Glæsilegur sigur Ólafs Ragnars

Ólafur Ragnar og Dorrit Moussaieff
Ólafur Ragnar Grímsson hefur unnið glæsilegan og traustan sigur í forsetakosningunum. Sigurinn er sögulegur. Ólafur Ragnar verður fyrsti forsetinn í lýðveldissögunni sem situr fimmta kjörtímabilið. Þetta er mikill persónulegur sigur Ólafs Ragnars, einkum vegna þess að honum var sótt af mikilli hörku. Framan af stefndi í að atlagan að Ólafi Ragnari heppnaðist, en með vel skipulagðri og markvissri kosningabaráttu sneri forsetinn vörn í sókn og hlaut meirihlutastuðning í kosningunni.

Sama hversu vel Þóra Arnórsdóttir og stuðningsmenn reyna að bera sig duldist engum hversu mikið var á sig lagt í baráttunni. Á bakvið það framboð voru öfl sem vildu hefndir vegna þess að forsetinn spurði þjóðina í Icesave-málinu og fór eigin leiðir þegar vinstrimenn lögðu sig undir og töpuðu stórt í miklu átakamáli.

Ég neita því ekki að það eru vonbrigði að kjörsókn var ekki betri. Hvort þar réði að botninn fór úr kosningabaráttu Þóru Arnórsdóttur þegar leið á vikuna og fólk var visst um traustan sigur forsetans er erfitt um að spá. Kosningarétturinn er mikilvægasta lýðræðislega verkfæri okkar og hann verðum við alltaf að nýta.

En úrslitin eru ljós. Það er alveg sama hvernig við reynum að snúa hlutum á hvolf, þeir verða alltaf eins. Sigur forsetans er staðreynd og hann hefur stuðning eftir þessa atlögu.

Ég óska Ólafi Ragnari og Dorrit Moussaieff innilega til hamingju með kjörið. Það leynist engum eftir þessa kosningu að þau eiga stuðning og virðingu stórs hluta þjóðarinnar.


mbl.is Ólafur Ragnar ótvíræður sigurvegari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfsmark á Stöð 2

Fréttastofa Stöðvar 2 fór langleiðina með að stimpla sig út sem fagmannleg og traust fréttastofa með miklu klúðri í skipulagningu og umgjörð forsetakappræðna í Hörpu. Lágmark er að kjósendum sé gefið tækifæri til að hlusta á alla frambjóðendur tjá sig saman um kosningamálin, sérstaklega í fyrstu kappræðum kosningabaráttunnar, svo hægt sé að bera þá saman, auk þess sem fagmennska einkenni kappræðurnar. Fréttastofa Stöðvar 2 klikkaði algjörlega á þessu.

Andrea Ólafsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson og Hannes Bjarnason gerðu vel og rétt í því að yfirgefa samkunduna strax í upphafi þegar ljóst var að tveir og tveir frambjóðendur ættu að tala saman og enda að lokum á þeim tveimur sem mests fylgis njóta í skoðanakönnunum. Mér finnst skoðanakannanir ekki eiga að ráða því hverjir tjái sig og hvernig í kappræðum. Ræða á við alla þá sem hafa safnað fjölda meðmælenda og eru í kjöri til forsetaembættis.

Til að kóróna allt klúðrið var svo gert hlé á kappræðum og sýnt innslag frá Spaugstofunni. Kannski átti þetta að vera fyndið, en var alveg gríðarlega taktlaust og slappt.

Þarna klikkaði Stöð 2 á mikilvægum grundvallaratriðum í fréttamennsku. Þetta var fréttastofunni til skammar og var eitt risastórt sjálfsmark.

mbl.is Yfirgáfu kappræður í Hörpu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð staða Ólafs Ragnars í kosningabaráttunni

Mikið forskot Ólafs Ragnars Grímssonar í skoðanakönnunum fyrir forsetakosningar í lok þessa mánaðar kemur ekki að óvörum. Ég hef haft það á tilfinningunni nokkurn tíma að Ólafur Ragnar yrði endurkjörinn, sú tilfinning hefur styrkst eftir að hann hóf formlega kosningabaráttu sína. Eins og staðan er núna stefnir flest í að stóra spurningin á kjördag verði hvort Ólafur Ragnar hljóti hreinan meirihluta atkvæða í kosningabaráttu við fimm frambjóðendur.

Yfirburðir Ólafs Ragnars fara ekki fram hjá neinum þeim sem fylgjast með atburðarásinni. Ólafur Ragnar kann sitt fag, hefur farið í gegnum margar kosningar og hefur reynsluna með sér, auk þess sem það kemur honum mjög til góða að tala gegn aðild að Evrópusambandinu og minna á forystu sína í Icesave-málinu, þegar hann sneri því máli við, með stuðningi þjóðarinnar.

Þóra Arnórsdóttir hafði meðbyr framan af en hefur misst nokkuð fylgi eftir því sem hefur liðið nær kjördegi. Held að mörgum hafi mislíkað mjög að lesa stöðluð og ópersónuleg svör hennar á beinni línu DV, þegar hún svaraði spurningum án þess að svara þeim, og hljómaði frasaleg og kuldaleg. Hún hefur haldið áfram á sömu braut, virkar eins og leikari án handrits.

Þetta kom mér aðeins á óvart þar sem ég taldi að Þóra myndi reyna að vera hlýleg, gera sér far um að svara spurningum hreint út og vera afdráttarlaus. Vandræðalegt hefur verið að sjá hana reyna að neita fyrir tengsl sín við Samfylkinguna og öflin sem tengdust henni. Þessi tjáning styrkir ekki stöðu hennar.

Svo er einn kapítuli hvernig stuðningsmannasveit hennar hefur farið hamförum í árásum á forsetann vegna þess að hann hóf kosningabaráttu af krafti og tjáði sig hispurslaust. Kosningabarátta er aldrei teboð, allra síst núna á örlagatímum þegar við þurfum forseta sem getur verið mótvægi við rúið trausti Alþingi, sem hefur glatað virðingu og trausti þjóðarinnar. Hver treystir Alþingi núna?

Styrkist æ meira í afstöðu minni að við eigum að tryggja Ólafi Ragnari afgerandi og traust umboð í þessum forsetakosningum. Finnst aðrir valkostir í þessum kosningum ekki beysnir og í sjálfu sér rétt að forsetinn njóti þess hversu vel hann hélt á Icesave-málinu og leyfði þjóðinni að taka af skarið. Lýðræðispostular hljóta að fagna því beina lýðræði sem forsetinn hefur fært þjóðinni.

mbl.is Ólafur með afgerandi forystu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsetakjör

Ég hef tekið þá ákvörðun að kjósa Ólaf Ragnar Grímsson í forsetakosningunum 30. júní nk. Fyrir því eru margar ástæður. Mestu skiptir að ég tel hann frambærilegasta frambjóðandann í kjöri að þessu sinni og hann hefur með verkum sínum á þessu kjörtímabili staðið vörð um hagsmuni þjóðarinnar, þegar Alþingi og ríkisstjórn brugðust landsmönnum, sérstaklega í Icesave-málinu.

Ólafur Ragnar talaði máli Íslands á örlagastundu, eftir hrunið, þegar aðrir forystumenn gáfu eftir, sumir þeirra til að þóknast hinni vanhugsuðu aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Sú þögn var stjórnmálaforystu landsins til skammar. Þegar þingmenn og ráðherrar brugðust stóð forsetinn í lappirnar. Sú framganga er virðingarverð og ég ætla að launa Ólafi það með stuðningi mínum.

Hinsvegar neita ég því ekki að oft áður hef ég gagnrýnt Ólaf Ragnar, líka hrósað honum þegar mér hefur fundist það rétt. Við forsetakjör 1996 dáðist ég að framgöngu Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur. Allir muna hversu mjög hún var stjarna þeirrar kosningabaráttu. Ekki síður hefur Dorrit Moussaieff staðið forsetavaktina við hlið Ólafs með glæsibrag eftir fráfall Guðrúnar Katrínar.

Þessar forsetakosningar litast vissulega af því að Alþingi Íslendinga er rúið trausti. Óvinsæl vinstristjórn hefur staðið sig illa að öllu leyti, fyrst og fremst brást í því að verja Ísland þegar þess þurfti. Icesave-málið opinberaði mjög átakalínur og sýndu hverjir stóðu sig þegar á þurfti að halda.

Ólafur Ragnar fór í fjölmiðla á alþjóðavettvangi þegar vantaði rödd Íslands í umræðuna, þegar stjórnmálamenn voru þess ekki megnugir. Sú framganga skipti sköpum. Ákvörðun Ólafs Ragnars að fela þjóðinni valdið í Icesave var rétt og sumir geta ekki fyrirgefið honum að hafa spurt þjóðina.

Mér finnst rétt að forsetinn hljóti endurkjör, stuðning þjóðarinnar, á þessum tímapunkti.

Pólitískur skrípaleikur í landsdómi

Pólitísk réttarhöld eru hafin í Landsdómi. Yfirbragðið vissulega mjög sérstakt og rammpólitískt - einn maður gerður að blóraböggli, látinn standa reikningsskil af meintum brotum þegar alþjóðleg efnahagsleg krísa gekk yfir allan heiminn. Á meðan sleppa formaður hins stjórnarflokksins á tíma hrunsins og viðskiptaráðherrann við þetta uppgjör - þeim var komið í skjól af flokksfélögum sínum á þingi.

Þetta er mjög vandræðalegt ferli, undarlegt "réttlæti" og skakkt uppgjör sem þarna er í spilunum. Efast stórlega um að þetta líti vel út í sögubókum framtíðar. Allir veikleikar landsdóms opinberast í þessu ferli. Vonandi leiðir þessi skrípaleikur til þess að landsdómur verði stokkaður upp, helst lagður niður og tekið á augljósum vanköntum sem fram hafa komið á þessari vegferð, allt frá þingferli til loka.

Eftir stendur í yfirferð málsins að rétt var haldið á málum á örlagastundu. Mun verr hefði getað farið. Undir forystu þeirra sem réðu málum var tekið skynsamlega á málum. Neyðarlögin og gjaldþrot bankanna var rétta leiðin úr þessum ógöngum. Auðvitað var skaði Íslands nokkur, en bæði tímasetning hrunsins reyndist heilladrjúg og aðferðin til lausnar krísunnar var sú rétta.

Undarlegast við þennan skrípaleik allan, eins skrautlegur og hann annars er að öllu leyti, er skortur á miðlun upplýsinga til fjölmiðla, og svo þaðan til landsmanna allra. Aðeins er boðið upp á twitter-skrif úr réttarsal. Engu er líkara en réttarhöldin séu haldin um miðja 20. öld og aðeins hægt að skrifa fréttir í dagblöð morgundagsins.

Fornaldarbragurinn á landsdómi er algjör. Skortur á miðlun upplýsinga, staðsetning pólitísku réttarhaldanna og yfirbragðið frá a-ö er til skammar.

mbl.is Neyðarlögin urðu til bjargar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Söguleg ákvörðun Ólafs Ragnars

Ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar um að sækjast eftir forsetaembættinu fimmta kjörtímabilið er söguleg, því enginn forseti hefur setið lengur á Bessastöðum en 16 ár. Auk þess vekur mikla athygli að Ólafur, sem verður sjötugur í maí 2013, opnar opinskátt á þann möguleika að hann víki af forsetastóli á næsta kjörtímabili, en því mun ekki ljúka fyrr en í júlílok 2016.

Með þessu höfðar Ólafur Ragnar greinilega til þess að hann sé traustur valkostur í forsetaembætti meðan Alþingi, sem er rúið trausti og virðingu, klárar sitt kjörtímabil og spilin stokkuð upp í landsmálum. Held að þessi punktur ráði mestu um bæði ákvörðun Ólafs að fara fram og hann hafi fengið fjölda áskorana og stuðning í skoðanakönnunum.

Þegar á reyndi í Icesave-málinu og rúin trausti vinstristjórn hlustaði ekki á þjóðina var Ólafur Ragnar sá sem stóð í lappirnar og varði hagsmuni Íslands á alþjóðavettvangi. Þetta er óumdeilt að mínu mati. Margir þeirra sem höfðu áður gagnrýnt Ólaf harkalega og almennir kjósendur virtu það framlag hans.

Í ljósi þess er hann fulltrúi stöðugleika í pólitískri upplausn. Við þær aðstæður þarf öflugan forseta. Á þessum forsendum fer Ólafur Ragnar fram og segist tilbúinn að sinna verkum á forsetastóli meðan hægist um og stöðugleiki færist yfir. Auk þess opnar hann á að víkja fyrr en síðar.

Þetta er söguleg ákvörðun að öllu leyti, heiðarleg yfirlýsing um vilja til verka takmarkaðan tíma. Ólafur Ragnar kann öll þessi trix og hefur vissulega nokkuð til síns máls. Hver hefur trú og traust á því þingi sem nú situr? Veikleiki Alþingis styrkir forsetann og festir hann í sessi.


mbl.is Ólafur Ragnar gefur kost á sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dapurleg málalok á Alþingi

Alþingi hafði gullið tækifæri til að breyta rétt í landsdómsmálinu gegn Geir H. Haarde, stöðva þá vitleysu sem þar stendur. Pólitískir klækir á vinstrivængnum komu í veg fyrir það. Áður höfðu þingmenn Samfylkingarinnar sýnt pólitíkina í málinu með því að koma sínu fólki í þessu ferli í skjól. Með því að Geir væri einn sendur fyrir landsdóm kom í ljós tilgangur málsins.

Málið var svo í meðförum þingsins nú sett í þann farveg að um líf lánlausrar vinstristjórnar væri að tefla. Þar var pólitíkin í þessu máli staðfest. Réttarhöldin verða pólitísk aðför að Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra. Allt málið ber líka þann blæ og hefur gert frá upphafi. Svosem ágætt að fá það staðfest endanlega.

Málsmeðferð nú staðfestir hversu rúið trausti Alþingi er. Þar er ekki tekin málefnaleg afstaða til málsins beint, heldur beitt klækjum og brögðum til að koma í veg fyrir málefnalega afgreiðslu málsins. Það er lítil reisn yfir svona vinnubrögðum og sýnir pólitíkina í ferlinu frá upphafi.

En eftir stendur: einn greiddi ekki atkvæði, tveir voru fjarverandi. Þeir eiga allir sameiginlegt að vera þingmenn Samfylkingar - það er svolítið skondið hvernig þessir menn gufuðu upp og létu sig hverfa. Minnir eilítið á söguna um menn og mýs. En það er önnur saga.

Málið heldur nú áfram. Verði Geir Haarde sýknaður í landsdómi verður að líta á afgreiðslu þingmanna nú og í september 2010 og láta þá standa fyrir máli sínu. Er það ekki heiðarlegt?


mbl.is Tillögu Bjarna vísað frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beðið eftir forseta

Frá stofnun lýðveldis árið 1944 hefur embætti forseta Íslands verið í mótun. Þeir fimm einstaklingar sem hafa gegnt embætti forseta og setið á Bessastöðum hafa hver með sínum hætti sett svip á embættið. Þeir hafa þó leikið misjafnlega stórt hlutverk í stjórnmálum – jafnan bakvið tjöldin við stjórnarmyndanir og þegar á hefur reynt í stjórnleysi. Aðeins hefur þó ein utanþingsstjórn setið, við sjálfa lýðveldisstofnunina, auk þess var hún í kortunum tvisvar á áttunda áratugnum.

Enginn forsetanna hefur þó gengið lengra, einbeitt og ákveðið, stundum undir rós, eins og Ólafur Ragnar Grímsson, sem nú hefur setið fjögur kjörtímabil á Bessastöðum. Nær allan starfstíma ríkisstjórna Davíðs Oddssonar sat hann á hliðarlínunni. Deilur um fjölmiðlamálið 2004 ýfðu upp gömul sár milli Ólafs og hægrimanna. Vann forsetinn nokkurn sigur, hætt var við lagasetningu og málinu komið í annan farveg. Hefndi forsetinn þar fyrir vinnubrögð í heimastjórnarmálinu og virkjaði umdeilt vald forseta.

Fjórða kjörtímabilið varð Ólafi þó framan af erfitt. Hann stóð lemstraður eftir hrunið og daðrið við útrásarvíkinga. Ólafur hélt þó áfram að virkja völd sín þegar veikburða vinstristjórn settist til valda, tók sér í hendur umdeild völd og nýtti sér mælsku og tengsl á alþjóðavettvangi í fjölmiðlum meðan klaufaskapur einkenndi stjórnvöld sem sömdu af sér í lykilmáli. Á þeirri örlagastundu fór hann eigin leiðir og náði aftur frumkvæði fyrir hönd þjóðarinnar. Ólafur endurreisti með því sögulega stöðu sína á forsetastóli og naut virðingar fyrir að láta tryggð við þjóðina ráða för.

Einkum þess vegna hefur nú gerst að raunhæfur möguleiki er á því að Ólafur sitji áfram í embætti, gefi kost á sér fimmta kjörtímabilið og sitji lengst allra forseta. Á þeirri vegferð sinni að hugleiða framboð og framtíð á forsetastóli hefur Ólafi Ragnari enn og aftur tekist að velgja fornum samherjum undir uggum. Þeir hugsa með hryllingi til þess að hann sitji áfram og eiga erfitt með að leyna gremju og vonbrigðum sínum. Í og með skemmtir Ólafur Ragnar sér við að tefja ákvörðun með því að stríða gömlum keppinautum í Alþýðubandalaginu forðum daga, sem nú ráða för í VG, flokki sem virðist á vonarvöl.

Í umræðu um næsta kjörtímabil er ljós sterk staða Ólafs. Erfitt er að fara af stað gegn sitjandi forseta, sárafáir sterkir kandidatar hafa verið nefndir og veik staða stjórnvalda sýnir vanmátt þeirra. Við þeim blasir afhroð í þingkosningum. Beðið er eftir forseta – hann skýri mál sitt betur og taki af skarið. Þrátt fyrir að forseti segist hafa talað skýrt í nýársávarpi er öllum ljóst að hann skildi eftir glufu leynt og ljóst. Hann vildi kanna bakland sitt, stuðning meðal landsmanna og hversu jákvæð eða neikvæð viðbrögð hann fengi.

Ég hef jafnan haft þá skoðun að setja eigi kjörtímabilsmörk á forseta Íslands og tryggja tvær umferðir nái enginn forsetaframbjóðandi hreinum meirihluta. Þegar ég sat í stjórn SUS í gamla daga nutum við þess að tala fyrir því að leggja niður forsetaembættið. Það væri valdalaust og til skrauts. Segja verður eins og er að í forsetatíð Ólafs Ragnars hefur embættið gjörbreyst. Það hefur nú raunveruleg völd, hvort sem andstæðingum eða samherjum Ólafs Ragnars líkar betur eða verr. Líklegt er að sú breyting sé trygg til framtíðar.

Glöggt hefur mátt sjá hversu ákveðið Ólafur Ragnar sækir fram í almennri umræðu í fjölmiðlum. Forðum daga töluðu forsetar undir rós í nýársávarpi. Þeir héldu sér til hlés, héldu varla blaðamannafundi og pössuðu sig upp á að virða stjórnarstefnu valdhafa, halda sér á hliðarlínu. Forsetinn var sameiningartákn, hélt veislur og skálaði við fyrirfólk. Hann var til skrauts. Þessi blær á embættinu hefur gjörbreyst. Nú er forsetinn ákveðinn, hefur sent þinginu gula spjaldið og látið reyna á hvort það hafi stuðning þjóðarinnar.

Fáir tala nú um að leggja embættið niður. Blaðamannafundir núverandi forseta á Bessastöðum, bæði vegna framtíðar á forsetastóli og afstöðu í Icesave, hafa fengið á sig pólitískan blæ. Hann hefur leikið á blaðamenn eins og fimur fiðluleikari - sent stjórnvöldum tóninn og verið afdráttarlaus í tali um menn og málefni, beinlínis ýtt undir það með því að leyfa blaðamönnum að spyrja sig spurninga sem engum hefði dottið í hug að spyrja forseta fyrri tíðar.

En 16 ár er langur tími. Brátt reynir á hvort biðin eftir forsetanum færi okkur sögulegt fimmta kjörtímabil Ólafs Ragnars eða kosningu um eftirmann hans. Sú kosning, hvort sem hún fer fram á þessu ári eða næsta, mun snúast um áherslur í embættinu. Þar verður talað um stjórnmál og hversu áberandi húsbóndinn á Bessastöðum eigi að vera í umræðu um menn og málefni.

Þetta er vissulega hin mikla sögulega arfleifð Ólafs Ragnars. Embættið er ekki lengur ígildi farandsendiherra. Þar situr valdsmaður sem hefur örlög þjóðar og stjórnmálamanna á sínu færi. Synjunarvaldið er virkt – vald forseta til að setja mark sitt á umdeilt mál er afdráttarlaust til staðar. Því neitar enginn – það var reynt árið 2004 í fjölmiðlamálinu en virkar máttlaust píp núna.

Pólitískur refur á Bessastöðum hefur öll spil á hendi. Með fimni og útsjónarsemi hefur hann náð stöðu þess sem hefur stuðning þjóðarinnar meðan þingið er rúið trausti. Hann hefur völdin sem mestu skipta, hefur fest sig í sessi og nýtur þess að óánægja landsmanna með ráðandi öfl á þingi er algjör. Hann hefur spilað skákina mjög fimlega.

En það er spurning hvort hann nær að spila þessa skák til enda. Biðin eftir forseta er enn óljós. Nú reynir á hvernig endataflið er, hvort hann spilar skákina rétt eða missir hana í tapaða stöðu. Okkur hægrimönnum leiðist ekki þessi skák, einkum þegar vinstrimönnum gremst hún eins augljóslega og raun ber vitni.


Að loknum landsfundi Sjálfstæðisflokksins

Að loknum 40. landsfundi Sjálfstæðisflokksins er stóra niðurstaðan að Sjálfstæðisflokkurinn hefur endurheimt frumkvæðið í íslenskri stjórnmálabaráttu; grasrót flokksins var mjög virk á fundinum, ánægja og kraftur einkenndi fundinn að öllu leyti, tekist var á í bróðerni um menn og málefni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur að sönnu endurheimt stöðu sína sem stærsti og öflugasti flokkur landsins, eftir að hafa misst taktinn í kringum hrunið og þurft að endurbyggja sig að miklu leyti.

Bjarni Benediktsson og Hanna Birna Kristjánsdóttir tókust á um formennsku, af miklum sóma. Auðvitað var tekist á undir yfirborðinu, eins og ávallt er kosningar fóru fram. En átökin voru ekki mikil út fyrir það. Auðvitað voru menn að smala fyrir sína kandidata og farið í alvöru slag. En mér fannst það vera gert í bróðerni og heiðarlega. Niðurstaðan; sigur fyrir sitjandi formann einkennist að því að menn vildu ekki sparka í formann í hálfkláruðu verki og vildu gefa honum annan séns.

Ég tók þá afstöðu að styðja Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Ég vildi breytingar, nýja ásýnd og aðra umgjörð. Mér fannst hún rétti valkosturinn fyrir flokkinn nú á þessum tímapunkti. Hún er auðvitað frábær stjórnmálamaður, hafði mikið fram að færa. Öflug og einbeitt, frábær ræðumaður og með þá leiðtogahæfileika sem ég vil sjá í forystu Sjálfstæðisflokksins og íslenskra stjórnmála. Hún hefur leitt borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins með sóma. Mér fannst hún vera kjörin til forystu.

Í því var ekki beint vantraust af minni hálfu á Bjarna Benediktsson. Hann tók við flokknum í rústum; hann var lemstraður, sár og sundraður eftir hrunið og langa valdasetu. Sjálfstæðisflokknum veitti ekki af fríi frá stjórn landsins. Flokkurinn varð að endurbyggja sig til næstu verkefna. Sú vinna hefur gengið sumpart vel. Í öðrum málum hefur forysta flokksins verið sjálfri sér verst og tekið rangar ákvarðanir. Icesave-málið er kjörið dæmi þess. Enn er forystan sár og mædd í umræðu um það.

Þegar á hólminn kom réð afstöðu minni að mér fannst Hanna Birna Kristjánsdóttir sá frambjóðandinn sem gæti betur fært flokkinn farsællega til nýrra verkefna, höfðað til fleiri óákveðinna kjósenda. Hún hafði marga góða kosti sem nýttust flokknum á þessum tímapunkti. En auðvitað var þessi kosning lúxusvandamál. Það er lúxus að geta kosið á milli manna. Flokksmenn höfðu valið og gátu markað framtíðina með atkvæði sínu á landsfundi.

Að lokum vann sú afstaða að vera íhaldssöm, treysta sitjandi formanni sem aldrei hefur verið forsætisráðherra og hefur leitt mjög vanþakklátt og erfitt verkefni. Í sjálfu sér er sú afstaða sumpart skiljanleg. Það er erfitt að sparka í leiðtoga sem hefur aðeins tekið á sig erfið verkefni og ekki fengið að leiða ríkisstjórn. Hann er því aðeins dæmdur af fylgi í stjórnarandstöðu, en ekki hinu megin við borðið í Stjórnarráðinu. Eðlilegt að sumir vilji að hann fái að njóta þess að prófa það hlutskipti.

Að mínu mati var á þessum landsfundi kosið um næsta forsætisráðherra. Metnaður okkar sjálfstæðismanna á að vera þannig að við leiðum íslensk stjórnmál, fáum forsæti í ríkisstjórn, stærsta þingflokkinn þegar þessi lélega og mædda ríkisstjórn sem öll loforð hefur svikið hrökklast frá, og 1. þingmaður hvers kjördæmis er sjálfstæðismaður. Annað er ekki í spilunum. Við verðum líka að gera okkur grein fyrir því að sá leiðtogi sem við kusum nú sigli fleyinu í höfn og tryggi þessi markmið.

Það hefur pirrað mig mjög mikið og ég veit að sama gildir um fjölmarga sjálfstæðismenn að Sjálfstæðisflokkurinn skuli ekki hafa meira fylgi en raun ber vitni í könnunum. Vissulega er 35-37% fylgi mjög mikið miðað við kosningarnar 2009 þegar Sjálfstæðisflokkurinn var í rúst en það er harla lítið nú síðla árs 2011 þegar við höfum ónýta ríkisstjórn sem hefur brugðist fólkinu í landinu. Sjálfstæðisflokkurinn á með réttu að vera 40-45% flokkur núna.

Þessi staða styrkti mig í þeirri skoðun að það þyrfti nýjan formann. Hanna Birna er af því kalíber að mér fannst að hún ætti að fá tækifærið. Meirihlutinn var ekki þess sinnis. Bjarni og Ólöf fengu endurnýjað umboð. Þeim óska ég til hamingju. Þau eru bæði glæsilegir stjórnmálamenn og hafa stuðning fjölmargra. Nú verða þau að vinna einbeitt að því að tryggja öflugt fylgi og Sjálfstæðisflokkurinn verði í fararbroddi í stjórnmálum eftir næstu kosningar.

Það er stóra markmiðið. Við sem styðjum Sjálfstæðisflokkinn, bæði sem mættum á landsfundinn og hinir sem voru heima og horfðu á fundinn í gegnum netið, auk þess fjölmargir kjósendur sem hafa misst von á þeim sem þeir greiddu atkvæði árið 2009 ætlast til þess að forysta Sjálfstæðisflokksins sé öflug og leiði flokkinn til valda. Nú þarf forystan að tryggja að flokkurinn fái meiri stuðning og höfði betur til þeirra sem vita ekki hverjum skal treysta.

Ég vona að forystan kjörin á þessum landsfundi takist það verkefni. 

mbl.is Óánægður með niðurstöðuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppgjör fortíðarinnar

Skref fyrir skref er þjóðkirkjan loksins að viðurkenna alvarleg mistök í máli Ólafs Skúlasonar árið 1996. Þetta gerist þó alltof seint og er auðvitað máttlaust fyrir vikið, því langt er um liðið og mistökin hafa hlaðast upp. En betra er að viðurkenna mistök og gera hið rétta, en neita að horfast í augu við hið ranga.

Að því leyti er þjóðkirkjan loksins að bæta fyrir alvarleg mistök. En það verður aldrei bætt fyrir þau að fullu. Uppgjörið við fortíðina verður aldrei fullkomið - réttlætinu verður aldrei fullnægt í máli Ólafs Skúlasonar. Mér finnst samt mikilvægt að virða það að rannsóknarnefnd var sett á fót og hreinsað til.

Þeirri döpru staðreynd að barnaníðingur var biskup hér á Íslandi verður ekki neitað úr þessu. Það var þjóðkirkjunni til vansa hversu lengi þöggun var viðhöfð - en leynd hefur verið aflétt og rannsóknarskýrslan er yfirlýsing um réttlæti og viðurkenningu á því sem aflaga fór.

Verst af öllu þykir mér, og eflaust fleirum, að hafa trúað Ólafi Skúlasyni þegar hann varðist ásökunum í upphafi. Það er vond tilfinning og margir sem trúðu frekar orðum trúarleiðtogans en kvenna úti í bæ, eins og þær voru oft nefndar.

Fyrst og fremst finnst mér Guðrún Ebba Ólafsdóttir, dóttir biskupsins, eiga sérstakt hrós skilið fyrir að fara alla leið og ljóstra upp um sannleikann, hversu þungbær og ömurlegur sem hann annars var. Uppgjör hennar er hið mikilvægasta í ferlinu.

Verst af öllu er sú ömurlega staðreynd að þessi maður hafi orðið trúarleiðtogi íslensku þjóðarinnar og getað setið jafn lengi á þessum mikla valdastól og getað afneitað sannleikanum alveg blákalt. Meistarataktar hans í að afbaka sannleikann villtu mörgum sýn.

Alveg ótrúlegt er að þessi mál hafi ekki komist í hámæli þegar hann sóttist eftir biskupsembættinu bæði 1981, þegar hann tapaði fyrir Pétri Sigurgeirssyni, og 1989 þegar hann hlaut kjör til embættisins. Í raun er það afleitt að málið færi ekki í hámæli þegar það gat breytt gangi sögunnar.

Þetta er ljótur blettur á sögu þjóðkirkjunnar, því verður ekki neitað. Mér finnst samt ekki rétt að Karl Sigurbjörnsson segi af sér. Hann hefur viðurkennt mistök og tekið á sig rangar ákvarðanir. Rannsóknarskýrslan hreinsar málið út að mestu, þó aldrei verði algjörlega tekið á þessu máli.

Langt er um liðið og uppgjör fortíðarinnar verður aldrei algjört. Mér finnst ekki rétt að hengja Karl biskup fyrir verk Ólafs Skúlasonar. Látnum manni verður ekki refsað, þó hann beri sökina. Í því felst ekki réttlæti. En afbrot hans hafa verið staðfest og allir vita sannleikann.

Það er eina uppgjörið sem getur farið fram úr þessu, þó flestir vilji ganga lengra. En lengra verður ekki komist.

mbl.is Biður Guðrúnu Ebbu afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vistaskipti Ásmundar Einars

Ekki þarf að koma að óvörum að Ásmundur Einar Daðason, þingmaður úr sveitinni og baráttumaður landsbyggðargilda, hafi gengið til liðs við Framsókn eftir að VG brást honum og kjósendum sínum með því að svíkja hugsjónir úr kosningabaráttunni.

Fljótlega eftir að Ásmundur Einar gekk úr stjórnarliðinu í vantraustsumræðunni fyrir nokkrum vikum spáði ég í pólitísku spjalli við vin minn að Ásmundur myndi frekar enda í Framsókn heldur en með Lilju og Atla og ekki færi hann í Sjálfstæðisflokkinn.

Þegar ljóst varð að þremenningarnir sem yfirgáfu hið lánlausa fley vinstri grænna myndu ekki stofna þingflokk voru þau örlög ráðin - og í raun ljóst að þau myndu ekki vinna saman í hóp og ekki bindast böndum fyrir þingkosningar.

Ásmundur Einar hefur alla burði til að verða lykilmaður í Framsókn - flokki sem styrkist á landsbyggðinni eftir því sem nær líður þingkosningum. Draumur Halldórs og hans fylgiliðs um þéttbýlisbrag á Framsókn brást algjörlega.

Flokkurinn er að verða aftur landsbyggðarafl, hefur í sjálfu sér alltaf verið það. Lykilafl hans var alltaf í hinum dreifðu byggðum. Þegar Halldór brást sem flokksleiðtogi og öflugur stjórnmálamaður styrktist VG í sveitunum. Sú bylgja gengur æ óðar til baka.

Vinstristjórnin er lánlaus, þreytt og mædd - lafir á einum manni. Sá heitir Þráinn Bertelsson. Hann rífur kjaft og ræðst að konum og samstarfsmönnum á þingi af lítilli reisn. Sá karl fær að blaðra eins og hann vill því hann er jú oddaatkvæðið. Femínistar í VG halda kjafti yfir kvennatali hans.

Fáir í VG nöldra yfir því að Þráinn Bertelsson sé pólitískur flóttamaður, sem flúði úr framboði sem átti að vinna gegn fjórflokknum og varð svo burðarás lélegustu vinstristjórnar lýðveldissögunnar.

Ég spái því að þessi slappa vinstristjórn muni deyja þegar maður á síst von á því. Hún er orðin svo léleg og sundurtætt að það verður varla fréttaefni þegar það loks gerist.



____

Ég birti hér fyrstu bloggfærslu mína í þónokkurn tíma. Fannst ágætt að breyta til og huga að öðru og mun ekki skrifa eins reglulega og ég gerði hér áður, en mun skrifa þegar tilefni gefst til í sumar.
mbl.is Ásmundur Einar í Framsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ronald Reagan 100 ára

Ronald W. Reagan (1911-2004)
Í dag er öld liðin frá fæðingu Ronalds Reagan, 40. forseta Bandaríkjanna. Á langri ævi sinni auðnaðist honum að verða táknmynd Bandaríkjamannsins sem kom sjálfum sér á framfæri á hinn týpíska bandaríska hátt: varð ríkur, kvikmyndastjarna og að lokum valdamesti maður heims á vettvangi stjórnmála. Á þessum degi er vel við hæfi að rifja upp ævi og stjórnmálaferil eins af litríkustu stjórnmálamönnum 20. aldarinnar.

Ronald Wilson Reagan fæddist í smábænum Tampico í Illinois-fylki í Bandaríkjunum, 6. febrúar 1911. Reagan ólst upp á millistéttarheimili, næstelstur af börnum hjónanna John Edward Reagan og Nelle Wilson Reagan. Faðir hans starfaði sem skókaupmaður. Árið 1920 eftir flutninga víða um Illinois, settist fjölskyldan að í bænum Dixon. Hann hóf nám í skólanum í Dixon og lauk þar grunnskólaprófi.

Árið 1926 vann hann við sumarstörf sem strandvörður við Rock River, skammt frá Dixon, á þeim sjö árum sem hann vann þar á sumrum bjargaði hann 77 manns frá drukknun. Árið 1928 hóf hann nám í Eureka háskólanum í Illinois og kláraði þar viðskiptanám árið 1932. Ungur hlotnaðist Reagan sú gæfa að vera prýðisgóður sögumaður og leikari, þótti hann kom vel fyrir sig orði. Hann byrjaði í upphafi fjórða áratugarins að vinna sem íþróttafréttamaður í Illinois og varð t.d. kynnir á leikjum Chicago Cubs. Hlotnaðist honum fyrst frægð á þeim árum og gekk þá almennt undir nafninu Dutch.
 

Ronald Reagan og Virginia Mayo í The Girl From Jones Beach

Árið 1936 hélt hinn ungi Reagan til Los Angeles í Kaliforníu, staðráðinn í að ná að koma sér á framfæri sem leikari. Hann náði í samning hjá Warner Bros. kvikmyndafyrirtækinu í kjölfarið og fluttist alfarinn til Kaliforníu. Á leikferli sínum sem spannaði tæpa þrjá áratugi, lék hann aðallega í b-myndum og fékk ennfremur aukahlutverk í betri myndum. Hann hafði þægilega sviðsframkomu og þótti glæsilegur leikari og öðlaðist heimsfrægð fyrir leikframmistöðu sína í nokkrum þeirra. Lék hann alls í 50 kvikmyndum á ferli sínum, misjöfnum að gæðum, sagði hann síðar að hann hefði verið Errol Flynn B-myndanna.

Ronald Reagan og apinn Bonzo í Bedtime for Bonzo

Ein þekktasta kvikmynd Reagans var Knute Rockne All American, þar sem hann lék hlutverk George “The Gipper” Gipp. Upp frá því hlaut hann gælunafnið Gipper, sem honum féll alla tíð vel við. Að auki er hans helst minnst fyrir leik sinn í Love is on the Air, Bedtime for Bonzo, This is the Army, Kings Row og Hellcats of the Navy. Árið 1940 giftist hann óskarsverðlaunaleikkonunni Jane Wyman. Þau áttu saman tvö börn, Michael (sem var ættleiddur) og Maureen (hún lést í ágúst 2001 úr krabbameini). Jane og Ronald skildu árið 1948.

Reagan var kjörinn forseti leikarasamtakanna Screen Actors Guild of America (SAG) árið 1947 og var hann framarlega í flokki forystumanna leikara á þeim tíma sem ráðist var að þeim leikurum sem sakaðir voru um að vera á mála hjá Kommúnistaflokknum, og í gangi voru yfirheyrslur í þinginu vegna þeirra ásakana. Var Reagan virtur sem forystumaður SAG og þótti vaxa mjög af framgöngu sinni þar.

Ronald Reagan og Nancy Davis Reagan í Hellcats of the Navy

Til marks um það var hann í miklum metum alla tíð í Hollywood og frægt varð að Óskarsverðlaunahátíðinni 1981 var frestað um sólarhring, 30. mars 1981, er honum var sýnt banatilræði og var þá um tíma vart hugað líf. Eftir skilnað Ronalds og Jane hélt hann áfram leik. Í byrjun sjötta áratugarins kynntist hann leikkonunni Nancy Davis, þau gengu svo í hjónaband, þann 4. mars 1952. Var sambúð þeirra mjög farsæl og fylgdi Nancy honum í blíðu og stríðu þar til yfir lauk. Léku þau saman í einni kvikmynd, Hellcats of the Navy.

R
eagan öðlaðist með forystustörfum sínum fyrir leikarasamtökin mikla frægð og varð kraftmikill forystumaður þeirra. Í byrjun sjöunda áratugarins ákvað hann að hætta kvikmyndaleik og hella sér af fullum krafti út í stjórnmál. Hann gekk árið 1962 í Repúblikanaflokkinn og vann af krafti í starfi þeirra í Kaliforníu alla tíð síðan. Hann vakti þjóðarathygli á flokksþingi Repúblikana árið 1964 þegar hann mælti fyrir kjöri Barry Goldwater í sjónvarpsútsendingu.

Þótt Goldwater hafi tapað forsetakosningunum fyrir Lyndon Baines Johnson forseta, sem takið hafði við völdum eftir morðið á John F. Kennedy í nóvember 1963, eignuðust þeir nýtt foringjaefni með því í Ronald Reagan. Hann gaf kost á sér til ríkisstjórakjörs í Kaliforníu árið 1966 fyrir Repúblikanaflokkinn. Hann náði kjöri sem 33. ríkisstjóri fylkisins og tók við embætti í ársbyrjun 1967. Sat hann á stóli ríkisstjóra í tvö kjörtímabil, til ársins 1975, en hann gaf þá ekki kost á sér til endurkjörs.

Ronald og Nancy Reagan

Stefndi Reagan allt frá ríkisstjórakjörinu að því að ná kjöri sem forseti Bandaríkjanna. Hann gaf kost á sér fyrsta skipti til embættisins árið 1968 en tapaði í forkosningum fyrir Richard Nixon. Hann gaf aftur kost á sér á ný í forsetakosningunum 1976 en beið þá ósigur í forkosningum innan flokksins fyrir Gerald Ford forseta. Þótti engan veginn sjálfgefið þá að Ford yrði forsetaefni flokksins, þó hann sæti á forsetastóli.

Ford hafði tekið við sem varaforseti við afsögn Spiro Agnew árið 1973 og orðið forseti við afsögn Nixons í ágúst 1974 í kjölfar Watergate-hneykslisins. Ford var því aldrei kjörinn, hvorki af flokksþingi repúblikana eða af þjóðinni til setu á varaforseta- og forsetastóli. Ford náði engu að síður kjöri eftir harða rimmu við Reagan - sigurinn var þó naumur og náði Ford aldrei sterkri foringjastöðu. Hann tapaði fyrir Jimmy Carter í forsetakosningunum í nóvember 1976. Það opnaði leiðina fyrir Reagan að sækjast eftir embættinu árið 1980 í kosningaslag við Carter.

Kosningaslagur Reagans og Carter var harður árið 1980 og sóttu þeir harkalega að hvor öðrum. Það lá fljótt fyrir á kosninganótt í nóvember 1980 að Reagan hafði náð kjöri og gjörsigrað Carter, með mun meiri yfirburðum en hafði verið spáð. Carter fór sneyptur af velli stjórnmálanna. Reagan varð sjötugur örfáum vikum eftir að hann tók við embætti, því elstur allra þeirra sem náð hafði kjöri í embættið. Hann hafði ekki setið nema tvo mánuði í embætti er honum var sýnt banatilræði, þann 30. mars 1981.

Fyrst var talið að Reagan hefði sloppið ómeiddur úr skotárásinni en hann var fluttur á George Washington spítalann til öryggis. Kom í ljós við komuna á spítalann að ein byssukúla hafði lent nærri hjarta forsetans og þurfti hann að fara fljótt í aðgerð, til að bjarga mætti lífi hans. Meðan hann lá á skurðarborðinu, í aðgerð upp á líf og dauða, var landið í kreppu. Enginn sýnilegur leiðtogi var við stjórnvölinn. Bush, varaforseti, var staddur í Texas. Tók Alexander Haig utanríkisráðherra, sér umdeilt vald til forystu þar til Bush kom til Washington. Tókst læknum að bjarga lífi Reagans, en hann náði sér þó aldrei að fullu af sárum sínum.

Hann hafði djúpstæð áhrif bæði á heimavelli og á alþjóðavettvangi á átta ára valdaferli sínum. Vegna farsællar forystu hans leið Kalda stríðið undir lok. Tókst honum að semja við Sovétmenn um verulega fækkun langdrægra kjarnorkuvopna. Mikilvægasta skrefið í átt að afvopnun stórveldanna náðu Reagan og Gorbatsjov Sovétleiðtogi, á leiðtogafundi sínum í Reykjavík í október 1986.

Ronald Reagan var fyrsti forseti Bandaríkjanna sem beitti sér ákveðið gagn auknum ríkisútgjöldum og afskiptasemi ríkisins. Ásamt Margaret Thatcher færði hann hægrimönnum um allan heim þá trú að hægt væri að vinda ofan af gríðarlegum ríkisafskiptum. Afskipti ríkisins af viðskiptum og fleiri ráðandi þáttum samfélagsins var alla tíð sem eitur í beinum Reagans forseta. Kraftmikil trú hans á einstaklinginn og mátt einkaframtaksins var grundvallarstef í öllum orðum og gerðum hans sem stjórnmálamanns og æðsta manns heims í 8 ára valdatíð sinni.

Reagan lét af embætti 20. janúar 1989. Þá flutti hann til Los Angeles og helgaði sig fyrirlestrum og talaði á ráðstefnum og í háskólum víðsvegar um heiminn. Hóf hann þá að sinna loks þeim áhugamálum sem hann hafði alla tíð viljað sinna en ekki haft tíma til vegna starfa sinna fyrir leikarasamtökin og á vettvangi stjórnmála. Í nóvember 1994 tilkynnti Reagan í yfirlýsingu að hann þjáðist af hrörnunarsjúkdómnum Alzheimer, sem leggst á heilafrumur og veldur minnisleysi.

Þar sagði orðrétt:
In closing let me thank you, the American people, for giving me the great honor of allowing me to serve as your President. When the Lord calls me home, whenever that may be, I will leave with the greatest love for this country of ours and eternal optimism for its future. I now begin the journey that will lead me into the sunset of my life. I know that for America there will always be a bright new dawn ahead.”

Reagan hvarf í þoku Alzheimer-sjúkdómsins en naut umönnunar eiginkonu sinnar og nánustu fjölskyldu, þar til yfir lauk, laugardaginn 5. júní 2004. Við andlát Reagans forseta fyrir tæpum sjö árum kom í ljós hversu áhrifamikill og virtur forystumaður hann var. Samdóma álit flestra er enda að Reagan hafi verið einn af merkustu forsetum Bandaríkjanna. 

Kom vel fram við kveðjuathafnir í Kaliforníu og í Washington, þar sem útför hans fór fram, hversu gríðarlega sterka stöðu hann hafði sem forystumaður landsins og hafði traust þeirra til verka sinna. Þeim sem vilja kynna sér verk hans og forystu fyrir Bandaríkin á átta ára forsetaferli bendi ég á hina góðu bók President Reagan: The Role of a Lifetime eftir Lou Gannon.

Er það gríðarlega vönduð samantekt og sennilega ein sú besta í bókarformi um forsetaferil Reagans. Algjör skyldulesning fyrir þá sem vilja kynnast persónu og pólitískri baráttu Reagans. Barack Obama, núverandi forseti Bandaríkjanna, las bókina eins og frægt er orðið í jólaleyfi sínu í Hawaii í desember 2010.

 

Á D-daginn, 6. júní 1984 í Normandí í Frakklandi flutti Reagan forseti, sína eftirminnilegustu ræðu, að flestra mati. Þar sagði hann: “We will always remember. We will always be proud. We will always be prepared, so we may always be free.” Allan stjórnmálaferil sinn var Ronald Reagan talsmaður frelsis og umbóta. 

Ronald Reagan
 lék lykilhlutverk í endalokum kalda stríðsins, vann ötullega að endalokum kommúnismans í Austur-Evrópu og tryggði trausta forystu á örlagatímum. Hann setti sem forseti Bandaríkjanna mark sitt á söguna með baráttu sinni fyrir lýðræði og ekki síður með því að fylgja sannfæringu sinni í hvívetna og vera trúr lífshugsjónum sínum.

Ronald Reagan (1911-2004)

Minningin um manninn sem sigraði kommúnismann mun ávallt lifa.


Pistill byggður á greinaskrifum mínum frá í júní 2004 þegar Ronald W. Reagan lést


Hver mun bera ábyrgð á stjórnlagaþingsfloppinu?

ogilding
Stjórnlagaþingið, hið mikla lykilmál vinstristjórnarinnar, hefur nú verið dæmt ógilt. Þar fara 300 milljónir í súginn. Ekki var nóg með að þjóðin sýndi þessu máli ekki áhuga og mætti ekki á kjörstað heldur hefur kosningin flautuð af vegna mistaka. Vandræðagangurinn er algjör.

Vinstristjórnin situr eftir með mikinn skell og með sitt lykilmál á byrjunarreit. Feitt flopp sem gleymist ekki í bráð. Hver mun bera ábyrgð? Vinstrimenn voru svo gjarnir á að tala um pólitíska ábyrgð meðan þeir voru í stjórnarandstöðu.

Nú verður gaman að hlusta á þann fagurgala þeirra þegar þeir sjálfir hafa klúðrað málum svo áberandi. Ég bíð spenntur.


mbl.is Stjórnlagaþingskosning ógild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Völdin halda lífinu í vinstribræðingnum

Eftir margra klukkustunda fundahöld vinstri grænna í Aðalstræti þurfti að lýsa því sérstaklega yfir að vinstri grænir stæðu enn að ríkisstjórn með Samfylkingunni sem setið hefur í tæp tvö ár. Aðeins völdin ein halda lífinu í þessum lánlausa bræðingi. Steingrímur J. Sigfússon og Árni Þór Sigurðsson reyndu svo að tala stjórnina upp og láta líta svo út sem einhver stór tíðindi hafi átt sér stað á þessum fundi þegar öllum er ljóst að ekkert hefur breyst.

Vinstristjórnin er veikari en nokkru sinni fyrr. Enda gengu Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir á dyr án þess að gefa út yfirlýsingu og Ásmundur Einar Daðason byrjaði strax að vekja athygli á óánægju með ESB-aðildarumsókn. Hann lagði sérstaka lykkju á leið sína til að rífa niður allt sem Steingrímur og Árni höfðu sagt. Ljóst er að VG er sundraður í þessari ríkisstjórn - VG í raun tveir þingflokkar.

Þetta er raunalegt. Undirstöður landstjórnarinnar eru vægast sagt mjög ótraustar, allt púður vinstrimanna fer í að halda völdum og reyna að jafna út innri ágreining þegar þjóðin þarf á traustri og öflugri ríkisstjórn við völd. Innri kergja og hnútuköst lifa góðu lífi á vinstrivængnum eins og svo oft áður.

Íslenska þjóðin á betra skilið en þessa ónýtu ríkisstjórn.

mbl.is Segir þingflokk VG styðja stjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áramótakveðja

fireworks
Í þessari síðustu bloggfærslu minni á árinu 2010 vil ég færa lesendum vefsins og vinum mínum og kunningjum, nær og fjær, mínar innilegustu nýárskveðjur. 

Ég óska ykkur farsældar á nýju ári og þakka samfylgdina á árinu sem er að líða. Kærar þakkir fyrir allt hið góða.

Hafið það gott á nýju ári - vonandi verður það okkur öllum gjöfult og gott!

nýárskveðjur frá Akureyri
Stefán Friðrik Stefánsson



Nú árið er liðið í aldanna skaut
og aldrei það kemur til baka,
nú gengin er sérhver þess gleði og þraut,
það gjörvallt er runnið á eilífðar braut,
en minning þess víst skal þó vaka.

En hvers er að minnast? Og hvað er það þá,
sem helst skal í minningu geyma?
Nú allt er á fljúgandi ferð liðið hjá,
það flestallt er horfið í gleymskunnar sjá.
En miskunnsemd Guðs má ei gleyma.

Hún birtist á vori sem vermandi sól,
sem vöxtur í sumarsins blíðum,
í næðingum haustsins sem skjöldur og skjól,
sem skínandi himinn og gleðirík jól
í vetrarins helkuldahríðum.

Hún birtist og reynist sem blessunarlind
á blíðunnar sólfagra degi,
hún birtist sem lækning við böli og synd,
hún birtist þó skærast sem frelsarans mynd,
er lýsir oss lífsins á vegi.

Nú Guði sé lof fyrir gleðilegt ár
og góðar og frjósamar tíðir,
og Guði sé lof, því að grædd urðu sár,
og Guði sé lof, því að dögg urðu tár.
Allt breyttist í blessun um síðir.

Ó, gef þú oss, Drottinn, enn gleðilegt ár
og góðar og blessaðar tíðir.
Gef himneska dögg gegnum harmanna tár,
gef himneskan frið fyrir lausnarans sár
og eilífan unað um síðir.

Valdimar Briem


Dr. Gunnar Thoroddsen 100 ára

Dr. Gunnar Thoroddsen forsætisráðherra (1910-1983)
Í dag er öld liðin frá fæðingu dr. Gunnars Thoroddsens, fyrrverandi forsætisráðherra. Gunnar var samofinn valdaátökum og lykilstöðum innan Sjálfstæðisflokksins í áratugi - saga flokksins verður aldrei rituð án þess að nafn Gunnars verði þar ofarlega á blaði. Hann var einn af litríkustu og svipmestu pólitísku höfðingjum íslenskrar stjórnmálasögu. Gunnar starfaði ötullega innan flokksins allt frá unglingsárum til dauðadags, lengst af í forystusveit hans og með mikil völd.

Örlögin höguðu því þó þannig að á gamals aldri klauf hann sig frá vilja æðstu forystu Sjálfstæðisflokksins og hélt ásamt nánustu samherjum innan flokks til stjórnarmyndunar gegn vilja miðstjórnar, flokksráðs, landsfundar og þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Gunnar var rómaður fyrir leiftrandi ræðusnilld og var í senn heillandi og óvæginn. Hann var ekki óvanur því að honum væri sótt en svaraði ávallt fyrir sig.

Síðustu dagana hef ég notið þess að lesa listilega skrifaða ævisögu dr. Gunnars, ritaða af Guðna Th. Jóhannessyni, á aldarafmælisári hans. Bókin er auðvitað saga stjórnmála í hálfa öld, svo samofinn var dr. Gunnar öllum helstu lykilatburðum stjórnmálasögu Sjálfstæðisflokksins og þjóðarinnar sem heildar, hvort heldur sem er í hlutverki ráðherra, varaformanns Sjálfstæðisflokksins og um síðir forsætisráðherra. Hann var á sviðinu áratugum saman.

Gunnar var tengdur á alla staði stjórnmálaáhrifa flokkskjarnans og var samofinn sögu hans í 55 ár. Hann ferðaðist með Jóni Þorlákssyni, fyrsta formanni flokksins, á fyrstu árum flokksins við að byggja undirstöður hans sem hins öfluga flokks í stjórnmálalitrófinu. Hann varð þingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Mýrasýslu þegar árið 1934, þá á 24. aldursári. Enn í dag er Gunnar yngsti þingmaður Íslandssögunnar.

Allt frá byrjun þóttu örlög hans ráðin. Þar væri komin ein helsta vonarstjarna flokksins og framtíð hans yrði mörkuð pólitískum sigrum. Það fór enda svo að honum voru falin mikil verkefni og talsverð ábyrgð í flokkskjarnanum allt frá upphafi á unglingsárum. Aldrei náði hann þó því markmiði að verða formaður Sjálfstæðisflokksins né heldur varð hann forseti Íslands, eins og hann stefndi svo markvisst að. Ósigrar hans mörkuðu hann þó í baráttunni fyrir því að ná á tindinn.

Ævisaga Gunnars er merkilegt og heillandi rit. Hvort heldur við að rifja upp hversu einlægur Gunnar var í metnaði sínum eða sem stjórnmálasaga heillar þjóðar. Gunnar var töframaður í klækjum stjórnmála, baráttunni fyrir því að ná æðstu metorðum. Refskák stjórnmálanna lék enginn betur en dr. Gunnar sem náði æðstu metorðum með sögulegum hætti, með því að snúa á forystumenn eigin flokks með einni kænskustu atburðarás íslenskrar stjórnmálasögu.

Bestu kaflar ævisögunnar, að mínu mati, eru um forsetakjörið 1968, þar sem Gunnar átti sinn stærsta ósigur, stjórnarmyndunin 1980, hans pólitíska sigurstund þar sem sögulegur sess var endanlega tryggður, en ekki síður veikindasaga Gunnars undir lok ævinnar. Gunnar greindist með hvítblæði undir lok ársins 1982. Tókst honum að halda sjúkdómnum leyndum fyrir þjóðinni og mörgum af nánustu stuðningsmönnum sínum í marga mánuði.

Það er auðvitað stórmerkilegt að forsætisráðherra gæti leynt þjóðinni mánuðum saman því að hann væri sjúkur af hvítblæði. Hann hélt sínu striki í gegnum lyfjameðferð og erfitt veikindastríð. Vissulega er það mesti persónulegi sigur Gunnars að halda getað haldið áfram sínum störfum þrátt fyrir erfið veikindi mánuðum saman og sigla fleyinu, stjórn sinni - þó laskað væri og illa farið við leiðarlok, allt til loka kjörtímabils. En sú barátta tók á, eins og lýst er í bókinni. Og hann hélt áfram of lengi í raun.

Þessi saga er rakin vel og traust af Guðna Th. Sagan er skyldulesning fyrir alla sem hafa áhuga á stjórnmálum. Sögulegt mat á Gunnari er traust og pólitísk saga hans í umgjörð þeirri sem Guðni hefur unnið að er engu lík. Þetta er ein besta ævisaga síðustu ára eða áratuga. Bók sem enginn má láta framhjá sér fara.

Eins og fram kom í upphafi eru það orð að sönnu að saga Sjálfstæðisflokksins verður ekki rituð án þess að nafn Gunnars Thoroddsens verði þar áberandi. Gunnar lagði ævistarf sitt í það að efla Sjálfstæðisflokkinn. Endalok ferilsins voru vissulega söguleg og hann endaði í því merkilega hlutskipti að mynda stjórn án stuðnings flokksins, umdeildur og jafnvel hataður af fjölda flokksmanna fyrir verk sitt.

Það voru átakatímar og ferlinum lauk Gunnar með einum mesta hvelli íslenskrar stjórnmálasögu. En verk hans og forysta skiptu flokkinn máli. Hann var einn litríkasti forystumaður Sjálfstæðisflokksins og verðskuldar sögulegan sess í pólitískri sögu flokksins.


Jólakveðja

Jólakveðja
Ég færi lesendum vefsins, og vinum nær og fjær, innilegar óskir mínar um gleðilega og kærleiksríka jólahátíð. Hafið það öll sem best yfir hátíðirnar.

jólakveðja frá Akureyri
Stefán Friðrik Stefánsson













Vinstristjórn á síðasta snúningi

Jóhanna Sigurðardóttir í ham 1993
Ansi er nú skondið að fylgjast með vandlætingu Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, og þingmanna Samfylkingarinnar á framgöngu þremenninganna í VG í afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins. Sérstaklega er ómerkilegt hvernig sumir á þeim bænum níðast á Lilju Mósesdóttur. Þær árásir eru varla málefnalegar í ljósi þess að formaður Samfylkingarinnar ástundaði sömu vinnubrögð árum saman.

Lilja er ekki meiri villiköttur en Jóhanna Sigurðardóttir var sem ráðherra í fjárlagavinnu allra ríkisstjórna sem hún sat í meðan hún var félagsmálaráðherra fyrra skiptið 1987-1994. Þá skellti hún hurðum og hótaði öllu illu ef hún fékk ekki það sem hún vildi. Á tímum hætti hún að mæta á ríkisstjórnarfundi og hún hótaði því að styðja ekki fjárlagafrumvarp nema að uppfylltum skilyrðum.

Skopmynd Sigmunds Jóhannssonar segir allt sem segja þarf um framgöngu Jóhönnu. Annars er þetta bras með þrjá stjórnarliða fjarri því stórtíðindi að mínu mati. Þessi ríkisstjórn hefur verið minnihlutastjórn varin af órólegu deildinni í VG nær allt þetta kjörtímabil. Skilin urðu með Icesave-samningunum sumarið 2009, þegar ekki var þingmeirihluti til staðar á örlagastundu.

Afsögn Ögmundar og önnur áföll komu í kjölfarið. Í raun hefur þessi stjórn aðeins haldið velli vegna þess að enginn einn þingmaður vill drepa fyrstu tæru vinstristjórn lýðveldissögunnar. En brátt kemur að því að þetta verður ekki starfhæft. Við bíðum áhugasöm eftir því að Katrín Jakobsdóttir fari í fæðingarorlof og Guðfríður Lilja komi úr fæðingarorlofi.

Hvernig ætlar Steingrímur J. að ganga framhjá Guðfríði Lilju, leiðtoga flokksins í kraganum, við val á nýjum menntamálaráðherra? Ekki mun stemmningin batna á þessum bæ ef gengið verður framhjá henni við ráðherraval. Verður þá starfhæfur meirihluti? Þá ræður heiðurslistamaðurinn, sem leikur sinn stærsta leiksigur í hlutverki 32. þingmanns vinstristjórnar.

Skondið. Ætli völvan þurfi nokkuð að hafa fyrir því að spá ófriði á þessu stjórnarheimili þar sem hver höndin er upp á móti annarri á aðventunni. Eitt er þó fyndnara en annað. Óeiningin og hatrið milli manna innan VG beinir kastljósinu frá stóru spurningunni.

Hver verður næsti formaður Samfylkingarinnar? Á þeim bænum er örugglega verið að ráða örlögum þeirrar spurningar, enda Jóhanna komin fram yfir síðasta söludag.

mbl.is Stöðugir níðpóstar um Lilju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fræga fólkið kemst á stjórnlagaþing

Niðurstaða stjórnlagaþingskjörs var fyrirsjáanleg og ætti varla að koma ekki á óvart. Landsbyggðin fær aðeins þrjá fulltrúa og fræga fólkið, mínus Jónas Kristjánsson sem betur fer, kemst á þingið. Þarna raðast þeir inn álitsgjafarnir sem hafa verið sýnilegir í Silfri Egils og vinstrimenn eiga marga fulltrúa. Kannski mun í sögubókunum vera talað um stjórnlagaþing Samfylkingarinnar þar sem þjóðin hafði lítinn áhuga á þessu gæluverkefni Jóhönnu Sigurðardóttur.

Þessi niðurstaða er áleitið umhugsunarefni fyrir okkur á landsbyggðinni og vekur spurningar um persónukjör og landið eitt kjördæmi - segir allt um hvernig slík kjördæmabreyting færi með landsbyggðina. Við þurfum að passa upp á það að landsbyggðin hafi hlutverk og stöðu. Mér finnst það lykilatriði að hún haldi sínu en glati ekki endanlega hlutverki sínu. Verði landið eitt kjördæmi færist kosningabaráttan á þá staði þar sem flest atkvæðin verða og hitt gleymist.

En já, þetta var fyrirsjáanleg upptalning á kjörnum fulltrúum. Nú er spurningin hvað kemur út úr þessari vinnu nema peningaaustur. Sjáum til.

mbl.is 25 kjörin á stjórnlagaþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin kýs ekki - feitt flopp vinstristjórnarinnar

Kosning til stjórnlagaþings stefnir í feitt flopp. Þjóðin er ekki að sinna kalli vinstristjórnarinnar og taka þátt í þessari kosningu, telur þetta óþarfa sem skipti ekki máli. Þetta stefnir í sögulega útreið fyrir ríkisstjórn sem ætlaði að vera mjög móðins og dreifa athyglinni frá vanhæfi sínu til að leiða þjóðina á erfiðum tímum en situr eftir með algjört klúður. Hún hefur ekki stuðning þjóðarinnar til að setja endurskoðun stjórnarskrár í forgang.

Kosningaþátttakan verður ekki nema rúmlega fjórðungur að óbreyttu, eins og staðan er nú á níunda tímanum. Ungt fólk mætir einfaldlega ekki á kjörstað, er algjörlega sama. Lítil kosningaþátttaka segir aðeins eitt: þjóðin vill ekki breytingar á stjórnarskrá. Stjórnlagaþing mun hafa mjög veikt umboð og þeir sem berjast fyrir breytingum þar verða fulltrúar mikils minnihluta landsmanna.

Breytingar á stjórnarskrá fá ekki stuðning í dag. Þetta er ekki ástríðumál þjóðarinnar. Fólk er með hugann við annað. Það er stóra niðurstaða dagsins.


mbl.is Um 30% búin að kjósa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband