8.4.2009 | 01:54
Týnda kynslóðin
Nokkur umræða hefur orðið í samfélaginu vegna þess hversu algengt er orðið um að auglýst sé eftir ungu fólki, flestu á aldrinum 13-17 ára. Svörin við aðstæðum þeirra sem hverfa með þeim hætti eru mörg og ólík, en stundum þó með svipaða forsögu. Oft er um að ræða ungmenni sem eru í neyslu af einhverju tagi eða sinnast á við foreldra sína. Á okkar tímum er mikill vandi víða og þar geta ungmennin farið út af sporinu og eiga erfitt með að rata á beinu brautina aftur.
Vissulega er hárrétt aðferð að láta lýsa eftir þeim unglingum sem ekki skila sér heim, í þeim efnum er biðin ekki góð. Sé eitthvað óvenjulegt eða þau koma ekki heim á eðlilegum tíma ber að lýsa eftir þeim. En þetta er orðið mjög algengt, allt að því sláandi og eðlilegt að spurningar vakni. Það er mjög algengt að svona tilfelli séu kennd við óreglu ungmenna og sumir gefa sér það alltaf fyrir fram að það tengist slíkum vandamálum. En kannski erum við að dæma þessa kynslóð of harkalega með því.
Sumir tala líka um netnotkun ungmenna, sem víða er farin úr böndunum. Ég skrifaði um þetta fyrir nokkrum mánuðum, ágætar hugleiðingar eftir að ég fékk póst frá fjórtán ára stelpu sem var að velta fyrir sér þessum vanda. Hún benti á netnotkunina, enda hefur gerst að netnotkun ungmenna fari svo úr böndunum að foreldrar ráði ekkert við börnin sín og dæmi um að lögreglan verði að skerast í leikinn til að jafna heimiliserjur, deilur foreldra og unglinga sem vilja nota netið meira en leyft er.
Erfitt er að gefa sér að eitt atriðið sem velt er upp sé meira ráðandi en annað. Full þörf er þó á því að taka þessa umræðu og velta þessu fyrir sér. Kannski er einn vandinn sá augljósi að vandinn sé hjá foreldrum, börnin fái ekki nógu mikla athygli og ástúð að þeir ögra foreldrum sínum.
![]() |
|
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.4.2009 | 20:56
Algjörlega til skammar fyrir Sjálfstæðisflokkinn
Tvennt vekur þó óneitanlega meiri athygli í mínum augum umfram annað. Í fyrra lagi; þessi styrkveiting kemur skömmu eftir að tilkynnt var að Kjartan Gunnarsson myndi hætta sem framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og stuttu eftir margumtalað prófkjör í Reykjavík þar sem hart var tekist á og Björn Bjarnason varð undir í harðvítugum leiðtogaslag. Enn ganga kjaftasögur um aðkomu fjársterkra manna að þeim slag.
Í seinna lagi (og það sem er stóra fréttin); þetta er á mörkum þess tíma sem ný lög um opið bókhald og hámarksstyrki tóku gildi. Örfáum dögum áður en nýtt upphaf verður í bókhaldi flokkanna kemur þessi mikla upphæð til Sjálfstæðisflokksins. Þetta er það stórt mál að það verður að tala hreint út um það. Mér sem flokksbundnum sjálfstæðismanni finnst þetta alveg til skammar.
![]() |
30 milljóna styrkur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.4.2009 | 18:27
Ómerkileg framkoma
Framkoman við Sigrúnu Björk Ólafsdóttur er mjög lágkúruleg, enda henni sagt upp störfum aðeins vegna þess að hún var Íslendingur í Bretlandi þegar það var ekki vinsælt að vera það. Ég hef reyndar heyrt ansi margar sögur í þessa átt, að íslensku fólki hafi verið sýnd hrein lítilsvirðing þegar í ljós hafi komið hvaðan það kom, sérstaklega fyrst eftir hrunið. Þetta er mikið þjóðaráfall vissulega, enda hafa Íslendingar getað borið höfuðið hátt á alþjóðavettvangi og haft mikil tækifæri. Í einu vetfangi virðist það hafa breyst.
Þeir sem ég hef talað við og eru erlendis, einkum í Bretlandi, sögðust í haust í raun hafa misst sjálfsvirðinguna yfir að vera Íslendingar, sérstaklega fyrst eftir bankahrunið. Ég skil það mjög vel ef þetta er framkoman sem landar okkar verða fyrir á erlendri grundu.
![]() |
Var rekin vegna þjóðernis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.4.2009 | 18:08
Grjótkast úr glerhúsi - enginn sáttahugur
Mér finnst sáttahugur stjórnarflokkanna enginn, eða vægast sagt lítill, þegar kemur að stjórnarskrárfrumvarpinu. Mér finnst það afleitt þegar ekki er lagt upp með það frá upphafi að reyna að ná sameiginlegri niðurstöðu í stað þess að fara einstefnu með fyrirframákveðnar forsendur. Ég geri skýran greinarmun á venjulegum frumvörpum og nöldri um þau og sjálfa stjórnarskrána. Mér finnst ekki eðlilegt að vinna í henni á hundavaði og í tímaþröng - verklag sem flestir sérfræðingar hafa gagnrýnt.
Nú reynir á sáttina. Sjálfstæðismenn hafa komið með góða tillögu til sátta. Nú reynir á hvort hægt sé að ljúka þessu kjörtímabili með sóma fyrir þingræðið, mun frekar en framkvæmdavaldið.
![]() |
Sjálfstæðismenn leggja fram sáttatillögu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2009 | 15:37
Steingrímur J. orðinn ráðalaus á vaktinni
Hvað hefði þessi orðhvati forystumaður sagt væri hann í stjórnarandstöðu núna? Ég efast um að hann væri orðalaus þyrfti hann enga ábyrgð að bera. Hin napra staðreynd málsins er að þessi ríkisstjórn er alveg ráðalaus og virðist ekki geta staðið í lappirnar og tekið erfiðar ákvarðanir.
![]() |
Kann ekki skýringar á veikingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.4.2009 | 13:09
Batakveðjur til Geirs
![]() |
Geir gekkst undir framhaldsmeðferð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.4.2009 | 00:16
Manndrápsakstur í umferðinni
Ætla að vona að við séum ekki komin í biðferli eftir banaslysi, þar sem ökumaður á háskahraða drepur jafnvel fjölda fólks með hugsunarleysi sínu og gerræðislegum ákvörðunum. Það er auðvitað mikið áhyggjuefni hversu alvarleg staðan er í umferðarmálum. Búið er að tala vel og reyndar mjög lengi um að úrbóta sé þörf - taka verði á þessum augljósa vanda. Fara þarf að gera eitthvað meira en bara tala. Auðvitað er það dapurlegt þegar fólk tekur þá ákvörðun að geisast áfram á kolólöglegum hraða og jafnvel í vímu.
Þeir sem keyra svona bera ekki einu sinni virðingu fyrir sjálfu sér og hvað þá þeim sem það mætir á leið sinni. Í sjálfu sér tel ég þetta orðið eitt mesta vandamálið í umferðinni í dag. Engin trygging er fyrir því þegar fólk sest undir stýri og heldur út í umferðina að það mæti ekki fólki undir áhrifum vímugjafa - út úr heiminum í sínu annarlega ástandi.
![]() |
Stefndi inn í íbúðahverfi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.4.2009 | 23:41
Miklar breytingar á fylginu í Norðvesturkjördæmi
Sjálfstæðisflokkurinn missir þriðja manninn miðað við þessar tölur og forystuna í kjördæminu. Ási á Rifi, leiðtogi flokksins, er nýr í landsmálunum og stimplar sig traust inn eftir glæsilegan prófkjörssigur. Mikil endurnýjun hefur orðið á listanum í kjördæminu og í þriðja sætinu er nú Eyrún á Tálknafirði. Sjálfstæðisflokknum tókst síðast að tryggja endurkjör Einars Odds þrátt fyrir að þingmönnum kjördæmisins fækkaði. Nú verður fróðlegt að sjá hvort sætið verður varið.
Samfylkingin virðist vera með Ólínu Þorvarðardóttur mjög trygga inni á þingi, en hennar staða getur varla hafa styrkst eftir skelfilega fjölmiðlaframmistöðu á Sprengisandi á Bylgjunni í gær. Fróðlegt verður að sjá næstu kannanir og hvort flokkurinn heldur sinni fylgisaukningu. Vinstri grænir eru ótrúlega sterkir á þessu svæði. Mér finnst reyndar ótrúlegt hversu traust staða Jóns Bjarnasonar er miðað við allt sem á undan er gengið og hvað hann hefur fram að færa.
Framsókn eflist merkilega lítið í Norðvestri miðað við algjöra endurnýjun, með tvo efstu menn nýja í landsmálunum og nokkur sóknarfæri. Guðmundur Steingrímsson virðist mjög traustur inni, en Framsókn var mjög óheppin síðast enda missti hún annan mann sinn á síðustu stigum talningar á kosninganótt og Kristinn H. hélt sínu sæti sem jöfnunarmaður. Sleggjan er reyndar horfin af sviðinu og er ekki leikari í atburðarásinni nú, hvað hann svosem gerir síðar.
Umræðuþátturinn í Norðvestri í kvöld var mjög góður. Þar komu fram skýrar línur. Mér fannst Ási á Rifi standa sig vel og hann átti góða spretti við að benda á undarlegan skoðanamun vinstrimannanna í kosningabandalaginu, sem virðist frekar snúast um völd og bitlinga frekar en málefnin.
![]() |
Vinstri græn stærst í NV-kjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.4.2009 | 17:44
Merkilegt útspil Landsbankans
Þetta er eflaust eitt útspilið til að reyna að koma fasteignamarkaðnum aftur af stað og draga þá upp úr feninu sem hafa tekið á sig þunga skelli að undanförnu. Svo verður að ráðast hvernig það muni ganga.
![]() |
Landsbankinn býður óverðtryggð íbúðalán |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.4.2009 | 13:43
Lélegar útskýringar Össurar - hjalað við Breta
Mér finnst það mjög ámælisvert að Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hafi ekki notað leiðtogafund NATÓ til að mótmæla ákvörðun Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, um að beita Íslendinga hryðjuverkalögum. Í stað mótmælanna var Össur með eitthvað hjal við Brown og gekk ekki eftir því við Brown að hann útskýrði hvers vegna komið var fram við Íslendinga með þessum hætti. Ég er ekki hissa á því að Brown hafi verið flóttalegur á fundinum í garð íslenskra ráðamanna en Össur hefði átt að standa í lappirnar og fá útskýringar.
Mér finnst vegið að heiðri Íslands á alþjóðavettvangi þegar forystumenn íslenskra stjórnmála þora ekki að taka slaginn við Breta á alþjóðlegri lykilráðstefnu sem þessi í Strassborg var óneitanlega. Við hverju skal búast þegar þeir eru hræddir við þá sem beita okkur slíku ægivaldi sem hryðjuverkalög eru. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, lagði ekki í að fara á þennan fund að tala málstað Íslands og ganga á eftir skýringum þeirra sem réðust að okkur og lögðu orðspor okkar í raun endanlega í rúst.
Nú á að halda áfram að kenna Geir Haarde um að hafa ekki talað við Brown fyrir einhverjum mánuðum. Geir er ekki lengur við völd og tæpir 70 dagar síðan ný ríkisstjórn tók við. Hún hefur ekkert gert í þessum málum nema humma það fram af sér. Eru Samfylkingarráðherrarnir hræddir við flokksbræður sína í Bretlandi eða hvað er málið? Eru þeir kannski hræddir við að svíða ESB-taugina ef þeir mótmæla?
![]() |
Össur: Samningaviðræður í góðum farvegi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.4.2009 | 13:28
Bankar á byrjunarreit
Þetta kemur mjög vel fram í því mati að salan á útibúaneti Spron hefði getað kollvarpað Kaupþingi og dregið það niður. Reyndar eru margar spurningar í þessu Spron-máli sem hefur ekki enn verið svarað og greinilegt að þeir stjórnmálamenn sem kvörtuðu um leynd áður hafa byggt þagnarmúr um verk sín í þeim málum.
![]() |
Óttast áhlaup á Kaupþing |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.4.2009 | 01:55
Brennuvargur segir upp í slökkviliðinu
Mér finnst virðingarvert að hann geri þetta sjálfur og sjái þessa meginstaðreynd málsins alveg sjálfur, þó varla sé uppsögnin undrunarefni eða stórmerkileg í sjálfu sér. Sá sem hefur brugðist trausti með svo alvarlegum hætti hefur varla traust til verka áfram.
Þeir í Eyjum hljóta samt að vera mjög hugsi yfir öllum íkveikjunum. Fjöldi þeirra er ótrúlega mikill á síðustu árum. Þar er eitthvað stórlega að sem þarf að kanna eða í það minnsta hugleiða.
![]() |
Óskar lausnar frá störfum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.4.2009 | 00:14
Fjölga þarf eftirlitsmyndavélum
Of mikið er af árásarmálum í næturlífinu, oftast af tilefnislausu, og þarf að reyna að taka á því mikla og augljósa vandamáli. Verst af öllu er að ekki sé betur fylgst með svæðinu og til staðar öryggismyndavélar sem færa fólki einhverja vörn eða í það minnsta öryggistilfinningu.
![]() |
Kominn úr öndunarvél |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.4.2009 | 18:03
Einum of langt gengið í mótmælum
Skilaboðin sem komið er á framfæri falla alltaf í skuggann sé tjáning þeirra eða aðferðirnar óviðeigandi. Í þessu máli gildir að fólk geri mótmælin ekki of persónuleg gegn þeim embættum sem þau beinast, enda eiga embættismenn rétt á sinni friðhelgi á heimilum sínum.
![]() |
Sjö mótmælendur handteknir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.4.2009 | 17:18
Ómerkilegar dylgjur hjá Ólínu
Reyndar er það bara þannig að Tryggvi Þór og Sigmundur Davíð hreinlega grilluðu Ólínu í þessum þætti. Þeir mættu undirbúnir og vel skipulagðir til leiks og með góðar tillögur sem Ólína gat engan veginn skotið niður með trúverðugum hætti. Bandalag Tryggva og Sigmundar með 20% tillöguna vekur vissulega athygli, en hún er sannarlega allrar athygli verð og mjög erfiðlega hefur gengið fyrir andstæðinga hennar að skjóta hana niður.
![]() |
Yfir 1000 hafa sótt um greiðsluaðlögun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.4.2009 | 14:46
Enn fækkar í Frjálslynda flokknum
Ég hef þekkt Guðrúnu Maríu í mjög mörg ár. Fyrst kynntist ég henni þegar við vorum að skrifa á innherjavefnum um stjórnmál í upphafi áratugarins og síðar á málefnum. Alltaf var hún málefnaleg og dugleg að tala fyrir sínum skoðunum, en þó án upphrópana og skítkasts. Ég hef dáðst að því hversu ötul hún hefur verið að tala máli flokks sem á það varla skilið.
Framkoman við hana að undanförnu hefur verið mjög dapurleg með að fylgjast og mér finnst það til skammar fyrir frjálslynda hvernig að því var staðið. Ekki þarf að koma að óvörum að sú sómakona sem gmaría er horfi annað í pólitíkinni.
![]() |
Segir skilið við Frjálslynda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.4.2009 | 13:09
Fogh hættir og fer til NATO - Løkke tekur við

Mér líst mjög vel á að Anders Fogh Rasmussen verði framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins. Bæði er hann mjög traustur valkostur og svo er kominn tími til að Norðurlönd fái yfirstjórn í NATÓ. Fogh hefur gegnt embætti forsætisráðherra Danmerkur með miklum sóma síðustu átta ár og er mjög vel að þessu embætti kominn. Ég tel að NATÓ verði mjög öflug stofnun undir forystu hans, enda hefur hann sem forsætisráðherra sýnt mjög mikla leiðtogahæfileika, bæði með forystu sinni í ráðherraráði Evrópusambandsins og hvernig hann stýrði málum í Múhameðsdeilunni.
Litlu munaði að Tyrkir létu Múhameðsmálið verða til þess að stöðva útnefningu Fogh sem framkvæmdastjóra NATÓ. Í því máli lét hann sannfæringuna ráða og kom fram traust og flott. Hann varði þar eitt mikilvægasta frelsi sérhvers manns, sjálft tjáningarfrelsið, og lét ekki hafa sig út í það að biðjast afsökunar á tjáningu annarra. Stefnufesta hans og forystuhæfileikar komu þar mjög vel í ljós - þeir kostir munu nýtast honum vel í embætti og NATÓ mun njóta þess að hafa öflugan leiðtoga í forystusætinu þegar kemur að mikilvægum ákvörðunum sem þurfa trausta forystu.
Mikið pólitískt tómarúm verður hinsvegar með brotthvarfi Fogh. Hann hefur verið risi í dönskum stjórnmálum allan þennan áratug, sem verður auðvitað í sögubókum nefnd Fogh-tímabilið, rétt eins og tíundi áratugurinn tilheyrir Nyrup og sá níundi Schlüter. Lars Løkke Rasmussen bíður ekki öfundsvert verkefni þegar hann tekur við forystunni í ríkisstjórn borgaralegu aflanna. Fogh hefur stýrt málum innan stjórnarinnar fumlaust og traust - hann hefur verið vægðarlaus verkstjóri og vandað sig við verkið en um leið verið ákveðinn og haldið vel utan um samstarfið.
Skondnast af öllu er að þriðji forsætisráðherrann í röð í Danmörku ber ættarnafnið Rasmussen. Bæði Poul Nyrup Rasmussen og Anders Fogh Rasmussen voru forsætisráðherrar í átta ár og hafa leikið lykilhlutverk í danskri stjórnmálasögu. Nú verður að ráðast hvernig Løkke gengur og hvort lukkan verði honum hliðholl eða hvort hann verði aðeins millibilsleiðtogi áður en jafnaðarmenn taka við með Helle í fararbroddi. Stóra spurningin er hvort Løkke tekst að halda krötunum frá stjórn landsins.
![]() |
Forsætisráðherraskipti í Danmörku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.4.2009 | 22:48
MR sigrar í Gettu betur
Óska MR innilega til hamingju. MH átti mjög flott lið í keppninni í ár og komst ansi nærri sigri og hefði verið ansi gaman að sjá MH loksins sigra. MH hefur ansi oft tapað fyrir MR og t.d. komst Inga Þóra aldrei á sigurpall, en hún tapaði alltaf fyrir MR á mikilvægum tímapunkti. MR og MH voru með bestu liðin í ár, bæði sterk og satt best að segja fannst mér erfitt að spá um sigur fyrir kvöldið, þó auðvitað vonaði ég að MH næði loksins að sigra.
En svona á þetta að vera, spenna og fjör í líflegri keppni. En ég held að ansi margir séu þeirrar skoðunar að kominn sé tími á annan skóla að sigra í Gettu betur. Vonandi gerist það að ári. :)
![]() |
MR vann Gettu betur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
4.4.2009 | 19:44
Valla frá Lómatjörn kveður pólitíkina
Hvaða skoðun svo sem stjórnmálaáhugamenn hafa á Valgerði Sverrisdóttur verður varla um það deilt að með brotthvarfi hennar af Alþingi kveður ein öflugasta forystukona íslenskra stjórnmála vettvang stjórnmálanna. Mér finnst nokkur eftirsjá af Valgerði úr pólitísku starfi hér í kjördæminu og á landsvísu, enda held ég að allir hafi virt mikils pólitíska elju hennar og sérstaklega góð verk fyrir Norðausturkjördæmi og Norðurlandskjördæmi eystra áður, þrátt fyrir að margir hafi verið ósammála henni um leiðirnar að markmiðum fyrir svæðið og í pólitískum hitamálum á landsvísu.
Hún markaði söguleg skref sem kona í karlaflokki á borð við Framsóknarflokkinn og komst áfram á eigin krafti. Valgerður vann hér á svæðinu sinn mesta pólitíska sigur, þegar hún fór inn við fjórða mann í kosningunum 2003 í Norðaustri, sem enginn átti von á enda tók Framsókn þær kosningar síðustu tíu daga baráttunnar, og mesta ósigur, þegar hún fór ein inn í gamla Norðurlandskjördæmi eystra árið 1999, sem var sögulegt afhroð. Valgerður vann svo mikinn varnarsigur hér í kjördæminu í kosningunum 2007 þegar flokkurinn náði þremur þingsætum þvert á nær allar spár.
Valgerður hefur alla tíð verið vinnusöm í pólitík og lagt sig alla í verkefnin sem henni er treyst fyrir - hún hefur haft traust samherja sinna til verka. Valgerður hefur alltaf verið hörkutól í pólitísku starfi. Hún þorði alltaf að láta vaða og gerði hlutina eftir sínu höfði. Þó stundum hafi oft verið harkalega að henni sótt, innanflokks sem utan, stóð hún sem sigurvegari eftir öll átökin. Ekki fyrr en kom að hruni bankanna og uppgjörinu við það varð hún að láta í minni pokann og taka þann skell á sig með sitjandi forystu frá gamla Halldórstímanum.
Valgerður hefur alltaf þurft að berjast fyrir sínu og ávallt haft betur innan síns flokks. Valgerður er vissulega mikil kjarnakona. Hún er langrækin og lætur enga, allra síst pólitíska andstæðinga, eiga eitthvað inni hjá sér. Ég verð að viðurkenna að ég hef dáðst að elju hennar, sérstaklega þegar hún var utanríkisráðherra. Þrátt fyrir annir og fundi um allan heim var hún mætt á fundi og samkomur hér í Norðaustri. Þar sást best kraftur hennar.
Í gegnum kynni mín af henni hef ég kynnst öflugri og beittri konu sem talar af krafti þegar að hún hefur skoðanir. Það er mikilvægt að svoleiðis fólk sé í stjórnmálum. Þrátt fyrir allt tel ég að hún verði metinn einn sterkasti forystumaður Framsóknarflokksins á síðustu áratugum og augljóst er að hún markaði söguleg þáttaskil fyrir konur í Framsókn með verkum sínum.
Kveðjuræða Valgerðar á Alþingi
![]() |
22 ára þingferli Valgerðar lokið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.4.2009 kl. 00:30 | Slóð | Facebook
4.4.2009 | 16:19
Þingmenn úr tengslum við almenning
Mikið hefur verið rætt um að auka þurfi veg og virðingu Alþingis. Nú er það hinsvegar komið í færibandavinnu fyrir framkvæmdavaldið. Þeir sem hæst töluðu um að efla þingræðið hafa gengið á bak þeirra orða sinna og standa í grímulausum aðgerðum til að koma í veg fyrir að þingmenn fái að ræða þau mál sem mestu skipta. Mér finnst reyndar blasa við að þingmeirihlutinn vill ekki setja helstu málin á dagskrá. Verið er að eyða tíma í önnur mál og meðan fuðrar ævistarf fólks upp. Enginn talar máli fólksins.
Mér finnst merkilegast af öllu að þeir ráðherrar sem nú ætla að koma inn stjórnarskrárbreytingum þrem vikum fyrir þingkosningar börðust hatrammlega gegn slíkum aðferðum rétt fyrir þingkosningarnar 2007. Þingmeirihlutinn þá hlustaði á þau mótmæli og hætti við það verklag. Rifjum upp orð þessara þingmanna, sem sitja á ráðherrastóli nú.
Ögmundur Jónasson: "Stjórnarskránni á ekki að breyta í þeim tilgangi að afla kjörfylgis í aðdraganda kosninga. [...] Það er grundvallaratriði að um stjórnskipan þjóðarinnar ríki stöðugleiki, sátt og festa."
Össur Skarphéðinsson: "Stjórnarskráin er grunnlög lýðveldisins og það er mikilvægt að um þau sé fjallað af mikilli ábyrgð og það sé reynt að ná sem breiðastri og víðtækastri samstöðu um þau mál."
Kolbrún Halldórsdóttir: "Eins og ég sagði finnst mér þetta vera óðagot og mér þykir það mjög miður því að hér er verið að fjalla um afar víðtækt og mikilvægt mál sem ég held að þjóðin verðskuldi að fái betri umfjöllun um en hér virðist eiga að fást."
Steingrímur J. Sigfússon: "En ég bara trúi því ekki að menn ætli að bera það á borð að örvæntingin í stjórnarherbúðunum, sem myndaðist á fáeinum sólarhringum fyrir og um flokksþing Framsóknarflokksins, sé gjaldgeng ástæða til þess að standa svona að málum, að umgangast stjórnarskrá og vandasöm viðfangsefni þar með léttúð af þessu tagi. Ég læt segja mér það þrisvar að menn ætli í raun og veru að gangast við því að slíkt sé verjanlegt og réttlætanlegt og fara þá leið allar götur til enda."
![]() |
Yfirgjammari þingsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |