Það árar með þeim hætti finnst mér að menn vilji frekar viðreisn falli stjórnin uppfyrir, eins og við segjum. Það fer ekki á milli mála að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, virðist tala fyrir þeim kosti en hann gæti orðið umdeildur innan Sjálfstæðisflokksins.
Mér finnst komið að örlagastund í stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þar verða viðræður að fara að komast á meiri spöl en þann sem við blasir. Að mínu mati finnst mér líkur á þessu samstarfi minnka og mér persónulega er farið að finnast minna til um þann kost koma en jafnan áður. Það valda margir hlutir, sérstaklega þeir sem fyrr eru nefndir. Það er þó ljóst að þetta veltur fyrst og fremst á afstöðu Geirs H. Haarde, forsætisráðherra. Ég treysti dómgreind hans í þessu máli, að velja rétt með heill og hag Sjálfstæðisflokksins í ljósi.
En það er ljóst að það verða pólitísk þáttaskil ljúki samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks nú á næstu dögum. En það verður að segjast alveg eins og er að líkur á að haldið verði áfram eru að minnka stórlega. Það er þó löngu sannreynt að það opnast alltaf ný og spennandi tækifæri við þáttaskil.
![]() |
Vaxandi vantrú á framhald stjórnarsamstarfs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.5.2007 | 08:14
Að vita hvorki hvaðan er komið né hvert skal halda
Jón er vissulega í mjög erfiðri pólitískri stöðu, sem hlýtur að teljast um leið pínleg fyrir Framsóknarflokkinn. Það er mjög sárt fyrir flokksformann að ná ekki kjöri sem alþingismaður og eiga ekki heldur neina möguleika á aðkomu að þinginu sem varaþingmaður mögulega í öðru ljósi. Þegar að Geir Hallgrímsson féll af þingi vorið 1983 sem formaður Sjálfstæðisflokksins og Ólafur Ragnar Grímsson varð formaður Alþýðubandalagins utan þings árið 1987 áttu þeir möguleika á aðkomu að þinginu sem varaþingmenn. Báðir urðu ráðherrar eftir að hafa ekki náð á þing.
Það blasir við að eini möguleiki Jóns Sigurðssonar á að koma nærri þingstörfum næstu fjögur árin, eða allavega fram að næsta flokksþingi Framsóknarflokksins, er með því að vera áfram ráðherra í ríkisstjórn. Ella situr hann mæddur til hliðar með annan fulltrúa flokksins sem talsmann hans inni í þingsölum og í forystu þingstarfanna almennt. Sá aðili væri án nokkurs vafa Guðni Ágústsson, varaformaður Framsóknarflokksins, sem Halldórsarmurinn gat ekki sætt sig við sem flokksformann eftir dramatíska afsögn Halldórs Ásgrímssonar á Þingvöllum fyrir tæpu ári og í öllum vandræðunum sem á eftir fylgdu og þar til að Jón Sigurðsson var sóttur til verka í Seðlabankann.
Það virðist blasa við að forysta Framsóknarflokksins vilji horfa til stjórnarsamstarfs áfram. Þar virðist fremst fara í flokki Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, en úr hennar kjördæmi koma þrír af sjö þingmönnum Framsóknarflokksins eftir þessar alþingiskosningar. Valgerði hugnast lítt að halda til vistar sem óbreyttur alþingismaður í stjórnarandstöðu hafandi náð varnarsigri í Norðausturkjördæmi við erfiðar aðstæður, tekist að slá niður Samfylkinguna og VG sem ógnuðu stöðu Framsóknarflokksins, og standa keik, og í raun vera með sterkustu stöðuna innan flokksins. Vandi málsins virðist vera ólga innan grasrótar flokksins með að sitja áfram í stjórn.
Það er auðvitað mikið veikleikamerki fyrir Jón Sigurðsson ef það þarf að double check-a hvern einn og einasta miðstjórnarmann í Framsóknarflokknum til að kanna hvort að stjórnarsamstarf njóti stuðnings. Alla jafna er þátttaka í ríkisstjórn undir valdi formanns flokksins og hann hefur traust og styrkleika til að vega og meta stöðu flokksins sem hann leiðir. Það virðist ekki vera raunin innan Framsóknarflokksins. Þar ræður óvissan ein og ólga virðist vera um kostina í stöðunni, hvort halda eigi áfram eður ei. Það virðist vera um framtíð flokksins að tefla að margra mati. Þetta er óvissa sem er mjög áberandi, einkum í augum trúnaðarmanna Sjálfstæðisflokksins.
Í dag ritar Ingvar Gíslason, fyrrum menntamálaráðherra og leiðtogi Framsóknarflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra hinu forna, athyglisverða og áberandi grein í Fréttablaðið. Þar tjáir hann andstöðu sína við áframhaldandi stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og gengur skrefinu lengra með því að tala hreint út um þá afstöðu að Framsóknarflokkurinn eigi að fara í stjórnarandstöðu og byggja sig upp - hann sé umboðslaus til áframhaldandi stjórnarsetu. Þessi skoðun Ingvars ómar áberandi tjáningu Steingríms Hermannssonar, fyrrum forsætisráðherra og flokksformanns.
Jón Sigurðsson stendur ekki vel á þessum örlagatímum á sínum stjórnmálaferli og fyrir flokkinn sem hann leiðir, sem varð fyrir sögulegu pólitísku áfalli um liðna helgi. Það er ekki óeðlilegt að hann sé hugsi yfir framtíðinni. Eftir því sem hikið verður þó meira og áberandi en það sem sást greinilega á tröppum Stjórnarráðsins í gær minnka líkurnar á stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Það hefur verið örlagaríkt og tryggt miklar framfarir.
En kannski er nú komið að leiðarlokum. Sjáum við endalok þessa samstarfs í dag eða á morgun? Það verður svo sannarlega fróðlegt að sjá.
16.5.2007 | 22:35
Einkaviðræður flokksleiðtoga - þreifingar í gangi
Greinilegt er að Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, kannar vel hug grasrótar flokksins og lykilforystumanna innan hans þessa dagana. Sérstaklega er þar sjónum beint að því hver afstaða miðstjórnarmanna er til þess valkosts að halda áfram samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Það er ljóst að miðstjórn Framsóknarflokksins verður að taka afstöðu til ríkisstjórnarþátttöku og þar verða spilin vel að vera ljós áður en einhver skref eru stigin. Það er greinilegt á bloggpælingum og blaðaskrifum að skoðanir eru skiptar innan Framsóknarflokksins um hvort halda eigi áfram.
Innan Sjálfstæðisflokksins eru ennfremur mjög skiptar skoðanir um það hvert skuli stefna. Þó er uppi á borðinu greinilega afgerandi afstaða þess efnis að látið verði reyna á þetta samstarf. Það situr þó í mörgum greinilega að þetta sé of tæpur þingmeirihluti til að láta á reyna, nema að afgerandi samstaða sé innan Framsóknarflokksins um að halda áfram, enda má þessi ríkisstjórn ekki við neinum skakkaföllum eigi hún að halda áfram eins og ekkert hafi í raun í skorist. Greinilegt er eins og flestir hafa bent á að landsbyggðarhópur Framsóknarflokksins, einkum í Norðausturkjördæmi þar sem varnarsigur vannst, vilji halda áfram.
Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist á næstu dögum. Á morgun er reyndar uppstigningardagur og frídagur þar með. Ólíklegt má teljast að hugleiðingar um myndun ríkisstjórnar fari í frí þar með, enda er ekkert mál rætt meir þar sem tveir stjórnmálaáhugamenn hittast yfir kaffibolla þessa dagana en það hvaða flokkar myndi ríkisstjórn eftir kosningarnar á laugardag. Það er enda svo að allir hafa skoðun á hvaða stjórn verði mynduð, hvort sem það eru fylgismenn stjórnarflokkanna eður ei.
Eins og fram kom í pistli mínum í gær horfist Geir H. Haarde í augu við sömu valkosti nú og Davíð Oddsson fyrir tólf árum; hvort mynda eigi ríkisstjórn með eins manns þingmeirihluta, 32 þingsætum. Það eru skiptar skoðanir um hvað muni gerast. Vel verður fylgst með hvort afstaða Geirs verði sú sama og Davíð tók eða hvort hann meti slíkt samstarf starfhæft.
![]() |
Viðræður stjórnarflokka enn í gangi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.5.2007 | 20:44
Gordon Brown krýndur sem forsætisráðherra

Gordon Brown er 56 ára að aldri og hefur verið lykilmaður innan breska Verkamannaflokksins í áraraðir og fjármálaráðherra Bretlands frá valdatöku flokksins, eftir átján ára napra stjórnarandstöðuvist, 2. maí 1997. Aðeins Nicholas Vansittart, sem var fjármálaráðherra 1812-1823, hefur gegnt embættinu lengur. Brown hefur verið arftaki valdanna innan Verkamannaflokksins árum saman. Frægar sögusagnir hafa verið um að Brown hafi stutt Tony Blair sem eftirmann John Smith í leiðtogaslag gegn því að fá að taka við af honum.
308 þingmenn Verkamannaflokksins hafa lýst yfir stuðningi við Gordon Brown sem forsætisráðherra Bretlands og leiðtoga Verkamannaflokksins. Tilnefningar hafa verið opnar í embætti flokksleiðtoga og varaleiðtoga, í stað John Prescott, síðan á mánudag og átti tímafrestur að renna út á hádegi á morgun að breskum tíma. Brown þurfti að tryggja sér 308 tilnefningar þingmanna flokksins til að koma í veg fyrir keppni um hnossið, en til að geta boðið sig fram þurfa að minnsta kosti 45 þingmenn að styðja framboð.
Það hefur legið fyrir árum saman að Gordon Brown yrði eftirmaður Tony Blair. Hinsvegar höfðu blikur á lofti aukist síðustu misserin um að Blair og lykilstuðningsmenn hans myndu tryggja Brown hnossið án keppni. Svo fór að lokum að ekkert varð úr framboði valdamikils ráðherra til leiðtogastöðunnar og meira að segja Tony Blair sjálfur tilnefndi Gordon Brown til leiðtogahlutverks nú um helgina, en hét honum fullum stuðningi í yfirlýsingu þann 11. maí sl. sólarhring eftir að hann tilkynnti um pólitísk endalok sín í Sedgefield.
Það eru enn nokkrar vikur þar til að Blair lætur af leiðtogahlutverkinu og Brown fær umboð til stjórnarmyndunar úr hendi Elísabetar II Englandsdrottningar. Fram að því mun hann eflaust fara um landið og halda þá kynningarfundi sem skipulagðir voru af yfirstjórn Verkamannaflokksins fyrir Brown og mögulega keppinauta hans. Engin verður keppnin um leiðtogahlutverkið og krýning er rétta orðið yfir leiðina framundan fyrir Gordon Brown að Downingstræti 10.
![]() |
Tryggt að Gordon Brown taki við af Tony Blair án leiðtogakjörs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.5.2007 | 19:15
Nicolas Sarkozy tekur við völdum í Frakklandi

Með embættistöku Nicolas Sarkozy lýkur hálfrar aldar litríkum stjórnmálaferli Jacques Chirac, sem gegnt hefur forsetaembætti í Frakklandi í tólf ár, frá árinu 1995, og verið ennfremur forsætisráðherra Frakklands tvívegis og borgarstjóri í París í tvo áratugi. Jacques Chirac var alinn upp pólitískt af forsetunum Charles De Gaulle og Georges Pompidou, mun frekar þeim síðarnefnda, sem var lærifaðir Chiracs allt til dauðadags á forsetastóli árið 1974.
Pompidou leit á Chirac sem lærling sinn í stjórnmálum og nefndi hann skriðdrekann sinn vegna hæfileika hans í pólitísku starfi, bæði við að koma hlutum í framkvæmd og vinna grunnvinnuna í kosningabaráttum, en Chirac hefur alla tíð verið rómaður fyrir að vera inspíreruð kosningamaskína og sannur leiðtogi sem kann að leiða baráttuna. Í bók um Chirac sem ég á er enda lýst hvernig hann vinnur undir álagi og í alvöru kosningaslag. Hann sé maður sem keyrir maskínu áfram vafningalaust og kemur beint að efninu. Það verða eflaust mikil viðbrigði fyrir hann að hverfa úr pólitísku sviðsljósi.
Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, er fyrsti franski þjóðhöfðinginn sem fæddur er eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Hann fæddist í París þann 28. janúar 1955. Nicolas Sarkozy hefur tekið þátt í stjórnmálum allt frá unglingsárum og unnið sig sig hægt og rólega upp til æðstu metorða á hægriarma franskra stjórnmála. Sarkozy var innanríkisráðherra Frakklands 2002-2004 og 2005-2007 og fjármálaráðherra Frakklands 2004-2005. Hann hefur leitt UMP-blokk hægrimanna frá árinu 2004 en lætur nú af leiðtogahlutverki þar.
Sarkozy forseti fékk sterkt umboð til valda, enda var kjörsókn í forsetakosningunum 6. maí hin mesta frá upphafi franska fimmta lýðveldisins árið 1965 er Charles De Gaulle var kjörinn í síðasta skiptið á litríkum stjórnmálaferli. Nicolas Sarkozy er vissulega mjög umdeildur stjórnmálamaður og hefur ekki hikað við að stuða á löngum ferli. Þingkosningarnar í Frakklandi eftir nokkrar vikur verða fyrsta prófraun Sarkozy á forsetastóli. Búist er við að Sarkozy tilnefni Francois Fillon sem forsætisráðherra á morgun.
Það var táknræn stund þegar að Sarkozy fylgdi Chirac að bifreið utan við Elysée-höll að lokinni embættistökunni. Chirac var að yfirgefa Elysée-höll og valdahlutverk í frönskum stjórnmálum eftir hálfa öld í forystu með einum hætti eða öðrum og Sarkozy var að taka við einu valdamesta pólitíska embætti heims.
Það má búast við að Sarkozy forseti verði mjög áberandi lykilspilari á alþjóðlegum vettvangi næstu fimm árin og muni hiklaust koma fram áberandi breytingum á næstu mánuðum. Eitt veigamesta kosningaloforð Sarkozy var að horfa fram á veginn og móta hlutina upp á nýtt. Það mun hann greinilega gera.
![]() |
Sarkozy hvetur til einingar og umburðarlyndis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.5.2007 | 16:35
Björn Bjarnason færist niður um sæti

Ljóst er nú að Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, mun færast niður um eitt sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík suður vegna útstrikana. Það er því ljóst að Illugi Gunnarsson, alþingismaður, færist upp í annað sætið á framboðslistanum, fram fyrir Björn Bjarnason.
Björn Bjarnason hefur nú sent frá sér yfirlýsingu og farið yfir skoðanir sínar á þessu máli. Þar lýsir hann áhyggjum sínum yfir þróun stjórnmálastarfs og ekki síður réttarríkisins sjálfs, sé talið sjálfsagt og eðlilegt að beita ofríki í krafti auðs í því skyni, að tryggja sér viðhlæjendur á þingi, í réttarsalnum og hjá ákæruvaldinu.
Ég hef áður farið yfir skoðanir mínar á þessu máli hér og ítreka þær í ljósi þessa. Ég hef fengið talsverð viðbrögð á þau skrif og þakka fyrir það sem þar kemur fram. Það eru ólíkar skoðanir. Eftir stendur afgerandi sú skoðun mín að Björn fái áfram virðingarembætti af hálfu Sjálfstæðisflokksins verði hann í stjórnarsamstarfi eins og allar líkur eru á.
![]() |
Björn lýsir áhyggjum af þróun stjórnmálastarfs og réttarríkisins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.5.2007 | 00:48
Björn Bjarnason verður að halda sinni stöðu
Síðustu daga hefur mikið verið rætt um stöðu Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, vegna útstrikana í Reykjavík suður. Enn er engin niðurstaða fengin í þau mál. Það er þó alveg ljóst í mínum huga að hafi Björn fallið niður um sæti í kjölfar auglýsingar Jóhannesar Jónssonar, auðmanns í Bónus, síðustu daga er mikilvægt að staðinn verði vörður um að Björn haldi stöðu sinni í því ljósi.
Mér fannst auglýsing Jóhannesar lágkúruleg og tók afstöðu gegn henni með sama hætti og níðauglýsingu í garð Ólafs Ragnars Grímssonar árið 1996, sem var jafnlágkúruleg og þessi. Ég lít svo á að þetta mál sé allt mjög sorglegt. Mér finnst það umfram allt sorglegt þegar að auðmenn þessa lands birta auglýsingu degi fyrir kjördag og beina því til almennings hvernig þeir eigi að greiða atkvæði sínu eða komi með tilskipanir um hvað skuli gera með einum hætti eða öðrum.
Persónulega hef ég alla tíð borið mikla virðingu fyrir Birni Bjarnasyni. Þar ræður mjög miklu eljusemi hans og kraftur í stjórnmálastarfi - ennfremur því að hann var fyrsti forystumaður Sjálfstæðisflokksins sem sýndi skrifum mínum og flokksstarfi einhvern áhuga og sýndi í verki að hann mæti það. Í því ljósi vil ég skrifa til stuðnings Birni og lýsa yfir þeirri skoðun minni að það væri Sjálfstæðisflokknum til vansa að útdeila embættum eða áhrifastöðum og horfa ekki til langra starfa Björns í stjórnmálum.
Eftir kosningar verður valið í verkefni sem skipta máli. Það eru allar líkur á því að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram í ríkisstjórn. Landsmenn hafa falið honum lykilhlutverk í þeim efnum. Það verður að koma fram með skýrum hætti að Björn njóti áralangra verka sinna og forystu á vegum flokksins. Hann hefur alla tíð lagt heill og hag Sjálfstæðisflokksins í fyrsta sæti og sinnt kjarna flokksins vel. Það skiptir að mínu mati miklu máli.
Það verður Sjálfstæðisflokknum mjög til vansa verði þetta mál og auglýsing auðmanns úti í bæ þess valdandi að Björn Bjarnason hafi ekki stuðning til að fá embætti af því kalíber sem hann hefur sinnt árum saman. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að hann eigi áfram að gegna embættum á vegum flokksins í því stjórnarsamstarfi sem Sjálfstæðisflokkurinn mun taka þátt í eftir þessar alþingiskosningar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
15.5.2007 | 22:30
Framsókn hikar - þreifingar hafnar um aðra stjórn?

Það er ljóst að greinilegt hik er innan Framsóknarflokksins yfir stöðu mála og engin ein afgerandi rödd sem heyrist um hvert flokkurinn skuli stefna eftir sögulegt afhroð í kosningunum á laugardag. Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, kannar hug grasrótarinnar í flokknum en þar heyrast mjög ólíkar raddir. Eins og vel hefur komið fram er greinilegt að höfuðborgarkjarni flokksins vilji láta gott heita og horfa til uppbyggingar í kyrrþey en á landsbyggðinni eru þær raddir mjög háværar að flokkurinn eigi að sækjast eftir áframhaldandi áhrifum.
Það er ekki undarlegt að orðrómur sé um að Sjálfstæðisflokkurinn horfi í aðrar áttir. Það er greinilegt að bæði Samfylkingin og VG hafa sýnt afgerandi áhuga á samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Árni Páll Árnason, alþingismaður, talaði mjög í þessa átt í Íslandi í dag í kvöld og Birgir Ármannsson, starfandi forseti Alþingis, útilokaði ekki að horft yrði til vinstri eftir samstarfsaðila í ríkisstjórn. Ennfremur hefur vel sést af tali Ögmundar Jónassonar og Steingríms J. Sigfússonar að á þeim bænum sé ekki fjarlægt að horfa til Sjálfstæðisflokksins.
Það er greinilegt á allri stöðu mála að vinstristjórn er úr sögunni. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, hefur öll tromp á hendi og getur í raun valið sér samstarfskost, enda líta Samfylkingin og VG til sterks tveggja flokka samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. Í raun eru aðeins þrír valkostir í stöðunni sýnist mér. Þar er Sjálfstæðisflokkurinn allsstaðar inni í myndinni í tveggja flokka stjórn við þessa þrjá flokka. Því er ekki að neita að sterkari möguleikar eru fyrir myndun nýrrar ríkisstjórnar og þá möguleika verður að skoða hrökkvi Framsókn af stampinum.
Ég spái því að staða mála varðandi stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ráðist að mestu á morgun. Það er mikilvægt að fram komi frá Framsóknarflokknum afgerandi ein skoðun um hvert þeir vilja stefna. Það virðist vera mikið rót á afstöðu manna og mikill munur á afstöðu trúnaðarmanna um næstu skref. Það gengur varla mikið lengur. Umboð Jóns Sigurðssonar, formanns Framsóknarflokksins, er mun veikara í ljósi þess að hann er ekki í þingflokki Framsóknarflokksins og hann er veikari leiðtogi en ella. Fari Framsóknarflokkurinn ekki í ríkisstjórn er hann utan alls þingstarfs í raun og verður ósýnilegri en ella.
Það virðast vera tvær fylkingar innan Framsóknarflokksins um hvert skuli stefna. Það hlýtur að veikja flokkinn verulega sem samstarfskost haldi staðan áfram með óbreyttum hætti. Kannski verður sú skoðun ofan á að hrun flokksins í Reykjavík sé slíkt áfall að hann muni velja að sitja hjá. Hinsvegar blasir við að Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, og þingmenn hennar skipa nærri helming þingflokks Framsóknarflokksins og þar virðist vera skýr vilji um að halda áfram og sækjast eftir áhrifum.
Kannski er þetta skýrt merki um viss átök innan Framsóknarflokksins. Það er greinilegt að fari Framsóknarflokkurinn í stjórnarandstöðu verði Guðni Ágústsson forystumaður flokksins á þingi, enda varaformaður hans og talsmaður í ljósi þess að formaðurinn er ekki alþingismaður. Það má ekki gleyma því að Halldórsarmurinn fór í nokkra hringi í fyrrasumar til að leita að formannsefni til að koma í veg fyrir að Guðni Ágústsson tæki flokkinn yfir. Þetta er kannski angi þess að tekist sé á um framtíðina.
Framsóknarflokkurinn þarf að hugsa sín mál vel. Það er erfitt að spá um næstu skref. Það er þó ljóst að aðrir stjórnarkostir eru komnir í umræðuna og ekki hægt að útiloka að þeir verði mun meira áberandi en ella komist ekki brátt skýrari línur um afstöðu mála.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.5.2007 | 21:29
Birgir Ármannsson sestur á forsetastól Alþingis

Mér telst til að af þeim sjö einstaklingum sem hafa gegnt forsetaembætti Alþingis og varaforsetastöðunum séu aðeins þrír þeirra enn á Alþingi. Það eru Birgir Ármannsson, Þuríður Backman og Jóhanna Sigurðardóttir. Auk fyrrnefndra er Sigríður Anna Þórðardóttir ekki lengur alþingismaður. Það hefur því svo sannarlega orðið mikil uppstokkun á Alþingi, reyndar sú mesta frá árinu 1934, og kristallast það vel af forsætisnefnd Alþingis skv. þessu.
Birgir hefur verið á þingi aðeins í fjögur ár og verður eflaust öflugur fulltrúi í þessu embætti. Ólíklegt verður að teljast að Birgir verði kjörinn forseti þingsins á þingsetningarfundi en embættið er í góðum höndum altént fram að því.
15.5.2007 | 20:22
Jacques Chirac kveður - Sarkozy tekur við á morgun

Hann hefur alla tíð verið umdeildur stjórnmálamaður og verið áberandi í sínum verkum og telst einn af lykilmönnum franskra stjórnmála alla tíð síðan á valdadögum Charles De Gaulle. Kynslóðaskipti verða í forystusveit með brotthvarfi hans af hinu pólitíska sviði. Eftirmaður hans, Nicolas Sarkozy, tekur við embættinu með sterku umboði eftir forsetakosningarnar 6. maí sl.
Ég fór yfir stjórnmálaferil Chiracs í ítarlegum pistli í mars, þegar að hann lýsti því yfir að hann gæfi ekki kost á sér að nýju. Bendi á þau skrif. Chirac hefur verið áhrifamaður áratugum saman. Hann varð tvívegis forsætisráðherra Frakklands, var borgarstjóri í París í tvo áratugi og tapaði tvennum forsetakosningum fyrir Francois Mitterrand, forvera sínum, áður en hann náði loks sigrinum mikla árið 1995 og hljóta lyklavöld að Elysée-höll.
Heilt yfir boða forsetaskiptin mikil þáttaskil fyrir Frakka. Chirac hefur verið lykilmaður í stjórnmálaflóru Frakka áratugum saman. Forsetakosningarnar fyrir nokkrum vikum voru umfram allt uppgjör við Chirac-tímann. Báðir frambjóðendur boðuðu nýja tíma og litu frá Chirac-tímanum með mjög áberandi hætti. Það verður nú verk Sarkozy að halda utan um franska hægriarminn og framundan eru brátt þingkosningar þar sem reynir á nýja forsetann.
Það verður fróðlegt að sjá hvaða hlutverk pólitíski klækjarefurinn frá Correze muni nú leika eftir lok valdaferilsins.
![]() |
Chirac hvetur Frakka til að standa saman í kveðjuávarpi sínu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.5.2007 | 14:59
Geir horfist í augu við sömu valkosti og Davíð

Staða mála er mjög óviss að þessu sinni. Það er þó eðlilegt að tekinn sé góður tími til að velta fyrir sér stöðunni. Að mínu mati er þessi samstarfskostur mun traustari en sá sem blasti við Davíð Oddssyni fyrir tólf árum. Eftir yfirlýsingar Jóns Baldvins Hannibalssonar í Evrópumálum í aðdraganda alþingiskosninganna 1995 og fjölda annarra mála sem höfðu komið sér illa var það samstarf í raun dauðadæmt. Það kom í sjálfu sér fáum að óvörum, nema kannski ráðherrum Alþýðuflokksins, þegar að Davíð ákvað að segja skilið við samstarfið.
Að þessu sinni er spurt um tvennt; geta flokkarnir unnið traustir saman og er grunnur enn til staðar fyrir því að halda áfram? Að mínu mati er þetta tvennt enn til staðar. Ég sé enga áberandi farartálma til staðar að þessu sinni. Þetta eru tveir mjög vel mannaðir þingflokkar og þar ætti að geta haldist samhent verklag í þeim málum sem mestu skipta. Sé viljinn fyrir hendi er allt hægt. Þetta var hægt á viðreisnartímanum og gæti vel gengið núna. En þá verður verklagið að vera í lagi. Það var helst að ég væri hugsi yfir Bjarna Harðarsyni, alþingismanni, í Silfri Egils en ég hef þó í sjálfu sér engar efasemdir með að Bjarni vilji vinna vel.
Helst blasir nú við greinileg ólga innan Framsóknarflokksins um valkostina í stöðunni. Það er skiljanlegt að þar á bæ séu menn hugsi yfir þessari stöðu sem þeir horfast í augu við eftir þeirra svartasta dag, laugardaginn 12. maí. Þessi kosningaúrslit eru sögulegt afhroð fyrir Framsóknarflokkinn. Hann horfist í augu við grasrótina og spyr ráða í stöðunni. Þar eru skiptar skoðanir og ekkert eitt svar sem berst. Á höfuðborgarsvæðinu virðist vera helst talað fyrir því að setja punkt aftan við afhroðið, halda í stjórnarandstöðu og safna kröftum og kjarki til að reyna aftur.
Það er ekki undarlegt að hér í Norðausturkjördæmi vilji menn halda áfram, reyndar á landsbyggðinni allri svosem ef út í það er farið. Hér vann flokkurinn sinn besta sigur á kosninganótt og héðan koma þrír af sjö þingmönnum Framsóknarflokksins á landsvísu. Það vakti athygli í gær að Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, hefur ekkert viljað segja og neitaði að kommenta á stöðuna eftir þingflokksfund í gær. Að mínu mati er enginn vafi á því að Valla er orðin lykilforystumaður innan flokksins, leiðandi kjördæmi sem mannar tæpan helming þingflokksins.
Þetta er í sjálfu sér frekar einföld staða. En Framsókn verður að fara á trúnaðarstigið innan sinna raða og gera upp úrslitin og gera það upp við sig hvort þar sé neisti til að halda áfram. Greinaskrif, bloggpælingar og talandi grasrótarinnar fá sjálfstæðismenn til að hugleiða stöðuna. Framsóknarmenn virðast ráðvilltir og ekki feta allir sama stíg til verkanna.
En er á hólminn kemur er það Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, sem hefur úrslitavaldið. Þó að hann hafi ekki náð kjöri á Alþingi er hann í lykilstöðu innan sinna raða, verandi með umboð flokksþings til að leiða starf flokksins á komandi árum. Það verður Jón sem að lokum verður að taka af skarið eftir að hafa litið yfir það sem eftir stendur.
Á meðan halda vangaveltur um stöðuna áfram og ljóst að fjarri því hafa aðrir valkostir verið teknir úr umræðunni. En það er heiðarlegt og sjálfsagt að reynt verði á það hvort að ríkisstjórn sem hlaut umboð til stjórnarsetu verði endurmynduð. Það er fyrsti kosturinn í stöðunni, enda engin stjórnarkreppa í stöðunni.
Kannski hringir Geir H. Haarde í Seðlabankann og spyr ráða. Þar er staðsettur maður sem þekkir vel valkostina í sömu stöðunni og blasir við stjórnmálamönnum - hann hefur líka tekið afdrifaríkar ákvarðanir í slíkri stöðu og verið maður áhrifa og valda. Hann hlýtur að hafa mörg ráð í stöðunni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.5.2007 | 12:54
Áfall Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi

Þess í stað tapaði flokkurinn fylgi og það merkilega gerðist að Framsóknarflokkurinn vann bæði VG og Samfylkinguna með mjög afgerandi hætti. Lengst af í kosningabaráttunni stefndi í að bæði Kristján L. Möller og Steingrímur J. Sigfússon myndu komast ofar í þingmannatölu Norðausturkjördæmis en Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, og skáka Framsókn verulega fylgislega séð. Þvert á allar skoðanakannanir lengst af kosningabaráttunnar náði Framsóknarflokkurinn yfir 24% fylgi og að verða næststærst en það blasti við nær alla baráttuna að Sjálfstæðisflokkurinn myndi sigra í kjördæminu.
Ég er ekki í vafa um það að það veikti stöðu Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi verulega að Lára Stefánsdóttir varð ekki í öðru sætinu á framboðslista flokksins í prófkjörinu á síðasta ári. Hún sóttist eftir öðru sætinu en varð þriðja. Einar Már Sigurðarson, alþingismaður, var mjög lítið áberandi í kosningabaráttunni hér og ég man hreinlega ekki eftir því að hafa séð hann í baráttunni nema í einhverjum málefnaþætti hjá Ríkissjónvarpinu fyrir nokkrum vikum og það á Ísafirði af öllum stöðum. Einar Már fer inn á þing en Lára situr eftir aðrar kosningarnar í röð með sárt ennið.
Það er kaldhæðnislegt að í bæði skiptin tapaði Lára þingsæti í baráttu við framsóknarmenn. Fyrst í baráttu við Birki Jón um kjördæmasæti vorið 2003 og svo jöfnunarsætinu í baráttu við Höskuld Þórhallsson. En svona er það bara. Þetta er auðvitað hringekja og þeir sem einu sinni komast inn í tæpustu sætin á kosninganótt eru aldrei öruggir fyrr en síðasta atkvæðið í síðasta kjördæminu hefur verið talið. Hringekjan var óvenju hraðskreið þetta árið og ekkert ljóst í neinu fyrr en Norðvestrið var búið.
Mér skilst á Láru að hún ætli nú að fara í skóla til að læra ljósmyndun. Ég vona að henni gangi vel í því og öðrum þeim verkefnum sem hún tekur sér á hendur eftir þessi úrslit. Hinsvegar er öllum ljóst að Samfylkingin fer frekar vængbrotin frá þessum kosningum hér. Væntingarnar voru miklar en vonbrigðin eru enn meiri við leiðarlokin.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.5.2007 | 12:24
Serbía sigrar í Eurovision - skrautleg keppni

Mér fannst serbneska lagið mjög fallegt og það verðskuldaði vissulega sigur. En mörg önnur lög verðskulduðu sigur. Vond útreið V-Evrópuþjóðanna í undanriðlinum var gríðarlega áberandi. Sérstaklega vakti vond staða Íslands mikla athygli. Hinsvegar var Eiríkur Hauksson sorglega nærri því að komast áfram. Honum vantaði svipað lítið upp á það og Silvíu Nótt fyrir ári þegar að hún datt út með Congratulations.
Enn er talað um hvað eigi að gera varðandi þessa keppni. Það er ljóst að eitthvað verður að stokka hana upp. Mér finnst ekki galin hugmynd að hafa einfaldlega tvær keppnir á svipuðum tíma, þar sem annarsvegar er fókuserað á vesturhluta Evrópu og hinsvegar austurhlutann. Þetta eru mjög ólíkar tónlistarstefnur og samræmast illa. Þetta eru tveir menningarheimar, enda mjög ólík svæði.
En það væri gott að heyra í þeim sem lesa um hvað hafi verið uppáhaldslagið þeirra og hvað þeim finnst að eigi að gera varðandi keppnina.
![]() |
Veðjaði aleigunni á sigur dóttur sinnar í Evróvisjón |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.5.2007 | 02:33
Eru vinstri grænir að biðla til Sjálfstæðisflokksins?
Annað hvort eru vinstri grænir aðeins að sparka í framsóknarmenn sér til skemmtunar eða gera það gagngert til að koma vinstristjórnarkosti út af borðinu. Það lítur út fyrir að VG sé farið að biðla til Sjálfstæðisflokks um vist í tveggja flokka stjórn. Þetta sást vel í Silfri Egils á sunnudaginn og í tali Steingríms J. Sigfússonar, formanns VG, í leiðtogaumræðum á sunnudagskvöldið í Ríkissjónvarpinu þar sem hann var að fárast yfir sjónvarpsauglýsingum ungra framsóknarmanna sem voru svar við Zero framsóknar-nælum ungra vinstri grænna.
Það er greinilegt að VG er komið á biðilsbuxurnar til hægri. Í kvöld tókust þeir á Guðni Ágústsson og Ögmundur Jónasson. Þar kom vel fram að einn stærsti möguleikinn um stjórnarmyndun sem Ögmundur nefndi er einmitt stjórnarkostur VG og Sjálfstæðisflokks. Það verður fróðlegt að sjá hvort að vinstri grænir fari að sýna meiri ástúð fyrir því að vinna með Sjálfstæðisflokknum.
![]() |
Steingrímur: Stjórnarmyndunarumboð liggur ekki á lausu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)