21.11.2008 | 00:38
Hvernig er hægt að kalla grófa árás á einn slag?

Mér fannst, eins og flestum, skelfilegt að sjá myndbandið af ofbeldinu í Reykjanesbæ þar sem einn strákur var tekinn og beittur grófu líkamlegu ofbeldi. Verst af öllu fannst mér þó að klippan var kölluð slagsmál en ekki fólskuleg árás þar sem margir hópast saman á einn sem þeir þekkja og berja og sparka í hann. Svona gróft einelti og ógeðslegt ofbeldi er sorglegra en tárum taki og er vitnisburður um þá dapurlegu staðreynd að sumir hugsa ekki neitt og telja allt í lagi að berja einhvern.
Þegar svona gerist meðal barna og unglinga er það mjög alvarlegur hlutur og verður að taka á af alvöru. Kannski er borin von að ætla að stöðva ofbeldi en þegar í hlut eiga einstaklingar undir lögaldri sem þó eiga að hafa vit á því hvað þeir eru að gera verðum við að tjá okkur hreint út og tala gegn ofbeldi og einelti.
![]() |
Gerðu myndband af líkamsárás |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.11.2008 | 00:21
Enn einn snúningurinn í viðbót í hringekju Baugs
Ég get nú ekki sagt að ég hafi verið hoppandi hissa yfir því að Hagar hafi fengið bitastæðustu hlutina af brunarústum BT. Velti þó bara fyrir mér hvar Jón Ásgeir hafi fengið peningana til að kaupa þennan rekstur, en kannski er það jafn fáránlega auðvelt svar og við öðru sem er að gerast þessa dagana. Þrátt fyrir skuldahala á annan milljarð gengur þetta í gegn eins og ekkert sé sjálfsagðara. Þetta er allavega enn ein viðbótin í absúrdismann í samfélaginu.
Til að bæta gráu ofan á svart var breytt um nafn á 365 í dag til að reyna að taka okkur í enn einn hringinn í hringekjuna hjá þessu liði. Nafnið Íslensk afþreying er ágætt orð yfir það sem þetta lið er að gera, rétt eins og fyrirtækið. Velti því bara fyrir mér hvaða hringekjusnúningur verður næst í fréttum.
![]() |
BT verslanir undir hatt Haga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.11.2008 | 20:50
Tala ráðherrarnir eitthvað saman um málin?
Stundum þegar ráðherrar ríkisstjórnarinnar fara í fjölmiðla er ekki hægt annað en velta því fyrir sér hvort þeir séu í sama liði, sitji í sömu ríkisstjórn og séu einlægir í því að vinna saman eða í því að stinga hvorn annan í bakið. Mér finnst á þessum örlagatímum þjóðarinnar eiginlega ömurlegt að sjá sólóspil og tækifærismennsku sumra ráðherra og þingmanna Samfylkingarinnar. Þar virðist hver fjölmiðlaframkoma aðeins sett fram til að búa í haginn fyrir sjálfan sig frekar en reyna að byggja upp þessa ríkisstjórn og sýna að hún sé samhent.
Í tali um kosningar á næsta ári finnst mér merkilegt að tveir ráðherrar gangi fram án þess að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, komi þar að málum eða hafi tjáð sig um þetta mál í þessa átt. Hún hefur ekki verið þessarar skoðunar að mig minnir í viðtölum en kannski er hér einhver róður bakvið tjöldin til að eyðileggja þessa ríkisstjórn. Ég hallast helst að því. Getur varla annað komið til greina. En mér finnst þessi tækifærismennska og sólófílingur orðinn einum of.
Annað hvort er þessi ríkisstjórn samhent og vinnur saman að því að leiða mál úr þeim ógöngum sem við erum komin í eða hún verður að hunskast frá. Hún hefur tvo þriðju alþingismanna og hefur fullt umboð til að leiða þjóðina. Kjörtímabilið er ekki hálfnað. Ef hún getur ekki sýnt þessa traustu forystu á að reyna aðra valkosti. Annars er ég þeirrar skoðunar og hef verið lengi að það verði skipbrot stjórnmálanna ef ríkisstjórn tveggja stærstu flokkanna geti ekki leitt þjóðina saman.
![]() |
Ráðherrar vilja kosningar í vor |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.11.2008 | 17:30
Lífið á facebook
Ég er einn þeirra sem hef startað facebook-síðu. Þetta er auðvitað magnað vefsamfélag, enda allt mannlífslitrófið þarna. Þetta er auðvitað frábær tengslasíða, byggir tengsl og er ágætis samskiptavettvangur, bæði til að kynnast fólki og vera í sambandi við vini sína, svo er maður aftur kominn í samband við fólk sem ekki hafði verið kontaktur við í mjög mörg ár, meira að segja gamla skólafélaga og þess háttar. Virkilega traust.
En þetta er auðvitað mjög lifandi samfélag og þarna sést hinar minnstu breytingar hjá vinunum, sambönd og allt þess háttar og statusinn getur verið ansi lifandi hjá sumum sem tengdur er við mann. Þessi grey starfsmaður í Bretlandi sem fékk illa á baukinn vegna facebook-statusins er örugglega ekki sá eini sem hefur gleymt sér þarna.
En þetta er sennilega bara nútíminn í dag. Það er ótrúlegasta fólk sem vill tengjast manni í gegnum svona kerfi og er auðvitað bara gaman af því.
![]() |
Falla í pytti á Facebook |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.11.2008 | 12:44
Sólóspil á Alþingi - að vera eða ekki vera...?
Geti þingmenn í samstarfi ekki unnið saman að vandanum er alveg ljóst að tiltrú almennings á hópinn minnkar og jafnvel gufar upp. Almenningur getur varla treyst ríkisstjórn sem getur ekki unnið saman að því að leysa vandann en leyfir hverjum þingmanni að vera í sólóspili fyrir sjálfan sig.
![]() |
Nýja Seðlabankastjórn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.11.2008 | 12:39
IMF-lánið samþykkt seint og um síðir
Með þessari afgreiðslu ætti þjóðin að geta fengið eitthvað lánstraust og vonandi tekst nú að endurbyggja eitthvað af orðspori okkar upp. Slíkt mun þó taka mjög langan tíma og þessi afgreiðsla er aðeins fyrsta skrefið á langri leið. Óvissuferðinni er fjarri því lokið en vonandi tekst nú að byggja einhvern stöðugleika þar sem allt var hrunið áður. Nú fyrst kemur reynsla á hvort stjórnvöld tóku réttar ákvarðanir og hafa markað rétta leið fyrir þjóð í miklum vanda, þjóð sem hefur ekki lánstraust og stöðu til neins.
Ég vona okkar vegna að þetta verði auðveld vegferð framundan en óttast aðeins það versta því miður. Svo margt hefur breyst á þessum örfáu vikum að við vitum hið eina í stöðunni að ekkert er öruggt. En það er mikilvægt að vona það besta. Ég tel þó afdráttarlaust að um leið og við höfum náð áttum verði að fara fram kosningar og leyfa kjósendum að taka afstöðu til flokka og forystumanna. Við verðum að eiga nýtt upphaf að mjög mörgu leyti eftir þetta gerningaveður.
![]() |
Mikil óvissa um Ísland |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.11.2008 | 18:33
Sameining í sjónmáli - rannsaka þarf alla þætti
Jón Sigurðsson, stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins, kom reyndar í fjölmiðla í gær. Það lá við að þjóðin væri búin að gleyma hvernig hann liti út og þekkti ekki heldur röddina, enda hefur þessi valdamesti maður samfélagsins verið í felum vikum saman og ekki lagt í viðtöl, frekar en Jónas. Skil ekkert í að þessir menn komist upp með það að þegja vikum saman með öll þau völd sem þeir hafa í höndum sér - hafa öll stjórntæki hjá sér.
Allir hljóta að sjá að mikil uppstokkun verður að eiga sér stað og sameina þarf þessar stofnanir. Víðtæk rannsókn þarf þó að fara fram á ferlinu sem leiddi til bankahrunsins og kanna stöðu þeirra sem leiddu sérstaklega Fjármálaeftirlitið. Þögn æðstu stjórnenda þar er ekki boðleg, ef undan er skilið fjölmiðlaframkoma Jóns í gær.
![]() |
Hugmynd forsætisráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.11.2008 | 18:28
Mun eggjakastið auka möguleika á þjóðstjórn?
Hitt er svo annað mál að mér finnst þjóðstjórn undarlegur kostur. Ef þessi öfluga stjórn með yfir 40 þingmenn leyst úr málum og leitt þau áfram er enginn kostur annar á borðinu að mínu mati en utanþingsstjórn. Fall stjórnar með svo traust umboð væri skipbrot stjórnmálanna.
![]() |
Eggjum kastað í ráðherrabifreið Björns Bjarnasonardi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.11.2008 | 14:58
Leiðarljós Vigdísar - sameiningartáknið sanna

Mér þótti mjög vænt um að heyra í Vigdísi Finnbogadóttur í þættinum Sjálfstæðu fólki á Stöð 2 fyrir viku. Rödd Vigdísar og boðskapur hennar var mikilvægt leiðarljós í þeim efnahagsþrengingum sem dynja á íslensku þjóðinni í skammdeginu. Mér hefur alltaf þótt vænt um Vigdísi og finnst mikils virði að hún tali til fólksins í landinu. Hún hefur mikið fram að færa og hefur þann trausta styrkleika að njóta trausts og stuðnings allra. Þó tólf ár séu liðin frá því að hún flutti frá Bessastöðum er hún og verður alla tíð forseti í huga okkar allra.
Vigdís var sameiningartákn þjóðarinnar um langt skeið og er það í raun enn. Á þeim tímum þegar forseti Íslands, sem ætti að öllu eðlilegu að vera sameiningartákn þjóðarinnar, er ekki lengur traustsins verður og hefur farið svo illa úti í efnahagshruninu verður rödd Vigdísar enn meira virði. Við getum treyst því að hún talar af visku og sannleika um stöðuna og hefur þann sess að vera hafin yfir þessar átakalínur - ein af fáum landsmönnum sem allir geta treyst til að tala einlægt og án þess að hefja sjálfa sig upp.
Slíkt er og mikils virði. Eftir að Sigurbjörn biskup dó eru mjög fáir sem eru svo einstakir í þessu samfélagi að vera hafin yfir átök og hversdagslegt blaður. Vigdís er ein af þeim og verður enn mikilvægari fyrir vikið í huga landsmanna.
![]() |
Íslendingar verða að endurheimta virðinguna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.11.2008 | 12:35
Fordómar á sögulegu kosningaári í Bandaríkjunum

Í fyrsta skipti í bandarískri stjórnmálasögu hefur þeldökkur maður verið kjörinn forseti Bandaríkjanna. Hvítir menn um gjörvöll Bandaríkin kusu blökkumann í forsetakosningunum fyrir hálfum mánuði og í forkosningaferlinu - söguleg þáttaskil sem voru óhugsandi fyrir tæpum áratug þegar síðasti forseti var kjörinn. Þrátt fyrir kjör Barack Obama í Hvíta húsið grassera fordómarnir enn, þeir krauma undir niðri og munu væntanlega verða áberandi eftir að hann hefur tekið við forsetaembættinu. Enn eru þeir til sem segja það skipta máli hvort forsetinn er þeldökkur eða hvítur.
Mjög kuldalegt mat og dapurlegt að staðan sé með þeim hætti að fordómar grasseri enn gegn þeldökkum - þeim sé ekki treyst fyllilega fyrir valdaembættum. Fjórir áratugir eru liðnir frá því að blökkumannaleiðtoginn dr. Martin Luther King var myrtur í Tennessee. Morðið á honum var áfall fyrir blökkumenn sem höfðu barist undir forystu hans fyrir sjálfsögðum mannréttindum og komist nokkuð áleiðis með mannréttindalögum Johnsons forseta árið 1964, sem hann hafði tekið í arf frá John F. Kennedy, forvera sínum, sem myrtur var í Texas árinu áður og talaði fyrir réttindum blökkumanna.
Þrátt fyrir að dr. King ætti sér draum um samfélag þar sem allir væru jafnir óháð litarafti hefði hvorki honum né þeim sem gengu með honum í Washington árið 1963 órað fyrir því að nokkrum áratugum síðar ætti blökkumaður alvöru möguleika á að komast alla leið í Hvíta húsið, þó þeim hafi eflaust innst inni dreymt um þann möguleika. Aðeins fjórir þeldökkir (utan Obama) hafa gefið kost á sér til forsetaembættis. Þeirra þekktastur er Jesse Jackson, sem barðist fyrir útnefningu demókrata árin 1984 og 1988, en auk hans hafa Al Sharpton, Shirley Chisholm og Carol Elizabeth Moseley Braun gefið kost á sér.
Mikið var skorað á Colin Powell, hershöfðingja í Persaflóastríðinu, um að gefa kost á sér í forsetakosningunum 1996 sem frambjóðandi Repúblikanaflokksins. Kannanir sýndu að hann átti góða möguleika á að verða forseti Bandaríkjanna. Hann velti fyrir sér þeim möguleika að fara fram af alvöru, en ákvað þó að gefa ekki kost á sér. Eiginkona hans, Alma, var mjög andsnúin framboði hans, af ótta við að hann yrði myrtur færi hann í framboð og myndi sigra Bill Clinton. Powell hefur margoft sagt þá ákvörðun rétta. Powell varð fyrsti þeldökki utanríkisráðherrann árið 2001, í forsetatíð George W. Bush, sem valdi þeldökka konu sem eftirmann hans.
Margoft hefur verið velt fyrir sér þeim möguleika að blökkumaður yrði forseti Bandaríkjanna og það verið stílfært í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Í upphafi áratugarins var það lykilsöguþráður í fyrstu sjónvarpsseríu þáttaraðarinnar 24 að ráða ætti þeldökkan forsetaframbjóðanda, David Palmer, af dögum, en hann var þá í fararbroddi þeirra sem sóttust eftir útnefningu Demókrataflokksins. Litlu munaði að þeim tækist það, en atburðarásin tók á sig ýmsar myndir er yfir lauk. Í annarri seríu var Palmer orðinn forseti, fyrstur þeldökkra, og söguþráðurinn snerist enn að mestu um hann. Hann var að lokum myrtur í fimmtu seríunni.
Auðvitað er það tímanna tákn að þeldökkur maður hafi verið kjörinn valdamesti maður heims - sannarlega söguleg þáttaskil í stjórnmálasögunni. Auðvitað er frekar leitt að enn sé þeldökkum ekki fyllilega treyst eða gefið í skyn að blökkumaður verði sjálfkrafa myrtur komist hann nærri flokksútnefningu eða vinni baráttu um Hvíta húsið. Kannski er þetta bara enn hinn blákaldi raunveruleiki.
Enn eru því miður til valdamiklir hópar sem vilja ekki að blökkumaður verði valdamesti maður heims og munu berjast harkalega gegn því á þeim forsendum einum. Fordómarnir lifa enn, því miður.
![]() |
Farðu aftur til Afríku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.11.2008 | 00:59
Obama kemur á óvart - Holder í dómsmálin

Barack Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna, kemur nokkuð á óvart með því að velja Eric Holder sem dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, fyrsta blökkumanninn til að gegna þeirri valdamiklu stöðu. Ég verð að viðurkenna að ég átti von á að Obama myndi byrja á að velja formlega annaðhvort fjármálaráðherra eða utanríkisráðherra Bandaríkjanna áður en kæmi að dómsmálunum eða varnarmálunum. Kjaftasagan er sú að varnarmálaráðherra Bush-stjórnarinnar, Bob Gates, muni nefnilega halda áfram í þeirri stöðu.
Ég taldi fyrirfram langlíklegast að Janet Napolitano, ríkisstjóri í Arizona, myndi verða dómsmálaráðherra. Napolitano lýsti yfir stuðningi við Obama snemma í forkosningaferlinu og var fyrsta konan sem fór á vagninn hjá Obama, á undan fleiri valdamiklum konum í þingliði og ríkisstjórahópnum sem valdi frekar Obama framyfir fyrstu konuna sem átti raunhæfa möguleika á forsetaembættinu. Napolitano getur ekki gefið kost á sér í ríkisstjóraembættið aftur og orðrómur verið hávær um að hún fari til DC.
Holder er ekki aðeins fyrsti blökkumaðurinn í dómsmálaráðuneytinu heldur fyrrum aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna. Hann var undirmaður Janet Reno, fyrstu og einu konunnar í ráðherrastólnum, í forsetatíð Bill Clinton 1993-2001. Þetta er merkilegt val og sögulegt í alla staði, en samt merkilegt að þetta sé fyrsti ráðherrastólinn sem kynnt er formlega um. Napolitano hafði verið mikið í umræðunni sem mögulegur dómsmálaráðherra en líka talað um að hún gæti farið í heimavarnarmálin.
Barack Obama er allavega byrjaður að sýna á spil sín. Orðrómurinn um að Hillary muni þiggja utanríkismálin, eftir fundinn með Obama í Chicago, er hávær en enn er unnið bakvið tjöldin á að fara yfir fjármál Clintons forseta. Forsetabókasafnið í Little Rock og málefni þess eru þar í forgrunni auðvitað. Svo er auðvitað mikið talað um hvort að Richardson og Kerry eigi enn möguleika á stólnum. Obama veltir þessu enn fyrir sér.
![]() |
Obama velur dómsmálaráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.11.2008 | 18:20
Verður uppstokkun í ríkisstjórninni á næstunni?
Sögusagnir sem ég hef heyrt úr nokkrum traustum áttum eru þær að uppstokkun sé í vændum hjá ríkisstjórninni, þ.e.a.s. ef hún þá heldur velli í ólgusjó stjórnmálanna þessa dagana. Árni Mathiesen og Björgvin G. Sigurðsson víki af stóli, til að róa niður óánægjuraddir og nýjir menn taki við stöðum þeirra. Sumir telja að deilt sé um hvort báðir eigi að fara eða nóg að annar fari. Leiðtogar stjórnarflokkanna vörðu sína menn um daginn en gáfu sterklega til kynna á víxl að hinn ætti að fara.
Deila má um hvort uppstokkun sé farsæl nú fyrir samstöðu flokkanna. En mikið er talað um að eitthvað nýtt upphaf megi verða svo leiðtogar stjórnarflokkanna fái einhvern frið frá óánægjuröddunum. Því þurfi þeir að fórna ráðherrum fyrir borð og bíta í súra eplið.
![]() |
Farið eftir ráðleggingum Seðlabankans |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.11.2008 | 16:58
Varnarræða Davíðs - hverjir verða eftirmálar?
Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, kom mjög sterkur af morgunfundi Viðskiptaráðs. Tók þar fyrir fjölmiðlana í traustri gagnrýni, kallaði eftir rannsókn og sagðist hafa varað við stöðunni um nokkuð skeið. Mér fannst liggja í orðunum að ríkisstjórnin hefði brugðist og Fjármálaeftirlitið ekki staðið undir eftirlitsskyldu sinni. Hið síðarnefnda er reyndar öllum augljóst og reyndar ótrúlegt að fjölmiðlar séu ekki búnir að tala við Jónas og Jón, ósýnilegu mennina í Fjármálaeftirlitinu.
Mér fannst Davíð opna á eigin ábyrgð með rannsóknartalinu. Hann beinlínis óskaði eftir því að hlutur Seðlabankans yrði kannaður. Auðvitað á að fara yfir alla þætti og ekki hika neitt í því. Slík athugun á að vera beinskeytt og alvöru, fara á yfir atburðarásina frá upphafi til enda. Ríkisstjórnin ræður því hvort hún tekur gagnrýninni sem sinni. Enginn vafi er á því að sofandagangurinn hjá henni var nærri því algjör. Þar er erfitt að kasta henni af sér. Hún var værukær í besta falli.
Davíð er og hefur alla tíð verið umdeildur. En hann opnaði á ábyrgð allra aðila í ræðu sinni, ræðu sem sumpart var varnarræða en líka heiðarleg yfirferð á stöðunni. Við verðum að horfast í augu við að fáir ef nokkrir hafa svörin sem þarf og fáir eru mjög saklausir. Þetta er skellur sem enginn getur kastað af sér. Við spyrjum þó um eftirmálana. Hvað verður eftir af valdakerfinu þegar yfir lýkur?
![]() |
Fréttaskýring: Vígreif varnarræða seðlabankastjóra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.11.2008 | 14:54
Mikilvægt að Viðskiptablaðið muni halda velli
Því er það mjög dapurlegt að svo illa horfir með Viðskiptablaðið sem raun ber vitni. Ætla að vona að blaðið nái að halda velli í óbreyttri mynd en muni ekki deyja í þessum efnahagsþrengingum.
![]() |
Hvetur starfsfólk VB til atvinnuleitar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.11.2008 | 13:12
Sofandi fjölmiðlar - varnaðarorð án hlustunar
Ég man vel eftir sumum varnaðarorðum Davíðs. Í mars 2006 sagði hann t.d. að við hefðum stigið trylltan dans og mættum ekki tapa okkur í hita dansins. Ennfremur kom Davíð með þau skondnu ummæli að við yrðum að fara að öllu með gát og passa okkur á að missa ekki sýn á stöðunni í efnahagsmálunum og verða ekki eins og börn sem gleyma sér við tertuát í barnaafmæli. Skondið orðalag og ummæli sem eftir var tekið. Og þó, ég held að sjá megi af stöðunni að við létum þetta okkur ekki að kenningu verða.
En fjölmiðlarnir voru í heljargreipum. Hvar voru þeir þegar allt fór á versta veg í samfélaginu? Af hverju sinntu þeir ekki skyldu sinni og þurfti að vekja þá síðasta allra aðila?
![]() |
Fjölmiðlar í heljargreipum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.11.2008 | 00:11
Hillary þiggur boð Obama um utanríkisráðuneytið

Fullyrt er á Drudge Report og vef Guardian í kvöld að Hillary Rodham Clinton hafi ákveðið að þiggja boð Barack Obama, verðandi forseta Bandaríkjanna, um að verða næsti utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Þetta kemur ekki að óvörum. Obama bauð Hillary embættið á fundi þeirra í Chicago fyrir helgina og þegar er hafin vinna við að fara yfir persónuleg mál Clinton-hjónanna fyrir útnefningarferlið í þinginu. Hillary verður þriðja konan á utanríkisráðherrastóli. Madeleine Albright var utanríkisráðherra á seinna kjörtímabili Clintons forseta og Condoleezza Rice, valdamesta blökkukonan í sögu Bandaríkjanna, á seinna kjörtímabili Bush.
Augljós leki úr herbúðum Obama á sögusögnum um að Hillary kæmi til greina var til að búa stuðningsmenn hans undir valið á þessum helsta keppinauti Obama um útnefninguna í eitt valdamesta embættið í stjórnkerfinu og hvort það hlyti einhvern hljómgrunn. Repúblikanar hafa verið mjög jákvæðir í garð þess að Hillary verði utanríkisráðherra og nokkuð öruggt að hún muni eiga auðvelt með að fara í gegnum útnefningarferlið, þó mögulega verði spurt um fjármál þeirra hjóna, einkum persónuleg mál Clintons forseta hvað varðar forsetabókasafnið hans í Little Rock.
Enginn vafi leikur á því að Obama fetar í fótspor Abrahams Lincoln í vali sínu á samherjum í Hvíta húsinu og samstarfsmönnum í Bandaríkjaþingi. Lincoln valdi þrjá keppinauta sína í lykilstöður þegar hann tók við forsetaembættinu árið 1861, en hann hafði álíka litla reynslu í öldungadeildinni og Obama við flutningana í Hvíta húsið. Nú þegar ljóst er að Hillary verður utanríkisráðherra og Joe Biden tekur við varaforsetaembættinu eru sögusagnir um að Bill Richardson, ríkisstjóri í Nýju-Mexíkó, fái valdamikið ráðuneyti.
Richardson og John Kerry, forsetaframbjóðandi demókrata 2004, sóttust eftir utanríkisráðuneytinu en þeir lýstu báðir yfir stuðningi við Obama á mikilvægum tímapunkti í forkosningaslagnum; Kerry eftir að Ted Kennedy hafði stutt hann ásamt Caroline Kennedy Schlossberg, bróðurdóttur sinni, og Richardson á föstudaginn langa, en þó eftir forkosningarnar í Nýju-Mexíkó. Stuðningur Richardsons færði Obama atkvæði úr hópi spænskumælandi kjósenda. Þeir hljóta að vera með sárt ennið að sjá Hillary fá embættið.
Í dag hitti svo Obama keppinaut sinn úr forsetakosningunum, John McCain. Greinilegt er að hann vill fá McCain í lið með sér í þingstarfinu á komandi árum og reyna að byggja brýr eftir harðvítugan kosningaslag. Obama virðist því ætla að byggja traustan hóp að baki sér, bæði með vali á keppinautum úr forkosningaslagnum í innsta hring þess sem gerist í Hvíta húsinu og með því að tryggja stuðning repúblikana við lykilmál. Fundurinn með McCain gefur allavega margt til kynna.
Hillary mun sem utanríkisráðherra verða einn valdamesti stjórnmálamaður heims og verða í sviðsljósinu á alþjóðavísu - hún hefur sannarlega prófílinn í það. Hún fær traustan sess í Hvíta húsinu þrátt fyrir að hafa ekki tekist að verða fyrsti kvenforseti Bandaríkjanna. Margir lykilráðgjafar og vinir Clinton-hjónanna leika lykilhlutverk í valdaskiptunum. Þetta eru merkileg endalok á baráttu Hillary og Obama. Þau fallast nú í faðma og vinna saman að mikilvægum verkefnum.
Hillary mun því segja af sér öldungadeildarsætinu í New York, eftir átta ár þar. Litið var á þingsætið sem stökkpall í Hvíta húsið þegar hún gaf kost á sér við endalok forsetaferils Clintons árið 2000, á meðan hún var enn forsetafrú. Henni mistókst að tryggja sér forsetaembættið en hlýtur þess í stað utanríkisráðuneytið, sem er eiginlega næsti bær við Hvíta húsið. Hún á eftir að blóðmjólka alla þá athygli sem fylgir því að verða valdamesta kona heims, þó ekki forseti sé.
![]() |
Boða nýtt tímabil umbóta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.11.2008 | 21:35
Eygló kemst á þing í sætinu sem hún var ósátt við
Eygló varð í fjórða sætinu í prófkjöri framsóknarmanna í janúar 2007 á eftir Hjálmari Árnasyni, sem tapaði leiðtogaslag gegn Guðna Ágústssyni, en fékk ekki þriðja sætið þegar Hjálmar afþakkaði það og hætti þátttöku í stjórnmálum. Mikil átök voru um þriðja sætið, en Reykjanesmenn gerðu kröfu um að fá sætið eftir að Hjálmar afþakkaði það og svo fór að Helga Sigrún Harðardóttir fékk það þó hún hefði ekki tekið þátt í prófkjörinu.
Eygló fór mikinn þá og skrifaði eftirminnilega grein gegn spunaskrifum Björns Inga Hrafnssonar og Steingríms Ólafssonar um að hún ætti ekki að fá sæti Hjálmars. Greinin hét Karlaplott og þúfupólitík. Skemmtilegt að lesa hana nú í því ljósi að Eygló náði þingsætinu úr fjórða sætinu sem hún var svo ósátt við - nú þegar þeir fóstbræður Guðni og Bjarni hafa kvatt Alþingi.
En mikið er það nú annars skemmtileg tilviljun að þrír þingmanna Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi á þessu kjörtímabili eru Harðarbörn og annar varaþingmaðurinn núna heitir Lilja Hrund Harðardóttir. Er þetta nokkuð sami Hörður sem á þarna hlut að máli? :)
![]() |
Eygló tekur sæti á þingi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.11.2008 | 19:14
Guðni fer af sviðinu og skellir hurðinni á eftir sér
Ég er eiginlega enn að átta mig á því að Guðni Ágústsson hafi hætt í pólitík í dag... og það án þess að kynna það sjálfur. Hann einfaldlega fór og skellti hurðinni hraustlega á eftir sér. Fer svo af landi brott í sólarlandaferð og leyfir okkur að fylla upp í eyðurnar í heildarmyndinni án þess að greina stöðuna sjálfur. Verð að segja alveg eins og er, eftir harkalega aðför að Guðna innan Framsóknarflokksins, að þetta er helvíti flott hjá honum - grand útganga.
Hann var einfaldlega búinn að fá nóg og lætur flokksfélögum sínum eftir að finna upphafið á því sem gerist á eftir endinum hjá sér sjálfum. Stóra afstaðan sem hann hefur tekið eftir miðstjórnarfundinn er mjög einföld. Hann leggur ekki í það verkefni að stöðva Evrópuför flokksins, sem var fyrirsjáanleg eftir samþykkt tillögunnar um aðildarstuðning á flokksþingi, en tekur ekki að sér að leiða hana heldur. Hann segir einfaldlega farvel flokkur.
Þeir sem ég þekki í Framsókn og þekkja líka Guðna Ágústsson sögðu mér að Guðni hefði verið reiður og vonsvikinn í senn eftir miðstjórnarfundinn. Hann var sleginn yfir gagnrýni að sér og forystunni og sleginn yfir Evrópustuðningnum, hann var meiri en hann vænti. Í sömu andrá hefði hann líka verið foxillur því menn sem hann stólaði á og taldi nána samstarfsmenn sína höfðu yfirgefið hann og pólitísku gildin sem hann hefur barist fyrir.
Niðurstaðan er því pólitísk leiðarlok, giska óvænt. Með afsögn setur hann pressu á Valgerði Sverrisdóttur. Sem starfandi formaður Framsóknarflokksins er sviðsljósið á henni, viðskiptaráðherra útrásartímanna. Hún þarf að gera upp við sig mun fyrr en hún stefndi að hvort formannsframboð sé í spilunum, enda er hún orðin formaður. Pressa fjölmiðla á henni mun líka örugglega aukast þar sem hún er minnisvarði um liðna tíð; Halldór og útrás.
Ég sé eftir Guðna. En þetta er rétt ákvörðun hjá honum og vel metið. Hann hafði fengið nóg, skellir hurðinni á eftir sér og skilur flokkinn eftir á krossgötum - krossgötum sem hann ætlar ekki að velta fyrir sér. Þá gátu skilur hann eftir hjá þeim sem hann taldi svíkja sig og stinga sig í bakið. Snilldarflétta úr mjög þröngri og erfiðri stöðu. Hann segir einfaldlega bless. Alþingi er litlausara á eftir, það er alveg klárt.
![]() |
Eygló næst á lista |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.11.2008 | 16:31
Munu Siv og Valgerður berjast um formennskuna?
Óvænt afsögn Guðna Ágústssonar af þingi og úr formennsku Framsóknarflokksins tryggir miklar breytingar í forystusveit Framsóknarflokksins. Óhætt er að fullyrða að Valgerður Sverrisdóttir, nýr formaður, muni ekki verða sjálfkjörin á næsta flokksþingi og búast má við harðvítugum deilum um forystuna. Mun forysta ríkisstjórnaráranna með Sjálfstæðisflokknum raða sér í forystusætin eða mun unga fólkið sækja fram og krefjast forystusæta. Ég yrði ekki hissa á því. Mér finnst líka Guðni kveðja með þeim orðum að nú sé framtíðin unga fólksins. Hann hvetur yngri fólkið semsagt til að sækja fram.
Næsta flokksþing Framsóknarflokksins verður örugglega þing sviptinganna. Ég yrði ekki hissa þó Siv Friðleifsdóttir, sem tapaði varaformannsslag fyrir Finni Ingólfssyni árið 1998 og formannsslag fyrir Jóni Sigurðssyni árið 2006 (fékk þá meiri stuðning en flestum óraði fyrir í baráttu við Halldórsarminn), færi fram gegn Valgerði. Vandi hennar er þó sá að hún var hluti af gömlu valdatíðinni en hefur mun minni þingreynslu en Valgerður. Hún gæti sótt fram sem frambjóðandi breytinga og minnt á að Halldórsarmurinn sparkaði henni úr stjórninni árið 2004 og hún hafi ekki verið í þeim hópi.
Sumir tala um að Páll Magnússon, bæjarritari í Kópavogi og fyrrum varaþingmaður Sivjar, fari fram. En mun hann leggja til atlögu við Valgerði Sverrisdóttur, konuna sem hann var aðstoðarmaður hjá í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu? Hann fylgdi henni að málum allan útrásartímann. Hvað með Höskuld og Birki Jón? Munu þeir ekki minna á að þeir séu ungir og sprækir? Yrði ekki hissa á því. Er hægt að útiloka nokkurn af þingflokknum sem kandidat nema mögulega konurnar í Suðurkjördæmi sem hafa á innan við viku orðið þingmenn í stað varaþingmanna?
Sumir tala um nýja tíma. Verða nýjir tímar í Framsókn með viðskiptaráðherra útrásartímanna? Framsóknarmenn hljóta að spyrja sig að því hvort svarið í uppstokkuninni samhliða brotthvarfi Guðna sé að fela konu sem er framlengingarsnúra af formannstíð Halldórs Ásgrímssonar formennskuna og tækifærið til að leiða Framsókn í næstu kosningum.
Guðni sendir dulin skilaboð í afsögninni um að nú sé það unga fólksins að taka við. Hann talar þar beinlínis gegn Valgerði og hvetur menn til að sækja fram gegn henni.
![]() |
Afsögn Guðna kom á óvart |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.11.2008 | 15:25
Guðni Ágústsson segir af sér þingmennsku

Ég varð eiginlega alveg orðlaus þegar ég heyrði fyrir nokkrum mínútum að Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, hefði sagt af sér þingmennsku. Sá líka á viðbrögðum í þingsal að þar voru þingmenn eiginlega orðlausir líka, enda eru þetta mikil tíðindi sem fylgja í kjölfar Evrópusviptinga innan Framsóknarflokksins og vendinga sem fylgdu afsögn Bjarna Harðarsonar fyrir tæpri viku. Mér finnst það eiginlega ótrúlegt til þess að hugsa að báðir þingmenn Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi hafi sagt af sér á innan við viku.
Erfitt að spá í stöðuna fyrr en Guðni hefur tjáð sig hreint út. En þetta eru merkileg tímamót fyrir framsóknarmenn, enda hefur Guðni verið á þingi í 21 ár og verið nær allan þann tíma mikið í sviðsljósinu og fulltrúi landbúnaðararmanna innan flokksins. Afsögn hans hlýtur að tákna þau þáttaskil sem eru í augsýn innan flokksins í Evrópumálunum.
Eitt er þó ljóst: Guðni hefur talið miðstjórnarfundinn um síðustu helgi fullt vantraust á sig og sína pólitík og gengur af velli. Þetta er söguleg afsögn en hún ber vitni þess að Guðni telur sér ekki lengur fært að vinna í pólitísku starfi í nafni Framsóknarflokksins. Miklar sviptingar svo sannarlega.
![]() |
Guðni segir af sér þingmennsku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |