25.5.2007 | 20:31
Mjög ósmekklegt
Það er mjög notalegt að hafa netið, til að fræðast og vera í samskiptum við annað fólk. Netið er mjög mikilvægur staður, flestir nota sér þann vettvang með einum eða öðrum hætti. Það er þó ógeðfellt að sjá og heyra fréttir af svona efni sem þar gengur sem kastar rýrð á þennan vettvang. Viðbrögðin við þessum leik eru mjög eindregið í eina átt, þó að einhverji reyni að réttlæta svona óhugnað með einhverjum undarlegum rökum.
Það má vel vera að svona efni verði til þess að setja verði einhverjar reglur um netið, taka verði á vafamálum þar. Það er mjög vont ef út í það þarf að fara, en ef það er nauðsynlegt verður það að gera. Það verður að taka á öllum svona skuggalegum málum með afgerandi hætti.
![]() |
"Afar ósmekklegur leikur" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
25.5.2007 | 17:40
Kristrún aðstoðarmaður Ingibjargar Sólrúnar

Kristrún hefur verið varaþingmaður frá kosningunum 2003 og verið lykilmanneskja í hópi formannsins og náin henni, eins og sérstaklega sást í hinu harðvítuga formannskjöri í Samfylkingunni árið 2005. Hún tók sæti hennar í stjórnarskrárnefnd. Það hafði hávær orðrómur um að Kristrún yrði aðstoðarmaður Ingibjargar Sólrúnar í utanríkisráðuneytinu og það er svosem varla furða miðað við það hversu nánar þær hafa verið í pólitísku starfi, innan flokks og utan.
Það er mjög mikið skrafað um það hverjir verði aðstoðarmenn ráðherra Samfylkingarinnar og þeirra Geirs H. Haarde og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, en Ragnheiður Elín Árnadóttir, aðstoðarmaður forsætisráðherra, hefur tekið sæti á Alþingi. Það verður fróðlegt að sjá hverjir muni aðstoða ráðherrana. Það verður mest rætt núna næstu dagana, áður en Alþingi kemur saman á fimmtudaginn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.5.2007 | 16:42
Flokkur í vanda - undarleg greining Halldórs

Það er mjög merkilegt að lesa stjórnmálaskýringu og greiningu Halldórs á stöðu mála fyrir Framsóknarflokkinn. Þar er fjallað um möguleg hliðaráhrif þess hvernig fór fyrir Framsóknarflokknum en skiljanlega er ekki vikið að stóru ástæðu þess að flokkurinn fór jafnilla og raun ber vitni. Stóra ástæðan er auðvitað hversu rosalega flokkurinn tærðist upp innan frá í innanflokkserjum undir lok valdaferils Halldórs Ásgrímssonar. Það var kannski fullmikil bjartsýni að halda að Halldór myndi hreinlega segja hreint út að þar lægi stóri vandi Framsóknarflokksins á undanförnum árum, en samt sem áður koma skýringar hans að stórum hluta að óvörum.
Vissulega náði Framsóknarflokkurinn miklum völdum og áhrifum á formannsferli Halldórs Ásgrímssonar, kannski að margra mati alltof miklum völdum miðað við kjörfylgi, en samt sem áður fór þar valdamikill leiðtogi flokks með mikil áhrif. Um það deilir enginn. Það verður held ég ekki deilt um það að flokkurinn var skelfilega á sig kominn við lok formannsferils Halldórs - á þeirri stund sem hann sagði af sér við Þingvelli fyrir tæpu ári. Þar var hnípinn flokkur í vanda og framundan voru enn meiri vandræði á vegferðinni. Það var reyndar með ólíkindum að Halldór skyldi einfaldlega ekki segja af sér formennsku um leið og hann hætti sem forsætisráðherra til að hlífa Framsóknarflokknum við óþarfa væringum.
Þá hefði Guðni Ágústsson orðið formaður Framsóknarflokksins án kosningar, verandi varaformaður Framsóknarflokksins. Farinn var langur krókur til að forðast það, stolts Halldórs vegna, en ekki vegna flokkshags. Innan við ári eftir pólitísk endalok Halldórs er Guðni orðinn formaður, án kosningar, verandi varaformaður flokksins. Það fór að lokum svo að leitað var til höfðingjans frá Brúnastöðum um leiðsögn út úr vandræðunum. Þetta ár hefur verið Framsóknarflokknum erfitt. Það voru víðtækar raddir um það fyrir ári þegar að Halldór bognaði og hætti hvort að flokkurinn væri orðinn stjórntækur.
Ég held að það hafi staðið mjög tæpt þessa júnídaga að stjórnarsamstarfinu yrði slitið. Innri ólga innan flokksins var við það að lama samstarfið þegar að Halldór og Guðni, sem greinilega áttu samskipti í frostmarki um þá tíð og reyndar lengi áður, sömdu frið sín á milli. Þetta voru sorgleg endalok fyrir Halldór en umfram allt var þetta merki þess hve flokkurinn stóð illa. Það fór svo að afhroð flokksins, sem var sögulegt og afgerandi, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, varð ekki umflúið. Skýringar Halldórs á afhroðinu eru skondnar. Þar vantar eina skýringu og hina mest áberandi þeirra allra.
Uppbygging tekur við í elsta starfandi stjórnmálaflokki landsins. Þar er horft til framtíðar. Bændahöfðinginn Guðni er tekinn við þessum rótgróna landsbyggðarflokki og væntanlega mun Valgerður Sverrisdóttir vera við hlið hans sem varaformaður, einn af nánustu samstarfsmönnum Halldórs Ásgrímssonar á löngum stjórnmálaferli, - sá stjórnmálamaður sem mest talaði innan úr Halldórsarminum gegn því að Guðni yrði formaður Framsóknarflokksins sumarið 2006.
Nú stefnir allt í að Framsóknarflokkurinn verði týpískur félagshyggjuflokkur og muni byggja sig upp í stjórnarandstöðu sem vinstriskotið afl, eins og það var svo áberandi fyrir formannsferil Halldórs Ásgrímssonar. Ég held að við munum sjá mörg líkindi með Guðna og Steingrími Hermannssyni forðum daga sem byggði flokkinn sem breiðan félagshyggjuflokk sem talar frekar til vinstri en hægri. Sjáum allavega til hvernig þau reyna að töfra sig út úr samansöfnuðum áralöngum innri vanda og kergju.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2007 | 14:47
Merkileg athugasemd Jóns Sigurðssonar

Staða Jóns Sigurðssonar var flestum ljós er stjórnarsamstarfinu lauk. Það var erfið staða í ljósi þess að formaður stjórnmálaflokks verður að hafa vettvang til að tala af krafti í stjórnmálum, hann verður að geta verið í lykilhlutverki. Úrslit kosninganna 12. maí og það sem við tók með endalokum stjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks varð að endalokum fyrir Jón í stjórnmálum. Það var heiðarlegt og rétt mat hans að formaður flokksins í stjórnarandstöðuvist yrði að vera alþingismaður með aðgang að fjölmiðlum á réttu stöðunum.
Ég hef margoft sagt það mat mitt að Jón hafi tekið við erfiðu verkefni, tröllvöxnu verkefni sem var óyfirstíganlegt á svo skömmum tíma. Ég tel að Jón hafi ekki tapað þessum kosningum, þær voru tapaðar eftir afsögn Halldórs Ásgrímssonar og vonda stöðu innan flokksins undir lok formannsferils hans. Það var við ramman reip að draga. Að mörgu leyti tek ég undir orð Össurar Skarphéðinssonar, iðnaðarráðherra, í bloggfærslu, þar sem hann víkur örlítið að Jóni.
![]() |
Athugasemd frá Jóni Sigurðssyni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2007 | 14:31
Magnús Þorlákur verður meistarinn
Leikur hann þar með eftir sigur frænda míns, Jónasar Arnar Helgasonar, sem vann keppnina fyrir ári. Magnús Þorlákur er aðeins 18 ára gamall og er þessi árangur sérstaklega glæsilegur í ljósi aldurs hans, en Jónas Örn var 21 árs þegar að hann sigraði meistarann fyrir ári.
Þetta var flottur sigur hjá Magnúsi og ég óska honum til hamingju með milljónirnar fimm og glæsilegan sigur.
![]() |
Magnús Þorlákur varð meistarinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2007 | 13:21
Valgerður gefur kost á sér til varaformennsku
Það kemur ekki á óvart að Valgerður Sverrisdóttir, leiðtogi Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, gefi kost á sér til varaformennsku í flokknum, nú þegar að Guðni Ágústsson er orðinn formaður Framsóknarflokksins. Valgerður vann mikinn varnarsigur hér í kjördæminu í kosningunum 12. maí sl, en hér hlaut flokkurinn þrjá þingmenn kjörna af sjö á landsvísu. Staða hennar innan flokksins hefur styrkst mjög og hún sækist nú eftir að leiða flokkinn með nýjum formanni í uppbyggingarstarfi hans.
Valgerður hefur alla tíð verið vinnusöm í pólitík og lagt sig alla í verkefnin sem henni er treyst fyrir - hún hefur haft traust samherja sinna til verka. Valgerður er vissulega hörkutól í íslenskum stjórnmálum. Um það verður ekki deilt að hún þorir að láta vaða og gerir hlutina eftir sínu höfði. Henni hefur alla tíð verið treyst fyrir lykilembættum innan Framsóknarflokksins: hún var fyrsta þingkona flokksins í marga áratugi og sú önnur, síðar þingflokksformaður og loks iðnaðar- og viðskiptaráðherra og utanríkisráðherra í tæp átta ár. Hún hefur lengst íslenskra kvenna setið í ríkisstjórn.
Valgerður hefur verið einn sterkasti landsbyggðarleiðtogi flokksins, rétt eins og Guðni Ágústsson. Úrslit kosninganna 12. maí sl. eru með þeim hætti að byggja verður flokkinn upp frá landsbyggðinni í raun, enda varð afhroð flokksins mest í Reykjavík. Valgerður hefur verið þingmaður hér í tvo áratugi, frá árinu 1987. Þó stundum hafi oft verið harkalega að henni sótt sigraði hún alla slagina. Henni tókst að ná lausu þingsæti Ingvars Gíslasonar árið 1987 er mjög var tekist á um hann og sigraði þar marga öfluga karlmenn. Sótt var að sætinu hennar fyrir kosningarnar 1995 og í aðdraganda kosninganna 1999 sóttust hún og Jakob Björnsson fyrrum bæjarstjóri á Akureyri, um leiðtogastólinn er Guðmundur Bjarnason hætti (og fór í Íbúðalánasjóð).
Valgerður vann glæsilegan sigur og Jakob fór með skottið milli lappanna frá þeirri baráttu við Valgerði. Hún vann svo leiðtogasæti flokksins í Norðausturkjördæmi með glans fyrir kosningarnar 2003 og vann Jón Kristjánsson í drengilegri baráttu. Hún hefur því alltaf þurft að berjast fyrir sínu og ávallt haft betur innan síns flokks. Þar hefur hún notið mikillar virðingar samherja í kjördæmum sínum og haft sterka stöðu til fjölda ára. Valgerður hefur bæði átt góða og vonda daga í pólitík. Sennilega eru þingkosningarnar 1999 botninn á hennar pólitíska ferli. Þá var hún í fyrsta sinn leiðtogi Framsóknarflokksins í kosningum.
Úrslitin voru flokknum slæm hér og mörkuðu sögulegt lágmark. Þá hlaut flokkurinn aðeins Valgerði kjörna og Framsókn missti fyrsta þingmann Norðurlandskjördæmis eystra í fyrsta skiptið til Sjálfstæðisflokksins. Eftir stóð Halldór Blöndal sigursæll sem leiðtogi kjördæmisins - það var gleðileg kosninganótt fyrir okkur en framsóknarmenn sátu eftir fúlir í gömlu lykilvígi. Þetta voru seinustu kosningarnar í gamla Norðurlandskjördæmi eystra. Í þingkosningunum 2003 var einn mesti hápunktur ferils Valgerðar. Þá hlaut flokkurinn fjóra þingmenn kjörna í Norðausturkjördæmi og Valgerður varð fyrsti þingmaður kjördæmisins.
Varnarsigur er rétta orðið yfir stöðuna eftir kosningarnar hér í Norðausturkjördæmi í vor. Flokknum var aldrei í raun spáð fleirum en tveim þingmönnum en tókst að halda sér stærri en Samfylkingin og VG og hljóta þriðja manninn, þvert á kannanir, sem höfðu flestar spáð annað hvort VG eða Samfylkingu þrem. Valgerður Sverrisdóttir er mikil kjarnakona. Hún er langrækin og lætur enga, allra síst pólitíska andstæðinga, eiga eitthvað inni hjá sér.
Í gegnum kynni mín af henni hef ég kynnst öflugri og beittri konu sem talar af krafti þegar að hún hefur skoðanir. Það er mikilvægt að svoleiðis fólk sé í stjórnmálum. Þrátt fyrir allt tel ég að hún sé einn sterkasti forystumaður Framsóknarflokksins í dag og ég tel blasa við að hún verði varaformaður.
![]() |
Valgerður: Tilbúin að takast á við varaformannsembættið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.5.2007 | 00:09
Ógeð á netinu
Mér finnst mikilvægt að það verði tekið á þessu máli og fagna viðbrögðum lögreglu í þeim efnum. Þetta er einfaldlega of svart til að horfa þegjandi á. Mér sýnist á viðbrögðunum að öllu siðuðu fólki sé brugðið yfir þessum ósóma. Ekki er ég hissa á því.
![]() |
Nauðgunarþjálfun á Netinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
24.5.2007 | 19:40
Kristján L. Möller tekur við samgöngumálunum
Kristján L. Möller, leiðtogi Samfylkingarinnar hér í Norðausturkjördæmi, hefur tekið við lyklavöldum í samgönguráðuneytinu. Kristján verður eini ráðherrann sem kemur héðan úr Norðausturkjördæmi. Það verður hans verkefni að klippa á borðann í Héðinsfjarðargöngunum, sem tengir heimabyggð hans, Siglufjörð, og Ólafsfjörð saman eftir tvö ár. Það þarf varla að kvíða því að það verkefni tefjist við komu hans í ráðuneytið.
Það fer ekkert á milli mála að Möllerinn hefur haft mikinn áhuga á samgöngumálum alla tíð á sínum pólitíska ferli. Það er ekki hægt annað fyrir mann sem kemur úr sveitarfélagi sem hefur svo illa verið tengt samgöngulega sem gamli góði Siglufjörður hefur verið nær alla tíð. Það verða þáttaskil fyrir byggðina þar að fá ný göng og ég held að heimafólk þar þurfi ekki að óttast um sinn hag hafandi eignast nú eitt stykki samgönguráðherra. Það verður reyndar notalegt vissulega fyrir okkur íbúa Norðausturkjördæmis að eignast nú í fyrsta skipti í átta ár samgönguráðherra. Halldór okkar Blöndal leiddi málaflokkinn í átta ár áður en Sturla tók við.
Mörg verkefni bíða hér. Það er ekkert leyndarmál að við höfum verið frekar hundfúl yfir málum Grímseyjarferjunnar, langri bið á lengingu Akureyrarvallar og því að Vaðlaheiðargöng, hin löngu þarfa framkvæmd sem tengir betur Eyfirskar og Þingeyskar byggðir, hafi ekki enn verið sett á dagskrá. Það var reyndar svo að í kosningabaráttunni í vor talaði Kristján Möller í fararbroddi Samfylkingarinnar hér fyrir því að ríkisvæða Vaðlaheiðargöngin og hafa þau gjaldfrjáls. Það verður áhugavert að sjá hvort að hann muni gera það eða með hvaða öðrum hætti þau fara á dagskrá, en ég efast ekki um að þau munu nú fara fljótt og vel á dagskrá standi hann við sín loforð um það ásamt lengingu vallarins.
Það eru vissulega vonbrigði að forysta Sjálfstæðisflokksins hafi ekki valið þingmann úr Norðausturkjördæmi til ráðherrasetu, þrátt fyrir sögulegan kosningasigur flokksins hér og að flokkurinn eiga fyrsta þingmann kjördæmisins. Það breytist því lítið yfir stöðu mála hér, enda var aðeins einn þingmaður kjördæmisins ráðherra fram til dagsins í dag, Valgerður Sverrisdóttir, sem nú hefur eins og allir vita látið af embætti. Það er mikilvægt að kjördæmið eigi ráðherra á tímum mikilvægra verkefna á þessu svæði og því mikilvægt að Samfylkingin valdi leiðtoga sinn til þess verkefnis.
Ég vil óska Kristjáni Möller innilega til hamingju með ráðherrastólinn. Ég veit að hann er trúr sínu og fullur af hugmyndum í samgöngumálum. - fyrst og fremst vona ég að hann verði farsæll í sínum verkum og efast ekki um það, vitandi af krafti hans og hugmyndaauðgi, sem hefur sést af tali hans lengi. Nú er tími framkvæmda vonandi framundan hjá honum en ekki langt orðagjálfur.
Þar sem ég veit að hann les vefinn og fylgist vel með skrifum hér veit ég að hann les kveðjuna.
![]() |
Kristján: Samgönguráðuneytið skriðþungt skip |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.5.2007 | 17:38
Tveir ráðherrar á sama ganginum í Arnarhvoli

Í 19 ár, eða frá því að vinstristjórn Steingríms Hermannssonar tók við völdum 1988, hafa iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti verið flokkað sem eitt og hafa Jón Sigurðsson, Sighvatur Björgvinsson, Finnur Ingólfsson, Valgerður Sverrisdóttir og Jón Sigurðsson sinnt báðum ráðuneytum. Nú er þeim skipt upp. Síðast var Friðrik Sophusson iðnaðarráðherra í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar 1987-1988 á meðan að Jón Sigurðsson sinnti viðskiptamálunum eingöngu. Það verður merkilegt að sjá hvernig gangi að skipta þessu upp nú.
Ég sé að Björgvin hefur fengið í flýti einhverja nýja skrifstofu á ganginum í Arnarhvoli til að hann hefði örugglega einhvern vinnustað. Það var stór spurning margra hvernig að farið yrði að því með svo skömmum fyrirvara að koma báðum þessum nýju ráðherrum Samfylkingarinnar fyrir á sama staðnum. Það hefði kannski verið ráð að tryggja hinum ráðherraskrifstofu þar sem Guðni Ágústsson var fyrir, en þá hefði það þýtt skiptingu á starfsmannafjölda sama ráðuneytis á tveim stöðum. Eflaust mun þetta verða tekið eitthvað í gegn síðar.
Ég vona að Björgvin hafi fengið sérbíl og þurfi ekki að "sitja í" hjá Össuri þegar að hann þarf að fara að erindast um borgina.
![]() |
Jón afhenti Björgvin og Össuri lykla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.5.2007 | 16:43
Guðlaugur Þór tekur við heilbrigðisráðuneytinu

Við í Sjálfstæðisflokknum höfum lengi verið þeirrar skoðunar að flokkurinn ætti að fá ráðuneytið í sinn hlut. Það er gleðiefni að það skyldi takast nú að þessu sinni í þessu samstarfi við Samfylkinguna. Með þessu hefjast nýir tímar, enda tel ég að sjálfstæðismaður muni ekki hika við að horfa í aðrar áttir í þessum málum og ef marka má stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar verður það heldur betur að veruleika.
Ég vil óska Gulla til hamingju með ráðherrastólinn og óska honum góðs í verkum sínum á nýjum vettvangi.
![]() |
Fyrsti sjálfstæðismaðurinn í heilbrigðisráðuneytinu í 20 ár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.5.2007 | 15:45
Söguleg stund í utanríkisráðuneytinu

Lengi vel var talið erfitt fyrir konu að komast þar til valda en þarna eru söguleg tíðindi að eiga sér vissulega stað. Þetta boðar allavega nýja tíma vissulega í stjórnmálum. Það má reyndar segja um báðar þessar konur að þær eru mjög öflugar í pólitísku starfi. Það var reyndar svo að spurningin um hver færi í utanríkisráðuneytið snerist aðallega um hvort að það yrði Ingibjörg Sólrún eða Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Tímanna tákn það.
Ráðherrar eru nú að fara í ráðuneyti sín og taka þar formlega við völdum. Það verður fróðlegt að sjá hvort að Jón Sigurðsson, fráfarandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, muni afhenta Björgvini G. Sigurðssyni og Össuri Skarphéðinssyni saman einn og sama lykilinn eða hvort að annar taki við lyklunum fyrir þeirra hönd. Það verður kómísk stund með einum hætti eða öðrum.
Ætli að þeir félagar verði með tvö skrifborð á sömu skrifstofunni og sama bílinn til að keyra sig um? Það verður merkilegt að sjá hvernig þessum ráðuneytum verður splittað.
![]() |
Nýir ráðherrar taka við lyklum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.5.2007 | 15:15
Ný ríkisstjórn tekur við völdum á Bessastöðum

Sjö nýjir ráðherrar taka nú við embætti; Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, Kristján L. Möller, samgönguráðherra, Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra. Fyrir eru í stjórn sem fyrr; Geir H. Haarde, forsætisráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, og Einar Kristinn Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Það er kaldhæðnislegt að margra mati að fráfarandi ríkisstjórn og makar þeirra borðuðu bleikju í hádeginu í boði forseta Íslands. Sumir álitsgjafar hafa nefnt ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar bleikjuna með kómískum og skemmtilegum hætti. Það verða viðbrigði fyrir framsóknarmenn að yfirgefa ríkisstjórnina væntanlega. Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði reyndar brosandi við fjölmiðlamenn er hann kom til ríkisráðsfundar fyrir hádegið að honum liði nú sem hann væri jafn frjáls og efnilegur hestur án hnakks og beislis og gæti skeiðað um með eigin blæ.
Nú taka nýjir ráðherrar við lyklavöldum í ráðuneytum sínum úr hendi forvera sinna. Ég óska nýrri stjórn velfarnaðar og vona að henni farnist vel. Þetta er sterk stjórn með mikinn og traustan stuðning, gott umboð. Það verður vel fylgst með verkum hennar og hvernig hún setur sín mál fram. Ef marka má stjórnarsáttmálann má eiga von á nýjum og ferskum tímum í íslenskum stjórnmálum með þessum ríkisstjórnarskiptum.
![]() |
Ný ríkisstjórn tekur við völdum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.5.2007 | 13:14
Pólitískri þátttöku lýkur
Ég vil þakka öllum þeim sem ég hef unnið með í áralöngu virku stjórnmálastarfi fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir gott samstarf og góð kynni í gegnum árin.
24.5.2007 | 12:02
Tekur Jóhanna við af Sturlu sem þingforseti?

Jóhanna, sem er starfsaldursforseti Alþingis, myndi með því enda sinn pólitíska feril sem forseti Alþingis, en litlar líkur eru á því að hún gefi kost á sér í næstu alþingiskosningum, en hún verður orðin 69 ára gömul árið 2011. Það er eflaust mikilvægt fyrir Jóhönnu að komast aftur í sitt gamla ráðuneyti, en henni er falið að hefja vinnu að uppstokkun mála á því verksviði, og enda sinn feril með ráðherrasetu aftur.
Það er ekki fjarri lagi að spurning vakni hvað verði um Sturlu Böðvarsson árið 2009. Heldur er það nú ólíklegt að hann verði þá óbreyttur þingmaður og ekki ósennilegt að hann yfirgefi þá stjórnmálin.
Fari svo mun Einar Kristinn Guðfinnsson þá taka við leiðtogahlutverkinu í kjördæminu og Herdís Þórðardóttir, mágkona Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, verða nýr þingmaður Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu.
![]() |
Sturla verður þingforseti í tvö ár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.5.2007 | 11:35
Síðasti ríkisráðsfundur fráfarandi ríkisstjórnar

Á ríkisráðsfundi kl. 14:00 í dag tekur ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar við völdum. Það verður mikil uppstokkun samhliða því. Fimm einstaklingar sem aldrei hafa gegnt ráðherraembætti taka við í ráðuneytum sínum í dag. Samfylkingin, sem í sjö ára sögu sinni, hefur aldrei tekið þátt í ríkisstjórnarsamstarfi skráir nýjan part í sögu sína í dag með því að verða hluti af ríkisstjórn. Flokkarnir hafa aðeins átt með sér eitt samstarf áður, en þeir mynduðu meirihluta í bæjarstjórn Akureyrar í júní 2006.
Þó hafa tveir verðandi ráðherrar áður verið ráðherrar á Viðeyjarstjórnarárunum; Jóhanna Sigurðardóttir, sem var félagsmálaráðherra í þrennum ríkisstjórnum 1987-1994, og Össur Skarphéðinsson, sem var umhverfisráðherra seinni hluti Viðeyjarstjórnartímans 1993-1995, en það var mjög umdeilt innan Alþýðuflokksins þegar að hann varð ráðherra þá og var tekinn framyfir Rannveigu Guðmundsdóttur, en hún varð þó ráðherra ári síðar þegar að Guðmundur Árni Stefánsson hrökklaðist úr ríkisstjórn vegna frægra hneykslismála. Ennfremur voru deilur þegar að Össur var tekinn framyfir Rannveigu sem þingflokksformaður.
Það eru þáttaskil hjá Framsóknarflokknum í dag. Jón Sigurðsson, Guðni Ágústsson, Valgerður Sverrisdóttir, Siv Friðleifsdóttir, Jónína Bjartmarz og Magnús Stefánsson láta nú af ráðherraembætti. Jón og Jónína yfirgefa stjórnmálin samhliða þessu, en Jón sagði af sér formennsku í Framsóknarflokknum í gær og Jónína náði ekki kjöri í kosningum frekar en Jón. Guðni Ágústsson hefur verið ráðherra lengst framsóknarmanna nú, frá vorinu 1999, og Valgerður Sverrisdóttir hefur verið ráðherra frá því á gamlársdag 1999. Siv Friðleifsdóttir var ráðherra 1999-2004 og frá 2006. Sturla Böðvarsson yfirgefur nú ríkisstjórn eftir átta ára setu, eins og Guðni.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Björgvin G. Sigurðsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Kristján L. Möller verða ráðherrar í fyrsta skipti í dag. Þau eru misreynd í stjórnmálum auðvitað. Ingibjörg Sólrún hefur auðvitað lengsta pólitíska reynslu af þeim eftir að hafa verið borgarfulltrúi árum saman, verið borgarstjóri í Reykjavík 1994-2003 og alþingismaður Kvennalista 1991-1994. Hún stóð reyndar nærri ráðherraembætti vorið 1991 en rætt var um tíma það vor að Kvennalistinn styrkti vinstristjórnina, en Ingibjörg Sólrún leiddi þá viðræður fyrir hönd Kvennalistans. Svo fór ekki - Jón Baldvin og Davíð héldu til Viðeyjar.
Það er vissulega merkileg tilhugsun að löngu skeiði ríkisstjórna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forystu Davíðs, Halldórs og Geirs sé nú lokið. Þar felast stærstu þáttaskil dagsins í dag. Þegar að saga þeirra stjórna verður gerð upp í sögubókum framtíðarinnar mun hennar eflaust verða minnst fyrir góðan árangur og nokkuð farsæla forystu. Margt hefur áunnist og breytingar á þjóðfélaginu verið miklar á þessum tíma.
![]() |
Síðasti ríkisráðsfundur ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.5.2007 | 00:46
"Fagra álver" - var hlutur Samfylkingarinnar rýr?

Margir tala um að Samfylkingin hafi samið af sér í viðræðum við Sjálfstæðisflokkinn. Það tel ég ekki vera. Þetta er málefnagrunnur flokkanna og báðir þurftu að gefa sitt eftir og leita leiða til að samræma áherslur. Heilt yfir tel ég að báðir flokkar geti verið stoltir af þessu samstarfi. Væntanleg stjórnarandstaða frá og með morgundeginum bendir eins og klassískt er af fólki í slíkri stöðu á að stjórnarflokkar næstu ára séu að svíkja kjósendur sína. Það virðist þó meira falla í áttina til Samfylkingarinnar.
Það virðist vera mikið talað um að hér hafi verið mynduð Blair-Thatcherísk ríkisstjórn. Held að Steingrímur J. hafi sagt það í einhverju viðtalinu í dag. Heilt yfir er ég mjög sáttur við flest í þessum efnum og tel þetta vera stjórnarsáttmála sem byggir á nýjum tækifærum og horfir til nýrra tíma. Þess var þörf. Mjög mikilvægur áfangi sem næst. Þetta er líka samstarf öflugra afla, sem hafa afgerandi stuðning víða í samfélaginu. Þetta er stóra samsteypa fjöldans, að því leyti tel ég að hún taki við á mikilli bylgju stuðnings.
En nú reynir á nýja stjórn. Veit ekki hvort að hún fær hveitibrauðsdagana 100 alla til að sanna sig. Margir vilja uppstokkun strax og þess sjást merki fljótt að nýjir tímar eru komnir. Það verður að ráðast hvernig flokkunum gengur að vinna saman. Heilt yfir finnst mér merkilegt að heyra sögurnar frá stjórnarandstöðunni verðandi tala um þennan málefnagrunn og skil vel gremju vinstri grænna.
Það er mikið talað þar um að Samfylkingin hafi lympast niður. Veit ekki hvort svo sé. Væri áhugavert að heyra skoðanir þeirra sem lesa.
![]() |
Steingrímur: Samfylking virðist hafa gefist upp á umhverfismálunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.5.2007 | 23:47
Hlutur kvenna í ráðherravali Sjálfstæðisflokksins

Staða mála í þessu ráðherravali var með þeim hætti að aðeins Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, var örugg um ráðherrastól af hálfu sjálfstæðiskvenna. Það var þröng staða utan um það. Við blasir að Geir tók þann kostinn að halda hópnum svo til óbreyttum. Staða Guðlaugs Þórs var mjög sterk, enda hefur hann lengi verið í stjórnmálastarfi og unnið lengi í innra starfinu áður en hann varð kjörinn fulltrúi í borgarstjórn og á Alþingi. Auk þess stóð Kristján Þór Júlíusson nærri ráðherrastól, en það er okkur sjálfstæðismönnum á Akureyri vægast sagt verulegt áfall að hann varð ekki ráðherra.
Þegar að velja þarf sex ráðherra í 25 manna þingflokki þar sem fjöldi öflugs og góðs fólks er til staðar vandast valið. Þegar fyrir valið voru þrjú ráðherraefni örugg; Geir H. Haarde, Þorgerður Katrín og Árni M. Mathiesen, eftir glæsilegan kosningasigur í nýju kjördæmi sínu. Þar fyrir utan var greinilega vilji þingflokks að standa vörð um stöðu Björns Bjarnasonar. Það var mikill persónulegur sigur fyrir Björn að halda sínum stól. Einar Kristinn varð ráðherra á miðju síðasta tímabili, þegar að Davíð hætti í pólitík og naut þess í valinu að hafa verið nýlega kominn inn og fær tækifæri til að halda áfram. Sturlu er skipt út eftir átta ára ráðherraferil, sem hafði stefnt í lengi.
Þetta ráðherraval er eflaust áfall fyrir sjálfstæðiskonur. Þær vildu að minnsta kosti eina konu í viðbót. Það er skiljanlegt, enda eru sjálfstæðiskonur í þingflokknum mjög glæsilegir fulltrúar flokksins og þær eru nokkrar þar sem ég vildi helst sjá í forystusess. Það er mjög sárt að ekki sé hægt að velja þær til þess hlutverks. Á síðasta tímabili höfðum við tvo kvenráðherra hluta kjörtímabils. Það var okkur verulegt áfall að missa Sigríði Önnu úr ráðherrastól þegar að Framsóknarflokkurinn gafst upp á forsætisráðuneytinu og við tókum þá ákvörðun að halda til ráðuneytaskiptingar fyrir innkomu Siggu. Það var sjónarsviptir af henni úr sínum verkum.
En þetta er staða mála. Abba verður áfram þingflokksformaður. Hún var valin þingflokksformaður fyrir tveim árum vegna mikillar þingreynslu sinnar og öflugs stuðnings hópsins. Abba hefur verið þingmaður okkar um árabil og við erum stolt af því að hún heldur sínum sess, enda átti hún það skilið. Áfall okkar var mikið yfir því að fá ekki ráðherrastól, enda erum við eina kjördæmi flokksins þar sem enginn ráðherrastóll er. Það er mjög dapurlegt að Kristján Þór hafi ekki notið tveggja áratuga sveitarstjórnarstarfa sinna og greinilegt að þau störf eru ekki metin neins sem grunnur í starfið í þingflokknum.
Staða mála er eins og hún er. Eins og fyrr segir hefði verið æskilegra að fleiri konur yrðu í forystusveit með ráðherrastörfum. Þetta er ekki góð niðurstaða enda eru margar hæfileikaríkar konur í þingflokknum sem áttu innistæðu fyrir því að taka sæti í ríkisstjórn.
23.5.2007 | 22:55
Tími Jóhönnu kemur... eftir þrettán ára bið

Jóhanna Sigurðardóttir hefur nú setið lengst allra þingmanna á Alþingi Íslendinga. Hún stýrir í næstu viku fyrsta þingfundi nýkjörins Alþingis í því ljósi. Jóhanna er mjög reynslumikill forystumaður innan þings og verið litríkur stjórnmálamaður alla tíð. Hún hefur setið samfleytt á þingi frá árinu 1978, árið eftir að ég fæddist, og verið alla tíð mjög áberandi í þingstörfum og lagt sig alla í verkefni stjórnmálanna og verið hugsjónapólitíkus. Það er alltaf þörf á þeim. Persónulega fagna ég endurkomu hennar og tel hana réttan einstakling á réttum stað í nýju velferðarráðuneyti.
Ég var svona að fara yfir það í huganum hvenær að mér fannst Jóhanna ná hápunkti sínum sem stjórnmálamaður, væntanlega fram að þessari endurkomu í ríkisstjórn. Það var sennilega þegar að henni tókst að sigra prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík í janúar 1999. Einhvernveginn tókst henni það sem allir töldu ómögulegt eftir eiginlega misheppnaða stofnun Þjóðvaka og hið skaðlega tap fyrir Jóni Baldvin í formannskjöri Alþýðuflokksins árið 1994 að byggja sig upp að nýju sem forystukonu á vinstrivængnum. Með því tókst henni að sópa vinstrinu að baki sér. Hún gekk að nýju í Alþýðuflokkinn í aðdraganda prófkjörsins og lagði hann að fótum sér með alveg stórglæsilegum hætti. Það var hennar toppur. Það er mjög einfalt mál.
Ég tel að það sé Samfylkingunni mjög heilladrjúgt að fela Jóhönnu ráðherraembætti aftur. Hún er mikil kjarnakona, reynd og öflug kona með farsælan pólitískan bakgrunn. Hún hefur aldrei verið nein hornkona á sínum ferli, heldur alltaf þorað að tala af krafti og verið fjarri því hikandi í sínum málefnum. Hún hefur alltaf verið talsmaður þeirra sem minna mega sín og verið öflug í sinni pólitík. Það verður gaman að sjá hana aftur í ríkisstjórn og miðpunkti þeirra verka sem hún eflaust metur mest.
![]() |
Jóhanna snýr aftur í félagsmálaráðuneytið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.5.2007 | 21:56
Sturla Böðvarsson missir ráðherrastólinn

Í seinni tíð hefur embætti forseta Alþingis öðlast meiri virðingarsess. Það hefur verið metið sem fullt ráðherraígildi. Forseti þingsins hefur einkabílstjóra og skrifstofu í þinghúsinu auðvitað og starfslið á sínum vegum þar með. Hann hefur semsagt öll þægindi og hlýtur sama virðingarsess og ef ráðherra væri. Þetta hefur samt alla tíð verið metið sem stöðulækkun. Það var Ólafi G. Einarssyni áfall að fá þann dóm að færast þangað árið 1995, það var líka áfall fyrir Halldór Blöndal að færast þangað, eftir sögulegan kosningasigur í Norðurlandskjördæmi eystra hinu forna, árið 1999 og líka fyrir Sólveigu Pétursdóttur fyrir fjórum árum.
Sturla má að mörgu leyti vel við una. Hann hefur fengið mörg tækifæri á stjórnmálaferli sínum og verið samgönguráðherra mjög lengi. Hann hefur líka unnið vel fyrir sitt fólk en verið mjög umdeildur utan þess svæðis. Nú verður það hlutverk hans að feta í fótspor fyrrnefndra ráðherra og yfirgefa ráðuneyti sitt og halda á vit starfsins í þinginu. Það felst í embætti þingforsetans að vera sáttasemjari. Forsetinn vinnur með þingflokksformönnum að starfi þingsins, hann þarf að vera maður sátta í erfiðum deilum og reyna að vera sameiginlegur fulltrúi allra afla eftir fremsta megni. Það verður athyglisvert að sjá Sturlu í því hlutverki.
Það hlýtur að vera áfall fyrir sjálfstæðismenn á Vesturlandi að missa ráðherra. En þeir eiga þó í kjördæminu ennþá einn ráðherra og það verður heldur betur þungavigtarráðherra, enda fær hann í sinn hlut sameinuð ráðuneyti sjávarútvegs og landbúnaðar. Einar Kristinn Guðfinnsson styrkist mjög pólitískt við að halda ráðherrastól, en hann kom inn í stjórnina þegar að Davíð Oddsson lét af ráðherraembætti haustið 2005.
Ég tel að flestir sjálfstæðismenn hafi átt von á því að Sturla yrði sá ráðherra sem myndi færast yfir í þinghúsið og taka við verkefnum þar. Hann hefur verið áberandi í sínum ráðherrastörfum við að t.d. klippa á borða og sprengja höft í gangnaframkvæmdum en fær nú annað og lágstemmdara hlutverk í steingráu húsi við að vera verkstjóri þingsins. Það er greinilega hlutverk sem hann tekur við með súrsætu brosi.
![]() |
Sturla: Ósáttur við að hverfa úr samgönguráðuneytinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.5.2007 | 18:40
Verður Valgerður varaformaður Framsóknarflokks?

Það er því ljóst að Valgerður er í raun að leiða flokkinn í gegnum þessar kosningar. Fyrir nokkrum vikum töldu flestir að framundan væri auðmýkjandi ósigur fyrir Valgerði, sem vann afgerandi sigur hér í kosningunum 2003. Lengst af töldu flestir að Framsókn fengi aðeins tvo menn kjörna. Það er mikill varnarsigur fyrir Framsókn í Norðausturkjördæmi að hafa náð að tryggja kjör Höskuldar Þórhallssonar á Alþingi.
Valgerður er mikil seiglukona, dugleg og beitt. Það er ekki undarlegt að hún hafi sterka stöðu og ég tel allar líkur á að hún hljóti varaformennskuna og sennilega án baráttu. Staða hennar er það sterk að hún á það skilið að hljóta öflugan forystusess að mínu mati.
Valgerður varð fyrsta konan á utanríkisráðherrastóli. Margir töldu að fjarvera hennar sem utanríkisráðherra myndi koma niður á henni í stóru og umfangsmiklu landsbyggðarkjördæmi. Það varð ekki. Mér fannst reyndar með ólíkindum hversu öflug Valgerður var þrátt fyrir utanríkisráðherrastólinn og mikil ferðalög um víða veröld.
Fannst hún alltaf vera hér og sama hvaða mannfögnuður eða atburður að alltaf var Valgerður þar viðstödd. Ótrúlega dugleg og öflug, enda uppskar hún eftir því hér. Hún var eini leiðtogi Framsóknar sem gat brosað í þessu sögulega afhroði sem flokkurinn varð fyrir í kosningunum þann 12. maí og mun uppskera eftir því þrátt fyrir valdamissinn.
![]() |
Stingur upp á Valgerði í embætti varaformanns |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |