12.5.2007 | 22:59
Ríkisstjórnin fallin - mikil óvissa í stöðunni
Það blasir við að nú verður ný ríkisstjórn mynduð og óvissan yfir stöðunni er mikil. Það er mín skoðun miðað við stöðuna að þjóðin sé að kalla eftir stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og það er sú stjórn sem ég vil helst sjá við fall þessarar sögufrægu stjórnar, sem hefur setið lengst allra í lýðveldissögunni.
Ég er staddur á kosningavöku á Hótel KEA og hér er gleði. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sigrað kjördæmið og Kristján Þór Júlíusson verður fyrsti þingmaður kjördæmisins. Fyrir því skálum við öll sem eitt hér! Glæsilegur sigur það!!
![]() |
Geir: Allt mjög óljóst enn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.5.2007 | 19:03
Talning hafin - styttist í pólitíska örlagastund

Spurt er um stöðu flokka og frambjóðenda - óvissan er algjör. Það verður líka mjög athyglisvert að sjá hvort að Frjálslyndi flokkurinn nær að halda sér á þingi með sannfærandi hætti og hversu vel vinstriflokkarnir mælist. Síðan er stór spurning hversu mikið afhroð Framsóknarflokksins verði en það stefnir allt í að flokkurinn fái sögulega útreið í nótt. Staða Sjálfstæðisflokksins er ennfremur óljós þó flest bendir til að hann bæti við sig frá kosningunum 2003.
Svör við öllum stóru spurningunum eru framundan. Ef þið hafið spá endilega komið með hana. Ég er að fara á Hótel KEA, en þar ætlum við sjálfstæðismenn að horfa á Eurovision og kosningavökuna til morguns. Það má búast við líflegri kosningavöku og spennandi nótt svo sannarlega þar sem örlögin ráðast. Það verður því lítið uppfært en ég kannski kemst í tölvu þar og skrifa eftir því sem hægt er. Ég mun fjalla ítarlega um úrslitin allavega þegar að myndin er orðin ljós og skrifa vel um þetta með morgni.
Endilega komið með spá og pælingar hér - svona á meðan að örlögin eru ekki ráðin.
Góða skemmtun í nótt!
![]() |
Nærri helmingur búinn að kjósa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.5.2007 | 18:26
Kveðja til Halldórs
Stjórnmálaferli Halldórs Blöndals lýkur í dag. Umboð Halldórs sem kjördæmaleiðtoga Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og alþingismanns rennur út á miðnætti og brátt verður ljóst hversu marga alþingismenn Sjálfstæðisflokkurinn í kjördæminu hlýtur. Það eru auðvitað mikil þáttaskil fyrir okkur sjálfstæðismenn hér að Halldór hætti pólitískum störfum fyrir flokkinn á svæðinu, enda hefur hann verið þingmaður okkar í tæpa þrjá áratugi, eða allt frá desemberkosningunum 1979 og var varaþingmaður 1971-1979.
Hér á Akureyri hóf Halldór Blöndal þátttöku í stjórnmálum á námsárum sínum í MA og hann hefur allan sinn stjórnmálaferil unnið mikið og óeigingjarnt starf fyrir sjálfstæðismenn hér á svæðinu. Segja má að Halldór hafi í raun verið tengdur þingstörfunum með einum eða öðrum hætti allt frá árinu 1961 og setið þingflokksfundi meginhluta þess tíma, í formannstíð 7 af 8 formönnum flokksins. Halldór var lengi þingfréttamaður, svo starfsmaður þingflokksins og síðar kjörinn fulltrúi. Halldór var landbúnaðarráðherra 1991-1995, samgönguráðherra 1991-1999 og forseti Alþingis 1999-2005.
Halldór vann væntanlega sinn sætasta pólitíska sigur í alþingiskosningunum 1999. Þá tókst honum að leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs í NE Sjálfstæðisflokkurinn hlaut flest atkvæði í kjördæminu og varð Halldór fyrsti þingmaður þess, fyrstur sjálfstæðismanna. Fram að því höfðu framsóknarmenn ríkt sem ósigrandi risar yfir kjördæminu og verið alltaf langstærstir. Þetta var ógleymanlegur sigur fyrir okkur hér. Segja má reyndar að Halldór og Tómas Ingi Olrich hafi verið sterkt forystutvíeyki fyrir Sjálfstæðisflokkinn hér á þessu svæði um árabil. Þeir voru mjög ólíkir stjórnmálamenn en unnu saman vel fyrir flokkinn. Þeir unnu saman í landsmálunum í um tvo áratugi.
Í prófkjörinu í NE árið 1987 sigraði Halldór og Tómas Ingi varð þá í þriðja sæti. Árið 1991 voru þeir efstir á listanum. Sama var í kosningunum 1995 og 1999, í síðarnefndu kosningunum varð Tómas Ingi kjördæmakjörinn. Í kosningunum 2003 voru þeir saman í forystu flokksins í Norðaustrinu. Það voru þeirra síðustu kosningar í forystu hér. Hér blasa nú við mikil þáttaskil, enda báðir okkar efstu menn hættir í stjórnmálaforystu og það hefur orðið mikil uppstokkun innan Sjálfstæðisflokksins og nýjir tímar svo sannarlega framundan þar undir forystu nýs leiðtoga, Kristjáns Þórs Júlíussonar.
Það hefur allt frá fyrsta degi verið mér sannur lærdómur að vinna í flokksstarfinu hér undir forystu Halldórs. Hann er svo sannarlega mjög litríkur karakter og hefur leitt flokkinn hér af krafti í rúma tvo áratugi. Það hefur verið mikilvæg leiðsögn og farsæl sem hann hefur veitt okkur hér. Hann hefur unnið vel fyrir fólkið hér í kjördæminu. Hans framlag hér hefur skipt sköpum og við getum verið gríðarlega stolt af forystu hans í stjórnmálum. Ég hef alltaf dáðst mjög af þekkingu hans á öllum þáttum tengdum kjördæminu, en hann er alveg hafsjór af fróðleik.
Halldór er mikill öðlingur, með hjarta úr gulli sem fer þó sínar leiðir. En er á hólminn kemur er enginn traustari og öflugri en hann. Ég gæti eflaust skrifað mun lengri grein um Halldór og farið yfir allt sem ég tel merkilegt við þau þáttaskil að hann stígur af hinu pólitíska sviði. Ég tel hinsvegar að verk hans tali í raun sínu máli. Þeir sem eru í kjördæmi hans vita hversu vel hann hefur unnið fyrir umbjóðendur sína. Þar hefur verið lögð sál og hjarta í hvert verkefni.
Það hefur alltaf verið barist af krafti. Aldrei hefur hann gefist upp fyrr en tryggt sé að barist hafi verið til sigurs eða áherslurnar hafi allavega náð á leiðarenda. Það varð oft þung og erfið barátta, stundum frekar auðveld. Það er eins og gengur. Ég segi eins og forveri Halldórs á leiðtogastóli hér fyrir norðan, Lárus Jónsson, að stjórnmálin verða aldrei neinn hægindastóll. Þar eru alltaf verkefni til staðar.
Það hefur best sést á Halldóri sem hefur unnið sitt verk af dugnaði og alúð. Hvort sem við erum fyrir norðan eða austan getum við verið sátt við hans verk, enda hefur hann verið baráttumaður. Við minnumst hans þannig. Ég vil við pólitísk leiðarlok þakka Halldóri fyrir farsæla forystu og gott verk að kvöldi langs dags við verkin og færi honum og Rúnu bestu kveðjur um góða og farsæla framtíð.
12.5.2007 | 17:53
Góð kjörsókn í Norðausturkjördæmi
Það var gaman að halda til að kjósa. Það gekk mjög auðveldlega fyrir sig. Gaman að hitta fólk í kjördeildum og á kjörstað og ræða saman. Það er frekar svalt á Akureyri í dag, en þó ekki það leiðindaveður sem spáð var. Mér skilst þó að út með firði sé snjókoma og enn kaldara. Það er kuldagjóla allavega. Það hefur þó engin áhrif á kjördaginn og flutning kjörgagna en öll atkvæði í kosningunum í Norðausturkjördæmi verða talin í KA-heimilinu og hefst talning nú kl. 18:00.
Það verður fróðlegt að sjá fyrstu tölur eftir fjóra tíma. Það er mikil spenna í loftinu hér á Akureyri allavega og eflaust um allt land.
![]() |
Þokkaleg kjörsókn í Norðaustur-, Norðvestur- og Suðurkjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.5.2007 | 13:34
Jóhannes í Bónus styður Kristján Þór í dag
Þessi auglýsing verður enn undarlegri í ljósi þess að viðkomandi maður hefur ekki lögheimili í því kjördæmi sem um ræðir. Hinsvegar er þessi auglýsing ekki beint hatur á öllu sem tengist Sjálfstæðisflokknum. Það blasir enda við að Sjálfstæðisflokkurinn hér í kjördæminu fær atkvæði hans í dag. Það er spennandi umhugsunarefni hvort hann sé að hvetja fólk til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn heilt yfir. Það lítur þannig út allavega, fljótt á litið.
Einn fjölmiðlarýnir sagði í gær að þetta hefði verið meira grande ef Jóhannes hefði einfaldlega skrifað grein með beittum hætti en birta þessa auglýsingu. Það er erfitt að spá um hvaða áhrif þetta er. Auglýsingin verður enn merkilegri auðvitað í ljósi þess að viðkomandi maður segist vera sjálfstæðismaður að fornu fari og muni styðja flokkinn í dag. Andúð Jóhannesar á Birni leynir sér ekki. Veit ekki hvernig fólk dæmir svona, en ég held þó að greinaskrif hefði fallið betur í kramið en þessi auglýsingakaup. En það vekur vissulega enn meiri athygli en ella.
Það er þó ágætt að vita að Sjálfstæðisflokkurinn í Norðausturkjördæmi fær atkvæði Jóhannesar. Það er greinilegt að hann styður Akureyringa á þing. Enginn flokkur á meiri von á fleiri en einum þingmanni frá Akureyri en einmitt Sjálfstæðisflokkurinn. Stuðningur Jóhannesar með svo áberandi hætti skiptir vissulega máli, þó að þetta sé varla jákvæð auglýsing að öllu leyti.
![]() |
Geir: Auglýsing Jóhannesar ósmekkleg og óviðeigandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.5.2007 | 11:01
Kjörstaðir opna - kjósendur taki afstöðu!

Ég er að fara núna og greiða atkvæði. Ég kýs eins og venjulega í Oddeyrarskóla á Akureyri og kjördeildin mín er sú níunda. Ég hef einu sinni lent í því að vinna á kjördegi í Oddeyrarskóla. Það var í forseta- og sameiningarkosningunum. Get ekki beint sagt að það hafi skemmtileg vinna. Ég hef alla tíð verið algjör stjórnmálafíkill og verð að fylgjast með kosningavöku, tölum og pæla í stöðuna meðan að hún gerist í beinni eins og við segjum. Forsetakosningarnar 2004 voru ekki beint spennandi og áhugaverðar og ég gat lifað við það að taka þennan pakka þá. Helst var spursmál þá hversu margir myndu slaufa á forsetann og skila auðu.
Kosningar eru mikilvægar. Öll eigum við eitt atkvæði. Við eigum að taka afstöðu og mæta á kjörstað - krossa við þann lista sem við teljum réttan. Það má heldur ekki gleyma því að maður getur haft afstöðu á listann sinn. Það hefur auglýsingamennska Jóhannesar Jónssonar sýnt okkur vel. Á þó ekki von á að ég breyti neitt mínum lista, enda líst mér heilt yfir vel á hann.
Ég hvet alla til að kjósa, þetta er okkar mikilvægasti lýðræðislegi réttur - nýtum hann!
![]() |
Búið að opna kjörstaði um allt land |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.5.2007 | 00:31
Umdeild dagblaðaauglýsing Jóhannesar í Bónus
Það má vel vera að margir í samfélaginu þoli suma stjórnmálamenn ekki og telji þá hafa komið illa við sig en fáir geta auglýst með þessum hætti og svona áberandi gegn einni manneskju. Það hefur vissulega verið lífleg umræða um þetta í dag. Ég skrifaði um þetta þegar að ég sá Fréttablaðið í dag. Í greininni vísa ég til þess að þetta sé í Fréttablaðinu en það var auðvitað sagt því að ég sá það blað fyrst. Þetta var í öllum öðrum blöðum nema Viðskiptablaðinu minnir mig. Annars hef ég ekki lesið öll blöð í dag, en sá ekki ástæðu til að breyta skrifunum þrátt fyrir það.
Það er vissulega fordæmi að nokkrir menn í samfélaginu keyptu heilsíður örfáum dögum fyrir forsetakosningarnar 1996 til að telja upp ýmislegt sem þeir töldu neikvætt í garð forsetaframbjóðandans Ólafs Ragnars Grímssonar. Þetta voru menn sem höfðu persónulega andúð á Ólafi Ragnari, meðal annars vegna verka hans sem fjármálaráðherra og þingmanns löggjafasamkundunnar. Þessar auglýsingar komu af stað samúðarbylgju með Ólafi Ragnari. Hann vann forsetaembættið og vist á Bessastöðum með yfirburðarkosningu skömmu síðar og töldu margir auglýsingarnar hafa tryggt honum Bessastaði með áberandi hætti, en fram að því var jafnvel talið að munurinn yrði minni.
Það er erfitt að spá um hvaða áhrif þessi auglýsingamennska Jóhannesar Jónssonar í fjölmiðlum hefur. Það vekur vissulega nokkra athygli að hann lýsi svo opinberlega yfir stuðningi við Sjálfstæðisflokkinn, enda er þetta stuðningur við flokkinn. Hann vísar þó beint til andúðar sinnar á dómsmálaráðherranum. Sú andúð er ekki beint ný af nálinni, en fræg voru hvassyrt ummæli hans í Örlagadeginum, þætti Sigríðar Arnardóttur í haust, gegn Birni og fleiri nafngreindum mönnum.
En svona auglýsingamennska á sér fá fordæmi og vekur athygli á þeirri stundu er kosningabaráttunni lýkur. Þetta hefur verið eitt aðalumræðuefnið á síðasta degi kosningabaráttunnar og var meira að segja rætt í lokaumræðum leiðtoganna á Ríkissjónvarpinu fyrr í kvöld. Þar vöktu athygli ummæli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að þetta væru innanflokksátök innan Sjálfstæðisflokksins. Heldur voru það kómísk og dapurleg ummæli að mínu mati.
En svona auglýsingabarátta eins manns gegn einum stjórnmálamanni með svo opinskáum og áberandi hætti vekur athygli. Það verður fróðlegt að sjá hvort og þá hvaða eftirmálar fylgi auglýsingamennsku Akureyringsins Jóhannesar Jónssonar.
11.5.2007 | 23:55
Lokadagur: pælingar um stöðuna í Norðaustri
Það er komið að lokum kosningabaráttunnar í Norðausturkjördæmi. Á morgun ráðast örlögin á kjördegi. Í dag voru allir flokkar með fjölskylduhátíð á miðbæjarsvæðinu hér á Akureyri. Ég fór niður í bæ og skemmti mér vel í góðri stemmningu þar. Sjálfstæðisflokkurinn var fyrir utan kosningaskrifstofu sína í Hafnarstræti með góða fjölskyldustund, góð skemmtiatriði og góðar veitingar. Það var þó kalt í miðbænum, enda var slydda síðdegis og frekar napurt þannig séð. Það er spáð snjókomu á morgun, svo að enginn vorbragur er yfir þessari lokastund kosningabaráttunnar.
Ég hitti marga frambjóðendur og stjórnmálaspekinga á rölti um miðbæinn. Það var áhugavert að rabba um stöðuna og spá í spilin með morgundaginn. Þó flestir hafi sínar spár eru flestir hugsi yfir því hvað gerist. Þeir spekingar sem ég hef helst talað við voru sem véfrétt yfir því hvaða stjórn yrði mynduð eftir kosningarnar, óvissan er hin mesta lengi. Það eru auðvitað spennandi pælingar í spilunum og fáir sem vilja fullyrða að stjórnin haldi, en margir vilja þó varla trúa því að svo fari, þó kannanir sýni hana frekar veikburða kvöldið fyrir kjördaginn.
Það snjóaði í bænum í dag eins og fyrr segir. Ég vona að þessi vorkuldi sé ekki fyrirboði á vinstra hret sem myndi fylgja vinstristjórn að mínu mati. Kjósendur verða að hugsa sitt ráð mjög vel. Það þarf líka að hugsa sig vel um hér í Norðausturkjördæmi hverjir muni vinna að hag byggðanna og standi fyrir farsæla stefnu, t.d. í atvinnumálum. Það er gott að eiga vini í öllum flokkum, enda var áhugavert að labba um bæinn og taka gott spjall. Fékk mér pylsu og veitingar og naut þess að þurfa ekki að hafa áhyggjur af neinu.
Þetta var rólegri dagur-fyrir-kosningar en fyrir ári þegar að ég var í forystu kosningavinnunnar hér og á fullu síðasta daginn. Það var mikil vinna en nú hefur þetta verið öllu rólegra. Í fyrra var ég flétta pylsum á funheitu grilli og spjalla við fólk við veitingaborðið með Oktavíu, Kristján Þór og Sigrúnu Björk mér til hliðar. Við vorum ekki saman í þeim verkefnum þetta árið og aðrir á þeim básum. Það var notalegt og gott að geta labbað rólegur um bæinn og tekið spjallið við fólk og spáð í þau spil sem eru í stöðunni.
Ég var reyndar hugsandi um það í dag hvort að þessi dagur fyrir kjördag nú væri betri eða verri á Akureyri fyrir Sjálfstæðisflokkinn en var fyrir ári í sveitarstjórnarkosningunum. Mér finnst það í rauninni. Finnst betri vindar í stöðunni. Fyrir ári var baráttan fyrir endurkjöri Kristjáns Þórs sem bæjarstjóra og hópsins okkar erfiðari en hafði verið fjórum árum áður og kannanir voru okkar mjög erfiðar á lokasprettinum. Finnst staðan betri nú, enda blasir við öllum að fylgi Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu mun aukast umtalsvert hvernig sem fer í raun, enda voru kosningarnar vorið 2003 okkur óvenjuvondar.
Það er lokadagur, 11. maí, í dag. Það er viðeigandi dagur á lokadag kosningabaráttunnar. Nú eru örlög frambjóðenda í kjördæminu í höndum mín og annarra kjósenda hér. Það verður fróðlegt að sjá hver dómur kjósenda verður og hver verði dómurinn um hversu margir Akureyringar fari á þing. Með því fylgist ég sérstaklega á morgun og við öll sem hér í bæ búum. Staða okkar hefur verið vond á þessu kjörtímabili. Það stefnir í breytingar þar á, á morgun ræðst hversu mjög hún batnar.
Nú tekur biðin eftir úrslitum við... það verður gaman að greina nýtt pólitískt landslag kjördæmisins eftir sólarhring.... þegar að kjósendur hafa talað. Þeirra er valdið núna.
11.5.2007 | 21:56
Kosningabaráttu lokið - lokaumræður leiðtoganna

Að margra mati hefur þetta verið mjög daufleg og beinlínis leiðinleg kosningabarátta. Finnst mér svo vera, mér finnst hitinn í henni aldrei hafa hafist í raun að ráði. Hún þaut framhjá manni eins og laufblað í vindi. Málefnaátök þessarar kosningabaráttu voru ekki mikil. Helst var tekist á um velferðarmálin. Umhverfismálin, sem ég taldi lengi vel að yrði aðalmálið, gufuðu upp eftir Hafnarfjarðarkosninguna 31. mars.
Mér fannst leiðtogaumræðurnar í kvöld frekar dauflegar. Þar kom svosem fátt nýtt fram að ráði. Þetta voru daufari umræður en á Stöð 2 á miðvikudagskvöldið. Það var beitt og lífleg umræða, brotin upp með skemmtilegri one-on-one yfirheyrslu spyrils á leiðtoga. Þar var nýstárleg leiðtogaumræða og áhugaverð. Þetta var hefðbundið kvöldið-fyrir-kjördag-spjall hjá Ríkissjónvarpinu. Klassískt og gott vissulega, en að sama skapi litlausara. Elín Hirst og Þórhallur Gunnarsson stýrðu umræðum fimlega og flestir leiðtogar stóðu sig vel.
Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir komu best út sem fyrr að mínu mati. Mér finnst Ingibjörg Sólrún hafa styrkst á lokasprettinum og hún kemur fram af meiri öryggi og festu en var lengi vel eftir formannskjör hennar fyrir tveim árum. Geir er auðvitað mjög reyndur stjórnmálamaður og býður fram reynslu sína og er fimur í umræðum af þessu tagi, að sama skapi er hann þó ekki eins hvass og Davíð Oddsson var, en hann beit frá sér og gat læst klónum grimmilega í andstæðingana í takt við köttinn.
Jón Sigurðsson talar fyrir flokki sem horfist í augu við sögulegt afhroð - þar ríkir óvissa um hversu mikið höggið verði á morgun. Steingrímur J. Sigfússon kom fram með svipuðum hætti og á miðvikudag, hann hefur mikla reynslu og verður næstþaulsetnasti þingmaðurinn um helgina. Steingrímur hefur verið snillingur í að tala sig frá málum, en gerir það fimlegar en margir landsbyggðarfulltrúar flokksins sem tala gegn stóriðju án þess að benda á aðrar lausnir í atvinnumálum. Það var mjög áhugavert að heyra skoðanir hans á málum, en enn er þögn VG í þessum málum ansi áberandi.
Ómar Ragnarsson er í talsverðum vanda. Flokkurinn hans virðist engu flugi vera að ná. Það var því varla furða að Þórhallur spyrði Ómar hvað væri orðið um fólkið sem gekk með honum niður Laugaveginn í fyrrahaust. Það virðist hafa gufað upp frá umhverfismálunum eða fylkja sér til annarra átta. Það er auðvitað erfitt fyrir flokksformann að mæta til svona umræðna tólf tímum fyrir opnun kjörstaða og talandi fyrir flokki sem mælist ekki í neinni alvöru stöðu. Guðjón Arnar stóð sig ágætlega og hefur bætt sig síðustu vikurnar.
Eins og fyrr segir hefur þetta verið mjög bragðdauf kosningabarátta málefnalega séð. En þegar að litið er á skoðanakannanir er hún bráðlifandi og fersk, fáir vita hvað er að fara að gerast. Staða ríkisstjórnarinnar er mjög í óvissu og svo gæti farið að saga hennar yrði öll innan 30 klukkustunda. Staðan er lífleg séð útfrá pælingum stjórnmálaáhugamanna og ég sem hef skrifað talsvert um pólitík og kannanir hef haft gaman af þessu og vona að lesendurnir hafi notið þess líka.
Nú er baráttunni lokið - örlagadagurinn er framundan. Það eru spennandi tímar framundan á hvaða veg sem þessar kosningar munu fara.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
11.5.2007 | 19:41
Spenna á lokasprettinum - fellur ríkisstjórnin?
Samkvæmt síðustu skoðanakönnun Gallups fyrir alþingiskosningarnar á morgun er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fallin. Sjálfstæðisflokkurinn og VG bæta við sig fylgi á lokasprettinum en Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin og Frjálslyndir falla milli daga. Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist 38,4% og hlyti flokkurinn 25 alþingismenn, þrem fleirum en í kosningunum 2003.
Framsóknarflokkurinn stefnir í verstu kosningaúrslitin í 90 ára sögu sinni á morgun ef marka má könnunina. Þar virðist fátt geta gerst á lokasprettinum sem afstýrir skaðlegu fylgishrapi flokksins. Fylgið mælist aðeins 10,3% í dag og flokkurinn hefur aðeins sex þingmenn í hendi við þetta, myndi tapa sex þingsætum, sem er helmingur þingflokksins sem komst inn í alþingiskosningunum 2003. Samfylkingin mælist í dag með 25,8% og hefur 17 þingsæti, þrem færri en í kosningunum 2003. VG mælist í dag með 17,6% og 11 þingsæti, myndi bæta við sig sex þingsætum frá kosningunum 2003.
Frjálslyndi flokkurinn mælist með slétt 6% í dag og fjögur þingsæti, jafnmikið og hann fékk í alþingiskosningunum 2003. Íslandshreyfingin hefur ekki náð neinu flugi í raðkönnunum Gallups í gegnum vikuna og það gerist ekki heldur í síðustu skoðanakönnuninni fyrir kosningarnar. Fylgið í dag fellur í fyrsta skipti undir 2% múrinn og mælist 1,9% og þar er því auðvitað enginn þingmaður á blaði. Það hlýtur að teljast pólitískt kraftaverk nái flokkurinn þingmanni eftir sorgarsögu í könnunum undanfarnar vikur. Kannanirnar hafa verið athyglisverðar í gegnum vikuna; miklar sveiflur og athyglisverðar pælingar hafa vaknað í kjölfar þeirra.
Ef raðkönnunum Gallups er staflað upp verður úr því stórt úrtak og mjög öflug skoðanakönnun per se. Í samtalningu allra kannanna fimm mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 38,9% og 25 þingmenn, Framsóknarflokkurinn hefur 11% og 7 þingmenn, Samfylkingin mælist með 25,6% og 17 þingmenn, VG hefur slétt 16% og 10 þingmenn og Frjálslyndi flokkurinn mælist með 6,3% og 4 þingmenn. Í samtalningunni er Íslandshreyfingin með 2,2% og engan þingmann sem fyrr. Síðasti þingmaðurinn til að ná inn myndi vera skv. þessu 17. þingmaður Samfylkingar og næstur inn væri 26. þingmaður Sjálfstæðisflokks.
Samkvæmt uppstöflun raðkannana heldur stjórnin semsagt með naumasta hætti. Í gegnum tíðina hafa uppstaflaðar raðkannanir Gallups vikuna fyrir kjördag verið næstar kosningaúrslitum. Svo var að mig minnir bæði 1999 og 2003, og að ég held líka árið 1995. Þannig að þetta gefur sterkar vísbendingar um morgundaginn. Það stefnir í örlagadag í stjórnmálum á morgun. Stjórnin er mjög tæp og virðist á fallanda fæti eftir tólf ára setu og erfitt að spá í hvað gerist. Kannanir hafa rokkað fram og til baka alla vikuna og öllum ljóst að nú stefnir í eina mest spennandi kosninganótt íslenskrar stjórnmálasögu. Gangi kannanir eftir verður jafnt á munum.
Kosningabaráttunni lýkur innan skamms með lokaumræðum stjórnmálaleiðtoganna sex hjá Ríkissjónvarpinu. Kannanir hafa sýnt það að kosningarnar á morgun verði spennandi. Nú er hinsvegar tími skoðanakannanna í alþingiskosningunum 2007 liðinn. Þær hafa sýnt hvað geti gerst. Á morgun eru það kjósendur sem greiða atkvæði og fella sinn dóm. Hann verður í sviðsljósinu frá kl. 22:00 er kjörstaðir loka og tölurnar streyma inn og örlögin ráðast.
Þetta verður spennuþrungin pólitísk helgi og áhugavert að spá í spilin frá og með fyrstu tölum og þar til að úrslitin liggja fyrir. Þá tekur við að mynda stjórn. Falli ríkisstjórnin eins og könnun Gallups sýnir í dag að mögulega getur gerst taka við spennandi stjórnarmyndunarviðræður. Þannig að það eru svo sannarlega spennandi pólitískir tímar sem eru í sjónmáli nú þegar að kosningabaráttunni er að ljúka.
![]() |
Fylgi Framsóknarflokks dalar á ný |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.5.2007 | 18:54
Lokadagur stjórnmálaferils fjölda þingmanna

Eftir kl. 22:00 annað kvöld, við fyrstu tölur, fer að skýrast mjög staðan um það hverjir komi í stað reyndu þingmannanna. Þrettán núverandi alþingismenn sækjast ekki eftir endurkjöri á morgun og sjö alþingismenn hafa þegar hætt á kjörtímabilinu, en einn þingmaður, Árni Ragnar Árnason, lést á kjörtímabilinu. Auk þessa munu fjöldi þingmanna falla á morgun ef marka má flöktandi skoðanakannanir á lokadegi. Það stefnir því í mestu uppstokkun á þingi frá árinu 1934.
Mér telst til að 21 alþingismaður kjörinn árið 2003 sé ekki lengur á þingi, hafi ákveðið að hætta í stjórnmálum við þessar kosningar eða horfið frá störfum fyrr en ella. Hæst ber að sjálfsögðu að forsætisráðherrarnir fyrrverandi, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, hættu í stjórnmálum á kjörtímabilinu eftir langa þátttöku í stjórnmálum og að hafa leitt flokka sína í farsælu stjórnarsamstarfi flokka sinna samfleytt í rúmlega áratug. Auk fyrrnefndra hættu þau: Árni Magnússon, Bryndís Hlöðversdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson, Gunnar I. Birgisson, og Tómas Ingi Olrich. Árni Ragnar Árnason, sem var leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, lést eftir erfið veikindi árið 2004.
Þeir þingmenn sem sátu sinn síðasta þingfund í mars og munu missa þingsæti sitt í kjölfar uppstokkunar á þingi eru Halldór Blöndal, Sólveig Pétursdóttir, Sigríður Anna Þórðardóttir, Guðmundur Hallvarðsson og Sigurrós Þorgrímsdóttir (Sjálfstæðisflokki), Margrét Frímannsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Jóhann Ársælsson, Guðrún Ögmundsdóttir og Jón Gunnarsson (Samfylkingunni), Jón Kristjánsson, Hjálmar Árnason og Dagný Jónsdóttir (Framsóknarflokki). Það eru því þónokkur tímamót í stjórnmálum á þessum lokadegi þegar að þingmenn eru að hverfa af hinu pólitíska sviði.
Ég fer hér á eftir yfir meginpunkta þeirra 21 einstaklinga sem setið hafa á þingi en annaðhvort hætt þar á kjörtímabilinu eða hverfa af þingi við alþingiskosningarnar 12. maí nk.
Gefa ekki kost á sér til endurkjörs
Halldór Blöndal
alþingismaður 1979-2007
landbúnaðarráðherra 1991-1995
samgönguráðherra 1991-1999
forseti Alþingis 1999-2005
formaður fjölda þingnefnda á þingferlinum
Jón Kristjánsson
alþingismaður 1984-2007
heilbrigðisráðherra 2001-2006
félagsmálaráðherra 2006
formaður fjárlaganefndar 1995-2001
forsætisnefnd 2006-2007
Margrét Frímannsdóttir
alþingismaður 1987-2007
formaður Alþýðubandalagsins 1995-2000
varaformaður Samfylkingarinnar 2000-2003
þingflokksformaður Alþýðubandalagsins 1988-1992
þingflokksformaður Samfylkingarinnar 2004-2006
Rannveig Guðmundsdóttir
alþingismaður 1989-2007
félagsmálaráðherra 1994-1995
forseti Norðurlandaráðs 2004-2005
varaformaður Alþýðuflokksins 1993-1994
þingflokksformaður Alþýðuflokksins 1993-1994; 1995-1996
þingflokksformaður jafnaðarmanna 1996-1999
þingflokksformaður Samfylkingarinnar 1999-2001
forsætisnefnd 2005-2007
formaður félagsmálanefndar 1991-1994
Sólveig Pétursdóttir
alþingismaður 1991-2007
dómsmálaráðherra 1999-2003
forseti Alþingis 2005-2007
forsætisnefnd 2003-2005
formaður allsherjarnefndar 1991-1999
Sigríður Anna Þórðardóttir
alþingismaður 1991-2007
umhverfisráðherra 2004-2006
forseti Norðurlandaráðs 2000-2001
þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins 1998-2003
forsætisnefnd 2006-2007
formaður menntamálanefndar 1991-2002
formaður utanríkismálanefndar 2002-2003
formaður umhverfisnefndar 2003-2004
Guðmundur Hallvarðsson
alþingismaður 1991-2007
formaður samgöngunefndar 2001-2007
Jóhann Ársælsson
alþingismaður 1991-1995; 1999-2007
Hjálmar Árnason
alþingismaður 1995-2007
þingflokksformaður Framsóknarflokksins 2003-2007
formaður iðnaðarnefndar 1999-2003; 2006-2007
formaður félagsmálanefndar 2003-2004
Guðrún Ögmundsdóttir
alþingismaður 1999-2007
Dagný Jónsdóttir
alþingismaður 2003-2007
formaður félagsmálanefndar 2006-2007
Jón Gunnarsson
alþingismaður 2003-2007
Sigurrós Þorgrímsdóttir
alþingismaður 2006-2007
Létu af þingmennsku fyrir lok kjörtímabils
Davíð Oddsson
alþingismaður 1991-2005
borgarstjóri í Reykjavík 1982-1991
forsætisráðherra 1991-2004
utanríkisráðherra 2004-2005
formaður Sjálfstæðisflokksins 1991-2005
varaformaður Sjálfstæðisflokksins 1989-1991
Halldór Ásgrímsson
alþingismaður 1974-1978; 1979-2006
sjávarútvegsráðherra 1983-1991
dóms- og kirkjumálaráðherra 1988-1989
utanríkisráðherra 1995-2004
forsætisráðherra 2004-2006
formaður Framsóknarflokksins 1994-2006
varaformaður Framsóknarflokksins 1980-1994
formaður fjölda þingnefnda á þingferlinum
Tómas Ingi Olrich
alþingismaður 1991-2004
menntamálaráðherra 2002-2003
formaður utanríkismálanefndar 1997-2002
Árni Ragnar Árnason
alþingismaður 1991-2004
formaður sjávarútvegsnefndar 2003-2004
Guðmundur Árni Stefánsson
alþingismaður 1993-2005
heilbrigðisráðherra 1993-1994
félagsmálaráðherra 1994
varaformaður Alþýðuflokksins 1994-1996
forsætisnefnd 1995-2005
Bryndís Hlöðversdóttir
alþingismaður 1995-2005
þingflokksformaður Samfylkingarinnar 2001-2004
Gunnar I. Birgisson
alþingismaður 1999-2006
formaður menntamálanefndar 2002-2005
bæjarstjóri í Kópavogi frá 2006
Árni Magnússon
alþingismaður 2003-2006
félagsmálaráðherra 2003-2006
11.5.2007 | 14:58
Samsæri í Eurovision - verður keppninni breytt?
Það er alveg ljóst, og staðfestist af úrslitum kosningarinnar í gærkvöldi, að möguleikar Íslands á að komast upp úr botninum eru hverfandi og greinilegt að stokka verður keppnina upp. Ólgan hefur oft verið ráðandi hér heima allt frá því að Selmu Björnsdóttur mistókst að komast upp úr botninum með If I had your Love í maí 2005 í keppninni í Kiev. Í fyrra var talað um að Silvía Nótt hefði skemmt fyrir sér og því ekki komist áfram. Staða Eiríks nú vekur nýjar spurningar.
Ekki aðeins reyndar er staða Eiríks rædd þarna heldur staða Vestur-Evrópu almennt. Í raun væri heiðarlegast að brjóta upp keppnina. Þarna keppa yfir 40 lönd um árangur. Það væri auðvitað best að hafa keppni fyrir Vestur-Evrópu og Austur-Evrópu. Með því væri eflaust tekið á þessu og um leið væri auðvitað tekið á þessum undanriðli og keppninni skipt upp í heiðarlegar heildir, enda er tónlistarsmekkurinn mjög misjafn á svæðinu og því miður er ráðandi staða þjóðanna í austri að eyðileggja keppnina..
Eiríkur Hauksson er töffari, hefur alltaf verið það og mun verða það í huga landsmanna. Hann talaði hreint út í gærkvöldi. Ég get tekið undir hvert einasta orð hans í þessu viðtali við Sigmar bloggvin minn. Það verður að taka þessa keppni í gegn og gera hana eðlilegri vettvang, ekki klíkumyndun og samsærisplotterí milli þjóða með þeim napra hætti sem blasir við.
Eigi Ísland að taka áfram þátt í keppninni verður að stokka hana upp, enda er orðrómurinn um samsærið ekki lengur íslenskur heldur ómar um alla V-Evrópu. Það er engin furða á því.
![]() |
Eiríkur: Samsæri austantjaldsmafíu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.5.2007 | 05:48
Jóhannes í Bónus vill strika yfir Björn Bjarnason
Þessi auglýsing vekur gríðarlega mikla athygli á lokadegi kosningabaráttunnar. Það hefur ekki gerst áður, svo ég muni eftir (lesendur bendi á ef önnur tilfelli eru til staðar) um að einn maður kaupi heilsíðuauglýsingu (reyndar í eigin dagblaði vissulega) til að hvetja til þess að strikað sé yfir nafn frambjóðanda á kjördegi. Það verður fróðlegt að heyra umræðu um þessa kostulegu auglýsingu.
Orðrétt segir í auglýsingunni:
"Í rúm fjögur ár mátti ég að ósekju sitja á sakamannabekk í Baugsmálinu svokallaða vegna óvæginna og ranglátra aðgerða Haraldar Jóhannessens, ríkislögreglustjóra, Jóns H. B. Snorrasonar, saksóknara, og síðast Sigurðar T. Magnússonar, sem var settur í starf Jóns H. B. Snorrasonar eftir að hann var gerður afturreka með málatilbúnað sinn haustið 2005. Nafn mitt var hreinsað með sýknudómi Hæstaréttar Íslands í janúar á þessu ári.
Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, hefur í ræðu og riti varið embættisafglöp þessara manna og hvatt þá til dáða leynt og ljóst. Fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarna daga að Björn hyggist skipa Jón H. B. Snorrason í embætti ríkissaksóknara strax að loknum kosningum. Embættisveitingar Björns hafa verið harðlega gagnrýndar á undanförnum árum. Nú keyrir um þverbak og maður hlýtur að spyrja: Hvað skyldi Jón H. B. Snorrason eiginlega hafa á Björn Bjarnason úr því hann hyggst skipa manninn í þetta háa embætti þrátt fyrir allt hans klúður?
Sjálfur hef ég ávallt litið á mig sem sjálfstæðismann þó að ég hafi átt bágt með að styðja flokkinn síðustu árin í stjórnartíð Davíðs Oddssonar. Ég veit að margir sjálfstæðismenn eru sama sinnis og ég í því efni og eiga erfitt með að ákveða sig og þá ekki síst sjálfstæðismenn í Reykjavíkurkjördæmi suður þar sem Björn Bjarnason situr í öðru sæti á lista Sjálfstæðisflokksins. Aðeins eitt ráð er til. Merkið x við D en strikið yfir siðleysið með því að strika yfir nafn Björns Bjarnasonar á listanum."
11.5.2007 | 05:43
2 dagar: pælingar um stöðuna í Norðaustri
Það virðist vera að stefna í mest spennandi þingkosningar um árabil nú um helgina. Kannanir segja margar sögur að því er virðist og erfitt að segja til um hverju skal trúa. Hér í Norðausturkjördæmi fáum við ekki úr þessu hreinar kjördæmakannanir með afgerandi hætti, en höfum séð vísbendingar um hvað mögulega getur gerst á laugardag með niðurbroti úr landskönnunum. Þær segja einhverja sögu en sýna varla heildarmyndina með afgerandi hætti. Það er því eflaust svo að hver trúir því sem best lítur út fyrir sinn flokk og vonar auðvitað hið besta.
Mér finnst þessi kosningabarátta hafa verið mjög litlaus. Hér hefur mesti þunginn verið síðustu tíu dagana og mesti sýnilegi hitinn. Baráttan náði loks hámarki með framboðsfundinum í Sjallanum á mánudag. Þar var talað um málefnin af krafti og leiðtogarnir spurðir vítt og breitt um helstu málin. Þar kom svosem fátt nýtt fram, en áhugavert var að heyra mat leiðtoga og annarra frambjóðenda á því sem mestu máli skiptir. Aðrir þættir í sjónvarpi úr kjördæminu hafa líka verið spennandi innsýn í áherslupólitík flokkanna sex.
Það var ánægjulegt að sjá hversu vel var mætt á fundinn hér á Akureyri um daginn. Fundaformið klassíska hefur að sögn látið á sjá. Það má kannski til sanns vegar færa víða, en fundurinn á Akureyri var fjölmennur og þar var tekist á af krafti, enda hafa flokkarnir ólíka sýn á lykilmálin sum. Sérstaklega hvað varðar atvinnumál og einkum hvaða framtíð eigi að verða við Húsavík. Það blasir við.
Hinsvegar er merkilegast að sjá að í sumum málum er samhljómur nokkur, kannski ekki algjör en meiningarmunur á afstöðu. En grunnmálin sem mestu skipta eru samgöngu- og atvinnumál. Enginn er á móti bættum samgöngum en atvinnumál er málaflokkur sem misjöfn sýn ríkir víða á. Það hefur sést vel, t.d. í kosningaþætti að austan sem ég hef áður minnst á.
Það er framundan síðasti dagurinn í kosningabaráttunni. Örlögin ráðast brátt og innan skamms verður ljóst hverjir verða valdir af íbúum Norðausturkjördæmis sem talsmenn þeirra á Alþingi. Það eru aðeins rúmir 30 klukkutímar þar til að kjörstaðir opna og innan við tveir sólarhringar í fyrstu tölur.
Það verður áhugavert að sjá hasarinn hér á Akureyri á morgun lokadaginn mikla í kosningabaráttunni, sem ber nafn með rentu, enda er 11. maí lokadagur í orðsins fyllstu merkingu.
10.5.2007 | 23:45
Eiríkur kemst ekki áfram - vonbrigði í Helsinki

Eiríkur var greinilega hundfúll með stöðu mála í viðtali í tíufréttum í kvöld. Ég skil hann mjög vel. Það fer að verða umhugsunarefni um framtíð okkar í þessari keppni þykir mér. Staða mála er ekki góð og vakna spurningar um hvort við getum yfir höfuð komist lengra en þetta. Botninn er að verða harður fyrir okkur þarna.
Við í fjölskyldunni komum saman og áttum yndislega stund; grilluðum saman og nutum kvöldsins. Það var því gaman hjá okkur þó að það séu auðvitað gríðarleg vonbrigði að Eiríki hafi ekki tekist að komast áfram. En þannig er nú það bara. Heldur litlausara verður að fylgjast með úrslitakvöldinu á kjördag... án Eika rauða.
![]() |
Ísland komst ekki í úrslit Eurovision |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 23:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.5.2007 | 16:29
Össuri fipast flugið í netskrifunum

Það hefur lítið farið þó fyrir hjali Össurar í þessum efnum eftir að Heiðrún Lind Marteinsdóttir benti Össuri ofurljúflega á auglýsingu frá Samfylkingunni sem gengur í sömu átt og auglýsing Sjálfstæðisflokksins sem hann var svo argur og siðbótarlegur yfir. Það hefur ekkert heyrst nema þögnin mikla um þau mál frá laxadoktornum eftir það, enda getur hann varla gagnrýnt eigin flokk með sama hætti og hann gerði í tilfelli Sjálfstæðisflokksins.
Það er stundum sagt að það sé rétt að staldra við og hugsa örlítið áður en ýtt er á enter við bloggfærslurnar manns. Ég held að Össur sjái mjög eftir því að hafa enterað þessari bloggfærslu sinni inn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.5.2007 | 14:50
Reykjavík suður

Reykjavíkurkjördæmi suður er eitt fjölmennasta kjördæmi landsins. Það nær yfir sunnanverða Hringbraut, gömlu Hringbraut, Miklubraut og Vesturlandsveg. Reykjavík suður er helmingur höfuðborgarinnar, mjög fjölmennt kjördæmi, og er því að upplagi mynduð í kjördæmabreytingunni árið 2000 úr Reykjavíkurkjördæmi. Eina breytingin var þó sú auðvitað að borginni var skipt upp í tvö kjördæmi til að jafna vægi atkvæða umtalsvert.
Á kjörtímabilinu hafa þingmenn kjördæmisins verið 11 talsins; níu kjördæmasæti og tvö jöfnunarsæti. Á því verður engin breyting í kosningunum þann 12. maí.
Umfjöllun um Reykjavíkurkjördæmi suður
10.5.2007 | 13:06
Framsókn heldur sveiflunni - vinstriflokkar hækka
Framsóknarflokkurinn heldur að mestu fylgissveiflu sinni í raðkönnun Gallups í gær í þeirri nýjustu sem birt var fyrir stundu. Vinstriflokkarnir hækka báðir og fylgi Sjálfstæðisflokksins lækkar um 0,1%. Mikil fleygiferð virðist enn vera á fylgi stjórnmálaflokkanna. Stóru tíðindin eru þó að fólk virðist vera að taka loks ákvörðun um hvað skal kjósa eftir tvo sólarhringa, enda eru mun færri óákveðnir en áður hefur verið.
Í gær birtust tvær kannanir sem sýndu Framsóknarflokkinn í mjög ólíkri stöðu, í annarri mældist hann með 14,6% en í hinni var hann í 8,6%. Munurinn var þó sá að fyrri könnunin var gerð eftir helgina en sú fyrri dagana fyrir helgina og á mánudag. Það er því greinilegt samkvæmt því að Framsóknarflokkurinn sé í mikilli sókn miðað við síðustu mánuði og reyndar allt kjörtímabilið sem hefur verið hin mesta sorgarsaga fyrir flokk og formenn hans; Jón Sigurðsson og Halldór Ásgrímsson. Þessar tvær mælingar Gallups í gær og í dag er mesta fylgi hans á formannsferli Jóns.
Framsókn sneri tapaðri skák við á lokaspretti kosningabaráttunnar 2003 og bætti við sig nægilega miklu til að vinna eftirminnilegan varnarsigur og tryggði Halldóri Ásgrímssyni lykilstöðu við stjórnarmyndun. Í dag lækkar Framsókn reyndar örlítið en flokkurinn heldur þeirri sveiflu sem var í myndinni í gær, hann er enn vel yfir meðalfylgi síðustu mánaða og sveiflan er til staðar með augljósum hætti. Það verður vel fylgst með því allavega hvaða dóm Framsóknarflokkurinn fær eftir tvo daga. Annað sem vekur athygli er að báðir vinstriflokkarnir hækka. Samfylkingin mælist með 26,1% og 17 þingmenn og VG hefur 15,9% og 10 þingmenn.
Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist nú 35,8% og mælist með 23 þingsæti, einu færra en í gær, en 24. maður Sjálfstæðisflokksins er næstur inn á kostnað 9. manns Framsóknarflokks. Þessi könnun og sú í gær er með lægri fylgiskönnunum fyrir Sjálfstæðisflokkinn í langan tíma. Þetta er auðvitað ekki viðunandi mæling fyrir Sjálfstæðisflokkinn og hann verður að sækja sér meira fylgi til að halda forystu í ríkisstjórn með öruggum hætti. Það sem vekur auðvitað athygli er að ríkisstjórnin heldur með 32 þingsætum, naumara verður það ekki svo vel sé. Hinsvegar er alveg ljóst að staða Sjálfstæðisflokksins er ekki nógu sterk til að öruggt sé að hann haldi sínu.
Fylgi Frjálslyndra flokksins rokkast enn til og frá. Það hefur verið að flökta á milli 5-6,5%. Í dag er það hið hæsta um langt skeið, 6,5% og fjórir þingmenn mælast inni í þeirri stöðu. Íslandshreyfingin er engu flugi að ná og missir aftur það fylgi sem hún hefur sótt sér frá mánudagskönnun Gallups. Flokkurinn er fallinn aftur í slétt 2% og því greinilegt að vonir flokksins á þingsætum eru að verða frekar daufar. Það er alveg ljóst að það yrði metið pólitískt kraftaverk myndi flokkurinn ná þingsætum eftir þær vondu mælingar sem hann hefur fengið dag eftir dag að undanförnu.
Þetta er næstsíðasta raðkönnun Gallups. Kannanir verða birtar alla virka daga fram til alþingiskosninganna á laugardag og ramma inn vikuna á morgun í síðustu skoðanakönnun Gallups fyrir kosningar. Það sem vekur mesta athygli er hversu tæpt allt stendur. Meirihluti stjórnarinnar var vel til staðar í gær, stjórnin hafði 33 þingsæti en missir eitt í dag og hefur því aðeins 32 alþingismenn og staðan því algjörlega í járnum. Óvissan um það hvað gerist á laugardag er því algjör og ljóst að stefnir í spennandi kosninganótt séu kannanir að mæla stöðuna rétt.
Mér finnst þessi könnun frekar sýna vinstrisveiflu en nokkuð annað. Það yrði klárlega vinstristjórn í pípunum í svona stöðu og það yrðu klárlega miklar breytingar. Fari þetta svona eða einhverjum viðlíka hætti er staðan brothætt og ljóst að núverandi stjórnarsamstarf er feigt í raun, enda verður því varla haldið áfram með einu þingsæti í meirihluta. Það er alveg ljóst að raunhæfar líkur eru á miklum breytingum og erfitt að segja nokkuð til um stöðuna, þó að ég telji eftir að hafa fylgst lengi með stjórnmálum að frekar yrði mynduð stjórn vinstri en hægri í svona stöðu.
Það eru aðeins tveir sólarhringar þar til kjörstaðir opna. Óvissan um það hvað gerist um helgina er orðin algjör. Það er mikil spenna yfir stöðunni. Enn er spurt hvort að uppsveifla Framsóknarflokksins haldi til enda. Sveiflan er staðfest í dag með þessari könnun þykir mér um leið og niðursveifla Sjálfstæðisflokksins staðfestist. Staða ríkisstjórnarinnar er allavega mjög óviss og upphækkun vinstriflokkanna er táknræn.
Við stefnum í örlagaríka pólitíska helgi fari úrslit kosninganna á laugardag í einhverja viðlíka átt. Það er næstsíðasti dagur kosningabaráttunnar og ljóst að barist verður af krafti fyrir hverju atkvæði, enda mun hvert atkvæði skipta máli þegar að staðan verður greind er á hólminn kemur.
![]() |
Samfylking og VG bæta við sig |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.5.2007 | 11:42
Tony Blair segir af sér - mun hætta 27. júní

Tony Blair hefur setið á þingi fyrir Sedgefield frá árinu 1983. Hann hafði fyrir löngu heitið því að þegar að endalokum stjórnmálaferils síns kæmi myndi hann tilkynna kjósendum sínum fyrstum allra um þær breytingar. Það gerði hann. Að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun þar sem áætlun starfsloka var kynnt fór hann til Sedgefield.
Tony Blair hefur verið leiðtogi Verkamannaflokksins frá því í júlí 1994 og forsætisráðherra Bretlands frá 2. maí 1997. Hann hefur verið einn litríkasti stjórnmálamaður í pólitískri sögu Bretlands síðustu áratugina. Enginn leiðtogi Verkamannaflokksins hefur ríkt lengur sem forsætisráðherra og hann er sigursælasti forystumaður vinstrimanna í pólitískri sögu landsins.
Afsögn hans boðar þáttaskil fyrir stjórnmálalitrófið þar og umfram allt Verkamannaflokkinn. Nú hefst sjö vikna leiðtogaslagur innan flokksins. Enginn vafi leikur á því að Gordon Brown, fjármálaráðherra Bretlands, tekur við embættinu, en hann hefur þegar tryggt sér stuðning rúmlega helmings þingmanna flokksins.
![]() |
Blair mun segja af sér sem forsætisráðherra 27. júní |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.5.2007 | 06:07
Fylgi flokkanna á fleygiferð - stjórnin fallin?
Á þessum sama miðvikudegi birtist fyrst könnun sem sýndi Framsóknarflokkinn í hæstu fylgishæðum árum saman, með 14,6% og níu þingsæti, í raðkönnun hjá Gallup, sem er langmesta fylgið í formannstíð Jóns Sigurðssonar og gaf byr undir báða vængi þeim sögusögnum að flokkurinn væri jafnvel að fara að endurtaka fylgisaukninguna á lokaspretti kosningabaráttunnar vorið 2003.
Síðan birtist fyrrnefnd könnun á undan leiðtogaumræðum á Stöð 2. Þar mældist Framsókn svo fallin niður á fyrri slóðir í vikubyrjun hjá Gallup; innan við 9% fylgi og aðeins fimm þingsæti í hendi. Munurinn milli þessa kannana er með ólíkindum. Reyndar er athyglisvert að líta á þrjár raðkannanir Gallups dag eftir dag. Á mánudag var fylgið 7,6%, á þriðjudag 9,8 og í gær var það eins og fyrr segir 14,6%. Hækkunin milli kannana þriðjudags og miðvikudags er reyndar svo ótrúlega mikil að langt er síðan hefur sést annað eins. Beðið er eftir næstu raðkönnun til að sjá hvort Framsókn helst á þessum lokasprettabónus í kosningabaráttunni hjá Gallup.
Í könnuninni á Stöð 2 stendur Samfylkingin mjög nærri kjörfylginu. Fylgið þarna er 29,1%, aðeins tveim prósentustigum undir kjörfylginu og flokkurinn með 19 þingsæti í hendi. Þetta er besta könnunin fyrir Samfylkinguna í óratíma og ekki undrunarefni að Ingibjörg Sólrún væri alsæl í leiðtogaumræðunum. Fyrr sama dag birtist hinsvegar raðkönnun Gallups sem sýndi Samfylkinguna fjórum prósentustigum neðar, með stöðuna í rétt rúmlega 25%. VG er í könnuninni á Stöð 2 með 16,2% og 11 þingsæti í hendi en Gallup-könnunin sýnir VG í frjálsu falli með 14% og aðeins níu sæti, sem er orðin óveruleg aukning fyrir VG frá vorinu 2003.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur horfst í augu við ótrúlegar sveiflur þessa vikuna. Í raðkönnun Gallups á mánudag var fylgið rúm 41% og flokksmenn brostu út í eitt og töldu glæsilegan sigur í sjónmáli. Á þriðjudag sljákkaði fylgið um þrjú prósentustig og sama gerðist í raðkönnun gærdagsins. Staðan var þá að flokkurinn var í rúmum 35%, aðeins tveim prósentustigum yfir kjörfylginu og væri að bæta litlu þannig séð við sig. Munurinn milli daganna þriggja er áminning til Sjálfstæðisflokksins um að ekkert er gefið í þessum kosningum og lokaspretturinn skiptir miklu. Enda er ekki furða að Geir Haarde brýni sitt fólk til dáða þessa síðustu sólarhringa.
Það er athyglisvert að fylgjast með frjálslyndum þessa dagana. Þeir virðast vera að rokka á milli 5 og 6,5% og á milli þess að vera með þrjá eða fjóra þingmenn. Þeir eru semsagt á svipuðu róli undir forystu Guðjóns Arnars og í kosningunum 2003. Athyglisverðustu tíðindi þessara kannana er að þær sýna Magnús Þór varaformann og Sleggjuna að vestan, Kristinn H. Gunnarsson, kolfallna. Það ætti að lækka eitthvað kjaftastuðullinn á þingi verði það ofan á. En að öllu gamni slepptu verður fróðlegt hvernig gengi frjálslyndra verður eftir tvo daga. Íslandshreyfingin er ekki að ná neinu alvöru flugi en rokkar hjá Gallup til og frá en vantar enn þónokkuð.
Þessar kannanir í gær, raðkönnunin hjá Gallup og Stöðvar 2 könnunin, eru í fljótu bragði kannski ólíkar að nokkru leyti og virðast í hrópandi ósamræmi hvor við aðra. En þær segja eitt. Sú skelfilega tilhugsun að til sögunnar komi vinstristjórn vaknar við að líta þessar kannanir augum. Þær sýna að staðan er að breytast á lokasprettinum og ekkert er gefið um eitt né neitt. Fylgið er á fleygiferð. Þeim fækkar sífellt sem ganga í flokk sextán og eru kristnaðir einum flokki alla sína tíð. Fólk er í auknum mæli að hugsa hlutina allt til enda og tekur ákvörðun seint og um síðir eftir mikinn þankagang, jafnvel í kjörklefanum eitt með sjálfu sér.
Kosningarnar eftir tvo daga eru mjög spennandi. Þær eru kannski steindauðar málefnalega séð, en kannanalega séð virðist allt vera opið. Staða Sjálfstæðisflokksins virðist góð á pappírnum en það er ekkert fast í hendi með eitt né neitt fyrr en talið hefur verið upp úr kössum. Þessar kannanir færa eflaust flokksfélögum mínum kraft til að vinna af krafti. Heilt yfir verður áhugavert að sjá síðustu 48 klukkutíma baráttunnar.
Það eru bara röskir 48 klukkutímar þar til kjörstaðir opna og örlagastundin er í sjónmáli, stundin þegar að tölurnar streyma inn, tölurnar sem skipta máli er á hólminn kemur. Þó að kannanir séu oft á tíðum óttalegur leikur að tölum og þingsætum eins og tindátum í spilamennsku eru þær fróðlegar og góðar. Sjálfum hefur mér alltaf þótt gaman af að stúdera þær og það hafa lesendur hér séð vel.
En þær hverfa allar í skuggann þegar að tölur koma úr kjördeildum, úrslitin fara að ráðast. Þá verða þær aðeins fjarlæg minning. Kannanir sýna nú hvað getur mögulega gerst síðustu dagana, en enn er 1/3 óákveðinn og þegar að hann tekur af skarið ráðast örlögin. Þá verður enn skemmtilegra að greina vindana sem ráða því sem gerist á næstu árum!
![]() |
Ríkisstjórnin fallin samkvæmt nýrri skoðanakönnun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |